#192. Aftur tapar Lýsing, en....
30.8.2013 | 20:24
Enn fellur dómur í málum Lýsingar þar sem fyrirtækið lætur í minni pokann gagnvart neytendum vegna gengistryggðs lánasamnings. Það sem veldur mér þó vonbrigðum í þessu máli, sem og öðrum, er að ekki er að mínu mati byggt nægilega vel á ákvæðum neytendalánalaga um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Af þeim sökum tekur dómarinn ekki afstöðu til þessara atriða í dómsorði. Þó er rétt að benda á að konan byggir á 14.gr. neytendalánalaga, en vill ekki byggja á greiðsluáætluninni sem fylgdi samningnum, er þar koma fram umsaminn heildarlántökukostnaður og árlega hlutfallstala kostnaðar, atriði sem ég tel takmarkandi við innheimtu þessara samninga. 2.mgr.14.gr. neytendalánalaga segir nefnilega að "lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar."
Nú veit ég ekki hver upphaflegur heildarlántökukostnaður var í þessu máli né hversu há heildargreiðsla konunnar var áður en hætt var að greiða, þar sem þessar upplýsingar koma ekki fram í dómsorði. Þess vegna er ekki mögulegt að meta hver áhrif dómsins eru miðað við upphaflegu forsendurnar, þ.e. hversu mikið upphaflegur heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala hækka vegna niðurstöðunnar. Mig grunar þó sterklega að hækkunin sé nokkur. Upphafleg samningsfjárhæð var 5.357.410 kr. og miðað við árlega hlutfallstölu kostnaðar upp á 5,79% er ekki óvarlegt að áætla upphaflegur heildarlántökukostnaður hafi verið uppgefinn eitthvað umfram 6 milljónir kr.
Hvernig hægt er með dómi að dæma neytanda til að greiða meira en hann samdi um í upphafi og hækka atriði sem mega ekki hækka lögum samkvæmt, er mér hulin ráðgáta. Ennfremur hvers vegna lögmenn beita ekki í ríkari mæli þessum atriðum um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar sem takmarkandi atriða við uppgjör þessara samninga fyrir dómstólum skil ég ekki heldur. Ef lánveitandi upplýsti neytanda um þessi atriði við samningsgerð eiga þau að vera takmarkandi við ákvörðun niðurstöðunnar og enginn önnur. Það er líklega í eina sinnið þar sem báðir aðilar voru að fullu upplýstir og sammála um hvað samningurinn ætti að kosta.
Kröfum Lýsingar vísað frá dómi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.