#228. Aðför að einfeldningi/um?
22.11.2014 | 17:41
Mikið er þessi umræða góð hjá Guðmundi en jafnframt lýsandi fyrir a) hversu frekir hjólreiðamenn geta verið og b) hversu grunnhyggnar framkvæmdirnar eru. Ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að þjónusta aðilana, sem sömu aðilar vilja þó að haldi lífi í bænum og hjólreiðafólk (sem og aðrir) geta verslað við. Að ég best veit er öllu jöfnu reynt að losa alla vöru í miðbænum fyrir klukkan 11. Við getum ekki ætlast til að vörur séu losaðar fyrir klukkan 7 eða eftir klukkan 19 eins og er, því afgreiðslur vöruhúsa og lagera eru ekki opin á þeim tíma, ekkert frekar en aðilarnir sem þurfa að taka við vörunum.
Þá er líka athyglisvert að hjólreiðamanninum þykir allt í lagi að stöðvað sé út á miðri götu á meðan vara er losuð eða farþegar teknir upp í, jafnvel þar sem óbrotin miðlína er og ólöglegt að aka yfir hana, og allir eiga að bíða.
Af þrennu illu finnst mér skárra að hjólreiðastígur sé lokaður tímabundið í stað akbrautar eða gangstéttar. Hjólreiðamenn eiga auðveldara með að leggja lykkju á leið sína en þjónustubílar og ég vorkenni því fólki ekki nokkurn hlut að þurfa að gera það. Það hægir þá kannski á þeim og þeir hjóla hægar?
Forðast á hins vegar að loka gangstéttum og þá er betra að loka akrein tímabundið.
PS: Og talandi um það? Er enginn hámarksharði á hversu hratt má hjóla á hjólreiðastíg?
Aðförin að einkahjólinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég ferðast ekki lengur um á hjóli. Gafst upp á því þegar menn fóru að tala svona mikið í síma. Menn stoppuðu ekki á stöðvunar línum og ég var tvisvar keyrð niður í sömu vikunni. Ég legg til að bílar teppi bílaakgreinar eftir sínum geðþótta og láti svo hjól og hjólreiðamenn um að teppa sína fáu akgreinar sem komið hefur verið upp. Síðan getur gangandi fólk teppt sínar gönguleiðir með hjólastólum og barnavögnum. Það er mikil sjálfkvefra að halda að þú hafir rétt á kostnað annara. Tepptu bara þína umferðaræð og sjáum svo hvort löggan er ekki fljót að mæta.Hafðu svo góðan dag með þinn sektarmiða. Ps. ég held að margir karlar fái sjálfkverfu kast um fimmtugt.
Matthildur Jóhannsdóttir, 22.11.2014 kl. 19:27
það er ekkert nógu gott fyrir hjólreiðafólk. allt sem þau kvarta yfir gera þau sjálf. eru endalaust fyrir bílum . þjóta framhjá gangandi vegfarendum , sýna enga tilitsemi , fylgjast ekkert með í kringum sig, , þetta eru allt meira og minna bölvaðir asnar og sérstaklega þessi sem vælir yfir þessum affermi bifreiðum. allt svo erfit fyrir greyjið kallin, þessir asnar hjóla alltaf á götuni hvort sem er svo afhverju er það svona erfit fyrir þennan manfjanda að rétt hjóla framhjá affermi bifreiðinni, segir að það sé hætta , auðvitað er það hætta ef hann passar sig ekki. það er bara alltof margir hjólreiðamenn sem eru algjörir fávitar.
sumir af þessum bílum sem blokka alla gangstéttina ættu að fá aðvörun,.
hjólreiða stigurinn er ekki hraðbraut, ef hindrun er á veiginum skal fara með sérstakri aðgát.
Ragnar (IP-tala skráð) 22.11.2014 kl. 20:12
Alveg sammála Ragnari. Þessir hjólreiðamenn eru bölvaðar frekjur sem finnst það sjálfsagt að láta spreða hundruðum miljóna í eyðileggingu á gatnakerfi Reykjavíkur svo þeir geti verið einir eins og kóngar á sínum rándýru hjólreiðastígum.
The Critic, 22.11.2014 kl. 22:49
Það eru engir að eyðileggja neinar götur heldur er aðeins vegið að skipta því rými sem er til skiptana á samgönguæðum með réttlæatari hætti milli mismunandi samgöngumáta en gert hefur verið hingað til.
Sigurður M Grétarsson, 23.11.2014 kl. 18:33
Ólafur Kr. Guðmundsson útskýrir ágætlega hversu heimskulegar þessar framkvæmdir allar eru og án lagalegs stuðnings hvað umferðarlög varðar.
http://olafurkr.blog.is/blog/olafurkr/entry/1517311/
Sem sagt reykvíkst borgarstjórnarklúður!
Erlingur Alfreð Jónsson, 24.11.2014 kl. 12:26
Það er engin þörf fyrir sérstaka lagasetningu vegna leiðbeiningarmerkja. Þau má setja upp en hafa að sjálfsögðu engin áhrif á það hver er í rétti. Það er því ekkert ólöglegt við Hverfisgötuna eins og hún er. En hvað varðar lagningu bíla á hjólastíg þá er ólöglegt að leggja bílumn á gangstétt og það gildir þá líka um hjólastíga enda um sambærileg umfeðamannvirki að ræða.
Sigurður M Grétarsson, 24.11.2014 kl. 22:41
Sigurður: Leiðbeiningarmerki er ekki til í reglugerð um umferðarmerki þannig að ég veit ekki hvaða merki þú ert að tala um. Reyndar er það þannig að með umferðarmerkjum má víkja frá almennum umferðarreglum, þannig að umferðarmerki segja til um hver er í rétti, þegar þau eru sett upp. Málað hjól eða hjólastóll á yfirborð götu hefur enga lagalega þýðingu eitt og sér. Til þess þarf þar til gert merki.
Mögulega er alveg rétt að ekkert sé ólöglegt við Hverfisgötuna en það þýðir þá líka að ég get lagt í stæði með máluðum hjólastól án þess að fá sekt því ekkert er merkið við stæðið til að gefa því þann rétt sem ætlast er til.
Hvað hjólastíginn varðar er hann ekki skilgreindur sérstaklega í lögum en hins vegar er til merki fyrir hann sem verður þá væntanlega að setja upp til að merkja slíkan stíg. Ef það er ekki gert verður líklega að telja að "hann" sé hluti af gangstéttinni og ef svo er ber hjólreiðamönnum að víkja fyrir gangandi vegfarendum.
Erlingur Alfreð Jónsson, 25.11.2014 kl. 13:01
Alveg er það grátlegt að sjá fullorðna menn, eins og síðuhöfund, opinbera einfeldni sína og tillitsleysi. Hér skrifa menn fullum fetum að hjólreiðamenn eigi engann rétt í umferðinni og séu svo að segja réttdræpir. Hvurslags málflutningur er þetta? Ég segi nú bara vei þeim mönnum sem hætta sér út í umferðina í Reykjavík á reiðhjóli ef að stór hluti bílstjóra eru eins og þeir sem að hér skrifa. Menn ganga meira að segja svo langt að segja, allt að því berum orðum, að umferðalög gildi ekki fyrir þá! Hvað er hægt að vera mikill hræsnari? Grundvallaratriði í umferðinni, óháð ferðamáta, er að taka tillit til þeirra sem eru í kringum mann. Þeir sem að leggja bílum á hjólastígum gera það ekki. Heldur ekki þeir sem að finnst það vera í fínu lagi.
Gunnar Runolfsson (IP-tala skráð) 26.11.2014 kl. 07:23
Góðan daginn Gunnar Runólfsson.
Ég kannast ekki við að ég, eða nokkur annar gestur hér, hafi minnst á að að hjólreiðamenn séu svo að segja réttdræpir í umferðinni. Það eru því þín orð.
Þér til upplýsinga keyrði ég 40-50 tonna trukk í 9 ár að mestu hér á suðvesturhorninu, og gerði mér far um það í hvert einasta sinn sem ég fór fram úr hjólreiðamanni á vegi eða akbraut að fara eins mikið yfir á gagnstæða akrein þegar umferð leyfðil, eða hægja vel á enda hef ég ekki nokkurn áhuga á að slasa eða drepa aðra vegfarendur.
Ég vísa því þess vegna algjörlega til föðurhúsanna að ég taki ekki tillit til hjólreiðamanna eða annara vegfarenda í umferðinni.
Í niðurlagi pistilsins segi ég einnig að forðast eigi að loka gangstéttum.
Þakka þér fyrir innlitið.
Erlingur Alfreð Jónsson, 26.11.2014 kl. 11:09
Að sjálfsögðu eru þetta mín orð. Enda er ég að túlka það sem þú og sumir af gestum þínum eru að segja. Þetta stendur á milli línanna hjá sumum af þeim sem að hér skrifa, froðufellandi yfir því að reiðhjól sjáist í umferðinni. Sömu aðilar setja útá, í sömu setningu, að reiðhjól séu stórhættuleg bæði vegna þess að þau fari of hægt og líka vegna þess að þau fari allt of hratt. Það er erfitt að gera sumum til hæfis. Þú sjálfur segir að það sé best lausn, af þrem illum, að teppa hjólastíg en ekki leggja bílum á akbraut eða ganstéttum. Samt segir þú annarstaðar í tekstanum að hjólastígur sé ekki skilgreindur sérstaklega í umferðalögum og verði þar af leiðandi að telja hann hluta af gangstéttinni. En samt finnst þér í lagi að leggja bílum á honum. Þó svo að þú sjálfur takir sérstaklega fram að ekki ætti að teppa gangstéttar. Þetta er ekki alveg rökrétt hjá þér vinur. Einnig segir þú að mynd af hjóli á yfirborði götu hafi enga lagalega merkinu. Hér þarft þú að kynna þér umferðalög betur. Þar er tekið fram, ásamt fleiru, að vegfarandi skuli fara eftir merkingum á vegi. Þannig að þetta er rangt hjá þér. Einnig lýsir þú því yfir að þessar breytingar á Hverfisgötunni séu heimskulegt klúður. Ég verð að benda þér á að samskonar breytingar eru að gerast í flestum borgum allt í kringum okkur. Reiðhjólum er gert sífellt hærra undir höfði á kostnað einkabílsins þar sem um mun betri leið til samgangna er að ræða. Hugsanagangur sem að finnur þessari þróun allt til foráttu er ótrúlega gamaldags en sem betur fer á hröðu undanhaldi.
Gunnar Runolfsson (IP-tala skráð) 26.11.2014 kl. 13:50
Gunnar: Þegar ég ritaði færsluna taldi ég, eins og þú virðist telja, að stígur merktur á yfirborði með reiðhjóli væri tilgreindur í umferðarlögum. Svo er hins vegar ekki eins og sjá má þegar lögin eru lesin, og ég komst að síðar. Þess vegna er munur á því sem ég sagði í færslunni og svo síðar í athugasemd eftir að hafa skoðað hlekki sem Ólafur Kr. benti á í sinni færslu.
Sömuleiðis taldi ég að við merkingar á yfirborði umferðarmannvirkja væri notast við viðurkenndar yfirborðsmerkingar. Þegar reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra nr. 289 frá 1995 er hins vegar skoðuð sést að yfirborðsmerkingar eins og reiðhjól eða hjólastóll eru ekki tilgreind sem viðurkenndar merkingar. Þess vegna álykta ég að slíkar merkingar hafi enga lagalega merkingu. Það má ekki setja hvað sem er á veg og segja vegfarendum að nú fari þeir eftir því án þess að slíkt sé tilgreint í lögum eða reglugerðum byggða á lögum. Þannig að ég tel ekki að þessi túlkun mín sé röng.
Nú vill svo til að ég vinn erlendis og hef séð svona hjólaleiðir merktar bæði á götur og gangstéttar. Ég veit hins vegar ekkert um hvernig um slíkar merkingar er fjallað í lögum og reglum viðkomandi landa, og það er í raun efnislegt niðurlag athugasemdarinnar nr.7; umfjöllun í lögum og reglum þarf að bæta. Á það var bent af hagsmunaðilum áður en hafist var handa við breytingar á Hverfisgötu og Borgartúni að þær skorti lagastoð.
Reiðhjól henta sumum til að komast leiðar sinnar en fjarri því öllum og reiðhjól eru ótæk við dreifingu á vörum til birgja.
Að lokum get ég hvergi séð hér í umræðunni að talað sé um að reiðhjól séu hættuleg ef þau fara hægt eða hratt. Það álit á því líka uppruna í kollinum á þér.
Erlingur Alfreð Jónsson, 26.11.2014 kl. 15:02
Ragnar segir hér að ofan,
" eru endalaust fyrir bílum . þjóta framhjá gangandi vegfarendum ,".
Það getur vel verið að lesskilningur þinn sé takmarkaður, en ég skil þessa athugasemd eins og ég lýsti hér að ofan.
Sú staðreynd að mynd af reiðhjóli á yfirborði vegar sé ekki skilgreind í umferðalögum hefur enga þýðingu hérna. Burtséð frá því hvort um sé að ræða hjólastíg, gangstétt eða eitthvað allt annað er alveg ljóst að það svæði sem að ökumenn nota til að stöðva bíla sína á á þessum myndum er hvorki bílastæði né akbraut. Þar af leiðandi er það ólöglegt að stöðva eða leggja bílum á þessum stöðum samkvæmt umferðalögum.
Eftirfarandi eru greinar sem ég hef afritað úr lögum nr. 50 frá 1987. Afrit er tekið af vef alþingis althingi.is.
[5. gr. a. Í þéttbýli má ekki í heimildarleysi aka, stöðva eða leggja vélknúnu ökutæki utan vega á svæði sem ekki er ætlað fyrir umferð vélknúinna ökutækja.
13. gr. Ökumaður skal nota akbraut. Bannað er að aka eftir gangstétt eða gangstíg.
Þar sem sérstakar reinar eru fyrir mismunandi tegundir ökutækja, skal ökumaður nota þá rein, sem ökutæki hans er ætluð.
27. gr. Eigi má stöðva ökutæki eða leggja því á þeim stað eða þannig að valdið geti hættu eða óþarfa óþægindum fyrir umferðina.
Ökumenn þessara bíla brutu allar þessar greinar umferðalaganna. Þeirra framferði er þar með ólöglegt. Skilningur þinn á umferðalögum, það að hengja sig í að tiltekin merking sé ekki skilgreind sérstaklega í umferða lögum, og réttlæta með því þetta framferði er ekki til þess fallið að leysa vandamál í sambandi við blöndun mismunandi umferðar. Það að velja að fara ekki eftir ákvæðum laga en í staðinn að benda á að önnur ákvæði vanti í lögin er barnaleg rökfræði og ekki boðleg í skoðanaskiptum um þessi mál.
Gunnar Runolfsson (IP-tala skráð) 27.11.2014 kl. 07:22
Ég hef aldrei sagt að umferðarlög hefðu ekki verið brotin heldur benti ég á að aðstæður á Hverfisgötu gerðu það að verkum menn gerðu það sem sýnt er á myndum.
Ég sagði hins vegar að ekki þyrfti að virða yfirborðsmerkingar einar og sér, sem ekki væru tilgreindar í reglugerð um umferðarmerki.
Tilvísanir þínar í umferðarlög eru fín innlegg í umræðuna, en breyta því hins vegar ekki að umræða um "hjólastíg" er ekki til í umferðarlögum og eðlilegt að bæta þar úr. Sama með yfirborðsmerkingar vegna hjólastóla og reiðhjóla, og jafnvel fleiri yfirborðsmerkingar sem greiða gætu úr umferð.
Hér er t.d. hluti greinar úr VI. kafla umferðarlaganna:
VI. Sérreglur fyrir reiðhjól, bifhjól og torfærutæki.
Reiðhjól.
39. gr. ......
Hjólreiðamaður skal hjóla hægra megin á akrein þeirri, sem lengst er til hægri. Akreinina við hlið hennar má þó nota til framúraksturs, ef eigi er unnt að fara fram úr hægra megin.
.....
Heimilt er að hjóla á gangstétt og gangstíg, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum. Hjólreiðamaður á gangstétt eða gangstíg skal víkja fyrir gangandi vegfarendum.
Ekkert fjallað um sérstakan "reiðhjólastíg" (sem þó er til merki fyrir) og ekkert rætt um ökuhraða reiðhjóla.
Erlingur Alfreð Jónsson, 27.11.2014 kl. 10:38
Þannig að þú gerðir þér grein fyrir því, frá upphafi, að það háttarlag sem sýnt er á myndunum er ólöglegt en réttlætir það engu að síður. Það er eiginlega enn verra! Það er aldrei hægt að réttlæta það að brjóta lögin. Enginn getur leyft sér að leisa vandamál með því að velta því bara yfir á náungann eins og hér er gert. Til þess höfum við lög í landinu.
Þú segir í teksta þínum að það sé ólöglegt að aka yfir óbrotna línu og þar af leiðandi ekki hægt að stöðva úti á götu til að lesta og aflesta bílana. Hversvegna er sú lausn ómöguleg vegna þess að hún felur í sér lögbrot en sú lausn að leggja á hjólastígnum í lagi. Þó svo að hún sé líka lögbrot?
Stærsta vandamálið í þessu sambandi er skipulagsleysi og agaleysi Íslendinga. Að vera með útkeyrslu á álagstímum er ekki vel að verki staðið. Á stað eins og Hverfisgötunni ættu öll aðföng að vera keyrð út utan álagstíma á morgnanna og síðdegis. Að tala um að það sé ekki hægt vegna þess að allt sé lokað utan álgstíma er ómarktækt. Ekkert er því til fyrirstöðu að keyra út vörum eftir að morgun umferð er um gar gengin og áður en að eftirmiðdagtörnin hefst. Agaleysi Íslendinga er líka stórt vandamál í umferðinni ásamt tillitsleysis.
Eins er það mér algerlega óskiljanlegt hvers vegna svo mörgum, þú þar meðtalinn, er svona mikið í nöp við reiðhjólafólk. Kallandi þann sem sem að tekur myndirnar við fréttina einfeldning og gefur í skyn að aðrir reiðhjólamenn séu það líka. Tala um að reiðhjólafólk geti auðveldlega tekið á sig krók. Að þú vorkennir þeim það ekkert. Á sama tíma leggurðu ofuráherslu á að gangstéttum sé ekki lokað. Hversvegna eru gangandi vegfarendur svona mikið rétthærri en hjólafólk í þínum huga? Og hversvegna er þér svo annt um að hraðatakmarkanir ættu að vera í gildi fyrir reiðhjól? Ég held að öllum sé það ljóst að persóna á reiðhjóli fer frekar hægt í umferðinni. Þannig að of mikill hraði reiðhjóls ætti ekki að vera vandamál svo lengi sem að reiðhjólamaðurinn tekur tillit til annara í umferðinni. Maður á reiðhjóli fer sjaldan hraðar en 35 til 40 km hraða á klukkustund við bestu aðstæður. Að mínu mati er sá hraði ekki vandamál í umferðinni. Ég geri mér grein fyrir því að það er mögulegt að hjóla hraðar en þetta en mér finnst það ekki koma málinu við þar sem að við erum að ræða um hjólreiðar í umferð. Þar er hraðinn sjaldnast meiri en þetta.
Gunnar Runolfsson (IP-tala skráð) 27.11.2014 kl. 12:26
Sæll vertu aftur. Nú ertu búinn að snúa því á haus sem ég upphaflega fjallaði um sem var m.a. hversu grunnhyggnar framkvæmdirnar voru (og þá m.t.t. vörulosunar) og því sem haft var eftir hjólreiðamanninum í fréttinni.
Aukinheldur sagði að ég að það væri skásti kosturinn af þremur að teppa hjólastíg tímabundið, frekar en gangstétt eða akbraut, en sagði ekkert um að það væri í lagi. Ef enginn væri "hjólastígurinn" þá væri mögulega bílastæði sem hægt væri að leggja í án óþæginda fyrir alla vegfarendur.
Þú segir í teksta þínum að það sé ólöglegt að aka yfir óbrotna línu og þar af leiðandi ekki hægt að stöðva úti á götu til að lesta og aflesta bílana.
Hvað akstur yfir óbrotna miðlínu varðar, var málið að benda á, vegna tillögu hjólreiðamannssins að leggja út á götu við vöruafhendingu, að við það mundi umferð teppast um ótiltekinn tíma. Slíkt er enda ólöglegt (eins og þú hefur réttilega bent á og við sammála um) og engir ökumenn fara nú að brjóta lög vegna þess að verið væri að afhenda vöru á akrein, eins og við vitum. :-)
Á stað eins og Hverfisgötunni ættu öll aðföng að vera keyrð út utan álagstíma á morgnanna og síðdegis. Að tala um að það sé ekki hægt vegna þess að allt sé lokað utan álgstíma er ómarktækt. Ekkert er því til fyrirstöðu að keyra út vörum eftir að morgun umferð er um gar gengin og áður en að eftirmiðdagtörnin hefst.
Útkeyrsla í miðborginni er einmitt ekki framkvæmd á álagstímum öllu jöfnu, heldur á milli 9 og 11 á morgnana. Ég hef unnið við útakstur og með sendibílstjórum sem þangað eiga leið og þetta var verklagið þegar kemur að miðborginni. Reykjavíkurborg mælist líka til þess að vörulosun eigi sér ekki stað á milli 11-18 á virkum dögum.
Sjá síðustu blaðsíðu í Þróunaráætlun Reykjavíkur frá árinu 2000: http://reykjavik.is/sites/default/files/samgongur.pdf
Hversvegna eru gangandi vegfarendur svona mikið rétthærri en hjólafólk í þínum huga?
Gangandi vegfarendur eru rétthærri samkvæmt umferðarlögum, sjá tilvísun í athugasemd nr. 13, einnig 26.gr. umferðarlaga um sérstakar skyldur [ökumanna] gagnvart gangandi vegfarenduma. Þetta er ekki bara í mínum huga. :-)
Maður á reiðhjóli fer sjaldan hraðar en 35 til 40 km hraða á klukkustund við bestu aðstæður. Að mínu mati er sá hraði ekki vandamál í umferðinni.
Reiðhjól á 35-40 km hraða í almennri umferð er ekki vandamál ef umferðin er á þeim hraða. Á hraðari akbrautum, mjóum vegum, og út á þjóðvegum í mikilli umferð er þetta vandamál. Ef farið er um á reiðhjóli á 35-40 km hraða meðal gangandi vegfarenda á gangstétt (eða merktum "hjólastíg" sem er samtengdur gangstétt) eða gangstíg, er slíkt stórhættulegt þeim sem gangandi eru, jafnt sem hjólreiðamanninum. Þess vegna nefndi ég hvort engin hámarkshraði væri á "hjólareiðastíg", sem (til að að fyrirbyggja allan útúsnúning) ég taldi á þeim tíma að væri skilgreindur í lögum. :-)
Erlingur Alfreð Jónsson, 27.11.2014 kl. 18:58
Ok! Þannig að fyrsta færsla þín fjallaði um það hversu grunnhyggnar framkvæmdirnar eru. Jú ég sé það þegar að ég les þetta yfir aftur að þú minnist á það. En það drukknar bara alveg í öllum hnýtingum þínum út í hjólreiðamenn. Þannig að við fyrsta lestur fór þetta algerlega fram hjá mér. Ef að við skoðum aðeins hvort að þessar framkvæmdir séu í raun grunnhyggnar. Eða hugsanlega hluti að framsýnni breytingu á umferðarmannvirkjum Reykjavíkur.
Þegar að maður skoðar myndirnar frá hjólreiðamanninum þá er það augljóst að lang flestir bílanna eru stopp þarna vegna lestunar/losunar. Hjólreiðamaðurinn er þarna á ferðinni til eða frá vinnu. Nú veit ég auðvitað ekki vinnutíma hans en vel að gefa mér það að hann vinni á hefðbundnum vinnutíma og sé á ferðinni á milli 7 og 8 á morgnanna og svo aftur á milli 4 og 5 um eftirmiðdaginn. Hvort að ég hef rétt fyrir mér hér finnst mér í raun ekki skipta máli. Þessar myndir sýna þar af leiðandi að vörur eru keyrðar út á álgstímum á Hverfisgötu.
Einnig sér maður, á flestum myndanna, að lögleg bílastæði eru til staðar örskammt frá þeim stað sem að bílarnir eru stöðvaðir. Jafnvel bara hinu megin götunnar. Þannig að það eina sem að til þarf er að skipulegja útkeyrsluna örlítið betur. Bara með því að aka götuna í hina áttina og stöðva bílinn í bílastæði. Að auki eru bílastæði við Hverfisgötuna í þar til gerðum bílastððum til hliðar við götuna sem að auðveldlega er hægt að nota í þessum erindagjörðum. Það krefst, auðvitað í mörgum tilfellum, að þeir sem eru að reka erindi þurfa að ganga örlítinn spöl. Ég sé það ekki sem vandamál.
Í sambandi við hraða á reiðhjólum þá tók ég það fram, sérstaklega, að þessi hraði sem að ég nefndi væri við bestu aðstæður. Að hjóla á gangstétt er ekki "við bestu aðstæður" þar af leiðandi er hraði reiðhjóls þar ávallt mun, mun lægri. Ég hjóla sjálfur flesta daga til vinnu. Ég hjóla 10 km leið að öllu leiti á götum eða hjólastígum. Á góðum degi næ ég að halda 22 km meðalhraða. Þannig að eftir minni meiningu er of mikill hraði á reiðhjólum ekki vandamál í umferðinni og kallar ekki á takmarkanir þar að lútandi. Það sem er vandamál í umferðinni er skortur á tillitssemi. Það á við alla hópa sem í umferðinni eru. Ef að allir taka fullt tillit til annara í umferðinni þá hverfa öll vandamál eins og dögg fyrir sólu.
Það sem að þú nefnir "þriðja kostinn" við að stöðva bíla á Hverfisgötu er ekki valkostur. Bílstjórar verða að skilja það að ef að ekki er pláss til að stöðva bílinn á akbrautinni þá er það ekki valmöguleiki að stöðva á þeim stað. Bílstjórinn verður þá að finna sér bílastði í nágrenninu sem að hann getur nýtt sér eða að finna sér betra pláss á götu til að stöðva til að lesta eða aflesta. Aðrir valmöguleikar eru einfaldlega ekki fyrri hendi.
Það að leggja hjólastíga meðfram götum í þéttbýli er einfaldlega fullkomlega rökrétt aðferð til að skilja að mismunandi gerðir umferðar. Til hagræðingar fyrir flesta. Öryggi hækkar fyrir ALLA í umferðinni þar sem að blöndun umferðar hverfur. Þetta hefur að sjálfsögðu í för með sér að það er þrengt að bílum á stððum þar sem að ekki hefur verið gert ráð fyrir þessu í upphafi. En það breytir því ekki að svona framkvæmd er hagkvæm. Sama hvort að hún sé skoðuð út frá öryggissjónarmiðum eða því hvort að hún sé samfélagslega hagkvæm. Þetta er win-win situation.
Gunnar Runolfsson (IP-tala skráð) 1.12.2014 kl. 09:37
Það var reyndar haft eftir hjólreiðamanninum í fréttinni að leggja ætti út á götu þegar verið væri að afhenda vöru, og ég var einungis að benda á það viðhorf.
Og svo finnst honum þetta til fyrirmyndar: https://twitter.com/gudmkri/status/537559026150932480, sennilega af því það teppir ekki hans för, en hins vegar er óbrotin lína á götunni sem ekki má aka yfir, utan einnar bíllengdar sem vitanlega er ekki nóg til að fara löglega fram úr. Þannig að honum finnst í lagi að brjóta lögin þegar það hamlar honum ekki! :-)
Svo endrtísti hann þessari ágætu færslu: https://twitter.com/CyclingWorksLDN/status/535350734930579458, sem dæmi um hvernig ætti að leggja sendibílum við vöruafhendingu, nema að þarna kemur líka ágætlega fram hvernig hægt er að skipuleggja götu þannig að hægt sé að leggja án þess að teppa umferðina. Því er hins vegar ekki til að dreifa á Hverfisgötuni. Það er grunnhyggið að mínu mati.
Þakka annars innlitið.
Erlingur Alfreð Jónsson, 1.12.2014 kl. 18:38
Þú ert ljómandi dæmi um einstakling sem að bendir á flísina í auga náunga síns, en sérð ekki bjálkann í þínu eigin auga. Það er ekki hægt að réttlæta eitt brot með því að benda á að annar hafi mælt með öðru broti. Ei skal böl bæta að benda á eitthvað annað.
Annars er ég hjartanlega sammála hjólreiðamanninum að ökumaður hvíta sendiferðabílsins er til fyrirmyndar. Miðlínan þarna er brotin og einnig er gatan augljóslega breyðari þarna sem að gefur möguleika fyrir bílstjóra að stöðva á þessum stað án þess að trufla umferðina mikið. Þetta sýnir augljóslega að auðvelt er að gera þetta á Hverfisgötu án vandræða.
Einnig las ég mér til um reglur í sambandi við óbrotna miðlínu á vegi. Í reglugerð 289/1995 segir um óbrotna miðlínu:
a. Óbrotin lína [(hindrunarlína)] [Rg. nr. 348/1998] (L11) sem gefur til kynna að hættulegt sé að aka yfir hana og óheimilt nema brýna nauðsyn beri til. Miðlína milli umferðar í gagnstæðar áttir á vegi með fleiri en tvær akreinar skal vera tvöföld (L12).
Það er sem sagt ekki ólöglegt að aka yfir óbrotna línu. Það er leyfilegt þegar að brýna nauðsyn ber til. Eins vil ég benda á að vegkanturinn á Hverfisgötunni er ómerktur. Það bendir til þess að þar sé leyfilegt að stöðva bifreiðar. Ef að óheimilt væri að stöðva væri vegkanturinn málaður í gulum lít.
Hjólreiðamaðurinn fer þar með rétt mál hér að mínu mati.
Gunnar Runolfsson (IP-tala skráð) 2.12.2014 kl. 08:13
Þarf þá núna ekkert að virða 27.gr. sem þú bentir á í athugasemd 12? :-)
Erlingur Alfreð Jónsson, 2.12.2014 kl. 08:36
Uhhhh!
Hvað bendir til þess að ekki þurfi að virða hana. Ökumaður hvíta sendiferðabílsins er til fyrirmyndar einmitt vegna þess að hann hefur þessa reglu í hávegum. Hann velur að stöðva ökutæki sitt þannig að það hafi í för með sér lágmarks truflun fyrir aðra umferð. Einn plús í kladdann hans! :)
Gunnar Runolfsson (IP-tala skráð) 2.12.2014 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.