#5. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP - 2. hluti.

Í síðustu færslu um lánastarfsemi SP hóf ég vangaveltur um starfsleyfi SP og takmarkanir á starfsemi fyrirtækisins vegna þess.  Ég velti þar fyrir mér hvað endurgreiðanlegir fjármunir séu.  En tökum fyrir annað hugtak, eignarleigu, sem er jú meginstarfssemi SP – Fjármögnunar hf skv. eftirfarandi setningu af heimasíðu fyrirtækisins: “Starfsemi SP-Fjármögnunar er tvíþætt, tækjafjármögnun í formi eignaleigu og bílafjármögnun bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.”  Þetta kemur líka fram í ársreikningi SP frá 2007 sem hægt er að skoða hér.

Hvað er eignarleiga? Skv.íslenskri Lögorðabók með skýringum er eignarleiga: Samheiti sem nær yfir > fjármögnunarleigu, > kaupleigu, og > rekstrarleigu eða > þjónustuleigu, sbr. lög nr. 19/1989. (Þessi lög voru felld úr gildi með setningu laga nr. 123/1993 um lánastofnanir, sem svo voru einnig felld úr gildi með setningu núgildandi laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki). 

En hvað er þá fjármögnunarleiga? „Fjármögnunarleiga: Leigusamningur þar sem, leigugjald og lágmarksleigutími er ákvarðaður með hliðsjón af því að í lok lágmarksleigutíma hafi leigusali (e. lessor) fengið í sinn hlut upphaflegkaupverð leigumunar, auk vaxta og kostnaðar (innsk: leturbreyting er mín). Eftir það tímamark hefur leigutaki (e. lessee) að jafnaði rétt tiI áframhaldandi leigu viðkomandi leigumunar gegn lækkuðu endurgjaldi. Réttarsamband það, sem stofnasvið fjármögnunarleigu, stendur mitt á milli almenns leigusamnings og kaupsamnings með afborgunarkjörum. Sjá hins vegar > kaupleiga, >, rekstrarleiga og >, þjónustuleiga e. financial leasing.(Viðbót 8/4 2010/EAJ: Fjármögnunarleiga er sem sagt leiga með þeim hætti að hið leigða (t.d. tæki eða vél) er fært til eignar í bókum leigusala allan leigutímann en leigutaki fær oftast rétt til að kaupa það gegn vægu gjaldi í lok hans.)

Þá kemur næst hvað er kaupleiga?  Þar er einföld skilgreining:  “Kaupleiga:  Sjá > kaupleigusamningur, e. purchase leasing.”  Sem leiðir okkur því næst að skilgreiningu á “kaupleigusamningur: Samningur þar sem svo er um samið að ákveðinn hlutur sé tekinn á leigu en að leigjandinn geti sjálfkrafa orðið eigandi leiguhlutarins þegar samanlagðar leigugreiðslur hans hafa náð tilskilinni upphæð, enda verði þá það fé sem hann hefur þegar greitt í leigu hluti kaupverðsins (eða jafngildi þess alIs). Í reynd er því um eins konar > afborgunarkaup að ræða þótt öðru nafni sé nefnt. Sjá hins vegar > fjámögnunarleiga, > rekstrarleiga og > þjónustuleiga.“  Kaupleiga er þannig með þeim hætti, að hið leigða (t.d. tæki eða vél) er fært til eignar í bókum leigusala leigutaka (leiðrétting 8/4 2010/EAJ) allan leigutímann en leigutaki fær oftast rétt til að kaupa það gegn vægu gjaldi í lok hans.

Mér láðist að athuga skilgreiningu á rekstrarleigu en styðst hér við texta sem er að finna á heimasíðu SP: "Rekstrarleiga er spennandi kostur sem hefur átt miklum vinsældum að fagna víða um heim og hefur nú rutt sér til rúms hér á landi.  Rekstrarleiga er þríhliða óuppsegjanlegur leigusamningur á milli þriggja aðila, þ.e. leigutaka, seljanda og SP-Fjármögnunar.  Hingað til hefur verið mest um rekstrarleigu á bifreiðum til atvinnureksturs en einnig hefur tölvubúnaður og ýmsar vinnuvélar verið teknar á rekstrarleigu.

Rekstrarleigusamningur byggir á því að SP-Fjármögnun kaupir það tæki sem viðskiptavinur óskar og leigir honum til fyrirfram umsamins tíma. Í lok samningstíma skilar leigutaki síðan tækinu til seljanda.

Leigutaki greiðir enga útborgun, heldur fjármagnar SP-Fjármögnun tækið að fullu.  Hins vegar er yfirleitt krafist tryggingarfés sem getur numið allt að fjórum leigugreiðslum. Tryggingarféð fæst endurgreitt þegar búið er að standa skil á rekstrarleigusamningnum.”

Á síðu Neytendasamtakanna er eftirfarandi umræða um afborgunarkaup:

2.2 Afborgunarkaup

Afborgunarkaup eru venjulegast kaup, þar sem ákveðinn hlutur er keyptur og greiðist á umsömdum tíma. Samningssambandinu um afborgunarkaupin lýkur þegar síðasta afborgun skuldarinnar er greidd. Venjulegast eru ákvæði í samningum um afborgunarkaup þess efnis að seljandi geti framselt kröfuna til annars t.d. lánastofnunar, sem eignast þá þann rétt, sem að seljandinn átti gagnvart þeim, sem kaupir hlutinn með afborgunum.

Afborgunarkaup þar sem verslun selur hluti með afborgunum eru ekki eins algeng í dag og áður fyrr þar sem að aðrar tegundir lána eru komnar í staðinn. Algengust eru afborgunarkaup með eignaréttarfyrirvara, en það þýðir, að seljandinn getur tekið hlutinn ef afborgun af honum er ekki greidd. Seljandinn getur þó ekki án þess að gera ákveðnar ráðstafanir tekið hlutinn tilbaka þó að greiðsla dragist, en um það eru ákvæði í viðkomandi samningum, sem kaupandi þarf að kynna sér vel áður en hann gengur að samningum. Sé hluturinn tekinn til baka, þá á seljandi ekki rétt á að fá meira en sem nemur verði hlutarins auk þess kostnaðar, sem hann kann að hafa orðið fyrir vegna innheimtuaðgerða. Mismuninn ber að greiða kaupanda.

Meginreglurnar sem gilda um það þegar hlutur er tekinn til baka koma fram í lögum um neytendalán en skv. þeim á við það að miða, þegar söluhlutur er endurheimtur við uppgjör milli aðila, að reyna að komast sem næst því að aðilar verði jafnsettir og samningurinn hefði aldrei verið gerður. Sé andvirði söluhlutarins þannig meira en sem nemur eftirstöðvum lánssamnings skal lánveitandi endurgreiða neytanda mismuninn, en sé andvirði söluhlutarins minna ber neytandanum að greiða lánveitanda mismuninn. Komi upp ágreiningur um verð söluhlutarins skal hann útkljáður með því að kveða til tvo dómkvadda matsmenn.”

Afborgunarkaup eru þannig í raun "neytendalán: > Lánssamningur sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur,sbr. 1. gr. laga um neytendalán nr. 121/1994.  Lánssamningur skal gerður skriflega og jafnframt fela í sér margvíslegar upplýsingar sem tilgreindar eru í II. kafla nefndra laga."

Lög nr. 121/1994 hefjast með þessum orðum:

I. kafli. Gildissvið og hugtök laganna.

1. gr. Lög þessi taka til lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur.

2. gr. Eftirtaldir lánssamningar eru undanþegnir lögum þessum:

a. Lánssamningar sem gilda skemmri tíma en þrjá mánuði.

b. Lánssamningar sem fela í sér endurgreiðslur án vaxta og kostnaðar.

c. Lánssamningar þar sem lán er veitt gegn lægra gjaldi en almennt gerist og stendur almenningi ekki til boða.

d. Leigusamningar, nema eignarleigusamningar, [sbr. lög um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði].1)

e. Lánssamningar að lægri fjárhæð en 15.000 kr. …1)

□ Ákvæði 1. mgr. gildir þó ekki um samninga sem gerðir eru í því skyni að halda þeim utan gildissviðs laga þessara, svo sem með skiptingu fjárhæðar á fleiri en einn lánssamning.…1)

 

PS: Allar ofangreindar skilgreiningar eru teknar úr íslenskri Lögorðabók með skýringum nema annað sé tekið fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband