#143. Ótvíræður refsiverður ásetningur fjármálafyrirtækja.

Maður er dæmdur fyrir að flytja inn efni, sem ólöglegt efni væri, þó það sé ekki tilgreint ólöglegt í lögum um ávana- og fíkniefni.  Sama refsing hefði legið við þótt maðurinn hefði verið með hveiti.  Ástæðan, eins og segir í niðurlagi fréttarinnar, er að hver sá sem tekið hefur ákvörðun um að vinna verk sem refsing er lögð við í lögum og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki hafi þegar brotið er ekki fullkomnað gerst sekur um tilraun til þess. 

Ragnheiður Bragadóttir prófessor ritaði grein í 1. tbl. Úlfljóts, rits laganema árið 1985.  Greinin bar nafnið„Villan og hið ólögmæta atferli hins brotlega.“  Á bls.4. lýsir Ragnheiður einkennum fjársvika þannig að „beitt er saknæmum blekkingum með því að skýra vísvítandi rangt frá einhverjum atriðum eða leggja vísvitandi launung á einhver atriði til þess að ná fram ákveðnu markmiði”. 

Fjármálafyrirtækin gerðu samninga með einhliða sömdu ákvæði sem gekk gegn gildandi lögum um vexti og verðtryggingu.  Virt var að vettugi sú staðreynd að árið 2001 var verðtrygging lána við dagsgengi erlendra gjaldmiðla bönnuð og samtökum fjármálafyrirtækja var það fullkunnugt.  Ólöglegar forsendur eru nýttar til að gera samning sem stenst ekki lög.  Enn einu sinni er ég að tala um gengistrygginguna. 

Á vef Skemmunar er að finna safn námsritgerða og rannsóknarita af ýmsu tagi, og má þar finna ritgerðir um fjársvik, fjárdrátt og umboðssvik.  Ég leyfi mér að benda á BA-ritgerð Guðrúnar Önnu Sturludóttur, “Samanburður á 248., 247. og 249. gr. almennra hegningarlaga”.  En einnig bendi ég á BA-ritgerð Elisabeth Patriarca, “Skilyrði 248. gr. alm. hgl. og meginflokkar fjársvika”, og BA-ritgerð Þorbjörns Þórðarsonar um “Milliganga við fjársvik samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga”.

Guðrún Anna bendir í BA-ritgerð sinni á, að til þess að fjársvikabrot teljist framið þarf að uppfylla tvö grundvallareinkenni fjársvika, þ.e. að um villu hafi verið að ræða og atbeina þess sem misgert er við er nauðsynleg, enda er fjársvikabrotið tvíhliða brot.  Guðrún hefur úr fyrrgreindri grein Ragnheiðar Bragadóttur að því megi slá föstu að villa reynist sönnuð ef um er að ræða eðlilega villu hjá heilbrigðu fólki.

Sá sem gerir samning sem er ólöglegur, eða með ólöglegu ákvæði, og hefur þannig fé af fólki hefur gerst sekur um fjársvik.  Skilyrðin fyrir fullkomnun brots eru, eins og áður segir, að hjá brotaþola sé til staðar villa eða óljós hugmynd um atvik sem hinn brotlegi nýtir sér í hag og hefur fé af brotaþolanum.  Slíkri villu er komið á með blekkingu, eða að skýra ekki að fullu frá málsatvikum, þannig að ljóst sé hvað má og hvað má ekki. 

Með blekkingu er átt við að röng eða ójós hugmynd annars manns um einhver atvik er styrkt.  Jónatan Þórmundsson segir í bók sinni "Afbrot og refsiábyrgð I." að gerandi geti beitt blekkingu með því að greina ranglega frá atburðum eða leyna einhverju sem gerst hefur.  Fjármálafyrirtækin vissu árið 2001 að gengistrygging lánasamninga væri ólögleg.  Þau lögðu vísvitandi launung á að slík verðtrygging væri ólögleg við samningsgerð við neytendur.  Enn vísa ég í grein Ragnheiðar, sem segir að fjársvik eru svikabrot og er bleking ein af verknaðaraðferðum brotsins.

Samkvæmt þessu þarf þrennt þarf að vera til staðar við fjársvik:

1.       Hinn brotlegi beitir blekkingum; heldur eftir eða leynir upplýsingum,

2.       Brotaþoli hefur ranga hugmynd um málsatvik; villan,

3.       Og brotaþoli þarf að gera eitthvað, t.d. undirrita samning.

Þegar samningi með ólöglegu ákvæði hefur verið komið er fjársvikabrotið að mínu mati fullkomnað, og brotið hefur verið gegn 248.gr. almennra hegningarlaga. 

Beri hinn brotlegi lánasamningi fyrir sig og innheimti eða taki við greiðslum sem ekki er réttur til að taka við, án þess að ráðstafa slíkum greiðslum réttilega til lækkunar eftirstöðva láns, er slíkt framferði hugsanlega fjárdráttur.  Slíkt framferði er brot gegn 247.gr. almennra hegningarlaga.  Í þessu sambandi þarf hugsanlega að taka til greina stöðu eftirstöðva samnings, en ekki síður hvort upphaflegum heildarlántökukostnaði hefur verið náð.  Haldi fjármálafyrirtæki áfram að innheimta samning umfram upphaflega saminn heildarlántökukostnað er um fjárdrátt að mínu mati að ræða.  Hins vegar ef greiðslum er ranglega ráðstafað inn á eftirstöðvar, þ.e. samsetning afborgana og vaxta gerir það að verkum að eftirstöðvar lækka hægar en þær ættu að gera, en upphaflegum heildarlántökukostnaði hefur ekki náð, eða eftirstöðvar samnings eru sagðar tiltekin upphæð sem, ef lögð er við framkvæmdar greiðslur, gefur hærri útkomu en heildarlántökukostnaður átti að vera, er um tilraun til fjárdráttar að ræða.

Þó svo að álit sumra manna hafi verið að löglegt hefði verið að gengistryggja lánasamninga í íslenskum krónum er ljóst að svo var ekki. 

Fyrirtækin sýndu, og sýna enn, ótvíræðan ásetning í verki við gerð og innheimtu þessara samninga.   Siðferðið hjá forsvarsmönnum þeirra og starfsfólki er ekkert.  Stjórnarmenn, forstjórar, framkvæmdastjórar, innheimtustjórar, lögfræðingar, allir sem einn ganga fram með ótuktarskap sem orð fá ekki lýst.  Dirfist einhver að andmæla þeim er hinum sama jafnvel hótað að vera fjarlægður af skrifstofum fyrirtækisins með lögregluvaldi.  

Forsvarsmenn fjármálafyrirtækja sýndu ótvíræðan ásetning í verki með gerð gengistryggðra lánasamninga og framkvæmdu brot sem refsing liggur við að mínu mati.  Fyrir það eiga þeir að svara til saka.

Enginn forsvarsmaður þessara fyrirtækja hefur þó að mínu viti verið ákærður fyrir brot á almennum hegningarlögum þrátt yfir vísbendingar um ótvíræðan ásetning í verki.

Hér þarf almenningur að leita réttar sins og kæra til sérstaks saksóknara.  Ein slík kæra verður afhent á mánudag.


mbl.is Fengi sama dóm með hveiti í fórum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Má ég taka þennan pistil þinn og senda á nokkra kunningja Erlingur? þetta er þrælgóð samantekt hjá þér...

Óskar Arnórsson, 5.11.2011 kl. 15:11

2 Smámynd: Páll Jónsson

Það kemur smá málsvari djöfulsins upp í mér við að lesa þennan pistil þó vel unninn sé.

Gagnaðili sem telur sínum hag borgið með að ganga að ólöglegum samning er ekki brotaþoli heldur samverkaaðili. 

Páll Jónsson, 5.11.2011 kl. 15:32

3 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Sæll Óskar: Fyrir alla muni sendu þetta eins víða og þú telur þörf á ef þetta nýtist einhverjum í baráttunni við þetta óréttlæti.

Erlingur Alfreð Jónsson, 5.11.2011 kl. 16:56

4 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Sæll Páll: Djöfullinn á rétt á sínu sjónarmiði. En ég bið þig að íhuga stöðu þar sem leyfisskyldur aðili, sem skal starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, sbr. lög um starfsemina, býður almennum neytanda ólöglegan einhliða saminn samning á þeim forsendum að löglegur sé, hvort ekki er um blekkingu að ræða í slíkum viðskiptum. Leyfisskyldi aðilinn á að vita betur enda er hann sérfróður aðili um fjármálastarfsemi.

Þar með verður neytandinn brotaþoli vegna villunnar um að samningurinn sé lögmætur en ekki samverkamaður.

Ef við skoðum sambærilegt dæmi: Þú ferð og kaupir raftæki í búð sem ekki er CE merkt, en þú veist ekki af því, kaupir það hins vegar af því þú vilt það, eða vantar það, en verður síðan fyrir tjóni því raftækið er ólöglegt á evrópskum markaði, áttu þá ekki kröfu á söluaðilann? Ber hann enga ábyrgð á að hafa boðið til sölu ólöglegt raftæki? Hann á að vita að öll raftæki sem boðinn eru neytendum til sölu þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Geri hann það ekki er hann ekki að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til hans skv. lögum.

Erlingur Alfreð Jónsson, 5.11.2011 kl. 17:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband