#253. Öfug mismunun á Keflavíkurflugvelli
9.7.2015 | 10:19
Fjármálaráðherra hyggst afnema alla tolla, að tollum á matvöru undanskildum, 1. janúar 2017. Afnám þetta, til viðbótar afnámi tollum á fatnað og skó sem tekur gildi 1. janúar nk., skerðir tekjur ríkissjóðs sem nemur einu RÚV, eða um 6 milljörðum á ári.
Fróðlegt verður að vita hvort þessar breytingar leiðrétta þá mismunun sem íslenskir þegnar búa við í ferðum til landa innan EES, að takmarka heildarverðmæti vara sem fluttar eru inn í landið í farangri ferðamanna við 88.000 kr. Ég hef lengi haft ímugust á þessu takmarki þar sem í því fellst fyrrnefnd mismunun. Takmark þetta þjónar litlum tilgangi og þá aðeins því helst að vernda innlenda kaupmenn og óhóflega álagningu þeirra.
Íslensk yfirvöld setja hámark á virði vöru sem ferðamaður má flytja með sér inn í landið, alls 88.000 kr., og er sama hvort um einn eða fleiri hluti er að ræða. Umfram þessa upphæð þarf að greiða toll og VSK skv. núgildandi íslenskum lögum.
EES samningurinn gefur Íslendingum aðgang að innri markaði Evrópusambandsins. Innan þessa markaðar er frjálst flæði vöru og þjónustu. Þegar neytandi fer á milli landa innan EES, t.d. keyrir heiman að frá sér í Þýskalandi til Danmerkur, kaupir þar einhverja vöru, t.d. sjónvarp og fer svo sömu leið til baka, þarf hann einungis að greiða VSK í Danmörku, af því hann fer sjálfur heim með vöruna. Ef hann fær vöruna senda, þarf þjónustuaðilinn að innheimta VSK í landi neytandans, í þessu tilfelli Þýskalandi, og skila til yfirvalda.
Íslenskir ferðamenn þurfa hins vegar að greiða VSK við innkaupin í þjónustulandinu, og svo aftur í Keflavík ef heildarverðmæti vöru í farangi fer yfir 88.000 kr.
Óformleg fyrirspurn til Eftirlitsstofnunar EFTA varðandi hvort svona hámark væri heimilt skv. EES leiddi í ljós að í þessu tilfelli væri um svokallað öfuga mismunun að ræða sem væri stjórnvöldum væri heimilt að beita þegna sína.
Boðar afnám allra tolla 2017 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það vill svo til að lækkun skatta til fataverslana mun ekki skila miklu í öllu okri þessar aðila- tollar á föt og skó eru aðeins 15% ! Mikið af þessum drusluvarningi er keyptur fyrit lágt verð eða - öllu heldur- álagning er um 4oo % í druslubúðum- það eru mjög fáatr búðir með góða vöru her á landi.
Erla Magna Alexandersdóttir, 9.7.2015 kl. 19:47
Það er þá búið að hækka takmarkið, það var 30 þús. kr. (árið 2002, minnir mig).
Án þess að ég vilji mæla með eða á móti núverandi fyrirkomulagi átta ég mig ekki á í hverju téð mismunun er fólgin, allir þurfa á endanum að greiða virðisaukaskatt af keyptri vöru, bara misháan eftir því hvaða land á í hlut. Þegar ferðamaður kemur heim til Íslands með vöru úr öðru landi, hvort sem það land er innan Evrópska efnahagssvæðisins (= EES) eða ekki (og öfugt) má gera ráð fyrir að hann hafi fengið vsk. (sem greiddur var á staðnum) endurgreiddan af söluaðila eða tollgæslu við landamærin.
Það er heldur ekki alveg „frjálst“ flæði vöru milli landa með EES-samninginn, alla vega það er klárlega munur á því hvort viðskipti eiga sér stað milli EES-lands sem er utan Evrópusambandsins og lands sem er innan þess eða þá milli tveggja landa sem eru hvort tveggja innan Evrópusambandsins, það er grundvallarmunur þar á:
a. Ef einhver búsettur í Þýskalandi t.d. kaupir á netinu vöru í Danmörku, greiðir sá hinn sami danskan virðisaukaskatt (25%) af vörunni, ekki þýskan (19%), beint til seljanda og er ekki krafinn um frekari opinber gjöld er hann fær vöruna afhenta (póstsendingar innan Evrópusambandslanda eru ekki tollafgreiddar).
b. Ef Íslendingur pantar sér vöru frá Danmörku er (ef eðlilega er staðið að málum) varan meðhöndluð sem útflutningsvara og kaupandi aðeins látinn greiða nettóverð vörunnar (án dansks moms). Íslendingurinn verður hins vegar krafinn um íslenskan vsk. (24%) við komu vörunnar lil landsins —EES-samningurinn breytir engu þar um.
Ef Íslendingurinn kaupir hins vegar vöruna á staðnum í útlöndum, t.d. sjónvarp í Þýskalandi, greiðir hann vsk. á staðnum (19%), en hefur kost á að fá þýska vsk. endurgreiddan, til þess sýnir hann vöruna ásamt reikningi (og farseðli) tollgæslunni við brottför frá Evrópusambandinu og fær stimpil (sem gerir endurgreiðsluna mögulega).
Við komuna til Íslands greiðir hann auðvitað sem fyrr vsk. (og önnur opinber gjöld) af vörunni skv. íslenskum lögum, bara nú að frádregnum afslættinum (tollfrelsinu) sem hann nýtur sem ferðamaður að auki.
Tvískattlagning keyptrar vöru í löndum EES er því ekki óhjákvæmileg (nema ef vera skyldi tímabundið) ef staðið er rétt að málum. Hins vegar er mögulegt að ferðamaður greiði engan virðisaukaskatt af vöru(m) (upp að tollfrelsismörkum) ef hann gætir þess að fá vsk. í landinu þar sem varan var keypt endurgreiddan.
Alfreð K, 9.7.2015 kl. 21:28
Erla: Tollar almennt eru ekki mjög háir í prósentum, flestir á bilinu 7,5-10% að ég held. Enda sést það á hversu tekjutap ríkissjóðs vegna afnáms tolla er lítið, aðeins 6 milljarðar. Í fréttinni kemur ekki fram hvort inn í þetta er tekið lægri VSK sem reiknast jú eftir að öll gjöld hafa verið reiknuð ofan á innflutningsverð.
Erlingur Alfreð Jónsson, 9.7.2015 kl. 23:18
Alfreð: Það er bæði búið að hækka hámarkið og gera þetta einfaldara, þ.e. 88 þús. fyrir allt, hvort sem um er að ræða einn hlut eða fleiri. Lengi vel mátti einn hlutur mest vera að hámarki 50% af tollfrelsisheimildinni, t.d. 32 þús. af 64 þús. kr. heimild.
Það er hinsvegar ekki alveg rétt hjá þér sem þú nefnir í a-lið að sá sem býr í Þýskalandi og kaupir vöru á netinu af söluaðila í Danmörku greiði danskan VSK. Í ESB er í gildi tilskipun um samræmingu á innheimtu VSK vegna sölu yfir landamæra, EC/112/2006. Hún hefur ekki verið fullgild hér á landi þar sem EES-samningurinn tekur ekki til hennar að því er Eftirlitsstofnun EFTA segir. Í svona tilviki eins og þú nefnir á danski seljandinn skrá sig í Þýskalandi og innheimta þýska VSK prósentu og skila til þýska ríkisins að því gefnu að heildarandvirði sölu til þýskra neytenda á einu ári fari yfir tilgreinda upphæð. Sama gildir um önnur ESB lönd. Þetta er vegna þess að í netviðskiptum er afhendingarstaður vörunnar sá staður þar sem varan er afhent neytandanum, í nefndu tilviki Þýskaland. Ef hins vegar neytandinn fer í búð söluaðilans í Danmörku verður afhendingarstaðurinn búðin í Danmörku og þar með er greidd dönsk VSK-prósenta.
Rétt er það að hægt er að krefjast endurgreiðslu VSK á flugvelli við brottför, en þá þarf að framvísa vörunni sem endurgreiðslu er krafist af, og það er vandkvæðum bundið þegar varan er í innrituðum farangri. Þar að auki er yfirleitt innheimt gjald vegna slíkra kvittana, sem rennur til söluaðilans, og iðulega ekki fyrirhafnarinnar virði nema um nokkuð dýra hluti sé að ræða.
Vel má vera að EES-samningurinn tryggi ekki frjálst flæði vöru sem neytandi kaupir í smásölu í öðru EES-landi, mér finnst það þó skjóta þó skökku við, þegar horft er til markmiða Innri markaðarins.
Tilgangurinn með færslunni er fyrst og fremst að benda á að nógu mikið þurfum við Íslendingar að innleiða fjöldann allan af tilskipunum frá ESB en þegar kemur að hlutum sem mögulega gætu gert almúganum örlítið hægar um vik að nálgast dýrar vörur á hagstæðu verði á ferðalögum um Evrópu sitjum við ekki við sama borð og neytendur innan ESB landa, þrátt fyrir EES-samninginn.
Mismununin felst því að mínu mati í því að vegna einangrunar landsins höfum við ekki möguleika á að ferðast til annarra landa innan EES og kaupa vörur í smásölu og flytja heim á eigin vegum nema með flugi með þeim takmörkunum á heildarverðmæti sem ég lýsi. (Undanskil hér ferðalög með Norrænu, sem þó eru sömu takmörkunum háð.)
Þessar takmarkanir eru einfaldlega tímaskekkja nú til dags og ekki síst með tilliti til EES-samningsins sem veitir okkur aðgang að Innri markaði ESB.
Erlingur Alfreð Jónsson, 10.7.2015 kl. 00:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.