Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
#11. Rýmum fangelsin fyrir landráðamönnum
12.4.2010 | 11:42
Þá er það orðið ljóst að Rannsóknarnefnd Alþingis telur að Geir H. Haarde, Árni Matthiesen, Björgvin G. Sigurðsson, Jónas Fr. Jónsson, Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson hafi sýnt af sér vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins. Var þetta nokkuð annað en landráð?
Ég vænti ákæru og handtöku þessara manna í dag hvar í heimi sem þeir eru. Í framhaldi vænti ég ákæru og handtöku forsvarsmanna fjármálafyrirtækjanna, Kaupþings, Glitnis og Landsbankans, sem og stærstu hluthafa með ráðandi hlut í eigendahópi þessara fyrirtækja.
Sendum alla erlenda fanga í íslenskum fangelsum til síns heima til að rýma fyrir innlendum landráðamönnum. Ekki veitir af plássinu í fangelsum landsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#10. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP - 6. hluti
12.4.2010 | 00:48
Í undanförnum færslum hef ég velt fram spurningum og hugleiðingum um lánastarfsemi SP og þau brot á starfsleyfi sínu sem ég tel að fyrirtækið hafi framið með framboði á gengistryggðum lánum. Þó ég sé ekki löglærður maður tel ég ljóst eftir skoðun mína á gjörningunum að stjórnendur fyrirtækisins bera alla ábyrgð á starfseminni og þeim viðskiptagjörningum sem þar voru gerðir, eins og almennt er um stjórnendur lögaðila.
19. gr. laga um fjármálafyrirtæki segir: Góðir viðskiptahættir og venjur.
Fjármálafyrirtæki skal starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði."
Ég held að skoðun margra viðskiptamanna SP sé að vafi leiki á að svo hafi verið að málum staðið sérstaklega ef fyrirtækið fór fram úr starfsheimildum sínum.
En hver eru svo viðurlögin við broti á lögunum? Þar segir í 110. gr.: Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn:
1. 3. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis, ..............
Þá getur Fjármálaeftirlitið lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gróflega eða ítrekað gegn 19. gr. um góða viðskiptahætti og venjur.
Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi."
Og í: 112. gr. b. Sektir eða fangelsi.
Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum:
1. 3. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis,............."
Einnig í: 112. gr. c. Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum."
Fróðlegt verður að sjá hvernig FME tekur á fyrirtækinu á komandi vikum og mánuðum ef röksemdir mínar verða staðfestar.
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt s.d. kl. 02:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#9. Hugleiðing um bílalánafrumvarp
10.4.2010 | 15:06
Í fyrrakvöld sendi ég eftirfarandi tölvupóst til allra kjörinna þingmanna á Alþingi.
"Hæstvirtur þingmaður,
Um leið og ég fagna því að stjórnvöld skuli reyna loksins að taka á vanda heimilana vegna ólöglegra gengisbundinna bílalána lýsi ég þó furðu minni á aðferðinni. Í stað þess að styrkja eftirlitsstofnanir og eyða réttaróvissu um lánagjörningana, á að umbreyta lánunum í verðtryggð lán með löggjöf skv. fréttum fjölmiðla. Hvers vegna þverskallast stjórnvöld við að taka á málinu með þeim hætti sem rétt er og eyða réttaróvissu? Ætla stjórnvöld að leyfa eftirlitsskyldum aðilum að komast upp með lögbrot og halda áfram að vanvirða neytendalöggjöf og neytendavernd? Löggjöf og neytendaverndarákvæði, sem þó voru innleidd við upptöku EES samningsins og er hluti þeirrar nýju sýnar sem Samfylkingin telur þá einu réttu fyrir Ísland, inngöngu í Evrópusambandið, en er fjarri því búið að efna í reynd. Og neytendur virðast eiga erfitt með að láta reyna á. Verður fyrirtækjum sem hafa ekki heimildir til viðskipta með erlendan gjaldeyri leyft áfram að skuldsetja sig í erlendri mynt og brjóta starfsheimildir sínar án nokkurra eftirkasta? Og á ekki að loka á þann möguleika að eftir nokkur ár geti sama sukkið byrjað aftur, því fólk er fljótt að gleyma og nýjar kynslóðir munu ekki hafa reynt á eigin skinni það sem við göngum í gegnum í dag.
