#122. Kostnaður Íslands vegna lánshæfismats er....

.......230 milljónir króna frá árinu 2002!

Mig langaði til að fræðast um kostnað íslenska ríkisins vegna þessara "bráðnauðsynlegu" spádóma þessara fyrirtækja, sem í daglegu tali nefnast lánshæfismat, og beindi því eftirfarandi spurningum til fjármálaraðuneytisins með vísan til 3. og 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996:

1) Hefur ríkissjóður Íslands einhvern tímann á tímabilinu 01.janúar 2001- 5.apríl 2011 greitt lánshæfisfyrirtækjunum Moody´s, Standard & Poors og Fitch Ratings fyrir lánshæfismat og/eða fyrir útgáfu slíks mats. Með Moody´s er bæði átt við fyrirtækin Moody's Analytics og Moody's Investors Service.

2) Reynist svar við spurningu 1 jákvætt er óskað sundurliðunar á greiðslum til þess fyrirtækis, eða eftir atvikum fyrirtækja, sundurliðað eftir árum annars vegar og fyrirtækjum hinsvegar.

3) Reynist svar við spurningu 1 jákvætt er óskað upplýsinga hvaða aðili óskaði eftir slíkri þjónustu eða heimilaði ósk um slíka þjónustu hverju sinni.

4) Reynist svar við spurningu 1 neikvætt er óskað upplýsinga hvort, og þá hvenær, lánshæfistmatsfyrirtækin Moody´s, Standard & Poors og Fitch Rating hafi boðið íslenska ríkinu þjónustu sína og hvort íslenska ríkið hafi einhvern tímann hafnað slíku boði.

5) Ennfremur er óskað upplýsinga um hvort ofangreind fyrirtæki hafi einhvern tímann einhliða sent íslenska ríkinu reikning vegna lánshæfismats og hvort íslenska ríkið hafi hafnað greiðslu slíks einhliða útgefins reiknings.

Svör ráðuneytisins bárust mér í tölvupósti 3.júní sl. og var efni svarsins sem hér segir:

Þrjú matsfyrirtæki meta lánshæfi Ríkissjóðs Íslands. Það eru fyrirtækin Moody's Investors Service, Standard & Poor's og Fitch Ratings.

Samskipti matsfyrirtækjanna og Ríkissjóðs Íslands hófust árið 1986 þegar Standard & Poor's ákvað að raða nokkrum fjölda landa, sem þá höfðu ekki formlega einkunn, í flokka. Árið 1989 tilkynnti fyrirtækið að það gæfi Ríkissjóði Íslands langtímaeinkunnina „Ai" og skammtímaeinkunnina „A-1". Moody's fylgdi svo í kjölfarið árið 1989 og veitti ríkissjóði einnig óumbeðna einkunn A2, en sú einkunn var hins vegar ekki auðkennd sérstaklega eins og hjá S&P.

Formleg lánshæfissaga ríkissjóðs hófst þegar íslenska ríkið óskaði eftir einkunn fyrir skammtímaskuldbindingar fyrir víxla ríkissjóðs, sem gefnir voru út í Lundúnum; frá S&P árið 1989 og síðar frá Moody's árið 1990. S&P veitti ríkissjóði einkunnina A-1 og Moody's P-1.

Í tengslum við undirbúning ríkissjóðs á fyrstu opinberu útgáfu skuldabréfa á Bandaríkjamarkaði árið 1994 voru Moody's og S&P formlega beðin um að meta lánshæfi Ríkissjóðs Íslands fyrir langtímaskuldbindingar. Í kjölfarið veitti S&P ríkissjóði einkunnina A fyrir langtímaskuldbindingar, í janúar 1994, og í sama mánuði tilkynnti Moody's að einkunnin yrði A2. Þar með staðfestu matsfyrirtækin fyrri óformlegar einkunnir ríkissjóðs.  Lánhæfisfyrirtækið Fitch bættist í hópinn á árinu 2000 og veitti ríkissjóði þá einkunnina AA-.

Kostnaður við lánshæfiseinkunnir fyrir ríkissjóð á árunum 2002-2010 hefur samtals numið alls um 230 milljónum króna sé miðað við meðalgengi hvers árs fyrir sig.

Þó eilítið vanti upp á svarið, þ.e. greiðslur ársins 2001, sem og sundurliðun eftir fyrirtækjum eisn og ég bað læt ég hér við sitja.

Það er ánægjulegt að ráðamenn Evrópu eru að vakna til lífsins gegn þessum svikamyllum, sem vara alla við að taka mark á áliti sínu, en fá engu að síður greitt offjár fyrir að gefa út ábyrgðarlaust mat.

 


mbl.is Óskiljanleg ákvörðun Moody's
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband