#185. Alveg furðulegt!
5.8.2013 | 17:48
Fréttablaðið birti 3. ágúst grein eftir fyrrum forsætisráðherra landsins, Þorsteinn Pálsson, um hugmyndir menntamálaráðherra um nauðsyn þess að stokka upp í menntakerfinu. Greinin birtist líka samdægurs á visir.is. Það er vel að endurskoða eigi menntakerfið okkar. Hvort hugmyndir ráðherrans séu einhvers virði er ekki hægt að fullyrða að óathuguðu máli.
En á einhvern óskiljanlegan hátt fléttar blaðamaðurinn Þorsteinn Pálsson kosningaloforði Framsóknarflokksins um skuldaleiðréttingu heimila inn í umræðuna. Hann heldur því enn einu sinni fram að nota eigi fjármuni ríkissjóðs til að endurgreiða verðbólgu á fjárfestingum í steinsteypu. Það er engu líkara en sumir aðilar haldi að almenningur sé illa menntaður skríll. Þorsteinn Pálsson skipaði sér því miður fljótt í þann hóp.
Þorsteinn Pálsson kemur iðulega vel fyrir í viðtölum og sjónvarpi. Hann er þægilegur viðmóts og sýnir viðmælendum sínum virðingu og er rökfastur. Ég man ekki til að hafa séð hann sýna af sér hroka í framkomu, ólíkt öðrum núverandi og fyrrverandi stjórnmálamönnum. Það mætti segja hann væri sjónvarpsvænn.
Þess vegna er mér ómögulegt að skilja hvernig Þorsteinn Pálsson getur haldið því fram að niðurfellingar skulda sem ræddar væru við kröfuhafa, sem margir keyptu loftkröfur sínar á íslenskt hagkerfi á hrakvirði eftir hrun, um að lækka nú þessar loftkröfur sínar á íslensk heimili svo hér verði hægt að ýta hjólum efnahagslífsins af stað á ný, eigi að fjármagnast úr ríkissjóði.
Margoft hefur verið bent á hið gagnstæða og einnig að allar niðurfellingar skulda til þessa hafa ekki kost að ríkissjóð krónu, hví ætti annað að gilda um þessa framkvæmd?
Sem dæmi getum við litið á einfalda mynd af leið fjármuna við greiðslu kröfu sem fer í gegnum nýju og gömlu bankana:
Lántaki/heimili à Fjármálastofnun (e. 2008) à Fjármálastofnun (f.2008) à Kröfuhafi (Upphaflegur/nýr)
Hvar er aðkoma ríkissjóðs? Hún er að sjálfsögðu ekki til staðar við innheimtu og greiðsluferil kröfunnar, hvers vegna ætti ríkissjóður þá að koma að niðurfellingu hennar?
Það hefur lengi verið viðurkennt að kröfuhafar heimilanna, nýju bankarnir þrír, eignuðust kröfur sínar á niðursettu verði í október 2008. Það sama á við um kröfuhafa gömlu bankana sem sumir fengu kröfurnar nánast gefnar. Engu að síður hamast nýju bankarnir við að innheimta kröfur sínar að fullu til að uppfylla samninga Steingríms J. við kröfuhafa, gömlu bankana. Hvernig ríkissjóður á að tengjast þessu ferli og bera ábyrgð einhverju mögulegu "fjárhagstjóni" kröfuhafa er óskiljanlegt.
Ef ég skulda Sigmundi 1 milljón og hann fer á hausinn, sem verður til þess að skiptastjórinn selur Bjarna kröfuna á 500 þús., og svo kemur Frosti nokkru seinna og biður Bjarna að innheimta nú bara þessi 500 þús. sem hann lagði út (plús kannski smá vexti), en ekki 1 milljón, á þá Bjarni að heimta að sameiginlegur sjóður Frosta og Þorsteins vinar hans eigi að borga honum mismuninn sem hann telur sig missa af? Hvernig má það vera að sameignlegur sjóður Frosta og Þorsteins vinar hans, eigi að borga Bjarna þann mismun? Ég bara spyr!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.