Á fundi Samfylkingarinnar á Loftleiðum 27. mars síðastliðinn minntist félagsmálaráðherra á í ræðu sinni á miðaldra mann sem væri alltaf að kvarta í tölvupósti til sín yfir að hafa tekið myntkörfulán upp á 16 milljónir til að kaupa sér vélsleða en lánið stæði nú í 37 milljónum. Hann sagði að það væri ekki félagslegt vandamál. Það hvarflar ekki að ráðherranum að maðurinn hafi kannski alveg haft rétt á því að taka 16 milljóna króna lán á húsið sitt? Það hvarflar ekki að honum að myntkörfulánið sem honum og fleirum var boðið, var ólöglegt frá upphafi og er enn? Vill þingheimur ekki fá þeirri óvissu eytt? Miðaldra maðurinn á alveg sama rétt á að fá að standa við sitt, alveg eins og unga parið sem ráðherrann nefndi í framhaldinu og skuldar 60 milljónir króna af 25 milljóna króna íbúð. Það er nefnilega enginn eðlismunur á lánunum sem slíkum, þó fólk sé ungt, miðaldra eða gamalt! Heiðvirt fólk vill fá sanngjarna málsmeðferð og að lög og stjórnarskrá Íslands sé virt. Þar verður ríkisstjórn Íslands og Alþingi að vera í fararbroddi.
Í ræðunni á Loftleiðum talaði ráðherrann fjálglega en þó af festu um nýtt embætti umboðsmanns skuldara. Og sagði um það: Og það verður eins stórt og til þarf. Og fjármálastofnanir munu borga fyrir það. Og ef við þurfum að ráða þangað 2000 manns, þá ráðum við þangað 2000 manns." Hvernig væri nú að byrja á því, að ráða 50-100 manns til stofnunar sem þó er til og á að sjá um eftirlit með eftirlitsskyldum aðilum, Fjármálaeftirlitið? Það er bara 2,5-5% af þeim fjölda sem ráðherran segist vera tilbúinn að ráða til nýs embættis umboðsmanns skuldara, á tímum þegar rætt er um að minnka báknið og sameina 80 ríkisstofnanir í sparnaðarskyni! Veistu, það tók mig 37 daga að fá einfaldar upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu um starfsleyfi eins fjármálafyrirtækis. Og þetta var þrátt fyrir ítrekanir og eftirgrennslan í tölvupósti og síma. Það var ekki fyrr en ég vísaði í upplýsingalög að svar barst innan nokkurra klukkustunda. Ástæða seinagangsins var gefin annir starfsfólks. Og ég efa hana ekki.
Hæstvirti þingmaður, af hverju ráðist þið ekki að rótum vandans, verðtryggingunni? Hvergi í vestrænum heimi, svo við förum ekki víðar, þekkist hækja lélegrar hagstjórnar, verðtrygging. Ástæða þess að fólkið í landinu flúði í myntkörfulán var verðtryggingin. Það þarf ekki langskólanám til að sjá ósanngirnina við það að þegar verð á bensíni, matvöru, dagblaðaáskrift, fatnaði, áfengi og tóbaki, og mörgu, mörgu fleira, hækkar, þá hækka skuldir heimilanna. Af hverju á ég að borga meira fyrir húsnæðið mitt af því fólk vill geta reykt tóbak og drukkið áfengi? Ég reyki ekki og drekk sáralítið áfengi en ég þarf að borga fleiri hundruð þúsund, ef ekki milljónir króna af því aðrir vilja geta reykt. Fólkið í landinu hefur nefnilega fengið nóg af því að borga og borga, og borga meira, en sjá ekki skuldirnar lækka. Því sjáðu, þegar maður borgar af skuld minnkar hún, en bara ekki á Íslandi, því þar eru Ólafslög enn við lýði, 31 ári eftir að þau voru sett, sem kveða á um að skuldir megi verðtryggja. Og fólkið þarf að vinna meira, og meira, og meira til að borga meiri skatta sem fyrsta hreina vinstri stjórnin hækkaði.
Greiðsluaðlögun fyrir fólkið er ekki nauðsynleg ef gert er út um lögmæti gengisbundinna lána. Það mun leysa mikinn vanda að fá úr því skorið. Þá er það nefnilega bara á hreinu að neytendur skulda íslenskar krónur og ekki þarf neinar reiknikúnstir eða skyggnukynningu til að sýna hversu einhverjar töfralausnir eru góðar. Og gera hálfgert grín að miðaldra manni sem sendir tölvupósta en gekk til samninga á sínum tíma við eftirlitsskyldan aðila um gjörning sem hann taldi löglegan.
Ég hvet þig, hæstvirti þingmaður, til að kynna þér hverskonar heimildir eru í starfsleyfum eignaleigufyrirtækjanna og hvort þau mega eiga viðskipti með erlendan gjaldeyri, framvirka samninga og gengisbundin bréf því ég veit fyrir víst að SP-Fjármögnun hefur ekki þessar heimildir en stundar þessi viðskipti grimmt, án þess að FME beiti sér gegn þeim. Ég vonast til að þú beitir þér fyrir því að þessari réttaróvissu verði eytt en ekki taka rétt af fólkinu með því að breyta gengisbundnum lánum einhliða í verðtryggðar skuldir með óhóflegu vaxtastigi. Leyfðu alla vega þeim sem það vilja að segja sig frá slíkri breytingu og taka slaginn og láta reyna á lög og neytendarétt vegna gengisbundinna lána.
Mér yrði mikil þökk í því ef þú gætir gefið þér tíma til að svara örstutt ef þú lest þennan tölvupóst til enda, einungis til að staðfesta móttöku hans."
Þegar þetta er skrifað hafa 9 þingmenn staðfest móttöku. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir. Þeir eru í tímaröð:
Birkir Jón Jónsson Framsóknarflokki
Guðbjartur Hannesson Samfylkingu
Jónína Rós Guðmundssdóttir Samfylkingu
Guðmundur Steingrímsson Framsóknarflokki
Siv Friðleifsdóttir Framsóknarflokki
Margrét Tryggvadóttir Hreyfingunni
Ólína Þorvarðardóttir Samfylkingu
Magnús Orri Schram Samfylkingu
Lilja Mósesdóttir Vinstri grænum
10. svar: Árni Páll Árnason Samfylkingu (uppfært: 10. apr. 22:20)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#8. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP - 5. hluti
9.4.2010 | 21:27
En fyrst, hvað er viðskiptabréf? Sama tölvutæka orðabók Menningarsjóðs og fyrr hefur verið nefnd segir svo:
Viðskiptabréf:
1. bréf um viðskiptamál, verslunarbréf;
2. [viðskipti/hagfræði] verðbréf sem ganga manna á meðal í viðskiptum eins og skuldabréf og sérstakar reglur gilda um í sambandi við framsal (t.d. víxlar og tékkar).
Ok, en gröfum aðeins dýpra. Lögorðabók með skýringum segir svo: Viðskiptabréf: Öll þau verðbréf sem ganga manna á milli í viðskiptum og lúta svonefndum viðskiptabréfsreglum. Fyrirmæli um að tiltekin bréf skuli teljast viðskiptabréf geta komið fram í settum lögum með beinum eða óbeinum hætti. Í öðru lagi telst bréf viðskiptabréf ef það hefur að geyma þá eiginleika sem einkenna viðskiptabréf almennt. Í þriðja lagi er unnt að semja um að skjal, sem að öðru jöfnu teldist ekki viðskiptabréf, skuli hlíta viðskiptabréfsreglum. Viðskiptabréf stofnar rétt eftir hljóðan sinni. Við framsal viðskiptabréfs fær því framsalshafi þann rétt er bréfið segir framseljanda eiga. Framsalshafi þarf aðeins að kynna sér efni bréfsins en þarf ekki að rannsaka þau viðskipti sem á bak við liggja. Þau viðskiptabréf sem mest eru notuð í viðskiptum nú um stundir eru, víxlar, tékkar, skuldabréf, hlutabréf, farmskírteini og hlutdeildarskírteini. Sjá einnig viðskiptabréfsreglur."
Sama lögorðabók útskýrir viðskiptabréfsreglur svona: "Viðskiptabréfsreglur: Sérreglur um viðskiptabréf sem mæla fyrir um að þess háttar bréf stofni rétt eftir hljóðan sinni. Grandlaus framsalshafi fær almennt þann rétt sem bréf bendir til að framseljandi eigi. Framsalshafi þarf aðeins að kynna sér efni bréfsins en þarf ekki að rannsaka þau viðskipti sem á bak við liggja. Leiðir af þessu að framsalshafi getur öðlast meiri rétt en framseljandi raunverulega átti. Viðskiptabréfsreglur miða að því að gera viðskipti um viðskiptabréf sem öruggust og tryggust."
Sigurður Gizurarsson lögmaður, þá bæjarfógeti á Akranesi, ritaði grein um viðskiptabréf í 1.tbl. Úlfljóts árið 1988. Þar notar hann skilgreiningu á hugtakinu, viðskiptabréf, úr 965. grein svissnesku kröfuréttarlaganna: "Verðbréf er hvert það skjal, sem þess konar réttur er tengdur, að honum verður ekki framfylgt án skjalsins, né heldur er unnt án skjalsins að framselja hann öðrum."
Það hlýtur að liggja ljóst fyrir að SP framfylgir sínum kröfurétti á undirrituðum bílasamningum, sem eru þá viðskiptabréf eða hvað? Og fyrirtækið má ekki eiga viðskipti með gengisbundin bréf. Er þá ekki orðið ljóst, eftir skoðun á liðum b.-d. 7 tl. 20.gr laga um fjármálafyrirtæki, og að SP getur ekki átt viðskipti með erlendan gjaldeyri, getur ekki átt viðskipti með framvirka samninga, s.s. gjaldmiðlasamninga, og getur ekki heldur átt viðskipti með gengisbundin bréf, svo sem gengistryggða lánasamninga, þar sem þessir liðir eru ekki hluti af starfsleyfi fyrirtækisins?
Er ekki þar með ljóst að þar með verða allir löggerningar sem SP tengist að vera í íslenskum krónum?
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt 10.4.2010 kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#7. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP - 4. hluti
8.4.2010 | 18:34
Höldum nú áfram þar sem frá var horfið í 3. hluta um og skoðum þá c-lið um framvirka samninga. (Ég geng út frá því hér að lesendur séu kunnugir umræðunni þaðan.)
Hvað eru framvirkir samningar? Ármann Þorvaldsson ritaði eftirfarandi texta á vef Kaupþings og er hann enn að finna á vef Arionbanka hér: "Framvirkir gjaldmiðlasamningar: Í stuttu máli má segja að framvirkur gjaldmiðlasamningur sé samningur á milli tveggja aðila, þar sem annar aðilinn skuldbindur sig til þess að kaupa ákveðna upphæð af gjaldeyri á ákveðnu gengi á umsömdum tíma í framtíðinni. Lengd framvirkra samninga er yfirleitt innan við ár...................Yfirleitt gera aðilar framvirka samninga til þess að verja einhverja stöðu í gjaldeyri, [eins og ég kem að síðar,) en þó þekkist það að gerðir séu samningar til þess eins að reyna að græða á gengisbreytingum. Þegar slíkt er gert, getur tap eða hagnaður af stöðunni verið mikill."
SP segir í ársreikningi sínum frá 2007 að það verji sig gegn gengisáhættu með framvirkum gjaldmiðlasamningum. Í fyrsta lagi má fyrirtækið ekki eiga viðskipti með slíka samninga skv. skilyrðum starfsleyfis síns og í örðu lagi má það ekki eiga viðskipti með erlendan gjaldeyrir is og að ofan er lýst! Þá spyrja hvers vegna þarf SP að verja sig gengisáhættu? Í hvaða tilfellum er þetta nauðsynlegt? Hvaða viðskipti/lánafyrirkomulag kallar á slíkt? Ætti SP ekki þegar/að mestu að vera varið slíkri áhættu með gengistryggingu lánanna sem það veitir? Ég velti fyrir mér hvenær SP kaupi þá erlendu gjaldmiðla sem um ræðir, fyrir sín gengistryggðu lán? Er það gert sama dag og greiðsluseðill viðskiptamanns er myndaður eða síðar? Er SP að kaupa gjaldmiðla einhvern tímann á tímabilinu frá útgáfu greiðsluseðils til gjalddaga hans og eiga þar með möguleika á gengismun sem fer/fór hugsanlega beint í vasa Landsbankans aftur sem eiganda SP? Fær SP þar gengisáhættu sem er varist með skortstöðu gegn krónunni eða hvað? Ef það keypti gjaldmiðla sama dag og greiðsluseðlar eru myndaðir væri engin gengisáhætta fyrir þau lán, þar sem keyptir væru gjaldmiðlar fyrir þá upphæð sem rukkuð er. Hvaða gjaldeyristaða er varin með framvirkum samningum? Lætur SP hugsanlegan hagnað af framvirkum gjaldmiðlasamningi ganga til viðskiptamanna sinna? Ef svo er, með hvaða hætti er það gert? Kaupir SP gjaldmiðla óháð þeirri upphæð sem er í skuld? Hvernig samræmir SP upphæð skuldar og þá upphæð sem kaupa þarf hverju sinni? Hversu mikið í einu kaupir SP af t.d. JPY og CHF? Og hversu oft kaupir SP JPY og CHF til að verja sig gengisáhættu? Er um spákaupmennsku að ræða? Er ástæða gengisáhættu, víkjandi lán í erlendri mynt frá móðurfélagi SP, Landsbankanum, sem eru á gjalddaga 2015 og 2017 skv. ársreikningi frá 2007? (Til glöggvunar eru víkjandi lán, lán sem ekki þarf að borga fyrr en önnur lán hafa verið greidd eða einhver önnur skilyrði eru uppfyllt).
Var SP sem sagt eingöngu fjármagnað með erlendri mynt árið 2007? Skoðum það: Skv. ársreikningi 2007 námu heildarskuldir í lok árs 44.282.000.000 = 44,2 milljarðar króna. Heildarskuldir í erlendri mynt voru 39.804.277.000 = 39,8 milljarðar króna. Mismunurinn 4,4 milljarðar voru þá væntanlega í íslenskum krónum, en aðrar skuldir, um 90%, var í erlendri mynt. Í erlendum gjaldeyri sem fyrirtækið má ekki eiga viðskipti með! Magnað!
Klárum umræðuna um d-lið, gengisbundin bréf í næsta pistli.
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt 10.4.2010 kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#6. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP - 3. hluti
7.4.2010 | 23:04
Síðasta færsla varð lengri en til stóð, en ég einfaldlega gat ekki hætt fyrr en ég hafði gert málinu þau skil sem ég var sáttur við. Ég ræddi þar um nokkur hugtök og skilgreiningar sem tengjast bílasamningum SP - Fjármögnunar, s.s. neytendalán, kaupleigu, fjármögnunarleigu, rekstrarleigu og afborgunarkaup.
Eins og ég benti á í fyrsta hluta hefur SP ekki heimildir að mínu mati, til viðskipta fyrir eigin reikning eða viðskiptamenn með:
a. greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.),
b. erlendan gjaldeyri,
c. framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir),
d. gengisbundin bréf og vaxtabréf og
e. verðbréf.
Skoðum fyrst hvað eru viðskipti og gjaldeyrisviðskipti. Skilgreining á orðinu viðskipti í tölvutækri íslenskri orðabók Menningarsjóðs segir svo: Viðskipti: 1. samskipti, gera út um viðskipti sín 2. það að skiptast á vörum, peningum, verslun. Lög nr. 87 frá 1992 um gjaldeyrismál skilgreina gjaldeyrisviðskipti sem ....það að skipta innlendum gjaldeyri fyrir erlendan, erlendum gjaldeyri fyrir innlendan eða einum erlendum gjaldeyri fyrir annan eða reikningsviðskipti sem eru ígildi þess að erlendur gjaldeyrir sé látinn af hendi eða móttekinn."
Skoðum þá aðeins ofangreinda liði b., c., og d., og hvernig þeir tengjast hugsanlega bílasamningum. Fyrst b-liður.
SP fullyrðir að lánasamningur með íslenskum höfuðstól, með ákvæði um gengistryggingu við myntkörfu BL2 (sem er 50% japönsk yen og 50% svissneskir frankar), sé lán í erlendri mynt. Þegar eftir því hefur verið leita að fyrirtækið rökstyðji slíka fullyrðingu með vísan í lánssamning hefur ekkert svar borist. Mín skoðun er sú, að þar sem fyrirtækið er ekki með heimild í starfsleyfi sínu til viðskipta með erlendan gjaldeyri, geti það ekki lánað slíkan gjaldeyri. Það getur ekki fjármagnað sig með erlendum gjaldeyri, hvort sem lánið kemur frá innlendum aðila eða erlendum, því þar sem það getur ekki átt viðskipti með erlendan gjaldeyri, getur það ekki skipt honum í íslenskar krónur til frekari viðskipta, svo sem endurláns. Það getur ennfremur ekki skipt einum erlendum gjaldeyri fyrir annan. Mín skoðun er reyndar sú að bílasamningur með gengistryggingu á íslenskan höfuðstól sé íslenskt krónulán, en ekki í erlendri mynt.
Hver eru þá viðurlögin við broti á gjaldeyrisviðskiptum? 13. gr. laga um gjaldeyrismál segir: Fyrir brot á lögum þessum skal refsa með sektum eða varðhaldi liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt eða sviptingu starfsréttinda. Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga."
Þannig er nú það. Á þessi grein við um viðskiptagjörninga SP - Fjármögnunar ef fullyrðing fyrirtækisins stenst um að þeir séu í erlendri mynt?
Í næsta pistli mun ég halda áfram og skoða fyrrgreinda liði, c. framvirka samninga, og d. gengisbundin bréf.
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#5. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP - 2. hluti.
4.4.2010 | 18:52
Í síðustu færslu um lánastarfsemi SP hóf ég vangaveltur um starfsleyfi SP og takmarkanir á starfsemi fyrirtækisins vegna þess. Ég velti þar fyrir mér hvað endurgreiðanlegir fjármunir séu. En tökum fyrir annað hugtak, eignarleigu, sem er jú meginstarfssemi SP Fjármögnunar hf skv. eftirfarandi setningu af heimasíðu fyrirtækisins: Starfsemi SP-Fjármögnunar er tvíþætt, tækjafjármögnun í formi eignaleigu og bílafjármögnun bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Þetta kemur líka fram í ársreikningi SP frá 2007 sem hægt er að skoða hér.
Hvað er eignarleiga? Skv.íslenskri Lögorðabók með skýringum er eignarleiga: Samheiti sem nær yfir > fjármögnunarleigu, > kaupleigu, og > rekstrarleigu eða > þjónustuleigu, sbr. lög nr. 19/1989. (Þessi lög voru felld úr gildi með setningu laga nr. 123/1993 um lánastofnanir, sem svo voru einnig felld úr gildi með setningu núgildandi laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki).
En hvað er þá fjármögnunarleiga? Fjármögnunarleiga: Leigusamningur þar sem, leigugjald og lágmarksleigutími er ákvarðaður með hliðsjón af því að í lok lágmarksleigutíma hafi leigusali (e. lessor) fengið í sinn hlut upphaflegt kaupverð leigumunar, auk vaxta og kostnaðar (innsk: leturbreyting er mín). Eftir það tímamark hefur leigutaki (e. lessee) að jafnaði rétt tiI áframhaldandi leigu viðkomandi leigumunar gegn lækkuðu endurgjaldi. Réttarsamband það, sem stofnast við fjármögnunarleigu, stendur mitt á milli almenns leigusamnings og kaupsamnings með afborgunarkjörum. Sjá hins vegar > kaupleiga, >, rekstrarleiga og >, þjónustuleiga e. financial leasing. (Viðbót 8/4 2010/EAJ: Fjármögnunarleiga er sem sagt leiga með þeim hætti að hið leigða (t.d. tæki eða vél) er fært til eignar í bókum leigusala allan leigutímann en leigutaki fær oftast rétt til að kaupa það gegn vægu gjaldi í lok hans.)
Þá kemur næst hvað er kaupleiga? Þar er einföld skilgreining: Kaupleiga: Sjá > kaupleigusamningur, e. purchase leasing. Sem leiðir okkur því næst að skilgreiningu á kaupleigusamningur: Samningur þar sem svo er um samið að ákveðinn hlutur sé tekinn á leigu en að leigjandinn geti sjálfkrafa orðið eigandi leiguhlutarins þegar samanlagðar leigugreiðslur hans hafa náð tilskilinni upphæð, enda verði þá það fé sem hann hefur þegar greitt í leigu hluti kaupverðsins (eða jafngildi þess alIs). Í reynd er því um eins konar > afborgunarkaup að ræða þótt öðru nafni sé nefnt. Sjá hins vegar > fjámögnunarleiga, > rekstrarleiga og > þjónustuleiga. Kaupleiga er þannig með þeim hætti, að hið leigða (t.d. tæki eða vél) er fært til eignar í bókum leigusala leigutaka (leiðrétting 8/4 2010/EAJ) allan leigutímann en leigutaki fær oftast rétt til að kaupa það gegn vægu gjaldi í lok hans.
Mér láðist að athuga skilgreiningu á rekstrarleigu en styðst hér við texta sem er að finna á heimasíðu SP: "Rekstrarleiga er spennandi kostur sem hefur átt miklum vinsældum að fagna víða um heim og hefur nú rutt sér til rúms hér á landi. Rekstrarleiga er þríhliða óuppsegjanlegur leigusamningur á milli þriggja aðila, þ.e. leigutaka, seljanda og SP-Fjármögnunar. Hingað til hefur verið mest um rekstrarleigu á bifreiðum til atvinnureksturs en einnig hefur tölvubúnaður og ýmsar vinnuvélar verið teknar á rekstrarleigu.
Rekstrarleigusamningur byggir á því að SP-Fjármögnun kaupir það tæki sem viðskiptavinur óskar og leigir honum til fyrirfram umsamins tíma. Í lok samningstíma skilar leigutaki síðan tækinu til seljanda.
Leigutaki greiðir enga útborgun, heldur fjármagnar SP-Fjármögnun tækið að fullu. Hins vegar er yfirleitt krafist tryggingarfés sem getur numið allt að fjórum leigugreiðslum. Tryggingarféð fæst endurgreitt þegar búið er að standa skil á rekstrarleigusamningnum.
Á síðu Neytendasamtakanna er eftirfarandi umræða um afborgunarkaup:
2.2 Afborgunarkaup
Afborgunarkaup eru venjulegast kaup, þar sem ákveðinn hlutur er keyptur og greiðist á umsömdum tíma. Samningssambandinu um afborgunarkaupin lýkur þegar síðasta afborgun skuldarinnar er greidd. Venjulegast eru ákvæði í samningum um afborgunarkaup þess efnis að seljandi geti framselt kröfuna til annars t.d. lánastofnunar, sem eignast þá þann rétt, sem að seljandinn átti gagnvart þeim, sem kaupir hlutinn með afborgunum.
Afborgunarkaup þar sem verslun selur hluti með afborgunum eru ekki eins algeng í dag og áður fyrr þar sem að aðrar tegundir lána eru komnar í staðinn. Algengust eru afborgunarkaup með eignaréttarfyrirvara, en það þýðir, að seljandinn getur tekið hlutinn ef afborgun af honum er ekki greidd. Seljandinn getur þó ekki án þess að gera ákveðnar ráðstafanir tekið hlutinn tilbaka þó að greiðsla dragist, en um það eru ákvæði í viðkomandi samningum, sem kaupandi þarf að kynna sér vel áður en hann gengur að samningum. Sé hluturinn tekinn til baka, þá á seljandi ekki rétt á að fá meira en sem nemur verði hlutarins auk þess kostnaðar, sem hann kann að hafa orðið fyrir vegna innheimtuaðgerða. Mismuninn ber að greiða kaupanda.
Meginreglurnar sem gilda um það þegar hlutur er tekinn til baka koma fram í lögum um neytendalán en skv. þeim á við það að miða, þegar söluhlutur er endurheimtur við uppgjör milli aðila, að reyna að komast sem næst því að aðilar verði jafnsettir og samningurinn hefði aldrei verið gerður. Sé andvirði söluhlutarins þannig meira en sem nemur eftirstöðvum lánssamnings skal lánveitandi endurgreiða neytanda mismuninn, en sé andvirði söluhlutarins minna ber neytandanum að greiða lánveitanda mismuninn. Komi upp ágreiningur um verð söluhlutarins skal hann útkljáður með því að kveða til tvo dómkvadda matsmenn.
Afborgunarkaup eru þannig í raun "neytendalán: > Lánssamningur sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur,sbr. 1. gr. laga um neytendalán nr. 121/1994. Lánssamningur skal gerður skriflega og jafnframt fela í sér margvíslegar upplýsingar sem tilgreindar eru í II. kafla nefndra laga."
Lög nr. 121/1994 hefjast með þessum orðum:
I. kafli. Gildissvið og hugtök laganna.
1. gr. Lög þessi taka til lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur.
2. gr. Eftirtaldir lánssamningar eru undanþegnir lögum þessum:
a. Lánssamningar sem gilda skemmri tíma en þrjá mánuði.
b. Lánssamningar sem fela í sér endurgreiðslur án vaxta og kostnaðar.
c. Lánssamningar þar sem lán er veitt gegn lægra gjaldi en almennt gerist og stendur almenningi ekki til boða.
d. Leigusamningar, nema eignarleigusamningar, [sbr. lög um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði].1)
e. Lánssamningar að lægri fjárhæð en 15.000 kr. 1)
□ Ákvæði 1. mgr. gildir þó ekki um samninga sem gerðir eru í því skyni að halda þeim utan gildissviðs laga þessara, svo sem með skiptingu fjárhæðar á fleiri en einn lánssamning. 1)
PS: Allar ofangreindar skilgreiningar eru teknar úr íslenskri Lögorðabók með skýringum nema annað sé tekið fram.
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt 8.4.2010 kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#4. Gerum flugvöllinn að óstjórnuðu loftrými
4.4.2010 | 00:05
Spara aurinn en kasta krónunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
#3. Aumingjaskapur valdhafanna!
1.4.2010 | 22:37
Ég hvet alla til að lesa grein Jóns Þorvarðarsonar í Morgunblaðinu í dag. Hvenær ætla stjórnmálamenn að skilja að heimilin þurfa ekki gerfilausnir með nöfnunum sem engin skilur, og engu skila? Við þurfum ekki sértæka greiðsluaðlögun, greiðslujöfnun, nýtt embætti talsmanns skuldara, niðurfærslu höfuðstóls erlendra lána og hvað þetta bull allt nefnist sem blaðrað hefur verið um í marga mánuði. Við þurfum einfaldlega að stjórnmálamenn taki hausinn úr rassgatinu á sjálfum sér og fari að ráðast að rótum vandans. Alþingi og ríkisstjórn þurfa að sjá til þess að landslög og stjórnarskrá sé virt af eftirlitsskyldum aðilum, fjármálafyrirtækjunum. Hættið að tala um að klára þurfi Icesave, ganga í ESB, taka upp Evru, fá erlend lán frá AGS, frá Norðurlöndunum, allt til að hagkerfið fari í gang. Snúa hjólum atvinnulífsins af stað. Hagkerfið er í gangi alla daga. Hagkerfið er nefnilega við, þjóðin! Þjóðin sem streðar við að borga af verðtryggðu lánunum, ólöglegu lánunum, greiða hækkuðu skattana sem vinstri stjórnin setti á. Vinstri stjórnin! Fylkingin, sem hefur að eigin sögn í hverri einustu kosningabaráttu sem ég man eftir, barist fyrir fólkið í landinu, en þegar hún komst til valda hækkaði skattana, þar með vöruverðið, og þar með verðtryggðu lánin. Jók skuldir heimilanna. Takk fyrir ekki neitt! Vinstri menn virðast ekki skilja að það hjálpar ekki hagkerfinu að byrja á að taka krónurnar til ríkissjóðs og veita þeim til útlanda áður en þær fara út í hagkerfið, í þá hringrás sem því fylgir. Þá deyr hagkerfið. Og því er að blæða út. Enda ekki krónurnar alltaf langflestar í ríkissjóði hvort eð er? Þær þurfa bara að hafa viðkomu á eins mörgum stöðum á leiðinni og hægt er. Hugsið aðeins hvaða leið 1000 kr. fara eftir að þær fara úr veskinu ykkar. Hættið að níðast á þjóðinni! Hættið að láta þjóðina líða fyrir pólitíska valdaleiki ykkar! Hættið að tala um nýtt Ísland! Þið eru að reisa við gamla Ísland, með sama sukkinu! Látið verkin tala! Stöðvið lögbrot fjármálafyrirtækjanna. STRAX!
Bloggar | Breytt 3.4.2010 kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)