#6. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP - 3. hluti

Síðasta færsla varð lengri en til stóð, en ég einfaldlega gat ekki hætt fyrr en ég hafði gert málinu þau skil sem ég var sáttur við.  Ég ræddi þar um nokkur hugtök og skilgreiningar sem tengjast bílasamningum SP - Fjármögnunar, s.s. neytendalán, kaupleigu, fjármögnunarleigu, rekstrarleigu og afborgunarkaup. 

Eins og ég benti á í fyrsta hluta hefur SP ekki heimildir að mínu mati, til viðskipta fyrir eigin reikning eða viðskiptamenn með:

a. greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.),
b. erlendan gjaldeyri,
c. framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir),
d. gengisbundin bréf og vaxtabréf og
e. verðbréf.

Skoðum fyrst hvað eru viðskipti og gjaldeyrisviðskipti.  Skilgreining á orðinu viðskipti í tölvutækri íslenskri orðabók Menningarsjóðs segir svo:  Viðskipti: 1. samskipti, gera út um viðskipti sín 2. það að skiptast á vörum, peningum, verslun.  Lög nr. 87 frá 1992 um gjaldeyrismál skilgreina gjaldeyrisviðskipti sem „....það að skipta innlendum gjaldeyri fyrir erlendan, erlendum gjaldeyri fyrir innlendan eða einum erlendum gjaldeyri fyrir annan eða reikningsviðskipti sem eru ígildi þess að erlendur gjaldeyrir sé látinn af hendi eða móttekinn."

Skoðum þá aðeins ofangreinda liði b., c., og d., og hvernig þeir tengjast hugsanlega bílasamningum.  Fyrst b-liður. 

SP fullyrðir að lánasamningur með íslenskum höfuðstól, með ákvæði um gengistryggingu við myntkörfu BL2 (sem er 50% japönsk yen og 50% svissneskir frankar), sé lán í erlendri mynt.  Þegar eftir því hefur verið leita að fyrirtækið rökstyðji slíka fullyrðingu með vísan í lánssamning hefur ekkert svar borist.  Mín skoðun er sú, að þar sem fyrirtækið er ekki með heimild í starfsleyfi sínu til viðskipta með erlendan gjaldeyri, geti það ekki lánað slíkan gjaldeyri.  Það getur ekki fjármagnað sig með erlendum gjaldeyri, hvort sem lánið kemur frá innlendum aðila eða erlendum, því þar sem það getur ekki átt viðskipti með erlendan gjaldeyri, getur það ekki skipt honum í íslenskar krónur til frekari viðskipta, svo sem endurláns.  Það getur ennfremur ekki skipt einum erlendum gjaldeyri fyrir annan.  Mín skoðun er reyndar sú að bílasamningur með gengistryggingu á íslenskan höfuðstól sé íslenskt krónulán, en ekki í erlendri mynt.

Hver eru þá viðurlögin við broti á gjaldeyrisviðskiptum? 13. gr. laga um gjaldeyrismál segir:  „Fyrir brot á lögum þessum skal refsa með sektum eða varðhaldi liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt eða sviptingu starfsréttinda. Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga." 

Þannig er nú það.  Á þessi grein við um viðskiptagjörninga SP - Fjármögnunar ef fullyrðing fyrirtækisins stenst um að þeir séu í erlendri mynt?

Í næsta pistli mun ég halda áfram og skoða fyrrgreinda liði, c. framvirka samninga, og d. gengisbundin bréf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband