#9. Hugleiðing um bílalánafrumvarp

Í fyrrakvöld sendi ég eftirfarandi tölvupóst til allra kjörinna þingmanna á Alþingi.

"Hæstvirtur þingmaður,

Um leið og ég fagna því að stjórnvöld skuli reyna loksins að taka á vanda heimilana vegna ólöglegra gengisbundinna bílalána lýsi ég þó furðu minni á aðferðinni.  Í stað þess að styrkja eftirlitsstofnanir og eyða réttaróvissu um lánagjörningana, á að umbreyta lánunum í verðtryggð lán með löggjöf skv. fréttum fjölmiðla.  Hvers vegna þverskallast stjórnvöld við að taka á málinu með þeim hætti sem rétt er og eyða réttaróvissu?  Ætla stjórnvöld að leyfa eftirlitsskyldum aðilum að komast upp með lögbrot og halda áfram að vanvirða neytendalöggjöf og neytendavernd?  Löggjöf og neytendaverndarákvæði, sem þó voru innleidd við upptöku EES samningsins og er hluti þeirrar nýju sýnar sem Samfylkingin telur þá einu réttu fyrir Ísland, inngöngu í Evrópusambandið, en er fjarri því búið að efna í reynd.  Og neytendur virðast eiga erfitt með að láta reyna á.  Verður fyrirtækjum sem hafa ekki heimildir til viðskipta með erlendan gjaldeyri leyft áfram að skuldsetja sig í erlendri mynt og brjóta starfsheimildir sínar án nokkurra eftirkasta?  Og á ekki að loka á þann möguleika að eftir nokkur ár geti sama sukkið byrjað aftur, því fólk er fljótt að gleyma og nýjar kynslóðir munu ekki hafa reynt á eigin skinni það sem við göngum í gegnum í dag.

Á fundi Samfylkingarinnar á Loftleiðum 27. mars síðastliðinn minntist félagsmálaráðherra á í ræðu sinni á miðaldra mann sem væri alltaf að kvarta í tölvupósti til sín yfir að hafa tekið myntkörfulán upp á 16 milljónir til að kaupa sér vélsleða en lánið stæði nú í 37 milljónum.  Hann sagði að það væri ekki félagslegt vandamál.  Það hvarflar ekki að ráðherranum að maðurinn hafi kannski alveg haft rétt á því að taka 16 milljóna króna lán á húsið sitt?  Það hvarflar ekki að honum að myntkörfulánið sem honum og fleirum var boðið, var ólöglegt frá upphafi og er enn?  Vill þingheimur ekki fá þeirri óvissu eytt?  Miðaldra maðurinn á alveg sama rétt á að fá að standa við sitt, alveg eins og unga parið sem ráðherrann nefndi í framhaldinu og skuldar 60 milljónir króna af 25 milljóna króna íbúð.  Það er nefnilega enginn eðlismunur á lánunum sem slíkum, þó fólk sé ungt, miðaldra eða gamalt!  Heiðvirt fólk vill fá sanngjarna málsmeðferð og að lög og stjórnarskrá Íslands sé virt.  Þar verður ríkisstjórn Íslands og Alþingi að vera í fararbroddi.

Í ræðunni á Loftleiðum talaði ráðherrann fjálglega en þó af festu um nýtt embætti umboðsmanns skuldara. Og sagði um það: „Og það verður eins stórt og til þarf.  Og fjármálastofnanir munu borga fyrir það.  Og ef við þurfum að ráða þangað 2000 manns, þá ráðum við þangað 2000 manns."  Hvernig væri nú að byrja á því, að ráða 50-100 manns til stofnunar sem þó er til og á að sjá um eftirlit með eftirlitsskyldum aðilum, Fjármálaeftirlitið?  Það er bara 2,5-5% af þeim fjölda sem ráðherran segist vera tilbúinn að ráða til nýs embættis umboðsmanns skuldara, á tímum þegar rætt er um að minnka báknið og sameina 80 ríkisstofnanir í sparnaðarskyni!  Veistu, það tók mig 37 daga að fá einfaldar upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu um starfsleyfi eins fjármálafyrirtækis.  Og þetta var þrátt fyrir ítrekanir og eftirgrennslan í tölvupósti og síma.  Það var ekki fyrr en ég vísaði í upplýsingalög að svar barst innan nokkurra klukkustunda.  Ástæða seinagangsins var gefin annir starfsfólks.  Og ég efa hana ekki.

Hæstvirti þingmaður, af hverju ráðist þið ekki að rótum vandans, verðtryggingunni?  Hvergi í vestrænum heimi, svo við förum ekki víðar, þekkist hækja lélegrar hagstjórnar, verðtrygging.  Ástæða þess að fólkið í landinu flúði í myntkörfulán var verðtryggingin.  Það þarf ekki langskólanám til að sjá ósanngirnina við það að þegar verð á bensíni, matvöru, dagblaðaáskrift, fatnaði, áfengi og tóbaki, og mörgu, mörgu fleira, hækkar, þá hækka skuldir heimilanna.  Af hverju á ég að borga meira fyrir húsnæðið mitt af því fólk vill geta reykt tóbak og drukkið áfengi?  Ég reyki ekki og drekk sáralítið áfengi en ég þarf að borga fleiri hundruð þúsund, ef ekki milljónir króna af því aðrir vilja geta reykt.  Fólkið í landinu hefur nefnilega fengið nóg af því að borga og borga, og borga meira, en sjá ekki skuldirnar lækka.  Því sjáðu, þegar maður borgar af skuld minnkar hún, en bara ekki á Íslandi, því þar eru Ólafslög enn við lýði, 31 ári eftir að þau voru sett, sem kveða á um að skuldir megi verðtryggja.  Og fólkið þarf að vinna meira, og meira, og meira til að borga meiri skatta sem fyrsta hreina vinstri stjórnin hækkaði.

Greiðsluaðlögun fyrir fólkið er ekki nauðsynleg ef gert er út um lögmæti gengisbundinna lána.  Það mun leysa mikinn vanda að fá úr því skorið.  Þá er það nefnilega bara á hreinu að neytendur skulda íslenskar krónur og ekki þarf neinar reiknikúnstir eða skyggnukynningu til að sýna hversu einhverjar töfralausnir eru góðar.  Og gera hálfgert grín að miðaldra manni sem sendir tölvupósta en gekk til samninga á sínum tíma við eftirlitsskyldan aðila um gjörning sem hann taldi löglegan.

Ég hvet þig, hæstvirti þingmaður, til að kynna þér hverskonar heimildir eru í starfsleyfum eignaleigufyrirtækjanna og hvort þau mega eiga viðskipti með erlendan gjaldeyri, framvirka samninga og gengisbundin bréf því ég veit fyrir víst að SP-Fjármögnun hefur ekki þessar heimildir en stundar þessi viðskipti grimmt, án þess að FME beiti sér gegn þeim.  Ég vonast til að þú beitir þér fyrir því að þessari réttaróvissu verði eytt en ekki taka rétt af fólkinu með því að breyta gengisbundnum lánum einhliða í verðtryggðar skuldir með óhóflegu vaxtastigi.  Leyfðu alla vega þeim sem það vilja að segja sig frá slíkri breytingu og taka slaginn og láta reyna á lög og neytendarétt vegna gengisbundinna lána.

Mér yrði mikil þökk í því ef þú gætir gefið þér tíma til að svara örstutt ef þú lest þennan tölvupóst til enda, einungis til að staðfesta móttöku hans."

Þegar þetta er skrifað hafa 9 þingmenn staðfest móttöku.  Kann ég þeim bestu þakkir fyrir.  Þeir eru í tímaröð:

Birkir Jón Jónsson   Framsóknarflokki

Guðbjartur Hannesson   Samfylkingu

Jónína Rós Guðmundssdóttir   Samfylkingu

Guðmundur Steingrímsson   Framsóknarflokki 

Siv Friðleifsdóttir   Framsóknarflokki

Margrét Tryggvadóttir   Hreyfingunni

Ólína Þorvarðardóttir   Samfylkingu

Magnús Orri Schram   Samfylkingu

Lilja Mósesdóttir   Vinstri grænum

10. svar: Árni Páll Árnason   Samfylkingu (uppfært: 10. apr. 22:20)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband