"50. SP-Fjármögnun hf. var gjaldþrota!
15.8.2010 | 18:14
Í bloggfærslu þ. 12. ágúst velti ég upp þeirri spurningu hvort dótturfélag Nýja Landsbankans, SP-Fjármögnun, hafi í raun verið gjaldþrota í árslok 2008. Í dag rakst ég á gamla frétt af mbl.is frá mánudeginum 12. janúar 2009 um fjárkröggur SP, frétt sem líklega fór framhjá mér og hugsanlega fleirum, á sínum tíma. Alla vega mundi ég ekki eftir að hafa séð hana. Fréttin staðfestir það sem ég held fram í pistlinum 12.ágúst sl.
SP-Fjármögnun hf. var í raun gjaldþrota um áramótin 2008-2009 og hefði átt að missa starfsleyfi sitt.
Í staðinn virðist Fjármálaeftirlitið hafa gefið SP undanþágu frá reglum um eiginfjárhlutfall þangað til Nýji Landsbankinn bætti við hlutafé. Hlutafé SP-Fjármögnunar hf. var aukið um 1080 milljónir á vordögum 2009, með niðurfellingu Nýja Landsbankans á skuldum fyrirtækisins, og verðið var 330 krónur á hverja krónu nafnverðs. Fyrirtækið virðist því hafa starfað á undanþágu Fjármálaeftirlitsins fyrstu 3-4 mánuði ársins 2009.
Á sama tíma og fyrirtækið óskaði eftir undanþágu Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall sitt, til að þurfa ekki tímabundið að fara eftir reglum um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis, stundaði það ólögmæta innheimtustarfsemi á lánssamningum viðskiptamanna sinna. Fyrirtækið fyrirskipaði einnig vörslusviptingar án atbeina sýslumanns og braut þar með lög og reglur um aðför og fullnusturéttarfar. Stjórnendum SP-Fjármögnunar hf. er, að því er virðist, eðlislægt að brjóta lög og reglur í starfsemi fyrirtækisins.
Hvað rifti fyrirtækið mörgum gengistryggðum samningum við viðskiptamenn sína á þeim tíma sem það starfaði á undanþágu FME, og vörslusvipti þá bifreiðum, sem samningur var um, án atbeina sýslumanns? Hver er ábyrgð Fjármálaeftirilitsins á þeim gjörningum?
Ég minni á bloggfærslu mína frá 24.júní sl., um eignaleiguna Lind hf., sem var í eigu Landsbankans, sem svo aftur var í eigu íslenska ríkisins. Íslenska ríkið á SP-Fjármögnun hf. að fullu í gegnum Nýja Landsbankann.
Sverrir Hermannsson, þá verandi bankastjóri Landsbankans, sagði í blaðaviðtali við Morgunpóstinn árið 1994 um starfsemi Lindar hf.: Lind hefur stórtapað, og bankinn á hundrað prósent í Lind svo tap fyrirtækisins er tap bankans."
Mikið var fjallað um málefni Lindar hf. í bankaráði Landsbankans á þeim tíma til að leita skýringa á tapi bankans og hvernig tryggja megi að slíkt endurtaki sig ekki í framtíðinni. Í janúar 1996 var lögð fyrir bankaráð ítarleg greinargerð um málið, en í þeirri skýrslu er leitast við að upplýsa og varpa ljósi á þær ákvarðanir og þá atburðarás sem leiddi til hins mikla taps fyrirtækisins. Skýring þess taps sem varð af starfsemi Lindar hf. er samspil margra þátta. Hluta skýringanna er að leita í þeirri megin hugmynd sem lá að baki starfrækslu félagsins. Hún var að fjármagna leigumuni án þess að taka aðrar tryggingar en í leigumununum sjálfum.
Aðdragandinn að örlögum Lindar hf. minnir óneitanlega á stöðu SP-Fjármögnunar hf. undanfarin misseri. Hvað er langt þar til SP fer sömu leið? Verður það í október, þegar Hæstiréttur dæmir um samningsvexti sbr. frétt Pressunnar? Og hvað munu margir tapa ofgreiddum greiðslum til fyrirtækisins þegar það gerist?
Ég geri hér orð Sverris Hermannssonar að mínum og segi: SP-Fjármögnun hf. hefur stórtapað, og Nýji Landsbankinn á hundrað prósent í SP-Fjármögnun hf. svo tap fyrirtækisins er tap bankans".
Tap bankans er tap eigenda hans, íslensku þjóðarinnar!
![]() |
SP vill undanþágu frá reglum um eigið fé |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#49. Var SP-Fjármögnun hf. gjaldþrota í árslok 2008?
12.8.2010 | 19:45
Ég hafði samband við Ríkisskattstjóra og óskaði eftir afriti ársreiknings SP-Fjármögnunar hf. fyrir árið 2008. Eintakið kostaði 2.350 kr. og var afhent á PDF formi eins og ég óskaði.
Ársreikningurinn er dagsettur 29. apríl 2009, sama dag og aðalfundur félagsins, og samþykktur af stjórn, en var þó ekki skilað til ársreikningaskrár fyrr en 7.apríl 2010. Þetta er heilu ári of seint því ársreikningi á að skila einum mánuði eftir samþykkt hans. Við lestur skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra kemur fram að mikið tap var á rekstri félagsins árið 2008, eins og við var að búast, eða 30,1 milljarður króna. Í skýrslunni kemur einnig fram að ársreikningurinn er endurgerð fyrri ársreiknings, sem samþykktur var 2.mars 2009. Ástæðan er að fram komu upplýsingar, eftir samþykkt fyrri ársreiknings, sem bentu til þess að mat útlánasafns félagsins væri of hátt og því þurfti að auka gjaldfærslu í ársreikningi sem því nam. Hvaða upplýsingar það voru kemur ekki fram. Þetta er hins vegar áhugaverður vinkill því slitastjórn var ekki skipuð yfir Landsbankanum fyrr en 29.apríl 2009, eða sama dag og endurgerður ársreikningur SP-Fjármögnunar hf. var samþykktur á aðalfundi félagsins. Þann 17. apríl 2009 kemur Marinó G. Njálsson fram með það álit sitt að gengistrygging lána sé ólögmæt. Hvaða upplýsingar höfðu stjórn eða endurskoðendur SP-Fjármögnunar hf. á tímabilinu 2.mars til 7. 17. apríl, um virðisrýrnun útlánasafnsins, sem leiddi til þess að endurgera þurfti ársreikning félagsins? Í áritun óháðs endurskoðanda á endanlega ársreikningnum kemur fram að fyrirvari um rekstrarhæfi félagsins hafi verið felldur niður. Var fyrri ársreikningur þannig áritaður með fyrirvara um rekstrarhæfi SP-Fjármögnunar hf. í árslok 2008? Var SP-Fjármögnun hf. í raun gjaldþrota 3 mánuðum eftir bankahrun?
Við endurgerðina kom fram að lögbundið eiginfjárhlutfall SP-Fjármögnunar hf. var neikvætt um 33,5% í lok ársins 2008, og hafði lækkað úr jákvæðu hlutfalli upp á 11,3% árið 2007! Lögbundið lágmark eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækis er 8%. Fyrirtækið var því órekstrarhæft og í raun gjaldþrota í árslok 2008, aðeins 3 mánuðum eftir bankahrun, og hefði átt að missa starfsleyfi sitt sem fjármálafyrirtæki. Ennfremur átti að tilkynna stöðuna til Fjármálaeftirlitsins um leið og stjórnendum eða endurskoðendum var hún ljós. Ekki veit ég enn hvort sú tilkynning var send en hef nýlega sent FME fyrirspurn þar að lútandi. Svar hefur ekki borist þegar þetta er ritað.
Þrátt fyrir þennan árangur félagsins virðist ekkert hafa dregið úr ágóðahlut framkvæmdastjórans fyrir árið 2008, en árstekjur hans jukust um tæp 900.000 kr. á milli ára, úr 36,6 milljónum í 37,5 milljónir. Er þetta þrátt fyrir rekstrartap félagsins upp á 30,1 milljarð á sama tímabili. Það verður athyglisvert að sjá árstekjur framkvæmdastjórans fyrir árið 2009.
Á hluthafafundi félagsins 13. mars 2009 var hins vegar ákveðið að auka hlutafé þess um 800 milljónir að nafnvirði. Var það nauðsynlegt til að halda SP-Fjármögnun gangandi enda eiginfjárhlutfall komið niður fyrir lögbundin mörk. Endurgjald Nýja Landsbankans fyrir hina nýju hluti var krafa bankans á fyrirtækið að upphæð 26.200 milljónir króna! Já: 26,2 milljarðar voru greiddir fyrir 800 milljóna kr. hlutafé með því að afskrifa lán!
Í ársreikningi Nýja Landsbankans fyrir árið 2009, og samþykktur var 8.apríl árið 2010 (daginn eftir að SP skilar ársreikningi fyrir árið 2008 til RSK), kemur fram að ljóst var .... vegna fjárhagslegrar stöðu SP-Fjármögnunar hf. í kjölfar efnahagshrunsins að nauðsynlegt var að endurfjármagna reksturinn félagsins og þar með að færa þyrfti 49 % minnihlutaeignina í SP-Fjármögnun hf. niður í núll.
Bankinn lítur svo á að hann hafi í raun keypt allan eignarhluann í SP-fjármögnun hf. þann 9. október 2008 og færir því ekki hlutdeild minnihluta í félaginu. Formlega var 49 % hluturinn sem eftir var í SP-fjármögnun hf. keyptur á hluthafafundi SP-fjármögnunar hf. þann 13. mars 2009."
Þá átti að leggja fyrir aðalfund félagsins 29.apríl 2009 að auka hlutafé SP-Fjármögnunar hf. um aðrar 280 milljónir, endurgjaldið: 9.170 milljónir króna, tæpir 9,2 milljarðar fyrir 280 milljónir að nafnvirði!!!! Aftur var greiðslan í formi kröfu bankans á fyrirtækið.
Ég fæ ekki betur séð og skilið en að Nýji Landsbankinn hafi því í raun greitt 35,4 milljarða fyrir 1080 milljóna króna hlutafjáraukningu í SP-Fjármögnun hf. á vordögum 2009!
Tryggvi Þór Herbertsson hefur fullyrt að afskriftir lána Nýja Landsbankans hafi að einhverju leyti verið látnar ganga til SP-Fjármögnunar hf. og hvatti mig til að fá þetta staðfest hjá SP-Fjármögnun. Framkvæmdastjóri SP hefur ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum mínum þessu lútandi. Ég ynnti Tryggva álits á ofangreindri túlkun minni varðandi hlutafjáraukninguna og hann taldi þessar upplýsingar úr ársreikningi SP-Fjármögnunar hf. fyrir 2008 renna stoðum undir fullyrðingu sína á Pressunni.
Miðað við ofangreinda upptalningu hafa afskriftirnar farið fram í formi hlutafjáraukningar upp á 1 krónu fyrir hverja 3 aura nafnverðs, eða 330 kr. fyrir hverja krónu nafnverðs!!! Já, bankastjórn og þáverandi bankastjóri Nýja Landsbankanns, Ásmundur Stefánsson, greiddu 1 krónu fyrir að eignast 3 aura í auknu hlutafé SP-Fjármögnunar. Sennilega einhverjar óarðbærustu fjárfestingar Íslandssögunnar og er þá undanfari hrunsins ekki undanskilinn!!! Hvers vegna fyrirtækið var ekki lagt niður og leifarnar af lánasafninu færðar inn í Landsbankann veit ég ekki. En sá grunur læðist að manni að ástæðan sé þegar slæm eigin staða Nýja Landsbankans. Hér endurtekur sagan sig, því hérna er annað Lindarmál bara miklu stærra í þetta sinn. Nýji Landsbankinn ræður sennilega ekki við að taka við lánasafninu vegna slæmrar eigin stöðu, þar sem hann berst við að halda eiginfjárhlutfalli sínu yfir 16% viðmiði Fjármálaeftirlitsins. Lögbundið lágmark er hins vegar 8%.
SP-Fjármögnun hf., sem ekki enn hefur skilað ársreikningi fyrir 2009, er að fullu í eigu Nýja Landsbankans sem er að fullu í eigu ríkissjóðs. Þjóðin á sem sagt SP-Fjármögnun hf., fyrirtæki sem rifti og gjaldfelldi ólögmæta lánasamninga sökum meintra vanskila og olli gífurlegu tjóni, jafnvel gjaldþroti, hjá fyrirtækjum og einstaklingum með ólögmætum vörslusviptingum og innheimtuaðferðum. Það er tjón sem aldrei mun fást bætt. Fyrirtækið starfar enn með blessun FME og sami framkvæmdastjóri hefur stýrt því frá stofnun þess.
Sá situr enn sem fastast og heldur við svikamyllunni, sem hann kom á fót á liðnum árum. Framkvæmdastjórinn skuldar, að mínu mati, þjóðinni ágóðahlut sinn af ólögmætri starfsemi, svikum og prettum á undanförnum árum og á að endurgreiða, það sem ég vil kalla illa fengið fé, strax!
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt 29.8.2010 kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#48. Hvíldartími þyrluáhafnar
11.8.2010 | 10:58
Þetta verður örugglega ekki eina dæmið þar sem þyrluaðstoðar er óskað en ekki er hægt að sinna henni vegna áhafnaskorts. Það er grafalvarlegt að Landhelgisgæslan sé í þeirri stöðu að geta ekki sinnt útkalli rétt suðvestur af Keflavíkurflugvelli vegna þess að vaktartími áhafnarinnar er búinn. Flugtími að skipinu Aþenu og til baka til Reykjavíkur er sennilega tæpur klukkutími með hífingu sjúklings í þyrluna. Það er ekki boðlegt að þjóðin og gestir hennar þurfi að lifa við svona lélega björgunarþjónustu! Nú veit ég ekki hvað áhöfnin var búin að gera um daginn en hugsanlega má spyrja hvort það sé nauðsynlegt að flugmenn á ríkisreknum björgunarþyrlum þurfi að hlýða flugvaktartímareglum hönnuðum fyrir flugrekendur á samkeppnismarkaði. Hafa þarf þó flugöryggi í huga þegar þetta er rætt en mér finnst vel koma til álita að gefa Landhelgisgæslunni undanþágu frá slíkum reglum enda sé það gert í ljósi almannahagsmuna. Það er einfaldlega ekki boðlegt að mikið veikt eða slasað fólk þurfi að vera í lífshættu vegna áhafnaskorts björgunaraðila. Við höfum þyrlurekendur í landinu sem hugsanlega geta sinnt einhverjum verkefnum sem þyrlur Landhelgisgæslunnar eru annars að sinna s.s. sjúkraflutningum sem ekki krefjast hífingarvinnu og ýmsum smærri verkefnum fyrir opinberar stofnanir. Þær þyrlur eru mun ódýrari á hvern flugtíma en stóru þyrlur Landhelgisgæslunnar.
Því miður er útlit fyrir að mannslíf þurfi að glatast áður en bragarbót verður gerð á hag Landhelgisgæslunnar. Ég vona að svo verði þó ekki.
![]() |
Sóttu tvo menn út á sjó í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)