Færsluflokkur: Bloggar

#26. Af hverju var þetta þá svona erfitt?

Hún er merkilegt tík þessi pólitík, jafnvel þó menn séu ekki í flokki. Nú segir Gylfi Magnússon að afleiðingar dómsins séu áfall fyrir fjármálafyrirtækin, jafnt bankanna sem fjármögnunarfyrirtækin. Engu að síður segir hann að þetta sé innan þolmarka. Það eru 3 tímar frá dómsuppkvaðningu þegar þetta er ritað og hann veit þetta nú þegar. Af hverju er þá búið að vera svona erfitt að gera þessa leiðréttingu ef hún er innan þolmarka núna?!!!!! Hvað eru margir búnir að fara í gjaldþrot vegna þessarar stöðu, einstaklingar sem fyrirtæki?!! Ríkisstjórnin núverandi, sem fyrrverandi, er búinn að valda íslensku samfélagi ómældum skaða með aðgerðaleysi og sinnuleysi sínu um árabil. Svei þessu liði!
mbl.is Áhrif dómsins að mestu til góðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#25. Enn einn naglinn í líkkistu bankafjárglæframanna

Það var ótrúlega góð tilfinning þegar lesið var upp dómsorð í Hæstarétti í dag í málum SP og Lýsingar um lögmæti gengistryggingar lánssamninga í íslenskum krónum. Dómurinn staðfesti að lánveitendur, sérfróðir aðilar á fjármálamarkaði, buðu neytendum upp á ólögmæta afurð um árabil, í andstöðu við lög, fyrir framan nefið á þeirri aumu stofnun Fjármálaeftirlitinu. Nú hefur verið tekinn allur vafi á lögmæti þessara samninga. Það er ekkert.

En hvað þýðir þetta? Eru lánssamningarnir í heild sinni ólögmætir eða er gengistryggingarákvæðið eingöngu ólögmætt en samningurinn að öðru leyti fullgildur, þ.m.t vaxtaákvæðið? Það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu þessi mál taka á næstu dögum því fjármögnunarfyrirtækin mynda greiðsluseðla sína mörg hver í kringum 20. hvers mánaðar.

Og hvað gerir ríkisstjórnin? Mun hún taka til við að bæta fyrirtækjunum skaðann með setningu laga sem "leiðrétti" skaðann sem þau urðu fyrir í dag?

Annað sem vekur upp spurningar er ábyrgð stjórnenda þessara fyrirtækja, framkvæmdastjóra jafnt sem einstakra stjórnarmanna. Er hægt að lögsækja þá fyrir fjársvik? Geta lántakar farið fram á skaða-eða miskabætur? Hvað gerir FME? Er hægt að beita fyrirtækin dagssektum? Spurningarnar eru óteljandi.

Eitt er þó víst, rekinn hefur verið enn einn naglinn í líkkistu fjárglæframanna bankahrunsins á Íslandi.


mbl.is Öll gengistrygging ólögleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#11. Rýmum fangelsin fyrir landráðamönnum

Þá er það orðið ljóst að Rannsóknarnefnd Alþingis telur að Geir H. Haarde, Árni Matthiesen, Björgvin G. Sigurðsson, Jónas Fr. Jónsson, Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson hafi sýnt af sér vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins.  Var þetta nokkuð annað en landráð? 

Ég vænti ákæru og handtöku þessara manna í dag hvar í heimi sem þeir eru.  Í framhaldi vænti ég ákæru og handtöku forsvarsmanna fjármálafyrirtækjanna, Kaupþings, Glitnis og Landsbankans, sem og stærstu hluthafa með ráðandi hlut í eigendahópi þessara fyrirtækja.

Sendum alla erlenda fanga í íslenskum fangelsum til síns heima til að rýma fyrir innlendum landráðamönnum.  Ekki veitir af plássinu í fangelsum landsins.


#9. Hugleiðing um bílalánafrumvarp

Í fyrrakvöld sendi ég eftirfarandi tölvupóst til allra kjörinna þingmanna á Alþingi.

"Hæstvirtur þingmaður,

Um leið og ég fagna því að stjórnvöld skuli reyna loksins að taka á vanda heimilana vegna ólöglegra gengisbundinna bílalána lýsi ég þó furðu minni á aðferðinni.  Í stað þess að styrkja eftirlitsstofnanir og eyða réttaróvissu um lánagjörningana, á að umbreyta lánunum í verðtryggð lán með löggjöf skv. fréttum fjölmiðla.  Hvers vegna þverskallast stjórnvöld við að taka á málinu með þeim hætti sem rétt er og eyða réttaróvissu?  Ætla stjórnvöld að leyfa eftirlitsskyldum aðilum að komast upp með lögbrot og halda áfram að vanvirða neytendalöggjöf og neytendavernd?  Löggjöf og neytendaverndarákvæði, sem þó voru innleidd við upptöku EES samningsins og er hluti þeirrar nýju sýnar sem Samfylkingin telur þá einu réttu fyrir Ísland, inngöngu í Evrópusambandið, en er fjarri því búið að efna í reynd.  Og neytendur virðast eiga erfitt með að láta reyna á.  Verður fyrirtækjum sem hafa ekki heimildir til viðskipta með erlendan gjaldeyri leyft áfram að skuldsetja sig í erlendri mynt og brjóta starfsheimildir sínar án nokkurra eftirkasta?  Og á ekki að loka á þann möguleika að eftir nokkur ár geti sama sukkið byrjað aftur, því fólk er fljótt að gleyma og nýjar kynslóðir munu ekki hafa reynt á eigin skinni það sem við göngum í gegnum í dag.

Á fundi Samfylkingarinnar á Loftleiðum 27. mars síðastliðinn minntist félagsmálaráðherra á í ræðu sinni á miðaldra mann sem væri alltaf að kvarta í tölvupósti til sín yfir að hafa tekið myntkörfulán upp á 16 milljónir til að kaupa sér vélsleða en lánið stæði nú í 37 milljónum.  Hann sagði að það væri ekki félagslegt vandamál.  Það hvarflar ekki að ráðherranum að maðurinn hafi kannski alveg haft rétt á því að taka 16 milljóna króna lán á húsið sitt?  Það hvarflar ekki að honum að myntkörfulánið sem honum og fleirum var boðið, var ólöglegt frá upphafi og er enn?  Vill þingheimur ekki fá þeirri óvissu eytt?  Miðaldra maðurinn á alveg sama rétt á að fá að standa við sitt, alveg eins og unga parið sem ráðherrann nefndi í framhaldinu og skuldar 60 milljónir króna af 25 milljóna króna íbúð.  Það er nefnilega enginn eðlismunur á lánunum sem slíkum, þó fólk sé ungt, miðaldra eða gamalt!  Heiðvirt fólk vill fá sanngjarna málsmeðferð og að lög og stjórnarskrá Íslands sé virt.  Þar verður ríkisstjórn Íslands og Alþingi að vera í fararbroddi.

Í ræðunni á Loftleiðum talaði ráðherrann fjálglega en þó af festu um nýtt embætti umboðsmanns skuldara. Og sagði um það: „Og það verður eins stórt og til þarf.  Og fjármálastofnanir munu borga fyrir það.  Og ef við þurfum að ráða þangað 2000 manns, þá ráðum við þangað 2000 manns."  Hvernig væri nú að byrja á því, að ráða 50-100 manns til stofnunar sem þó er til og á að sjá um eftirlit með eftirlitsskyldum aðilum, Fjármálaeftirlitið?  Það er bara 2,5-5% af þeim fjölda sem ráðherran segist vera tilbúinn að ráða til nýs embættis umboðsmanns skuldara, á tímum þegar rætt er um að minnka báknið og sameina 80 ríkisstofnanir í sparnaðarskyni!  Veistu, það tók mig 37 daga að fá einfaldar upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu um starfsleyfi eins fjármálafyrirtækis.  Og þetta var þrátt fyrir ítrekanir og eftirgrennslan í tölvupósti og síma.  Það var ekki fyrr en ég vísaði í upplýsingalög að svar barst innan nokkurra klukkustunda.  Ástæða seinagangsins var gefin annir starfsfólks.  Og ég efa hana ekki.

Hæstvirti þingmaður, af hverju ráðist þið ekki að rótum vandans, verðtryggingunni?  Hvergi í vestrænum heimi, svo við förum ekki víðar, þekkist hækja lélegrar hagstjórnar, verðtrygging.  Ástæða þess að fólkið í landinu flúði í myntkörfulán var verðtryggingin.  Það þarf ekki langskólanám til að sjá ósanngirnina við það að þegar verð á bensíni, matvöru, dagblaðaáskrift, fatnaði, áfengi og tóbaki, og mörgu, mörgu fleira, hækkar, þá hækka skuldir heimilanna.  Af hverju á ég að borga meira fyrir húsnæðið mitt af því fólk vill geta reykt tóbak og drukkið áfengi?  Ég reyki ekki og drekk sáralítið áfengi en ég þarf að borga fleiri hundruð þúsund, ef ekki milljónir króna af því aðrir vilja geta reykt.  Fólkið í landinu hefur nefnilega fengið nóg af því að borga og borga, og borga meira, en sjá ekki skuldirnar lækka.  Því sjáðu, þegar maður borgar af skuld minnkar hún, en bara ekki á Íslandi, því þar eru Ólafslög enn við lýði, 31 ári eftir að þau voru sett, sem kveða á um að skuldir megi verðtryggja.  Og fólkið þarf að vinna meira, og meira, og meira til að borga meiri skatta sem fyrsta hreina vinstri stjórnin hækkaði.

Greiðsluaðlögun fyrir fólkið er ekki nauðsynleg ef gert er út um lögmæti gengisbundinna lána.  Það mun leysa mikinn vanda að fá úr því skorið.  Þá er það nefnilega bara á hreinu að neytendur skulda íslenskar krónur og ekki þarf neinar reiknikúnstir eða skyggnukynningu til að sýna hversu einhverjar töfralausnir eru góðar.  Og gera hálfgert grín að miðaldra manni sem sendir tölvupósta en gekk til samninga á sínum tíma við eftirlitsskyldan aðila um gjörning sem hann taldi löglegan.

Ég hvet þig, hæstvirti þingmaður, til að kynna þér hverskonar heimildir eru í starfsleyfum eignaleigufyrirtækjanna og hvort þau mega eiga viðskipti með erlendan gjaldeyri, framvirka samninga og gengisbundin bréf því ég veit fyrir víst að SP-Fjármögnun hefur ekki þessar heimildir en stundar þessi viðskipti grimmt, án þess að FME beiti sér gegn þeim.  Ég vonast til að þú beitir þér fyrir því að þessari réttaróvissu verði eytt en ekki taka rétt af fólkinu með því að breyta gengisbundnum lánum einhliða í verðtryggðar skuldir með óhóflegu vaxtastigi.  Leyfðu alla vega þeim sem það vilja að segja sig frá slíkri breytingu og taka slaginn og láta reyna á lög og neytendarétt vegna gengisbundinna lána.

Mér yrði mikil þökk í því ef þú gætir gefið þér tíma til að svara örstutt ef þú lest þennan tölvupóst til enda, einungis til að staðfesta móttöku hans."

Þegar þetta er skrifað hafa 9 þingmenn staðfest móttöku.  Kann ég þeim bestu þakkir fyrir.  Þeir eru í tímaröð:

Birkir Jón Jónsson   Framsóknarflokki

Guðbjartur Hannesson   Samfylkingu

Jónína Rós Guðmundssdóttir   Samfylkingu

Guðmundur Steingrímsson   Framsóknarflokki 

Siv Friðleifsdóttir   Framsóknarflokki

Margrét Tryggvadóttir   Hreyfingunni

Ólína Þorvarðardóttir   Samfylkingu

Magnús Orri Schram   Samfylkingu

Lilja Mósesdóttir   Vinstri grænum

10. svar: Árni Páll Árnason   Samfylkingu (uppfært: 10. apr. 22:20)


#4. Gerum flugvöllinn að óstjórnuðu loftrými

Það væri gaman að sjá sundurliðun á hvað þessi ráðstöfun sparar mikið. Mér sýnist hún við fyrstu sýn vera algjörlega fáránleg að óathugðu máli. Ef Flugstoðir vilja spara má vel gera flugvöllinn að óstjórnuðu loftrými án nokkurra vandkvæða. Það má jafnvel gera fleiri daga á ári án þess að flugöryggi sé ógnað. Snertilendingar eru hvort eð er bannaðar á stórhátíðardögum svo ekki er það vandamál. Allt atvinnu- og einkaflug getur vel haldið áfram án flugstjórnarþjónustu, eins og ekkert hefði í skorist. Flugvöllurinn þarfnast ekki flugstjórnar til brottfara og koma. Þar nægir einföld tilkynningaskylda flugmanna um fyrirætlanir sínar. Flugáhugamenn eða flugrekstraraðilar, sem hafa óneitanlega hagsmuna að gæta, gætu hugsanlega tekið að sér upplýsingaþjónustu til flugfara sem leið eiga um völlinn þegar um flugstjórnarþjónusta liggur niðri. Spurningin er þá helst ýmis stoðþjónusta eins og hálkuvarnir, hreinsun flugbrauta að vetri til, mælingar á bremsuskilyrðum og viðhald aðflugsbúnaðar og aðflugsljósa og/eða flugbrautarljósa. Við fyrstu sýn finnst mér Flugstoðir bara vera að sparka í þegar veikar undirstöður flugrekstrar innanlands.
mbl.is Spara aurinn en kasta krónunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#3. Aumingjaskapur valdhafanna!

Ég hvet alla til að lesa grein Jóns Þorvarðarsonar í Morgunblaðinu í dag.  Hvenær ætla stjórnmálamenn að skilja að heimilin þurfa ekki gerfilausnir með nöfnunum sem engin skilur, og engu skila?  Við þurfum ekki sértæka greiðsluaðlögun, greiðslujöfnun, nýtt embætti talsmanns skuldara, niðurfærslu höfuðstóls erlendra lána og hvað þetta bull allt nefnist sem blaðrað hefur verið um í marga mánuði.  Við þurfum einfaldlega að stjórnmálamenn taki hausinn úr rassgatinu á sjálfum sér og fari að ráðast að rótum vandans.  Alþingi og ríkisstjórn þurfa að sjá til þess að landslög og stjórnarskrá sé virt af eftirlitsskyldum aðilum, fjármálafyrirtækjunum.  Hættið að tala um að klára þurfi Icesave, ganga í ESB, taka upp Evru, fá erlend lán frá AGS, frá Norðurlöndunum, allt til að hagkerfið fari í gang.  Snúa hjólum atvinnulífsins af stað.  Hagkerfið er í gangi alla daga.  Hagkerfið er nefnilega við, þjóðin!  Þjóðin sem streðar við að borga af verðtryggðu lánunum, ólöglegu lánunum, greiða hækkuðu skattana sem vinstri stjórnin setti á. Vinstri stjórnin!  Fylkingin, sem hefur að eigin sögn í hverri einustu kosningabaráttu sem ég man eftir, barist fyrir fólkið í landinu, en þegar hún komst til valda hækkaði skattana, þar með vöruverðið, og þar með verðtryggðu lánin.  Jók skuldir heimilanna. Takk fyrir ekki neitt! Vinstri menn virðast ekki skilja að það hjálpar ekki hagkerfinu að byrja á að taka krónurnar til ríkissjóðs og veita þeim til útlanda áður en þær fara út í hagkerfið, í þá hringrás sem því fylgir.  Þá deyr hagkerfið. Og því er að blæða út.  Enda ekki krónurnar alltaf langflestar í ríkissjóði hvort eð er? Þær þurfa bara að hafa viðkomu á eins mörgum stöðum á leiðinni og hægt er. Hugsið aðeins hvaða leið 1000 kr. fara eftir að þær fara úr veskinu ykkar.  Hættið að níðast á þjóðinni!  Hættið að láta þjóðina líða fyrir pólitíska valdaleiki ykkar! Hættið að tala um nýtt Ísland! Þið eru að reisa við gamla Ísland, með sama sukkinu! Látið verkin tala! Stöðvið lögbrot fjármálafyrirtækjanna.  STRAX!


#1. Kynning

Á undanförnum mánuðum hefur mikið verið rætt og ritað um gengistryggingu lána, lögmæti eða ólögmæti hennar.  Þegar ég sem leikmaður, fór að kynna mér málið sem lántakandi, var fyrst eins og ókleifur múrinn stæði rennisléttur fyrir mér og uppgangan vonlaus.  Í hugann komu hugsanir eins og: "Þeir hljóta jú að vita hvað þeir eru að gera þessir menn.  Hvað þeir mega og eiga að gera og hvað má og ekki má."  En er það svo?  Vita þeir eitthvað hvað þeir eru að gera?  Smám saman fóru að birtast nibbur og sprungur sem mér fannst að athuga mætti betur.  

Með þessu bloggi ætla ég mér að benda á nokkur atriði sem ekki hafa farið hátt í umræðunni en vert er að hafa í huga þegar málið er skoðað.  Þetta eru atriði sem ég hef leitt hugann að þegar ég hef verið að lesa mér til um málið og haldið til haga fyrir mig.  Sum eru jafnvel vanhugsuð, jafnvel röng en ef ég finn þeim ekki farveg í lögum og reglum minnist ég ekki á þau.  Vonandi munu þessar hugleiðingar nýtast einhverjum til að halda fram rétti sínum, eða alla vega vekja einhverja til umhugsunar um hver rétturinn sé og sækja sér fróðleik um hann.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband