#190. Opið bréf til FME: Eru viðskiptavinir Lýsingar að renna út á tíma?
22.8.2013 | 12:35
Eftirfarandi færsla birtist í Morgunblaðinnu í dag 22. ágúst. Við vinnslu greinarinnar fyrir sendingu til blaðsins misritaðist tilvísun í lög um vexti og verðtryggingu í annarri spurningu til FME og er það leiðrétt í pistilinum hér á eftir. Þau mistök eru mín. Einnig þurfti að stytta greinina lítillega fyrir birtingu í Morgunblaðinu þar sem lengd greina takmarkast við 5.000 slög. Greinin er hér í óstyttri útgáfu.
----------------------------------------------------------------------------------------------------
Frú Unnur Gunnarsdóttir forstjóri,
Aðrir stjórnarmenn FME.
Á vordögum þ. 24. apríl sl. féll dómur í Hæstarétti Íslands nr. 672/2012 er varðaði verðtryggingarhluta bílasamnings frá 2006, hvers höfuðstóll var frá upphafi að helmingi gengistryggður, með tilgreint vaxtaviðmið m.v. samsetningu myntkörfu, en hinn helmingur höfðstólsins með tilgreint vaxtaviðmið í íslenskum krónum.
Dómurinn úrskurðaði að sá lánshluti, sem upphaflega tengdist íslenskum krónum beint og bar vexti skv. því, teldist vera óverðtryggður og án breytilegra vaxta, af þeim sökum mætti ekki innheimta hærri lántökukostnað, þ.e. vexti og verðbætur, vegna hans en fram kom í greiðsluáætlun. Lýsingu var því gert í dómsorði að endurgreiða lántaka ofteknar greiðslur. Í júníbyrjun sendi Lýsing viðskiptavinum bréf þar sem er skorað á þá sem telja sig hafa, á grundvelli samningsskilmála bílasamnings, samið um lægri kjör en markaðskjör á þeim hluta samnings sem frá upphafi var í íslenskum krónum, að gera skriflega athugasemd og óska eftir leiðréttingu á greiðslum. Óskað er eftir því að slíkar athugasemdir berist félaginu fyrir 1. september nk. [tilvitnun lýkur]
Í bréfinu er einnig tilgreint að Lýsing hafi ætíð miðað kjör bílasamninga við markaðsvexti á hverjum tíma og bent er á að verðtrygging hafi sérstaklega verið tilgreind á greiðsluseðlum Lýsingar frá því í maí 2008. Svo undirritaður viti til, taka staðhæfingar á greiðsluseðlum ekki samningsskilmálum fram eða skapa Lýsingu nokkurn rétt til að efna ekki eða fresta að eigin frumkvæði, endurgreiðslu á ofteknum greiðslum vegna ólögmætrar innheimtu lögum samkvæmt. Þá hefur Lýsing oft og iðulega lýst því yfir að lausnir sem viðskiptavinir gátu fengið vegna gengistryggðra samninga rýrðu ekki betri rétt viðskiptavina á síðari stigum. Engu að síður telur Lýsing rétt vegna Hrd. 672/2012, að benda á með tilkynningu á heimasíðu sinni þ. 3.júní að nákvæm athugun á samskonar samningum Lýsingar ásamt fylgigögnum þeirra sýnir m.a. að skilmálar og greiðslusaga viðskiptavina er mismunandi. Þá hefur í ýmsum tilvikum upphaflegum samningsskilmálum verið breytt með samkomulagi aðila. Virðist þetta orðalag eingöngu til þess ætlast að firra Lýsingu ábyrgð og vinnu á að ákvarða leiðréttingar til viðskiptavina í kjölfar dómsins og setja ákvörðunina í hendur viðskiptavina að sækja rétt sinn. Benda má á með nokkurri vissu að slíkir breytingaskilmálar voru líklega í öllum tilvikum einhliða samdir af Lýsingu.
Lög um vexti og verðtryggingu segja skýrt í 1.málslið. 5.mgr. 18.gr. laga nr. 38/2001 að kröfuhafa ber að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar." Trauðla er hægt að sjá að lögin ætlist til þess að viðskiptavinir fjármálafyrirtækja leggist í kröfugerð og skriflegan rökstuðning í kjölfar dóma vegna lagalegs réttar síns, þegar átt eru viðskipti við eftirlitsskyldan aðila, til þess eins að sækja þann rétt, heldur eru skyldur kröfuhafa til endurgreiðslu ótvíræðar. Þá hlýtur opinberum eftirlitsaðilum bera skylda til að fylgja dómafordæmum Hæstaréttar eftir af hörku með tilliti til almannahagsmuna.
Að ofangreindu sögðu, og þar sem engin tilmæli er að finna á vef FME í kjölfar Hrd. 672/2012, og vegna almannahagsmuna óskar undirritaður viðbragða FME á opinberum vettvangi hvort FME telji efni og orðalag bréfs Lýsingar til viðskiptavina sinna í kjölfar Hrd. 672/2012, eðlilegt og í samræmi við 1.mgr.19.gr. laga um fjármálafyrirtæki.
Jafnframt óskar undirritaður svara við eftirfarandi:
- Telst það eðlileg háttsemi fjármálafyrirtækis að taka ekki að eigin frumkvæði tillit til dómafordæmis í starfsemi sinni, sérstaklega þegar sama félag er málsaðili dóms hvers niðurstaða skiptir aðra viðskiptavini félagsins máli, heldur að setja í hendur ólöglærðra neytenda að sækja rétt sinn sérstaklega?
- Telur FME þann hluta bréfsins þar sem Lýsing bendir á að verðtrygging hafi komið fram á greiðsluseðlum frá því í maí 2008 eðlilegan málflutning, og til þess fallinn að skapa Lýsingu rétt umfram ákvæði 1.ml.5.mgr.18.gr. (leiðrétting frá birtri grein) laga nr. 38 frá 2001?
- Getur FME upplýst hver réttur neytenda er, sem ekki senda Lýsingu skriflega athugasemd fyrir 1. september vegna viðskiptasambands við Lýsingu? Eru þessir neytendur að glata rétti sínum eða mun FME gæta hagsmuna þessa fólks og gera Lýsingu skylt að fara að dómi Hæstaréttar nr. 672/2012 vegna samningsákvæða sem falla undir úrskurð Hæstaréttar?
- Hefur FME kallað eftir upplýsingum frá Lýsingu um fjölda þeirra samninga félagsins sem Lýsing telur að falli ótvírætt undir Hrd. 672/2012 og eigi rétt á endurgreiðslu í kjölfar hans? Ef svo getur FME upplýst um fjölda þeirra? Ef ekki hefur verið óskað upplýsinga, getur FME upplýst hvers vegna?
- Telur FME Lýsingu í stakk búið til að mæta kostnaði vegna mögulegra endurgreiðslna til viðskiptavina vegna Hrd. 672/2012?
Á það skal bent að hlutverk Fjármálaeftirlitsins er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur og að öðru leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr.8. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Ágæta fólk, almenningur treystir á virkt eftirlit FME á leiðréttingum vegna ólöglegrar innheimtu lánastofnana á grundvelli staðlaðra ólögmætra samningsskilmála í lánasamningum neytenda. Þögn ykkar vegna þessarar ólögmætu innheimtu og þvergirðingsháttar lánastofnana þegar kemur að leiðréttingum ólögmætra samningsskilmála er hins vegar orðin ærandi.
Virðingarfyllst
Erlingur A. Jónsson
----------------------------------------------------------------------------------------------------
PS: Því er hér við að bæta að FME sendi fjármálastofnunum tilmæli 12.apríl sl. hvar því er beint til þeirra að upplýsa viðskiptavini hvaða dómafordæmi viðkomandi fjármálastofnun telji að eigi við um samninga viðkomandi viðskiptavinar. Í kjölfar þessa bréfs óskaði ég þ. 16.apríl 2013 eftir upplýsingum Landsbankans um öll dómafordæmi sem talin eru eiga við minn samning við bankann. Svar hefur ekki borist frá bankanum. Fyrr þann sama dag hafði ég átt samskipti við bankann og þar kom fram eftir beina spurningu frá mér að bankinn hyggst ekki bjóða mér upp á frekar fundahöld vegna innheimtu þess samnings. Þetta er viðhorf bankans þíns.
Bloggar | Breytt 23.8.2013 kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#189. Smáýsa eða smá af ýsu?
10.8.2013 | 22:48
Þetta er laukrétt sem lögmaðurinn bendir á, réttara væri fyrir ESB að einbeita sér eigin fiskveiðistjórnun.
Ég keypti mér 500 gr. af ýsuflökum með roði í stórmarkaði í Dublin núna um daginn. Þar var líka hægt að kaupa makríl. Ýsuflökin voru svo smá að til að ná þessum 500 gr. þurfti 3 flök. Ef ég man rétt vigtuðu þessi 3 flök nákvæmlega 532 gr. Ég bað afgreiðslumanninn að roðfletta ýsuna, sem hann gerði eftir að hann vigtaði og verðlagði. Verðið var 7,97 evrur, sem útleggst á gengi dagsins í dag 1.262 kr. Það gera 2.372 kr/kg. Þegar heim kom tók ég mynd á símann minn af flökunum sem ég birti hér til hliðar. Ég setti til gamans venjulegan spilastokk á myndina til að sýna stærðarhlutföll. Smella má á myndina til að sjá hana stærri.
![]() |
Vill að ESB horfi í eigin barm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#188. "Bankaröflarar!"
8.8.2013 | 10:43
Bankar eru svolítið merkilegt fyrirbrigði. Í bönkum virðist ríkja einhver hentistefna hvernig gera eigi hluti og enginn reynir að komast til botns í málum fólks, hvaða lög gilda eða koma með skynsamleg rök fyrir því af hverju málum sé háttað með ákveðnum hætti ef viðskiptavinur efast um gjörninginn. Það er einfaldlega vaðið áfram í viðjum vanans og aldrei athugað hvort hlutir séu rétt gerðir eða löglegir nema einhver "röflari" geri "allt vitlaust"!
Almennt starfsfólk fær líklega ekki mikla formlega þjálfun vegna starfa sinna og ályktar því að fyrst svona hafi hlutir verið um árabil sé það bara rétt sem þeim var sýnt. Þeim er því nokkur vorkunn.
Sem dæmi um álíka einkennileg vinnubrögð bankastarfsmanna greiddi ég í lok síðasta árs síðustu greiðslu af skuldabréfi í Arion banka. Síðan leið og beið og ekki barst mér frumrit skuldabréfsins stimplað sem uppgreitt. Svo ég lagði leið mína í útibúið mitt seinni part dags í febrúar 2013, til að athuga málið. Þar var mér sagt að venjulega væri uppgreiðsluupplýsingum safnað saman, síðan farið í skjalageymslur og skuldabréfin tekin til og því næst mörg bréf stimpluð í einni aðgerð. Svo ég bað viðkomandi að athuga hvenær ég fengið bréfið stimplað og afhent. Um kvöldmatarleytið hringir þjónustufulltrúinn sem ég hafði talað við og sagðist hafa komist að því eftir að hafa kannað málið að bankinn væri hættur að senda út frumrit uppgreiddra skuldabréf. Því hefði verið hætt eftir hrun. Ég hló og benti henni góðfúslega á að slíkt mætti ekki. Bankanum bæri skylda til að afhenda skuldabréfið áritað sem uppgreitt þegar það hefði verið greitt upp. Hún sagði að svona væri þetta gert í dag og bar við að sumir vildu ekki fá svona sent í pósti og stundum væri upplýsingar um heimilisföng viðskiptavina óáreiðanlegar í kerfum bankans. Ég hló aftur og sagði bankannn ekki eiga í vandræðum með að innheimta eftir sömu upplýsingum. Svo ég þakkaði henni fyrir upplýsingarnar og sagðist ætla hafa samband við umboðsmann viðskiptavina bankans vegna þessa máls.
Svo ég sendi umboðmanni tölvupóst sama kvöld og benti á tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf þar sem tilgreint er að afhenda skuli skuldunaut áritað skuldabréf þegar höfuðstóll þess er uppgreiddur. Umboðsmaður tók minni fyrirspurn vel og sagðist ætla athuga málið. 2-3 dögum síðar barst mér svar frá umboðsmanni sem staðfesti sögu þjónustufulltrúans en sagði jafnframt að eftir athugun bankans hefði verið tekin ákvörðun um að breyta þessu og framvegis yrðu uppgreidd skuldabréf stimpluð og send viðskiptavinum. Nokkrum dögum seinna, eða seinni hluta febrúar 2013, barst mér skuldabréfið í pósti stimplað sem upgreitt. Dagsetning stimpilsins var 12. júní 2012. Síðasta greiðslan var hins vegar innheimt 6 mánuðum síðar, 1. desember 2012. Þetta eiga víst að kallast fagleg vinnubrögð.
Ég bendi viðskiptavinum Landsbankans, sem og annarra banka, að athuga stöðu mála með uppgreidd skuldabréf og óska eftir að fá frumritið sent, stimplað sem uppgreitt þegar greiðslum hefur verið lokið. Ekki sýna tómlæti þegar um skuldabréf er að ræða og kynnið ykkur tilskipun um áritanir á skuldabréf.
Og ekki síður að vera ófeimin að véfengja vinnubrögð bankafólks ef nokkur vissa er fyrir því að vinnubrögðin eiga ekki stoð í lögum og reglum. Fyrst eftirlitsaðilar bregðast hlutverki sínu verður almúginn að vera á verði.
![]() |
Faðirinn hafði betur gegn bankanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)