#203. Hræðsluáróður
7.7.2014 | 11:09
En gerir Lýsing lítið úr niðurstöðum dómstóla og telur fordæmisgildi héraðsdóms í síðustu viku lítið. Gamli fréttamaðurinn og spunameistari Lýsingar, Þór Jónsson, bendir á að Lýsing hafi unnið fimmtán gengistryggingarmál fyrir Hæstarétti frá 2012. Stutt leit á vef Hæstaréttar fyrir tímabilið 1.janúar 2012 til dagsins í dag, 7. júlí, gaf hins vegar einungis 5 mál vegna gengistryggingar þar sem Lýsing var málsaðili, þarf af 4 gegn lögaðilum. Vel má vera að þau séu fleiri en ég nennti ekki að eyða tíma í að leita nánar, satt að segja.
Ég hef nokkrum sinnum bent á hér á blogginu að ég telji neytendur eiga betri rétt en lögaðilar vegna bíla-og tækjafjármögnunarsamninga vegna ákvæða neytendalánalaga og ætla ekki að rekja það aftur hér. Er búinn að fá algert ógeð á þessu fyrirtæki, og er ekki einu sinni viðskiptavinur! Lauk mínum viðskiptum við það árið 2002 ef ég man rétt, og er ekki á leiðinni til þeirra aftur þó að þau viðskipti hafi verið snurðulaus á sínum tíma.
Dómari í málunum í síðustu viku var Skúli Magnússon, fyrrum ritari við EFTA dómstólinn. Í niðurstöðu sinni bendir hann á að þegar neytendur greiða samning upp fyrir lok samningstíma eiga þeir rétt á lækkun lántökukostnaðar, sbr. ákvæði neytendalánalaga nr. 121/1994, sjá 16.gr. sömu laga. Líklega á þetta ákvæði við mikinn fjölda lánasamninga Lýsingar við venjulega neytendur.
Þess vegna ætti fólk að vera alveg óhrætt að hjóla í Lýsingu vegna lánasamninga og því fyrr því betra, því ég er undrandi á að fyrirtækið sé hreinlega rekstrarhæft, hvað þá að það verði að þegar öllum þessum málum verður lokið. Fyrstir koma fyrstir fá!
Krefja Lýsingu um neikvæða vexti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
því ég er undrandi á að fyrirtækið sé hreinlega rekstrarhæft, hvað þá að það verði að þegar öllum þessum málum verður lokið
Þetta var einmitt helsta málsástæðan í lögbannsmáli Hagsmunasamtaka heimilanna gegn Lýsingu. Meðal gagna í málinu var samantekt á fjárhagsstöðu Lýsingar byggð á ársreikningum fyrirtækisins, sem sýndi fram á að ef færa þyrfti niður og endurgreiða aðeins 10-20% af virði útistandandi samninga, þá færi það á hausinn, og ef leiðrétta þyrfti meira en það yrði eigið fé neikvætt.
Hæstiréttur sló því hinsvegar föstu í dómi sínum, og hafnaði á þeirri forsendu lögbannskröfunni, að hagsmunir lántakenda væru tryggðir með réttarreglum um skaðabætur.
Ég endurtek: Samkvæmt Hæstaréttardómi eiga viðskiptavinir Lýsingar rétt á skaðabótum frá fyrirtækinu og Lýsing á ekki að vera í neinum vandræðum með að borga þær, samkvæmt forsendum sama dóms.
Sambærileg niðurstaða fékkst í svipuðu máli gegn Landsbankanum, þar sem dómurinn byggðist meðal annars á því að þar sem ríkið væri eigandi bankans hlyti það að leggja honum til fé ef þyrfti til að leiðrétta gengislán.
Leiðréttingar Landsbankans voru semsagt dæmdar til ríkisábyrgðar!
Eru þetta ekki æðislegir dómstólar sem við höfum???
Guðmundur Ásgeirsson, 7.7.2014 kl. 12:43
Það er langt síðan ég fór að hafa efasemdir um gæði lögfræðikennslu í HÍ. Sérstaklega þegar ekki virðist tekið tillit málefnis til að tryggja réttláta niðurstöðu heldur ætlað að aðrar kringumstæður muni ríkja á síðari stigum til að tryggja rétt vegna brota sem kvartað er yfir.
Lögbannsskilyrði á Íslandi eru svo þröng að ég efast að þeim sé yfirhöfuð beitt. Alla vega væri fróðlegt að sjá tölfræði um hversu oft lögbannskröfur eru samþykktar og hversu mörgum hafnað. Held það sé meira og minna standard að slíkum beiðnum sé hafnað.
Erlingur Alfreð Jónsson, 7.7.2014 kl. 14:07
Hverri einustu kröfu sem lögð hefur fram um lögbann til verndar heildarhagsmunum neytenda á grundvelli laga nr. 141/2001 hefur verið hafnað af sýslumanninum í Reykjavík og eftir atvikum dómstólum.
Synjunarhlutfallið í slíkum málum er semsagt 100%, en á þetta hefur verið látið reyna a.m.k. 4 sinnum eða oftar, og alltaf talið vera borðleggjandi.
Vandamálið virðist liggja í því að íslenskir dómstólar skilji hreinlega ekki evrópsku reglurnar um að brot gegn neytendum beri að stöðva með tiltækum ráðum hvenær sem verður vart við þau, ekki aðeins til að verja rétt neytendanna sjálfra heldur líka í forvarnarskyni gagnvart öðrum aðilum sem gætu haft í hyggju að svindla á neytendum.
Þess í stað líta íslenskir dómstólar svo á að ef þú hefur orðið fyrir tjóni þá skulirðu bara sækja þér skaðabætur og þá jafnist þetta út. Þannig er gengið út frá því að alltaf þurfi fyrst að valda tjóninu og svo að bæta það. Hinsvegar virðist sú hugsun að stöðva hinn brotlega til að koma í veg fyrir frekari brot af sama toga, einfaldlega ekki rúmast í hugarheimi hinna háttviru dómara.
Guðmundur Ásgeirsson, 7.7.2014 kl. 17:10
Hárrétt! Í þessu sambandi væri fróðlegt að sjá útskýringar stjórnvalda í úttektum ESB á framkvæmd EES-samningsins, (eða í aðildarviðræðum við ESB) um hvernig og með hvaða hætti haugsmunir neytenda eru verndaðir samkvæmt tilskipunum, sem og hvaða úrræði standa neytendum til boða sem finnst á sér brotið. Sjálfsagt yrði bent á að löggjöf og eftirlitsstofnanir séu til staðar, og síðan dómstólar, en látið lítið fyrir því fara að brotalöm sé á framkvæmdinni og að eftirlitsstofnanir komi ekki í veg fyrir ítrekuð brot.
Erlingur Alfreð Jónsson, 7.7.2014 kl. 19:06
Það myndi vera hér:
http://www.vidraedur2009-2013.is/hlidarval/malaflokkar-vidraedna/kaflar/nr/6606
En þú hefur rétt fyrir þér, svo það er óþarfi að eyða miklum tíma í þetta.
Frekar að berjast fyrir að það verði lagað sem við vitum að þarf að laga.
Guðmundur Ásgeirsson, 28.7.2014 kl. 13:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.