Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
#34. FME og SÍ brjóta almenn hegningarlög
30.6.2010 | 11:23
Lesið eftirfarandi greinar almennra hegningarlaga og dæmi nú hver fyrir sig:
"248. gr. Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum."
Og ef forsvarsmenn fjármálafyrirtækjanna fara eftir þessum tilmælum brjóta þeir þessa grein hegningarlaga:
"249. gr. Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi."
Ég held það sé kominn tími til að neytendur labbi til Ríkislögreglustjóra.
Í þágu almannahagsmuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
#33. Lánafyrirtæki mega ekki innheimta annað vaxtastig
30.6.2010 | 11:17
14. gr. laganna segir að: "Séu ekki veittar upplýsingar um lántökukostnað sem greinir í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. skal neytandi greiða höfuðstól og ársvexti af honum sem samsvara vöxtum af almennum skuldabréfum samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands.
Ef lántökukostnaður er tilgreindur í samræmi við 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. er lánveitanda eigi heimilt að krefjast frekari lántökukostnaðar. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sem um getur í 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð getur lánveitandi ekki krafist hærri lántökukostnaðar."
Lántökukostnaður er skilgreindur í lánasamningi með framsetningu árlegrar hlutfallstölu kostnaðar skv. tilskipunum Evrópusambandsins. Lánafyrirtækin geta ekki farið eftir tilmælum FME og Seðlabankans því þá brjóta þau lög um neytendalán.
En það væri víst ekki í fyrsta sinn sem þau brjóta landslög.
Miða við lægstu vexti á hverjum tíma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
#32. Sveiattan aftur!
29.6.2010 | 13:52
Það voru bankastjórnirnar sem sóttu fjármagn til útlanda, til að endurlána á Íslandi með óábyrgum hætti gegn ótryggum veðum í glórulausar yfirtökur á fyrirtækjum, ekki lánþegar. Bankarnir veifuðu fé framan í almenning á kostakjörum, almenningur stóð ekki og betlaði í dyragættinni. Það gátu allir fengið nóg af peningum að láni.
Það voru eigendur bankanna með fulltingi bankastjóranna og bankastjórnanna sem fóru með þá eins og vogunarsjóði og skömmtuðu sér og sínum óhóflegt fé úr sjóðum þeirra með arðgreiðslum, kaupaukum, veislubruðli og lélegum eða engum veðum. Ekki almennir lánþegar. Stærstu lánþegar bankanna voru "fagfjárfestar" eða "kjölfestufjárfestar". Sér var nú hver kjölfestan! Upphæðirnar sem hafa verið afskrifaðar á suma einstaklinga í eigendahópi bankanna gætu borgað skuldir heimilanna mörgum sinnum.
Pétur Blöndal segir að það vanti sparnað á Íslandi. Besti sparnaðurinn á Íslandi síðustu ár átti að vera langtímasparnaður með hlutabréfakaupum í sjóðum eða fyrirtækjum. Hvað hafa lífeyrissjóðirnir "okkar" tapað miklu á þeim sparnaði, Pétur Blöndal?
Hverjir heldur Pétur Blöndal að vilji spara hjá bankastjórnendum sem hagar sér eins og bankinn sé vogunarsjóður?
Skömmin er þeirra að benda núna á almenning sem orsakavald!
Segir sveiattan" við málflutningi Gylfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
#31. Hver hafði eftirlitsskylduna með gengistryggðum lánum?
28.6.2010 | 01:27
Nú er verið að kynna nýjan flöt í umræðunni um hver bar ábyrgð á eftirliti vegna gengistryggðra lána. Gráa svæðið! Hvílík endemisþvæla ætlar þessi umræða að verða! Skoðum ákvæði tvennra laga, fyrst laga um neytendalán og svo lög um fjármálafyrirtæki.
Í lögum um neytendalán nr. 121/1994 segir í 1. gr.
Lög þessi taka til lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur."
