#53. Kristinn H. og gengistryggingin

Enn á ný ritar Kristinn H. Gunnarsson á vef sínum um að sanngjarnt sé að verðtrygging verði reiknuð á áður gengistryggða neytendalánasamninga.  Vísar hann í nýgenginn dóm Héraðsdóms Reykjaness og telur að almennir lántakendur séu jafnsettir og sveitarfélagið Álftanes, sem atvinnurekandi sem fékk dæmt til að greiða verðbætur á áður óverðtryggðan samning.  Sama eigi að gilda í stöðu almennra lántakenda og lánastofnana að mati Kristinns.

Nú er það svo að 36.gr.samningalaga var breytt 1995 til að vernda neytendur fyrir óréttætum samningsskilmálum, eins og Hæstiréttur dæmdi þ.16.júní um gengistryggingu. Var bætt inn fjórum liðum a-d almennum neytendum til hagsbóta.  Ákvæði 36. gr. a-d gilda um samninga, m.a. samningsskilmála, sem ekki hefur verið samið um sérstaklega enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda, sbr. þó 36. gr. d.  Í c-lið 36. gr. segir að samningur skuli gilda að öru leyti án breytinga að kröfu neytanda, verði hann efndur utan hins óréttmæta skilmála.  Þingmaðurinn fyrrverandi var í hópi þeirra þingmanna sem samþykkti fyrrgreindar  breytingar á lögum um samningsgerð.

Almennir lántakendur eru ekki jafnsettir og atvinnurekendur eða opinberir aðilar.  Atvinnurekendur og opinberir aðilar hafa að öllu jöfnu á sínum snærum sérmenntað fólk til að verja fjárhagslega hagsmuni, sem í flestum tilfellum eru verulegir og með öllu ósambærilegir við hagsmuni neytenda.  Er sérstaklega gert ráð fyrir kostnaði vegna slíkrar ráðgjafar í rekstri þessara aðila.

Hinn almenni lántakandi hefur ekki aðgang að slíkri sérfræðiráðgjöf nema gegn þóknun.  Hún er í flestum tilfellum ekki ódýr.  Í annan stað eru neytendasamningar einhliða samdir af lánveitendum og óumsemjanlegir að öðru leyti en sem nemur lánsfjárupphæð og lengd lánstíma.  Það er skylda ríkisvaldsins að sjá til þess að í slíkum neytendasamningum séu ekki óréttmætir samningsskilmálar.  Það er sérfræðiráðgjöfin sem neytendur eiga rétt á að kostnaðarlausu.

Kristinn H. Gunnarsson veður villur vegar þegar hann heldur því fram að lántakendur eigi að bera fullu á byrgð á því tjóni sem varð af ólögmætum samningsskilmálum um gengistryggingu.  Það eru stjórnendur lánastofnana sem eiga bera ábyrgð á þeim skaða, ekki neytendur.


#52. Laaangsóóótt túlkun á EES-samningnum.

Stöð 2 skýrði frá því í fréttum í gærkvöld að samkvæmt lögfræðiáliti stórrar lögfræðistofu fyrir fjármögnunarfyrirtæki, sem hvorugt mætti nafngreina, væri bann við gengistryggingu íslenskra lána við erlendar myntir mögulega talið brot á 40.gr. EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.  Vísir.is skýrði svo frá því að um væri að ræða Lögmannstofuna Logos annars vegar og Lýsingu hinsvegar.  Í minnisblaði Logos segir að með túlkun héraðsdóms sé í raun komist að þeirri niðurstöðu að lánveitanda sem vilji lána í erlendum myntum hér á landi sé óheimilt að gengisbreyta láninu áður en það er greitt út og innheimta það í íslenskri mynt. Því sé í raun verið að leggja kostnað og fyrirhöfn á lántaka fyrir það eitt að taka erlent lán. Með því sé veiting erlendra lána gerð erfiðari og minna aðlaðandi fyrir lánveitendur og það sé öllum líkindum brot á 40. gr. EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns. 

Þessi túlkun á 40.gr. er að mínu mati mjög langsótt, en tek þó fram að ég er ekki löglærður maður. 

EES-samningurinn er að mínu viti fyrst og fremst milliríkjasamningur.  Markmið hans er að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði sem nefnist EES.  Ákvæði hans eiga því að tryggja rétt aðila yfir landamæri og samræma löggjöf og framfylgni slíkrar löggjafar á milli aðildarríkja, sem eitt sé. 

40.gr. EES samningsins hljóðar svo: „Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Í XII. viðauka eru nauðsynleg ákvæði varðandi framkvæmd þessarar greinar."

Takið eftir: Engin höft á milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra eða því hvar féð er notað til fjárfestingar!  Ég tel að átt sé við haftalausa fjármagnsflutninga á milli samningsaðila í aðildarríkjum EB og EFTA!  Ekki á milli samningsaðila innan eins og sama ríkis.  Af hverju ætti líka að vera þörf á höftum á milli samningsaðila innan sama ríkis undir sömu þjóðarlöggjöf?  Þessi túlkun Logos stenst illa skoðun að mínu mati.  Með EES-samningnum er verið að koma í veg fyrir að höft sé á fjármagnsflæði á milli ríkja á EES-svæðinu.   Hér er sem sagt átt við það sem kallast í raun milliríkjaviðskipti með fjármagn og að slík viðskipti eigi að vera haftalaus. 

Hvað téð gengistryggð neytendalán varðar var ekki um flutning fjármagns á milli aðildarríkja að ræða.  Innlendir aðilar lánuðu innlendum aðilum fé vegna bifreiða- eða íbúðakaupa.  Hvar bankarnir fjármögnuðu sig til þessa verkefnis er aukaatriði í viðskiptasambandi lánastofnunar og neytanda.  Bankarnir fjármögnuðu sig á erlendum markaði að hluta til, einmitt undir formerkjum nefndrar 40.gr. að mínu mati.  Frekar má segja að gjaldeyrishöftin séu brot á 40.gr. samningsins heldur en gengistrygging höfuðstóls og afborgana lána á milli innlendra aðila.

Gengistrygging neytendaláns er ekki lögleg vísitölubinding í lánasamningi milli neytenda og lánastofnunar á Íslandi, og það kemur 40.gr. EES-samningsins ekkert við.


#51. Óásættanleg staða í sjúkraflugi

Það er ekki lengra síðan en vika að ég nefndi í bloggfærslu að það væri bara tímaspursmál hvenær ekki verður hægt að sinna útkalli vegna áhafnaskorts.   Í sömu bloggfærslu nefndi ég að í landinu væru sjálfstæðir þyrlurekendur sem gætu hugsanlega sinnt einhverjum útköllum sem nú er sinnt af Landhelgisgæslunni, þar á meðal sjúkraflugi sem ekki krefst hífingarvinnu. 

Þyrla NorðurflugsNorðurflug hf. er einn slíkur og hefur yfir að ráða þyrlu sömu tegundar og stærðar og var um árabil verið notuð við sjúkraflug og björgunarstörf við Íslandsstrendur. 

Landhelgisgæslan skilaði nýlega leiguþyrlu af sömu gerð til eiganda síns þar sem ekki var til fjárframlag til að framlengja leigusamning hennar.

Á mánudagskvöldið komu 3 útköll og voru veðuraðstæður í Grímsey það slæmar að það þurfti þyrlu frá Landhelgisgæslunni til að sinna útkallinu.  Nú er auðvelt að vera vitur eftir á en hefði þarna verið möguleiki að senda sjúkraflugvél/þyrlu á Höfn eftir manninum í Öræfunum en þyrluna strax til Grímseyjar?  Veðurskilyrði á Suðurlandi voru mun betri en í Grímsey og því ekki eins takmarkandi fyrir aðra en Landhelgisgæsluna.

Ég tel eðlilegt að í þeim fjárskorti sem nú hrjáir Landhelgisgæsluna að skoðað sé að  gera þjónustusamning við aðra þyrluflugrekendur um einfaldari sjúkraflugsvinnu þegar þyrlur Landhelgisgæslunnar eru ekki til staðar.  Þessi staða er með öllu óásættanleg.


mbl.is Slasaður maður var látinn bíða alla nóttina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband