#187. Ég skil ekki.....
7.8.2013 | 21:04
.....hvernig framkvæmdastjórn AGS getur sagt að ekkert svigrúm sé til niðurfellingar skulda heimila, sem fjármagnast eiga m.a. af erlendum kröfuhöfum, en ekki ríkissjóði, en á sama tíma haldið því fram að stofn aflandskróna sé ennþá stór og geti stækkað þegar bú gömlu bankanna verða leyst upp. Það sé því yfirvofandi vandamál eins og margoft hefur verið bent á og minnka þarf aflandskrónustofninn.
Nú, það er einmitt það sem vilji er til að gera! Niðurfelling skulda á m.a. að fjármagnast með aflandskrónum, þ.e. fá erlenda kröfuhafa að gefa eftir eign sína í krónum eða alla vega lækka hana umtalsvert, og láta þá niðurfellingu ganga áfram í gegnum efnahagsreikninga bankanna til lækkunar á skuldum heimila. Er þá niðurfelling, sem svona er framkvæmd, ekki af hinu góða fyrir stærsta vandamál hagkerfisins, þennan of stóra aflandskrónustofn? Hann myndi lækka umtalsvert við svona aðgerð, sem er það sem allir vilja að gerist til að hægt sé að afnema fjármagnshöft! Hvernig getur þessi aðgerð þá verið svona slæm?
Síðan hvetur AGS stjórnvöld til að lagafæra stöðu ÍLS. Ef stjórnvöld þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af aflandskrónustofninum, þá væri kannski hægt að fara einbeita sér að ÍLS og öðrum málum!
Ummælin sanna bara enn einu sinni að AGS er innheimtustofnun stórra fjármagnseigenda en ekki sjálfstæð alþjóðastofnun til hjálpar ríkjum í vanda.
Að öðru leyti vísa ég í nýlega færslu mína um sama atriði.
AGS leggst gegn skuldaniðurfellingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Loforðin standa þó hinir erlendu kröfuhafar hafi engan áhuga á að fjármagna þau. Draumórar um gjafmildi erlendu kröfuhafanna er ekki alveg að sannfæra AGS, sem og fleiri. Enda eru flestir erlendu kröfuhafarnir í þeirri stöðu að þurfa ekkert að gefa eftir og geta auðveldlega beðið eftir að gjaldeyrishöftunum verði aflétt. Enda safna þessir peningar bara vöxtum meðan beðið er, mikið á verðtryggðum reikningum og í ríkisskuldabréfum. Og gjaldeyrishöftin því skaðlegust okkur sjálfum.
Þannig að það sem sjáanlegt er núna er að stjórnvöld hafa gefið loforð sem rýra tekjur ríkissjóðs og auka útgjöld. Framhjá því er ekki hægt að horfa þó einhverja dreymi um gjafafé frá útlendingum. Og ég efast um að jafnvel þér þyki það gáfulegt.
Ufsi (IP-tala skráð) 7.8.2013 kl. 22:46
Þið verðið að skilja.
Það er löngu búið að "fjármagna" þessa afskrift.
Það gerðist þegar hún var gerð í október 2008.
Eina sem vantar er að samræma innheimtuseðlana við þessa staðreynd.
Góðar stundir.
Guðmundur Ásgeirsson, 7.8.2013 kl. 22:59
Það sem blasir við sigkja02@gmail.com (Ufsi), er að það verður ALDREI hægt að greiða þessum kröfuhöfum nokkra kröfu til fulls, hvað þá einhverja ávöxtun ofan á slíka kröfu, í gjaldmiðli sem þeir vilja og geta notað annars staðar í heiminum. Þá er alveg sama hversu lengi þeir bíða. Og það gera þessir aðilar sér vel grein fyrir.
Nýjustu fréttir af nauðasamningum Icebank sýna vel hvernig staðan er. SÍ hefur tögl og haldir í ferlinu og getur sagt til hvernig ljúka eigi þessum málum. Þá er alveg sama hvað kröfuhafar ætla að bíða lengi.
Erlingur Alfreð Jónsson, 8.8.2013 kl. 01:05
Og Guðmundur hittir þarna naglann á höfuðið sem oft áður.
Það er nefnilega sá sem lánar sem fjármagnar afskrift með því að skrá tap hjá sér, og enginn annar. Og allra síst einhver þriðji aðili sem kemur aldrei að innheimtuferli kröfunnar, eins og t.d. ríkissjóður, sem talað hefur verið um að eigi að standa straum af afskriftum. Slíkt tal er bara firra.
Ennfremur tapar sá sem kaupir/eignast kröfu á hrakvirði á síðari tímum ekki neinu nema innheimta hans sé lægri en yfirtökuverð, annað er bara gróði. Afskrift á óinnheimtum gróða er því í raun ekki tap.
Erlingur Alfreð Jónsson, 8.8.2013 kl. 01:23
Reyndar er búið að samþykkja kröfurnar og greiða gjaldfallnar kröfur til fulls og peningarnir sitja bara og safna vöxtum á hinum ýmsu reikningsformum. Spurningin er bara hvort einhver örvænting ríki í herbúðum þessara krónueigenda með að koma þessu fé úr landi. Það er ekki að sjá, enda hækkar upphæðin um tugi milljarða á ári umfram verðbætur. Aftur á móti er örvænting og vandi stjórnarinnar flestum sýnileg og skaðinn sem gjaldeyrishöftin valda þjóðarbúinu einnig augljós.
Stjórnvöld eiga ekki þetta fé. Geta ekki ráðstafað því. Og hafa ekkert annað en skattfé til að standa við loforðin. Það sjá AGS og fleiri. Áætlaður lottóvinningur er ekki gjaldgengur í fjárhagsáætlun þó hann virki vel a sauðsvartan í kosningabaráttu.
Ufsi (IP-tala skráð) 8.8.2013 kl. 03:49
Hvaða kröfur hafa verið greiddar til fulls, úr hvaða búi og hvaðan koma þær upplýsingar? Mér vitanlega er ekki búið að ganga frá nauðasamningum fyrir gömlu bankana, enda þarf SÍ að samþykkja slíka samninga, og þess vegna ekki hægt að greiða einum kröfuhafa til fulls umfram annan þó krafa hans sé gjaldfallin. Eina undantekninginn væru hugsanlega forgangskröfur t.d. vegna innstæðna, sem samþykktar voru sem slíkar.
Erlingur Alfreð Jónsson, 8.8.2013 kl. 09:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.