Þá segir í 25. gr. sömu laga:
[Neytendastofa]1) annast eftirlit með ákvæðum laga þessara. [Ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gilda um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð.]2)"
Þessi lög voru sett til að uppfylla ákvæði tilskipunar Evrópuráðsins nr. 93/13/EBE þar sem segir í fororði: Það er á ábyrgð aðildarríkjanna að tryggja að í samningum sem gerðir eru við neytendur séu ekki óréttmætir skilmálar."
Þá segir í 7. gr. hennar:
Aðildarríkin skulu tryggja, í þágu neytenda og samkeppnisaðila, að til séu réttar og árangursríkar leiðir til að hindra áframhaldandi notkun óréttmætra skilmála í samningum seljenda eða veitenda við neytendur."
Lög um fjármálafyrirtæki segja í 1. gr.:
Lög þessi gilda um innlend fjármálafyrirtæki og um starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi. Með fjármálafyrirtæki er í lögum þessum átt við fyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 6. gr., sbr. 4. gr."
19. gr. segir ennfremur að fjármálafyrirtæki skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.
Þá segir 107. gr laganna:
Fjármálaeftirlitið.
[Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja og fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði sem fellur undir ákvæði laga þessara, svo og starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
Útlán fjármálafyrirtækis eru eftirlitskyld starfsemi! Sú starfsemi skal vera lögum samkvæmt, þ.m.t. lögum um vexti og verðtryggingu!
Hananú! Þar höfum við það! Er þá gráa svæðið ekki orðið kýrskýrt?
Gengistrygging var bönnuð frá 2001 sbr. lög um vexti og verðtryggingu. Sé slíkur samningsskilmáli settur í samning atvinnurekanda við neytanda er hann brot á landslögum og því óréttmætur. Íslenska ríkið átti að tryggja að í samningum sem gerðir eru við neytendur væru ekki óréttmætir skilmálar. Með tryggingu þýðir að sett eru lög til að tryggja réttindi og ennfremur að lögum sé framfylgt án þess að til dómsmála komi. Þetta hefur íslenska ríkið ekki gert og þar með gerst brotlegt við tilskipun Evrópuráðsins frá 1993 um óréttæta samningskilmála og þar með EES-samninginn.
Neytendastofa átti að fylgjast með því að lánssamningar væru rétt gerðir, þ.e. innhéldu ekki óréttmæta samningsskilmála. Tilskipunin telur upp dæmi um slíka samningsskilmála í viðauka, en listinn er ekki sagður tæmandi. Burt séð frá slíkum listum, hvaðan sem þeir kunna að eiga uppruna sinn, er þó varla til skýrara dæmi um óréttmætan samningskilmála en brot á landslögum tiltekins ríkis!
Fjármálaeftirlitið átti að sjá til þess að starfsemi fjármálafyrirtækis bryti ekki starfsleyfi, eða góða viðskiptahætti og venjur á fjármagnsmarkaði. Það eru ekki góðir viðskiptahættir að brjóta landslög við framsetningu á lánssamningum.
Myntkarfan týndist á gráu svæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
#30. Ræða þingmanns um afnám verðtryggingar árið 1992!
25.6.2010 | 02:40
Ég fann eftirfarandi tilvitnanir á vef Alþingis í ræðu þingmanns frá árinu 1992. Umræðuefnið var frumvarp til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár, sem átti að afnema verðtryggingu lánsfjár við lánskjaravísitölu. Ég birti hér valda kafla, en hlekkur á ræðuna í heild sinni er að finna í lok færslunnar. Leturbreytingar eru mínar.
Ég vil fyrst nefna þann megingalla að sá sem á að greiða skuldina og undirgengst skuldbindingar um vísitölu tekur á sig alla áhættu um þróun mála á lánstímanum hvað varðar vísitölu og vexti og önnur þau kjör sem kveðið er á um í lánssamningi að séu breytileg. Eitt af því sem mér hefur fundist orka mjög tvímælis er hvort það ætti að heimila lánveitingar með breytilegum kjörum. Það er að mínu viti nokkurt siðleysi fólgið í því að fá fólk til að taka lán á tilteknum kjörum, eins og þau líta út við undirskrift samnings, en áskilja sér síðan rétt til að breyta þeim kjörum sér í hag og lángreiðandanum í óhag hvenær sem er á lánstímanum. Þar á ég fyrst og fremst við vextina. Það er alkunna og þarf ekki að minna menn á það að eitt af því sem hefur valdið verulegum vandræðum hjá fjöldamörgum hér á landi eru þessir breytilegu vextir."
Og litlu seinna:
Mér hefur stundum fundist að það væru réttar leikreglur að skipta áhættunni til helminga og skylda þá sem veita lán eða vilja fá aðra til að taka lán hjá sér að hafa fast fyrirkomulag á láninu og afnema ákvæði um breytileg lánakjör eða fyrirvara lánveitanda um það að hann áskilji sér rétt til að breyta kjörum á láninu hvenær sem honum dettur í hug. Það er eitt af þeim atriðum sem hafa reynst launafólki hvað erfiðust í gegnum tíðina og hefur ítrekað komið mjög hart niður á pyngju þeirra, t.d. hækkanir á afborgunum af lánum til húsnæðiskaupa."
Og síðar:
Mér finnst að mörgu leyti sanngjarnar leikreglur að sá sem lætur lánið eða peningana af hendi undirgangist þá kvöð að lánið, sem hann er að veita, sé með föstum kjörum. Hvort sem það er með verðtryggingu eða vöxtum sem samið er um þarf það að vera fast og óumbreytanlegt út lánstímann svo sá sem tekur lánið veit að hverju hann gengur og hefur þar fast land undir fótum allan lánstímann. Hann tekur að vísu áhættuna af því að afsala sér hugsanlega skárri lánskjörum ef vextir kynnu að lækka en sá sem lætur lánið af hendi verður líka að sæta því að taka áhættu því hann getur ekki tekið sér hærri vexti ef vaxtastigið hækkar á lánstímanum. Það held ég að sé grundvallaratriði í fjármálaviðskiptum að þeir sem taka lán geti búið við það öryggi að lánskjör séu föst.
Eitt dæmi af hálfu stjórnvalda sem hefur breytt verulega miklu fyrir lántakendur er hringlandaháttur og lagabreytingar sem koma aftan að fólki."
Áfram heldur þingmaðurinn:
Ég vil líka nefna að með verðtryggingunni sem slíkri er sá sem veitir lánin að taka sér býsna miklar tryggingar gagnvart öllum hugsanlegum breytingum, t.d. breytingum erlendis sem við getum ekki haft nein áhrif á og valda erfiðleikum í okkar þjóðarbúskap. Lánveitendur hafa tryggt sig fyrir þeim þó að þeir erfiðleikar lendi á almenningi í landinu af fullum þunga að öðru leyti. Þannig má nefna sem dæmi, sem að sumu leyti er kannski dálítið broslegt, að uppskerubrestur á kaffi í Brasilíu leiðir til hækkunar skulda hjá fólki hér á landi af því að sá sem hefur lánað hefur tryggt sig fyrir því með svokallaðri lánskjaravísitölu og hvernig að því er staðið að reikna hana út.
Maður kann auðvitað að spyrja sjálfan sig: Er rétt eða eðlilegt að sá sem á útistandandi peninga hjá öðrum þurfi ekki að taka neina áhættu í þessum efnum? Á hann að njóta þess að eign hans hjá öðrum hækkar við að erfiðleikar verði í kaffiuppskeru í Brasilíu? Það er nákvæmlega það sem gerist að það veldur hækkun á höfuðstól lánsins."
Og svona endar ræða þingmannsins:
En í heildina finnst mér óeðlilegt að verðtrygging skuli vera slík trygging fyrir þá sem lána peninga sem raun ber vitni. Þeir hafa í raun og veru allt sitt á þurru, taka enga áhættu og áskilja sér þar að auki heimild til þess að auka kostnaðinn við lántökuna með breytilegum vöxtum ef tilteknar aðstæður leiða til þess að vextir almennt hækka í þjóðfélaginu.
Staða þeirra sem lána gagnvart stöðu þeirra sem skulda allt of ójöfn. Staða þeirra sem skulda þarf að verða miklu styrkari en hún er í reynd. Því tel ég þetta frv. í sjálfu sér fyllilega tímabært og vænti þess að það leiði til skaplegrar umræðu um lánskjör og ávöxtun sparifjár, eins og hér segir, en kannski ekki hvað síst um stöðu skuldara í samfélagi markaðshyggjunnar."
Þessi orð mælti Kristinn H. Gunnarsson á 116. löggjafarþingi árið 1992, í 2. umræðu um frumvarp til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár, sem átti að afnema verðtryggingu lánsfjár við lánskjaravísitölu.
Ræðuna í heild sinni má finna hér.
Kristinn: Hvað breyttist?
Eftirstöðvar sexfaldast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
#29. Man einhver eftir eignaleigunni Lind hf?
24.6.2010 | 16:44
Eignarleigan Lind hf. var stofnuð árið 1986 og voru stofnendur félagsins Banque Indosuez (40%), Samvinnubanki Íslands (30%) og Samvinnusjóður Íslands (30%). Við kaup Landsbankans á Samvinnubankanum í upphafi árs 1990 eignaðist bankinn 30% eignarhlut í Lind hf. Í lok sama árs keypti bankinn 40% eignarhlut Banque Indosuez í Lind hf. Á árinu 1992 keypti Landsbankinn eignarhlut Samvinnusjóðs Íslands í Lind hf. og varð bankinn eftir það eini eigandi félagsins.
Um mitt árið 1990 var svo komið fyrir Lind að félagið uppfyllti þá ekki skilyrði laga um eigið fé. Félagið hafði verið rekið á sérstakri undanþágu viðskiptaráðuneytisins, skv. heimild til bráðabirgða í lögum nr. 19/1989. Sú heimild rann út hinn 4. október 1990, og þar með starfsleyfi félagsins, án þess að bætt hefði verið úr eiginfjárvöntuninni. Eigið fé félagsins var síðan aukið um 115 millj. kr. í lok desember 1990 og komu 80,5 m.kr. í hlut Landsbankans. Uppfyllti félagið þar með lágmarkshlutfall eigin fjár skv. lögum nr. 19/1989 og staðfesti viðskiptaráðuneytið í framhaldi af því að starfsleyfi félagsins væri í gildi, með bréfi dags. 23. janúar 1991.
Sverrir Hermannsson sagði í blaðaviðtali við Morgunpóstinn árið 1994: Lind hefur stórtapað, og bankinn á hundrað prósent í Lind svo tap fyrirtækisins er tap bankans."
Mikið var fjallað um málefni fyrirtækisins í bankaráði Landsbankans á þeim tíma til að leita skýringa á tapi bankans og hvernig tryggja megi að slíkt endurtaki sig ekki í framtíðinni. Í janúar 1996 var lögð fyrir bankaráð ítarleg greinargerð um málið, en í þeirri skýrslu er leitast við að upplýsa og varpa ljósi á þær ákvarðanir og þá atburðarás sem leiddi til hins mikla taps fyrirtækisins.
Skýring þess taps sem varð af starfsemi Lindar hf. er samspil margra þátta. Hluta skýringanna er að leita í þeirri megin hugmynd sem lá að baki starfrækslu félagsins. Hún var að fjármagna leigumuni án þess að taka aðrar tryggingar en í leigumununum sjálfum. Þegar félagið hóf rekstur var mikil uppsveifla í efnahagslífinu og vextir á eignarleigusamningum voru mjög háir. Hugmyndin virtist þannig ganga vel upp.
Rekstrarhugmynd sú sem félagið byggði á gerði miklar kröfur til framkvæmdastjóra félagsins. Jafnframt er slíkur áhætturekstur mjög viðkvæmur fyrir áhrifum efnahagssveiflna. Í skýrslu Löggiltra endurskoðenda hf. frá 7. febrúar 1995 segir að þótt vinnubrögð við lánveitingar hafi breyst mikið til batnaðar á sl. tveimur árum, beri tölur með sér að alvarlegir misbrestir hafa verið í útlánaferli og eftirfylgni félagsins með útlánum um langt skeið. Verulegan hluta af ábyrgðinni höfðu skýrsluhöfundar getað rakið til ákvarðana fyrrum framkvæmdastjóra félagsins.
Þó er rétt að geta þess að Lind hf. var að stórum hluta í eigu Samvinnubankans og Samvinnusjóðsins, og tók það þátt í fjármögnun á tólum og tækjum í eigu Sambandsins, þar á meðal t.d. öllum innréttingum Miklagarðs. Þesar innréttingar voru seldar fyrir slikk við fall Sambandsins. Þannig að ekki var öll starfsemin eingöngu tengd bílalánum og vinnuvélum. Áætlað tap Lindar hf. vegna falls Sambandsins var á tveimur árum 215 milljónir króna. Stórir peningar fyrir 20 árum en smámunir í dag. Hvað segir það okkur um krónuna okkar?
Féfang hf. var annað eignaleigufyrirtæki, stofnað í lok árs 1986 af Fjárfestingarfélaginu sem hafði verið brautryðjandi í gerð kaupleigusamninga hér á landi en félagið hafði boðið upp á þá allt frá árinu 1972. Fjárfestingarfélagið átti meirihluta í Féfangi, eða 67% en Lífeyrissjóður verslunarmanna, Tryggingarmiðstöðin og Verslunarbankinn áttu um tíu prósent hver auk Sparisjóðs vélstjóra sem átti um eitt prósent. Þegar Skandia keypti Verðbréfamarkað Fjárfestingarfélagsins 1994 var Féfang selt til Íslandsbanka og í febrúar 1995 voru Glitnir og Féfang sameinuð undir nafni Glitnis.
Á síðustu árum hefur SP-Fjármögnun verið rekið með umtalsverðum hagnaði, alla vega miðað við bækur félagsins. Heiðurinn af þessum hagnaði á framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá upphafi, Kjartan Georg Gunnarsson, sem áður stýrði fyrrnefndu Féfangi hf. Hagnaðurinn er hins vegar að mestu tilkominn með ólöglegri starfsemi, veitingu gengistryggðra lána. Gerir það framkvæmdastjórann og stjórnarmenn að glæpamönnum? Þeir báru ábyrgðina á að starfsemi félagsins væri lögum samkvæmt. Stjórnarformaður um langt skeið var Þorgeir Baldursson, fyrrum aðalpeningasafnari Sjálfstæðisflokksins, og eigandi Kvosar hf. sem á m.a. fjölskyldufyrirtæki Þorgeirs, Prentsmiðjuna Odda. SP-Fjármögnun hf. hefur einnig stundað umtalsverð viðskipti með framvirka gjaldmiðlasamninga til að verja sig gengisáhættu í rekstri þess, gengisáhættu sem þó var nánast öll á viðskiptamönnum þess þar til Hæstiréttur felldi sinn dóm um lögmæti þessara lána. Telst það eðlilegur hluti af eignaleigustarfsemi að sýsla í stórum stíl með gjaldeyri (ef það þá gerðist) og framvirka gjaldeyrissamninga, og taka þar með stöðu gegn hagsmunum viðskiptamanna sinna, hvort sem um gengistryggð eða verðtryggð lán var að ræða?
Hver er þá framtíð SP-Fjámögnunar hf.?
Framburður framkvæmdastjóra og ársskýrslur fyrirtækisins segja að útlán félagsins hafi verið fjármögnuð með lánum frá móðurfélaginu, Landsbankanum, (nú nefndur NBI). Skv. ársreikningi fyrir 2007 nam eiginfjárhlutfall 11,3% í árslok 2007. Lögbundið hlutfall er 8% af áhættugrunni lesi ég 84.gr. laga um fjármálafyrirtæki rétt.
Hvernig er þá staða SP í dag?
Alveg eins og tap Lindar hf. á sínum tíma var tap Landsbankans, var gróði SP-Fjármögnunar hf. gróði eigenda hans, Landsbankans. Gróði þessi, 960 milljónir árið 2007 og 803 milljónir 2006, varð að til með ólöglegum lánagjörningum, gengistryggðum lánum sem voru 80-90% af viðskiptum félagsins. Lánagjörningar sem voru samsettir, eða hið minnsta samþykktir, af stjórn SP-Fjármögnunar hf., hvar í sátu föngulegur hópur fólks, m.a.fulltrúar Landsbankans, þ.á.m. Sigurjón Árnason og Elín Sigfúsdóttir, fyrrum bankastjórar hans og Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrum sparisjóðstjóri BYRs hf.
Við dóm Hæstaréttar tapaði fyrirtækið líklega um 50% af bókfærðu virði eignasafns síns, eignasafns sem væntanlega var veð lánardrottna þess við lánum fyrirtækisins. Er eigið fé SP þar með nægjanlegt eftir slíkt tap til að fullnægja lögbundnu eiginfjárhlutfalli? Ég leyfi mér að stórefast um það en tek þó fram að ég er hvorki lögfræði- né viðskiptafræðimenntaður maður. Skv. lögunum er það skylda stjórnenda að tilkynna FME þegar í stað ef ástæða er til að ætla að lögbundnu hlutfalli sé ekki fullnægt í rekstri fjármálafyrirtækis. Sama tilkynningarskylda hvílir á endurskoðanda fjármálafyrirtækis. Einnig getur FME kallað eftir reikningsuppgjöri fjármálafyrirtækis og óskað eftir að slíkt uppgjör sé áritað af endurskoðanda þess. Fréttir herma að FME sé að skoða eiginfjárhlutfall fjármögnunarfyrirtækjanna. Eigendur Lýsingar, Exista, hafa tæpast neina möguleika á að bjarga því fyrirtæki með hlutafjáraukningu reynist þörf á því.
Endurtekur sagan sig?
Eru það örlög SP-Fjármögnunar að renna inn í NBI, á komandi mánuðum, alveg eins og örlög Lindar hf. voru árið 1994 með samruna þess við Landsbankann? Mun NBI/Landsbankinn þar með ganga í gegnum annað eignaleiguævintýri, eignast allt lánasafn SP-Fjármögnunar hf. og senda skattborgurum reikninginn? Og er þar með sagan öll?
Hagkerfið þolir ekki samningsvexti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
#28. Afnemum verðtrygginguna!
21.6.2010 | 12:34
Gleymum því ekki að margir sem tóku gengistryggð bílalán eru líka með verðtryggð húsnæðislán og hafa vel fundið fyrir hækkun þeirra líka. Grundvallaratriðið varðandi gengistryggðu lánin er þetta: Lánastofnanir veittu ólögleg lán með óréttmætum skilmála, gengistryggingu, án athugasemda Fjármálaeftirlitsins. Tilskipun Evrópuráðsins 93/13/EBE, sem Ísland er bundið af í gegnum EES-samninginn, segir að "það er á ábyrgð aðildarríkjanna að tryggja að í samningum sem gerðir eru við neytendur séu ekki óréttmætir skilmálar." Svo var ekki gert.
Hvað verðtrygginguna varðar þá er hún heimil samkvæmt gildandi lögum. Margsinnis hefur verið flutt frumvarp á Alþingi um afnám hennar. Ef þingheimur hefði tekið á þessu vandamáli fyrir allnokkrum árum stæðum við ekki í þessum sporum í dag. Háttvirtum þingmanni Einari K. Guðfinnssyni væri nær að taka þátt í að afnema hið séríslenska fyrirbæri verðtrygginguna, hækju lélegrar hagstjórnar, þ.m.t. hagstjórnar Sjálfstæðisflokksins.
Hvað með fólkið með verðtrygginguna? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#27. Hvað á að gera í stað gengistryggingar?
19.6.2010 | 12:40
Í raun er það ekki flókið úrlausnarefni því 36.gr. samningalaganna segir í raun hvað eigi að gera. Neytendur geta gert kröfu til að samningurinn gildi áfram utan gengistryggingarákvæðis. Hvað á ég við?
Samningalögunum var breytt 1995 með setningu laga nr. 14, til að uppfylla ákvæði tilskipunar Evrópuráðsins nr. 93/13/EBE um óréttmæta samningsskilmála í neytendassamningum. Í henni segir berum orðum í fororði:
Það er á ábyrgð aðildarríkjanna að tryggja að í samningum sem gerðir eru við neytendur séu ekki óréttmætir skilmálar."
Og ennfremur:
Í bandalagsáætlununum tveimur um neytendavernd og miðlun upplýsinga (4 ) var lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja rétt neytenda gagnvart óréttmætum samningsskilmálum. Þessa vernd þarf að veita með laga- og reglugerðarákvæðum sem eru annaðhvort samræmd á bandalagsvísu eða samþykkt beint af bandalaginu."
Og síðar:
Samningar skulu orðaðir á eðlilegu, skiljanlegu máli, neytandi skal fá tækifæri til þess að skoða alla skilmála og í vafamálum gildir sú túlkun sem neytandanum kemur best.
Aðildarríkin skulu tryggja að óréttmæta skilmála sé ekki að finna í samningum sem seljandi eða veitandi gerir við neytendur og ef slíkir skilmálar finnast þrátt fyrir allt, þá séu þeir ekki bindandi fyrir neytendur og samningur verði áfram bindandi fyrir samningsaðila með þessum skilmálum ef hann getur gilt áfram án hinna óréttmætu ákvæða."
Og þarna komum við því að lykilatriðinu. Getur lánssamningur, sem upphaflega var gengistryggður, verið efndur að kröfu neytenda, skv. 36.gr. c. samningalaga, án gengistryggingar? Með öðrum orðum, getur neytandi efnt samninginn án gengistryggingar? Svarið er einfalt: Já, neytandi getur efnt samninginn að mínu mati því hann þarf að borga LIBOR vexti eins og um var samið í upphafi, því það má semja um annað vaxtaviðmið en Seðlabanki gefur út.
En af hverju má ekki setja inn annað vaxtaviðmið sem hefði líklega átt að vera, s.s. verðtrygging eða óverðtryggðir vextir Seðlabanka. (Þeim sem leiðist lagatextar ættu að staldra við rauðletraða textann hér á eftir.)
Samningalög segja í 36.gr.: Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, [sbr. þó 36. gr. c].1) Hið sama á við um aðra löggerninga."
Skoðum þá c-lið 36.gr.:
36. gr. c. Ákvæði 36. gr. gilda um samninga skv. 1. mgr. 36. gr. a, þó með þeim breytingum sem leiðir af 2. og 3. mgr.
Við mat á því hvort samningur skv. 1. mgr. sé ósanngjarn skal líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist. Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag. (Innsk: Sem sagt ekki má reikna annað vaxtastig en samið var um í upphafi ef það sé neytanda í óhag.)
Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.
Takið eftir kröfu neytanda, því það er mikilvægt því á þessu tekur c-liður 36.gr. samningalaganna eftir breytinguna sem var gerð 1995 neytendum til hagsbóta. Ekki atvinnurekendum.
Við samningsgerð var lántakendum afhent fylgiskjal með greiðsluáætlun. Á greiðsluáætluninni kemur fram árleg hlutfallstala kostnaðar. Það er lagaleg skylda lánveitanda að upplýsa um þessa hlutfallstölu til þess að lántaki geti borið saman ólíka fjármögnunarkosti. Lægsta hlutfallstala kostnaðar segir til um hagstæðasta kostinn.
Lög um neytendalán segja skýrt í 14.gr að lánveitanda sé óheimilt að innheimta hærri heildarkostnað láns en kynntur er í upphafi samnings: Lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar."
Heildarlántökukostnaður má því einungis breytast ef umsamið vaxtastig breytist eða lögmæt verðtrygging.
Að ofangreindu sögðu geta lántakar gengistryggðra lána líklega krafist þess að það vaxtaviðmið gildi, sem um var samið í upphafi. Neytendur eiga því að gera kröfu til viðkomandi fjármögnunarfyrirtækis, þess efnis að samningurinn eins og hann var framsettur í upphafi með árlegri hlutfallstölu kostnaðar, gildi. Ekki á að reikna annað vaxtastig í ljósi sanngirniskröfu fjármögnunarfyrirtækjanna.
Fjármálafyrirtækin, sem sérfróðir aðilar um fjármagnsmarkað, áttu að vita betur en bjóða upp á ólöglega gjörninga. Og þau vissu raunar betur sé tekið mið af bréfi Guðjóns Rúnarssonar framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja til viðskiptanefndar, fyrir setningu laga um vexti og verðtryggingu árið 2001.
Því er hvorki sanngjarnt né lögmætt að neytendur beri hallann af því að lánveitandi fái að reikna annað vaxtastig, og þar með hærri hlutfallsstölu kostnaðar, en samið var um í upphafi. Fari svo að lög verði sett til að gefa aðra niðurstöðu en að ofan er greint gætu neytendur átt rétt á bótum frá ríkinu að mínu mati.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#26. Af hverju var þetta þá svona erfitt?
16.6.2010 | 19:16
Áhrif dómsins að mestu til góðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
#25. Enn einn naglinn í líkkistu bankafjárglæframanna
16.6.2010 | 18:49
Það var ótrúlega góð tilfinning þegar lesið var upp dómsorð í Hæstarétti í dag í málum SP og Lýsingar um lögmæti gengistryggingar lánssamninga í íslenskum krónum. Dómurinn staðfesti að lánveitendur, sérfróðir aðilar á fjármálamarkaði, buðu neytendum upp á ólögmæta afurð um árabil, í andstöðu við lög, fyrir framan nefið á þeirri aumu stofnun Fjármálaeftirlitinu. Nú hefur verið tekinn allur vafi á lögmæti þessara samninga. Það er ekkert.
En hvað þýðir þetta? Eru lánssamningarnir í heild sinni ólögmætir eða er gengistryggingarákvæðið eingöngu ólögmætt en samningurinn að öðru leyti fullgildur, þ.m.t vaxtaákvæðið? Það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu þessi mál taka á næstu dögum því fjármögnunarfyrirtækin mynda greiðsluseðla sína mörg hver í kringum 20. hvers mánaðar.
Og hvað gerir ríkisstjórnin? Mun hún taka til við að bæta fyrirtækjunum skaðann með setningu laga sem "leiðrétti" skaðann sem þau urðu fyrir í dag?
Annað sem vekur upp spurningar er ábyrgð stjórnenda þessara fyrirtækja, framkvæmdastjóra jafnt sem einstakra stjórnarmanna. Er hægt að lögsækja þá fyrir fjársvik? Geta lántakar farið fram á skaða-eða miskabætur? Hvað gerir FME? Er hægt að beita fyrirtækin dagssektum? Spurningarnar eru óteljandi.
Eitt er þó víst, rekinn hefur verið enn einn naglinn í líkkistu fjárglæframanna bankahrunsins á Íslandi.
Öll gengistrygging ólögleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)