#115. Enn eitt ruglið.

Margrét Vala Kristjánsdóttir, þá lektor, nú dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík skrifaði athyglisverða grein árið 2009 um stöðu skilanefnda.  Hún fjallaði þar um ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins og stöðu skilanefnda þess á grundvelli laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.  Greinina er að finna á í 2. tbl. 5. árg. veftímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla, og ber nafnið „Neyðarlögin" og stjórnsýsluréttur.

Margrét Vala kemst í fyrsta lagi að þeirri niðurstöðu að skilanefndir Fjármálaeftirlitsins séu stjórnvöld og lúti sem slíkar reglum stjórnsýsluréttar, hvort sem litið er til stjórnarhlutverks þeirra eða framkvæmdar ákvarðana Fjármálaeftirlitsins. Það er einnig niðurstaða greinarinnar að stjórnsýslulög, nr. 37/1993, gildi um þær ákvarðanir skilanefndanna sem teljast stjórnvaldsákvarðanir í skilningi laganna, að því marki sem reglur þeirra laga eru ekki „teknar úr sambandi" með lögum nr. 125/2008. Loks er áréttað að þegar stjórnsýslulögum sleppir gilda meginreglur stjórnsýsluréttar um ákvarðanir og athafnir skilanefnda Fjármálaeftirlitsins. Þær eru því bundnar af meginreglum stjórnsýsluréttar um t.d. jafnræði, meðalhóf og málefnaleg sjónarmið við framkvæmd lögmæltra verkefna sinna á grundvelli laga nr. 125/2008.

Þá bendir Margrét Vala á að munur er á stöðu bráðabirgðastjórna sem eru skipaðar á grundvelli laga nr. 44/2009 og skilanefnda sem skipaðar voru á grundvelli laga nr.125/2008. Þær fyrrnefndu starfa ekki í umboði Fjármálaeftirlitsins. Stjórnarstörf skilanefnda Fjármálaeftirlitsins hafa hins vegar frá upphafi verið unnin á þess vegum.  Skilanefndir Fjármálaeftirlitsins starfa því í skjóli opinbers valds þegar þær framkvæma ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins og lúta reglum stjórnsýsluréttar.

Lög um fjármálafyrirtæki segja í 1.mgr. 100.gr. að eigi fjármálafyrirtæki í þeim fjárhags- eða rekstrarerfiðleikum að líkur séu til að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar eða uppfyllt kröfur um lágmark eigin fjár getur stjórn þess upp á sitt eindæmi leitað eftir því við Fjármálaeftirlitið að það taki við ráðum yfir fyrirtækinu. Fjármálaeftirlitið skal án tafar taka afstöðu til slíkrar beiðni. Taki Fjármálaeftirlitið beiðnina til greina fellur úr gildi umboð stjórnar fjármálafyrirtækisins og verður jafnframt óvirkur réttur hluthafa eða stofnfjáreigenda til að taka ákvarðanir um málefni þess á grundvelli eignarhluta sinna. Um leið skal Fjármálaeftirlitið skipa fjármálafyrirtækinu bráðabirgðastjórn þriggja eða fimm manna sem fer ein með sömu heimildir að lögum og eftir samþykktum þess og stjórn og hluthafafundur eða fundur stofnfjáreigenda hefði ella haft á hendi, sbr. þó 4. tölul. 2. mgr. 101. gr.

Þetta er sem sagt skilanefnd.

Þá segir í sömu lögum í 3.tl. bráðabirgðaákvæðis nr. V: "Skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem Fjármálaeftirlitið hefur skipað fyrir gildistöku laga þessara á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008, skal með óbreyttu heiti halda áfram störfum og gegna því hlutverki sem slitastjórn er ætlað í 3. mgr. 9. gr., 2. málsl. 4. mgr. 101. gr., 1. málsl. 5. mgr. 102. gr. og 1.-3. mgr. 103. gr. laganna ...1)"

Í grein Margrétar Völu er vísað í ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um skipan skilanefnda hvar segir að skilanefnd skuli „fylgja ákvörðunum sem Fjármálaeftirlitið tekur á grundvelli 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki og starfa í samræmi við Fjármálaeftirlitið."  Síðan er tekið fram, með hliðsjón af því sem fram kemur í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, að skilanefnd skuli vinna að því að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi bankanna (gömlu) hér á landi.

Það er meginniðurstaða greinar Margrétar Völu að líta verði á skilanefndir Fjármálaeftirlitsins sem stjórnvöld sem lúta reglum stjórnsýsluréttar.

Ég er ekki löglærður maður en ég spyr með hliðsjón af framansögðu:  Hvernig getur skilanefnd sem Fjármálaeftirlitið skipaði, ekki heyrt undir Fjármálaeftirlitið?  Og hvernig getur verið eðlilegt að sama skilanefnd færist undir slitastjórn fjármálafyrirtækis?

Ég er orðinn þeirrar skoðunar að ekki standi til að slíta gömlu bönkunum heldur eigi afsprengi þeirra, nýju bankarnir, að sameinast þeim og lánin sem nú standa í nýju bönkunum renni inn í gömlu bankana á ný sem verði svo aftur afhentir eigendum sínum.

Ég hef sent Fjármálaeftirlitinu og skilanefnd Glitnis banka fyrirspurn hverjir teljist eigendur Glitnis banka í dag.  Ég býst ekki við innihaldsríku svari.

 

 


mbl.is Skilanefndir undir slitastjórnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband