Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013
#181. Vestrænir andófsmenn
30.7.2013 | 20:12
Þegar ég var yngri, töluvert yngri en ég er í dag, á tímum þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og löngu fyrir tíma internetsins, voru iðulega sagðar fréttir af mönnum eins og Andrei Sakharov. Hann var í fréttum sagður vera sovéskur andófsmaður. Ég minnist þess hve manni þóttu sovésk stjórnvöld miskunnarlaus á þessu tíma. Að halda manni nauðugum vegna skoðana sinna.
Hann var menntaður kjarneðlisfræðingur, sem tók að efast um stefnu Sovétríkjanna á 6. áratugnum og byrjaði á að vekja athygli sovéskra stjórnvalda á sjónarmiðum sínum, m.a. annars á útbreiðslu kjarnorku og prófun kjarnorkuvopna í andrúmsloftinu.
Hann fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1975 fyrir baráttu sína og lýsti Norska nóbelsverðlauna nefndin honum sem talsmanni samvisku mannkynsins" ("a spokesman for the conscience of mankind"). Hann fékk ekki að vera viðstaddur verðlaunaafhendinguna og síðar var honum haldið í útlegð í borginni Gorki, sem nú kallast Nizhny Novgorod, frá árinu 1980 til 1986. Hann fékk hjartaáfall og lést árið 1989, 68 ára að aldri.
Annar maður var Aleksandr Solzhenitsyn. Solzhenitsyn var rithöfundur og sagnfræðingur sem upplýsti umheiminn um sovéska Gulagið og vinnubúðakerfið, þar sem hann dvaldi sjálfur eftir að hafa verið dæmdur til vistar þar árið 1945.
Solzhenitsyn var rekinn frá Sovétrikjunum árið 1974 og sviptur ríkisborgararétti fyrir skrif sín um Gulagið og vistina þar. Hann dvaldi næstu 20 árin í Þýskalandi og Sviss en þó mest í Bandaríkjunum, eða 17 ár, þar til hann sneri aftur til föðurlandsins árið 1994, nokkru eftir fall kommúnsimans.
Hann dó árið 2008 níræður að aldri.
Óþarft er að nefna Nelson Mandela en hann var fangelsaður fyrir baráttu sína gegn aðskilnaðarstefnu suður-afrískra stjórnvalda, og sat í fangelsi í 27 ár vegna þess.
Eftir uppljóstranir Snowden og Manning hefur Bandaríkjastjórn staðið fyrir linnulausum áróðri gegn þeim og kært þá fyrir njósnir, en í dag sýknaði dómstóll Bradley Manning af ásökunum um að hafa aðstoðað óvininn. Voru Sakharov og Solzhenitsyn, og reyndar margir aðrir ónefndir samviskufangar, eitthvað öðruvísi en Snowden og Manning? Er staða Snowden og Manning í grunninn eitthvað frábrugðin stöðunni sem þessir menn voru í? Þeir hafa báðir staðið upp frá störfum sínum, vegna þess að þeim þóttu þeirra stjórnvöld ekki vera að gera rétta hluti, og ráðast m.a. gegn friðhelgi einkalífsins sem svo sterklega er haldið á lofti í heimalandi þeirra. Og er eitthvað rangt við það? Voru Sakharov og Solzhenitsyn ekki líka að vinna gegn óréttlæti sinna stjórnvalda? Er einhver munur á gjörðum þessara manna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#180. Getur líka farið að lögum!
30.7.2013 | 10:40
Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður segir að Landsbankinn hafi næg fordæmi til að endurreikna meginþorra gengislána bankans. Hann minnist hins vegar ekki á að bankinn hefur líka skýr lagafyrirmæli til að fara eftir í starfsemi sinni en eins og við vitum hafa stjórnendur bankans kosið að hundsa lög og dómafordæmi vegna þessara lána. Á því virðist ekki ætla verða breyting.
Það er líka rétt að benda á að flestir dómar sem hafa fallið eru í málum lögaðila, ekki venjulegra neytenda. Venjulegir neytendur eiga líklega betri rétt en lögaðilar við endurreikning vegna ákvæða neytendalánalaga sem kveða á um að fjármálastofnanir upplýsi neytendur um heildarlántökukostnað þegar lán er tekið. Fyrrnefnd lög kveða einnig á að upplýsi skuli neytendur hvernig lántökukostnaður geti breyst og við hvaða aðstæður. Lögin kveða líka að við samningsgerð sé gefin upp árleg hlutfallstala kostnaðar vegna lánsins. Sé ekkert af framangreindu gert er óheimilt að innheimta lántökukostnað sem breytir árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Engir dómar sem hafa fallilð hafa vegna gengistryggðra lána hafa tekið á þessu atriði laganna sem sett var inn til að uppfylla tilskipun Evrópusambandsins um ólögmæta viðskiptahætti. Evrópudómstóllinn hefur fellt úrskurð um túlkun á þessu ákvæði í máli C-76/10. Að mínu mati hefði verið hægt fyrir löngu síðan að ljúka flestum þessara mála með skoðun þessara laga og miða alla innheimtu við upphaflegar greiðsluáætlanir lána. Þessi dómstólaleið er alltof seinfarin og torsótt enda eiga flestir neytendur ekki auðvelt með að leggja út fyrir lögmannskostnaði vegna dómsmáls.
Þess ber líka að geta að Landsbankinn hefur líka hundsað tilmæli Fjármálaeftirlitsins frá 12.apríl þess efnis að fjármálastofnanir upplýsi viðskiptavini sína hvaða dómafordæmi eigi við um gengistryggð lán þeirra.
Lögfræðideild bankans hefur líka hundsað mína ósk um tilvísanir í öll dómafordæmi sem mögulega gilda um mitt bílalán hjá bankanum. Óskin var sett fram í vor nokkrum dögum eftir að Fjármálaeftirlitið sendi fjármálastofnunum fyrrnefnt dreifibréf en ekkert svar hefur borist enn, og kemur líklega ekki.
Landsbankinn er í eigu landsmanna.
Getur endurreiknað flest gengislán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
#179. Píkuprósar og píkupistlar
19.7.2013 | 10:44
Fólk er dregið í dilka af ýmsum ástæðum. Sumir af því þeir eru dilkadragara ekki að skapi út af skoðunum sínum og athöfnum en aðrir af því þeir eru álitnir eitthvað öðruvísi eða óæðri t.d. vegna kyns eða kynþáttar. Karlar eru oft dregnir í dilka af konum sem finnst á kynsystur sínar hallað.
Viðbrögð konu einnar við nýjasta hefti Herðubreiðar er dæmi um slíkan dilkadrátt. Í frétt á Vísi.is er haft eftir konunni að heftið sé hrútasamkoma og spyr hún "hrútana" hvernig þeir geti tekið þátt í slíkri samkomu. Hún bendir á, líklega réttilega, að heftið sé fullt af greinum, prósum, eftirmælum og ritdómum, og aðeins 1 pistillinn, ritdómur, sé eftir konu. Af orðum hennar merki ég að ekki hafi verið haft fyrir því að fá konur til að skrifa merkilegri texta en ritdóm einn.
Nú hef ég aldrei lesið Herðubreið, hef ekki aðgang að blaðinu og sækist ekki eftir honum og veit ekki hvort þetta sé venjubundin kynjaskipting við skriftir í Herðubreið. Og mér er satt að segja slétt sama. Mér er líka slétt sama hvað þessir 10 karlar hafa skrifað í Herðubreið. Ég styð ekki Samfylkinguna. En ég er orðinn hundþreyttur á "jafnréttishjali" þeirra kvenna sem telja að konur eigi að hafa meiri rétt en karlar af því þær séu konur. Það er ekki jafnrétti. Það er merki um minnimáttarkennd kvennanna og mati þeirra að konur geti ekki komist áfram á eigin verðleikum. Fyrir mér standa konur og karlar jöfn, og eiga að hafa sama rétt til orða og athafna eins og þeim lystir til. Ekki á að þrýsta á eða þvinga konur til að gera eitthvað sem þær langar ekki til að gera bara af því að örfáum aðilum þykir þörf á að uppfylla einhvern kynjakvóta. Ef konur hafa áhuga á að birta pistla og prósa í Herðubreið held ég að þær geri það bara.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)