#204. Hraðlestardraumar

Mér hefur alltaf óað hugmyndum um hraðlest á milli FLE og Reykjavíkur, og hvað þá að slík framkvæmd yrði fjármögnuð með íslenskum Matadorkrónum. Tel að Íslendingar hafi engan veginn efni á slíku mannvirki. Ef hins vegar erlendir aðilar eru tilbúnir að fjármagna, eiga og reka slíkt fyrirbæri hef ég ekki á móti því, enda þarf erlendan gjaldeyri til að fjármagna tæplega helming framkvæmdarinnar að minnsta kosti, og því kjörið að það fjármagn komi annars staðar en frá innlendum aðilum í gegnum gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Ég hendi hér fram nokkrum pælingum sem komu í hugann þegar ég renndi yfir skýrsluna. 

Kostnaður vegna aðfanga og búnaðar í erlendum gjaldeyri er áætlaður 46 milljarðar, en ég giska á að hann gæti mögulega verið hærri sem nemur kostnaði við gangnagerðina, eða alls um 61 milljarður í erlendum gjaldeyri sem þyrfti til verksins. Og er þá miðað við gengi Seðlabankans sem er verulega hærra en gengi krónunnar á erlendum mörkuðum og vafalaust ómögulegt að erlendir fjárfestar fengjust til að fjármagna svona stórt verkefni á slíku gengi. Fjárfestar myndu væntanlega heimta lægra gengi en opinbert gengi Seðlabankans við slíka fjármögnun á sama hátt og Seðlabankinn hefur reynt að lokka erlent fjármagn til landsins með gjaldeyrisútboðum. Kostnaður vegna lægra gengis gæti orðið 20% hærri en reiknað er með í forsendum ef tekið er mið af nýlegu útboði Seðlabankans sem keypti Evrur á genginu 186 kr., á meðan opinbert gengi er hærra eða um 154 kr.

Í skýrslunni kemur fram að sambærilegar framkvæmdir í Noregi og Svíþjóð voru gerðar í samvinnu við ríki í formi styrkja og ábyrgða. Þó er ekki gert ráð fyrir aðkomu ríki eða sveitarfélaga vegna þessa verkefnis!  Hvers vegna yrði það öðru vísi hér, sérstaklega sé tekið tillit til hversu mikil þörf er á erlendum gjaldeyri til verksins? Ég tel ekki ólíklegt að erlendir aðilar færu fram á ríkisábyrgð vegna erlendrar lántöku miðað við þau gjaldeyrishöft sem við búum við vegna svona verkefnis.

Í skýrslunni er vísað til talna vegna notkunar farþega á lestarferðum til London city flugvallar þar sem notkunarhlutfall farþega á lest til og frá flugvelli er um 55%. En hvernig er notkunarhlutfall lesta frá London Gatwick eða London Heathrow inn í miðborgina? Báðir flugvellir eru miklu stærri en London city og sennilega hlutfallslega sambærilegri við Keflavíkurflugvöll hvað hlutverk varðar, og hugsanlega eðlilegra að miða við þá. Á hinn bóginn er eðlilegt að líta til þess að að farþegar sem fara um bæði Gatwick og Heathrow koma úr fleiri áttum en bara úr miðborg London sem getur haft áhrif á notkun lesta en jafnframt fara margar lestar ekki beint á flugvellina og farþegar þurfa að skipta inn í London til að komast út á flugvöll. Þriðjungur farþega um London city fer til 3 af um 20 flugvöllum sem flogið er til frá vellinum, og fimmtungur ferðast innan Stóra-Bretlands, á milli Skotlands og London.

Í forsendum er miðað við 50 ára afskriftarkostnað á teinum og stöðvum, en hver er endurnýjunarþörf (líftími) teina á svona leið?

Þá munu farþegar þurfa að mestu að notast við almenningssamgöngur til og frá lestarstöð, og þá oft leigubíla þar sem strætó hefur ekki hafið akstur á þeim tíma sem lestin á að fara fyrstu ferð. Slíkt gæti þó vissulega breyst ef af verkefninu verður. Ekki gat ég þó séð í fljótu bragði að þessi liður væri tekin með inn í kostnað í samanburði við notkun einkabíls/leigubíls til að komast til Keflavíkur. En yrði hagkvæmt fyrir fjölskyldu að fara á lestarstöð með leigubíl og þaðan til Keflavíkur í stað þess að aka sjálf eða taka leigubíl? Verð fyrir staka lestarferð er áætlað um 3800 kr.! Fyrir 4 manna fjölskyldu gerir það um 15.000 kr. aðra leiðina, eða 30.000 kr. báðar leiðir og er þá ótalinn kostnaður að koma sér til og frá lestarstöð, sem getur auðveldlega hlaupið á 6-10.000 kr. eða meira aðra leiðina og þar með allt að 40-50.000 kr. Stök rútuferð frá BSÍ til Keflavíkur kostar nú 1950 kr. Líklega yrði ódýrara fyrir fjölskyldu að fara með rútu í stað lestar, en líklega ódýrast að fara bara á bílnum beint til Keflavíkur og leggja í langtímastæði. Bílastæðagjald fyrir 14 daga er 9.800 kr. og fyrir 21 dag 12.600 kr., eða mun ódýrara en að fara með lest aðra leiðina! Eldsneytiskostnaður fram og til baka gæti verið um 5.000 kr.

Í skýrslunni er einnig nefndur mögulegur sparnaður flugfélaga við ferðalög flugáhafna til Keflavíkur með lest. Af reynslu þá finnst mér ekki mjög líklegt að áhafnir muni notast við almennningslestir í tengslum við ferðir til og frá vinnu, jafnvel þó að vinnuveitandi mundi bera slíkan kostnað!

Sjáfur hefði ég áhuga á að sjá kostnaðaráætlun við lagningu raflína fyrir ofan Reykjanesbrautina og nýta hana þar með betur með notkun rafvagna. Ég tel það ekki síðri kost heldur en lest þó ferðatími yrði lengri en lestar vegna minni hraða. En líklega mun ódýrara verkefni en þessi hraðlestardraumar.

 


mbl.is Stofnkostnaður hraðlestar 100 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þessu er haldið fram af þeim sem vilja rvk-flugvöll burt og hugsað til að fá fleiri á þá skoðun að flytja innanlandsflugið til kef.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.7.2014 kl. 23:36

2 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Það væri ódýrara að byggja nýja flugvöll á landfyllingu í Skerjafirði heldur en æða í svona ruglframkvæmd til að losa Vatnsmýrina undir blokkir.

Erlingur Alfreð Jónsson, 7.7.2014 kl. 23:43

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Að mínu áliti er öll þessi skýrsla bull og byggð á draumórum ekki vil ég ganga svo langt að segja að forsendur séu búnar til en þær eru  ansi óraunhæfar og t.d bar það að gera ekki ráð fyrir launum og launakostnaði í rekstraráætlun er alveg fyrir neðan allar hellur.............

Jóhann Elíasson, 7.7.2014 kl. 23:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband