#193. Hverjir eiga í raun gömlu bankana?
23.4.2014 | 09:50
Það er alltaf skoplegt að sjá umræðu um að erlendir kröfuhafar eigi Íslandsbanka og Arion banka. Reyndin er sú að Glitnir og Kaupþing eiga þá, og þessi hlutafélög eru enn í eigu hluthafa, en er einungis stýrt af slitastjórn í umboði FME.
Í lögum um fjármálafyrirtæki segir í 103.gr.a.:
[103. gr. a. Lok slitameðferðar.
1. að láta fyrirtækið aftur í hendur hluthafa eða stofnfjáreigenda ef fundur þeirra sem slitastjórn hefur boðað til hefur samþykkt með atkvæðum þeirra sem ráða yfir að minnsta kosti 2/3 hlutum hlutafjár eða stofnfjár að fyrirtækið taki upp starfsemi á ný og kjörin hefur verið ný stjórn til að taka við því úr höndum slitastjórnar, enda hafi Fjármálaeftirlitið veitt samþykki sitt til þess og fyrirtækið fullnægir öðrum skilyrðum laga til að hefja aftur starfsemi, eða
2. að greiða hluthöfum eða stofnfjáreigendum út eignarhlut þeirra af eftirstöðvum eigna samkvæmt frumvarpi til úthlutunar sem gert skal eftir ákvæðum XXII. kafla og 5. þáttar laga um gjaldþrotaskipti o.fl., en sé um sparisjóð að ræða skal þó eignum, sem standa eftir að lokinni greiðslu stofnfjárhluta, varið eftir samþykktum hans og er óheimilt að ráðstafa þeim til stofnfjáreigenda 1)
Ljúka má slitameðferð samkvæmt því sem segir í 1. tölul. 1. mgr. þótt ekki sé lokið greiðslu allra viðurkenndra krafna ef þeir kröfuhafar sem hafa ekki enn fengið fullnustu samþykkja það.
......
(Feitletranir eru mínar.)
Verði raunin sú að að erlendir kröfuhafar gangi að nauðasamningum eins og þeim sem lýst er í fréttinni, þ.e. greiðar 354 krónur fyrir eina evru, fara bankarnir líklega ekki í gjaldþrot. Ef slitameðferð lýkur með nauðasamningum fá hluthafar félögin aftur í hendur og menn eins og Sigurður Einarsson, Hreiðar Már og Jón Ásgeir eru aftur komnir með banka í hendurnar, vegna þess að enginn erlendur aðili hefur tekið yfir eignarhlut í fjármálafyritæki eftir hrun vegna þess að hann sé kröfuhafi. Fyrir því eru ekki lagaheimildir. Hlutafé Glitnis eða Kaupþings hefur ekki verið fyrnt eða aukið þannig að formlegt eignarhald hafi færst á erlenda kröfuhafa. Þeir hafa engin hlutabréf undir höndum. Fjármálaeftirlitið tók einungis yfir vald hluthafafundar og enginn hluthafi sem átti hlut í Glitni eða Kaupþingi fyrir hrun hefur tapað hlut sínum, sem þó á þessu stigi er verðlaus eðli málsinis samkvæmt. Handhafi hlutabréfs á því enn hlut í þeim sem hllutabréfinu nemur. Ef Glitnir og Kaupþing fara ekki í gjaldþrotameðferð, ber annað hvort að láta þau aftur í hendur hluthafa, ekki erlendra kröfuhafa, eða slíta þeim og greiða út hlutafjáreign til hluthafa í hlutfalli við eignarhlut með þeim eignum sem standa eftir nauðasamninga, ef einhverjar eru.
Það sætir furðu minni að ríkisskattstjóri forskrái ekki á skattaskýrslu hlut í almenningshlutafélagi sem er í fullum rekstri, þó hluturinn sér verðlaus, né geri athugasemdir ef hluthafi tilgreinir ekki slíkan hlut.
Er nema von að ég spyrji: Hverjir eiga í raun gömlu bankana?
![]() |
Selji gjaldeyriseignir á 354 krónur gegn evru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
#192. Aftur tapar Lýsing, en....
30.8.2013 | 20:24
Enn fellur dómur í málum Lýsingar þar sem fyrirtækið lætur í minni pokann gagnvart neytendum vegna gengistryggðs lánasamnings. Það sem veldur mér þó vonbrigðum í þessu máli, sem og öðrum, er að ekki er að mínu mati byggt nægilega vel á ákvæðum neytendalánalaga um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Af þeim sökum tekur dómarinn ekki afstöðu til þessara atriða í dómsorði. Þó er rétt að benda á að konan byggir á 14.gr. neytendalánalaga, en vill ekki byggja á greiðsluáætluninni sem fylgdi samningnum, er þar koma fram umsaminn heildarlántökukostnaður og árlega hlutfallstala kostnaðar, atriði sem ég tel takmarkandi við innheimtu þessara samninga. 2.mgr.14.gr. neytendalánalaga segir nefnilega að "lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar."
Nú veit ég ekki hver upphaflegur heildarlántökukostnaður var í þessu máli né hversu há heildargreiðsla konunnar var áður en hætt var að greiða, þar sem þessar upplýsingar koma ekki fram í dómsorði. Þess vegna er ekki mögulegt að meta hver áhrif dómsins eru miðað við upphaflegu forsendurnar, þ.e. hversu mikið upphaflegur heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala hækka vegna niðurstöðunnar. Mig grunar þó sterklega að hækkunin sé nokkur. Upphafleg samningsfjárhæð var 5.357.410 kr. og miðað við árlega hlutfallstölu kostnaðar upp á 5,79% er ekki óvarlegt að áætla upphaflegur heildarlántökukostnaður hafi verið uppgefinn eitthvað umfram 6 milljónir kr.
Hvernig hægt er með dómi að dæma neytanda til að greiða meira en hann samdi um í upphafi og hækka atriði sem mega ekki hækka lögum samkvæmt, er mér hulin ráðgáta. Ennfremur hvers vegna lögmenn beita ekki í ríkari mæli þessum atriðum um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar sem takmarkandi atriða við uppgjör þessara samninga fyrir dómstólum skil ég ekki heldur. Ef lánveitandi upplýsti neytanda um þessi atriði við samningsgerð eiga þau að vera takmarkandi við ákvörðun niðurstöðunnar og enginn önnur. Það er líklega í eina sinnið þar sem báðir aðilar voru að fullu upplýstir og sammála um hvað samningurinn ætti að kosta.
![]() |
Kröfum Lýsingar vísað frá dómi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#191. Lýsing hf. ætlar ekki að eiga frumkvæði að leiðréttingum.
23.8.2013 | 20:24
Ég birti hér á blogginu þ.22.ágúst grein sem að birtist í Morgunblaðinu þann sama dag um rétt viðskiptavina Lýsingar í kjölfar Hrd. 672/2012.
Þennan sama dag var Lýsingu sent erindi sem ég samdi fyrir viðskiptavin Lýsingar vegna bréfs sem Lýsing sendi viðskiptavinum sínum í kjölfar ofangreinds dóms þar sem Lýsing biður þá viðskiptavini sem töldu sig hafa samið um betri lánskjör en buðust á markaði að senda skriflega athugasemd fyrir 1.september. Í bréfinu sem Lýsing fékk var sjónarmið viðkomandi viðskiptavinar tilgreint ásamt útreiknaðri endurgreiðslukröfu sem Lýsingu var gefin kostur að greiða ekki síðar en 1.september ella yrði hún send til innheimtu.
Lýsing svaraði bréfinu með eftirfarandi tölvupósti, (allar feitletranir eru mínar):
Ágæti viðskiptavinur.
Lýsing hf. hefur móttekið umsókn þína um leiðréttingu bílasamnings.
Lýsing hefur vakið athygli viðskiptavina sinna á dómi Hæstaréttar í máli nr. 672/2012 vegna samnings sem var að hluta gengistryggður og að hluta í íslenskum krónum. Þar kom fram að ákvæði samningsins um lánakjör væru ekki nógu skýr gegn mótmælum lántaka. Þar sem samskipta- og greiðslusaga viðskiptavina, auk breytingar á skilmálum með nýjum samningsskilmálum, benda til að atvik geti verið mismunandi hefur Lýsing vakið athygli viðskiptavina á framangreindu og beint til þeirra að óska eftir leiðréttingu telji þeir tilefni til.
Til að umsókn um leiðréttingu á grundvelli áðurnefnds dóms geti talist fullnægjandi þarf að koma fram skýr yfirlýsing viðskiptavinar þess eðlis að hann telji sig hafa, á grundvelli samningsskilmála bílasamningsins, samið um lægri kjör en markaðskjör á þeim hluta samnings sem frá upphafi var í íslenskum krónum.
Vinsamlegast staðfestu með svarpósti að ofangreint sé skilningur þinn, en í framhaldinu mun Lýsing skoða athugasemd þína með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og gildandi lögum.
Með kveðju,
Þjónustuver Lýsingar hf
Ármúla 3, 108 Reykjavík
Sími: 540 1540 / fax 1505
www.lysing.is
thjonustuver@lysing.is
Af ofangreindu verður ekki annað ráðið en Lýsing muni ekki leiðrétta lánasamninga hjá viðskiptavinum sem ekki senda inn skriflega athugasemd, og þá því aðeins ef sömu viðskiptavinir lýsa því yfir að þeir hafi samið um lægri kjör en markaðskjör á þeim hluta samnings sem var í íslenskum krónum. Hver tilgangur þessa er óskiljanlegur þegar samningurinn var einhliða að fullu og öllu leyti saminn af starfsfólki Lýsingar sem á að búa yfir sérþekkingu á fjármálagjörningum. Lýsingu ber skilyrðislaust að skila ofteknum greiðslum sem ranglega hafa verið hafðar af viðskiptavinum, eins og fyrirtækið hefur verið dæmt til að gera í Hrd. 672/2012.
Þá er einnig óskiljanlegt hvers vegna eftirlitsaðilar grípa ekki inn í og stöðva framferði Lýsingar og gera þeim skylt að fara eftir dómafordæmum og landslögum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)