Færsluflokkur: Hugleiðingar um SP- Fjármögnun

#47. Tilkynningar SP-Fjármögnunar hf. til FME

Í bloggfærslu þann 6.ágúst skýrði ég frá svörum Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurnum mínum vegna starfsleyfis SP-Fjármögnunar.

Til að styðja mínar fullyrðingar í þeirri færslu set ég hér inn færslu með tenglum á gögnin sem Fjármálaeftiritið sendi mér.  Gagnanna var aflað með með vísan til 3.gr. og 10.gr. upplýsingalaga og eru því opinber gögn aðgengileg almenningi sé eftir því leitað.  Mér er ekki kunnugt um að einstaklingum sé óheimilt að að birta gögn sem aflað er með vísan til þessara laga og birti því eftirfarandi tengla:

Dreifibréfið er sent til fjármálafyrirtækjanna heilum 2 mánuðum eftir gildistöku laganna.

Skjölin er ennfremur að finna hér á bloggsíðunni undir Tenglar/Skjöl.

Einhverra hluta vegna virðist SP-Fjármögnun hf. allt leyfilegt í eftirlitsskyldri starfsemi sinni án þess að í taumana sé tekið af ráðamönnum í virki FME á Suðurlandsbrautinni.  Ég segi virki vegna þess að þangað fer enginn inn nema skrá sig hjá vaktmanni í stigahúsi á fyrstu hæð og fá gestakort.  Gildir einu þótt erindið sé einungis inn í afgreiðsluna, enda er hún læst og þarf að hringja dyrabjöllu til að komast þangað inn, eftir að nafnið hefur verið tekið niður og skrásett á jarðhæð stigahússins og síðan ferðast í lyftu upp á 4.hæð.  Ég hef aldrei vitað aðrar eins kröfur til að komast inn í afgreiðslu neins fyrirtækis, hvað þá opinbers.


#45. Öðlingurinn hann Kjartan Georg

Þykist Kjartan Georg Gunnarsson nú vera hugsa um hag lántaka?  Ónei, þetta snýst  ekki um hag lántaka.  Þetta snýst um hag SP-Fjármögnunar og hugsanlega hans eigin.  Það er klárlega hægt að tryggja sig fyrir að bílnum sé stolið í sumarleyfinu.  Það er hægt að tryggja sig fyrir öllu ef maður er tilbúinn að borga fyrir það. 

SP-Fjármögnun hefur stundað ólöglega starfsemi undir stjórn Kjartans Georgs um árabil.  Viðskiptamenn þess hafa verið sviknir og prettaðir um árabil og fyrirtækið hefur haft af þeim fé sem þeir nú neita að greiða til baka.  SP, undir stjórn Kjartans Georgs, hóf að bjóða gengistryggð bílalán/myndtkörfulán til bílakaupa árið 1998, þremur árum áður en lög um vexti og verðtryggingu bönnuðu það svo skýrt. 

Þó eru uppi þau álit að gengistryggð lán hafi í raun aldrei verið lögleg eins og sjá má í dómi Hæstaréttar nr.92/2010 frá 16.júní. Þar segir einfaldlega:  „ Frá 1960 hafi þetta [innsk EAJ: að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla] almennt verið óheimilt og hafi sú regla verið tekin upp í lög nr. 13/1979, en þó þannig að beita hafi mátt í þessu skyni sérstökum gengisvísitölum, sem Seðlabanki Íslands hafi birt, og hafi það verið liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma."  Mér er ekki kunnugt  um hvort SP notaði slíka gengisvísitölu á árunum 1998-2001.

Fyrirtækið og Kjartan Georg Gunnarsson hefur skapað viðskiptamönnum þess fjárhagstjón sem aldrei fæst bætt.  Á meðan hefur Kjartan fengið greiddan árangurstengdan ágóðahlut sbr. bls. 20 í ársreikningi SP frá 2007.  Ágóðahlut sem fékkst af ólöglegum fjármálagjörningum og hann á þess vegna að endurgreiða.  Kjartan Georg hefur sýnt viðskiptamönnum SP-Fjármögnunar hf. ókurteisi og vanvirðingu og gerir enga breytingu þar á.  Ég hef reynt frá 15.júlí að fá Kjartan Georg til að staðfesta fullyrðingu Tryggva Þórs Herbertssonar um að afskriftir Nýja Landsbankans hafi gengið til SP-Fjármögnunar við endurfjármögnun fyrirtækisins, eftir að Tryggivi Þór hvatti mig til að leita staðfestingar hjá SP.  Kjartan hefur engu svarað, ekki stakt orð, ekki einu sinni að hann neiti að svara fyrirspurninni.

Nú situr Kjartan í skjóli Nýja Landsbankans, sem aftur er kominn í fang ríkissjóðs, og viðheldur fjársvikum á þegna landsins og ríkisstjórnin gerir ekki neitt.  Út með þennan mann!

PS: Öll sjónarmið hér að ofan eru mínar persónulegar skoðanir birtar sbr. 73.gr.sjórnarskrár.


mbl.is Óheimilt að fara með bílana úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#44. Samskonar úrskurður gegn SP væntanlegur!

Enn eitt dæmið um svikin og prettina sem hafa viðgengist í starfsemi fjármálafyrirtækjanna. Nú er ég ekki búinn að lesa þennan úrskurð. Ég veit hins vegar að Neytendastofa á eftir að birta úrskurð gegn SP vegna innheimtu vaxtaálags af bílaláni/bílasamningi, hvar það er úrskurðað að bannað sé að innheimta slíkt álag ef það er ekki tilgreint í samningi og einnig ef ekki er tilgreint hversu hátt þetta álag er. Spurningin er, ber fjármögnunarfyrirtæki ekki að endurgreiða slíkt vaxtaálag ef það hefur verið innheimt? Ég myndi telja svo sbr. 18.gr. vaxtalaga. En það þarf sjálfsagt að draga slíkt mál í gegnum réttarkerfið til að úrlausn fáist á því. Og áður en dómur fellur í slíku máli verða þessi fyrirtæki farin á hausinn.
mbl.is Ákvæði um vexti brutu gegn lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#42. Lögfræðiálit SP-Fjármögnunar hf. og Lýsingar.......eigum við að ræða það eitthvað?!!!

Enn heldur gengistryggða bullið áfram. Nú ætlar Sjómannafélagið í mál við Arion banka vegna gengistryggðs fasteignaláns sem er upgreitt.  Þetta verður fróðlegt mál.  

Og samkvæmt frétt RUV þ.28.júlí ætla SP-Fjármögnun hf. og Lýsing að innheimta fjármögnunarleigusamninga með óbreyttu sniði vegna þess að þar sé um leigusamninga að ræða en ekki lán.  Þetta sé niðurstaða lögfræðiálits en ekki tilgreint hverjir lögfræðingarnir séu.  Sko, erum við ekki öll búin að kynnast lögfræðikunnáttu þessara fyrirtækja?!!  Hún er minna en engin.

Hæstiréttur úrskurðaði í júní að kaupleigusamningur væri lán, ekki leigusamningur eins og SP reyndi að halda fram.  Mér skilst einnig að einkaleigusamningar SP séu tilgreindir á samningi sem „kaupleigusamningar í eðli sínu".   Nú hef ég ekki kynnt mér innihald þessara einkaleigusamninga sem slíkra.  Ég veit þó að að í einkaleigusamningum SP er samið um kaupverð í lok samningsins.  Alla vega segir auglýsingabæklingur fyrirtækisins það:

ÞÚ LEIGIR BÍLINN AF OKKUR EN NÝTUR UMSAMINNAR ÞJÓNUSTU HJÁ UMBOÐI BÍLSINS SEM KAUPIR HANN SVO AFTUR Í LOK SAMNINGSTÍMANS.

ÞÚ ÁTT EKKERT Í HONUM. HANN Á EKKERT Í ÞÉR.

Og á heimasíðu þess segir þegar þetta er ritað: 

EINKALEIGA

Þú finnur bílinn, við kaupum hann og leigjum þér til allt að þriggja ára. Í lokin kaupir bílaumboðið hann af þér þannig að þú ert laus við alla áhættu af endursölu. 

Já, er það?  Sniðugt!  Hvort er þetta þá lán eða leiga, ef þú átt bílinn í lok samnings?!!!!!!   Einfalt, ef eignarétturinn færist á „leigutaka" í lok samnings er þetta lán.  Ef ekki, þá er þetta leiga.

Leigumun þarf ekki að kaupa af leigutaka af því leigutaki á hann ekki, heldur er leigusalinn eigandinn.  Einnig er leiga almennt ekki innheimt með vöxtum.  Neytendur borga t.d. ekki vexti í húsaleigu.  Þeir borga fasta leigu.  Hún getur verið verðtryggð, ef aðilar semja þannig.  En getur hún verið gengistryggð?  Hugsanlega, en þó varla.  Miðað við nýgengna dóma má álykta að gengistrygging sé ígildi verðtryggingar.  Slík verðtrygging er óheimil í lánssamningi en hvað með leigusamninga við aðila sem hefur af því atvinnu?  Er allt leyfilegt?  Ég segi nei.  Engin sérstök lög virðast vera til á Íslandi um leigusamninga, aðra en húsaleigusamninga.  Og leyfi ég mér því að skoða þau með tilliti til hvað löggjafinn segir um húsaleigusamninga.  Í þeim segir í 11.gr.: 

„Ákvæði í leigumála má meta ógild ef þau mundu leiða til niðurstöðu sem væri bersýnilega ósanngjörn.  Sama gildir ef ákvæði í leigumála brýtur i bága við góðar venjur í húsaleigumálum." 

Þessi grein er algjörlega samhljóma ákvæðum 36.gr. samningalaga hvar víkja má samningi ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.  Af þessu vil ég því leiða, að eins og gengistrygging er ólögleg í lánssamningi yrði hún talin jafnólögleg í leigusamningi neytanda, vegna einhvers hlutar, við aðila sem hefur af því atvinnu. 

Þar með eru slíkir einkaleigu- og/eða fjármögnunarleigusamningar fjármögnunarfyrirtækjanna við neytendur vegna bifreiða, ólöglegir.

Og hvernig er með riftun einkaleigusamnings?  Hvað ber leigutaka að borga við slíka riftun?  Allan bílinn og meira til?  Ekki veit ég það.  En ef svo er, hallar þar ekki gróflega á neytandann, þar sem leigusali getur alltaf selt bílinn samkvæmt samningi við bílaumboðið, en innheimtir allan samninginn af neytanda og fær þar bílinn borgaðan tvisvar til baka við samningslok/rof, en leggur aðeins einu sinni út fyrir honum? 

Ég hvet alla handhafa einkaleigu- eða fjármögnunarleigusamninga að íhuga vel sína stöðu áður en greitt er af útsendum greiðsluseðlum fjármögnunarfyrirtækjanna þessi mánaðamótin.  Það eru yfirgnæfandi líkur á því að þessi fyrirtæki fari öll lóðbeint á hausinn á næstu mánuðum, eins og sagði í inngangi svars Seðlabankans til umboðsmanns Alþingis á blaðsíðu 2 varðandi samningsvexti: 

„Samkvæmt upplýsingum sem fyrir lágu þegar tilmælin voru gefin út var ljóst að öll stóru fjármálafyrirtækin myndu verða fyrir svo miklu höggi á eigið fé þeirra að óhjákvæmilegt væri að ríkissjóður legði þeim til nýtt eigið fé. Nokkur smærri fjármálafyrirtæki yrðu gjaldþrota."  

Fjármögnunarleigurnar flokkast að mínu mati sem frekar smá fjármálafyrirtæki.  Þegar þau rúlla munu neytendur ekki fá neinar bætur vegna ofgreiðslna af samningum.

En einnig hvet ég lántaka til að stefna stjórnendum þessara fyrirtækja, þegar þau fara á hausinn og í ekkert verður að sækja bætur vegna atferlis þeirra á undanförnum árum.  Þessa menn verður að stoppa og eina leiðin til þess er að þeir finni það á eigin skinni.


mbl.is Krefst endurgreiðslu vegna gengistryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#36. .....og svona svaraði Tryggvi Þór mínum spurningum:

Í gær sendi ég Tryggva Þór Herbertssyni tölvupóst með 4 spurningum vegna ummæla á Pressunni í gær, 14 júlí um afskriftir NBI á lánum SP-Fjármögnunar hf.  Hann svaraði að bragði með eftirfarandi í dag 15. júlí:

„Sæll Finnur  (innsk: ég heiti sko Erlingur.....einhver smá ruglingur hjá félaganum Smile )

1. Hvaðan eru þessar upplýsingar komnar?

Það hefur verið greint frá þessu í fjölmiðlum

2. Hvenær voru þessar afskriftir NBI leiddar inn í SP-Fjármögnun hf.?

Það var síðasta vor eins og fram hefur komið í fjölmiðlum

3. Hversu háar voru þessar afskriftir í prósentum annars vegar og krónum hins vegar?

Er ekki með þetta á takteinum

4. Koma þessar upplýsingar einhvers staðar fram í gögnum aðgengilegum almenningi með auðveldum hætti?

Ekki umfram það sem greint hefur verið frá opinberlega.

Kveðja Tryggvi Þór"

 

Ég sendi honum svar.  Benti honum á nafnaruglið og bað um að hann benti mér á dæmi um slíkan fréttaflutning þar sem slíkt hefði farið fram hjá mér.  Fékk eftirfarandi:

„Afsakaðu Erlingur nafnaruglið

Það liggur algjörlega fyrir SP var endurfjármagnað með því að NBI afskrifaði/felldi niður hluta lána sem voru á milli fyrirtækjanna. Ef þú efast um þessa fullyrðingu mína bendi ég þér á að hafa samband við SP og fá staðfestingu á þessu.

Kveðja

Tryggvi"

Þannig að núna hef ég sent fyrirspurn á Kjartan Georg Gunnarsson vegna þessarar ábendingar og bíð svara hans.  Svörin verða birt hér á blogginu ef og þegar þau berast.  Vonandi verður ekki löng bið á því.


#23. Álit lögfræðings SP-Fjármögnunar hf.

Lögfræðingur SP staðfesti í símtali við mig í dag, (26. maí kl 10:25) að fólk myndi ekki fyrirgera rétti sínum til hagstæðari niðurstöðu ef Hæstiréttur dæmir gengistryggingu lána ólögmæta. Hans álit var, að ef að Hæstiréttur dæmdi gengistryggingu ólögmæta væri lánið þar með óverðtryggt og yrði endurreiknað. Þá myndu vextir taka mið af óverðtryggðum vöxtum á lánstímanum og þar með fengist niðurstaða sem væri nálægt þeirri leið sem SP er að kynna í dag. Ég hef ekki reiknað dæmið né séð slíkan útreikning þessu til staðfestingar.

Ég vek athygli fólks á því, að ef Hæstiréttur úrskurðar gengistrygginguna ólögmæta en segir ekkert til um vextina annað en það sem kemur fram í samningi aðila, á stór hluti lántakenda líklega inneign hjá SP. Mitt álit er það, að allar upphæðir sem greiddar hafi verið umfram greiðsluáætlun beri eftir atvikum að greiða út, eða reikna inn á höfuðstól, með dráttarvöxtum eins og þeir voru á hverjum tíma. T.d. sá sem hefur greitt 400.000 kr. meira en greiðsluáætlun sagði til um, síðan haustið 2007, ætti þar með kröfu á SP að upphæð ca. 1,5 millj. kr með áföllnum dráttarvöxtum.

Ég held að fólk ætti bara bíða rólegt eftir niðurstöðu Hæstaréttar í stað þess að ganga til samninga núna korter í dómsúrskurð.


mbl.is SP ríður á vaðið með lækkun lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#21. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 16. hluti.

Þá eigum við aðeins eftir 3 greinar af þeim 19 sem mynda almenna samningsskilmála bílasamnings SP-Fjármögnunar hf. 

17.gr. fjallar um lok samningstímans og að greiðsla umsamins lokaverðs taki breytingum skv. 2.gr., sem sagt lokaverðið er gengistryggt líka.

18.gr. tilgreinir varnarþing vegna ágreinings vera í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Og að síðustu, 19.gr. segir SP-Fjármögnun hf. hafa heimild til að framselja samning að hluta eða öllu leyti, en leigutaki hefur ekki slíkan rétt nema með samþykki SP-Fjármögnunar hf.  Eftir því sem ég kemst næst er það almennt svo í íslenskum rétti að svona sé réttur kröfuhafa og því ekkert yfir því að kvarta.

Að síðustu er ónúmeraður feitletraður texti þar sem með undirritun staðfesti leigutaki að hann sé samþykkur ofangreindum greinum, sem sumar eru tilgreindar sérstaklega, og hafi engar athugasemdir við ákvæðin.  (Hér ber að hafa í huga að allir staðlaðir samningsskilmálar sem settir eru einhliða fram af öðrum aðila fyrirfram, og valda umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna samningsaðila samkvæmt samningnum, neytanda til tjóns, teljast óréttmætir skv. 1.tl. 3. gr. tilskipunar Evrópusambandsins, nr. 13/93/EBE um neytendavernd.  Krækja á afrit tilskipunarinnar er að finna undir Tenglar>Skjöl hægra megin á síðunni.  Um undirbúning og gerð samnings sá löggiltur bílasali og aldrei í því ferli átti ég samskipti við starfsmann SP-Fjármögnunar hf. til að semja sérstaklega um samningsskilmálana.  Er/var þetta algengt fyrirkomulag við gerð slíkra samninga um bílaviðskipti.)

Þá er loks minnst á að leigutaki gefi SP-Fjármögnun heimild til að tilkynna Lánstrausti hf. um öll vanskil sem tengjast samningnum og til að spyrjast fyrir um bankaviðskipti hans í skuldastöðukerfi Lánstrausts hf.  Allt venjulegir skilmálar frá kröfuhafa við samningsgerð að því ég best veit.

Afrit af þessum skilmálum sem hér hefur verið fjallað um, er að finna undir Tenglar>Skjöl hér til hliðar.  Því miður er afritið óskýrt en ef ég kemst yfir betra eintak mun ég reyna skipta því út.

Með þessari færslu lýkur umfjöllun minni um almenna samningsskilmála bílasamnings SP-Fjármögnunar hf.  Tekið skal fram að þessir skilmálar sem fjallað hefur verið um, fylgja lánssamningi með höfuðstól gengistryggðum í myntkörfunni BL2, myntkörfu, sem hefur ekkert auglýst gengi á vefsíðu SP-Fjármögnunar hf. og hefur aldrei haft að mér skilst.  Þetta þýðir þó ekki að ég sé endilega hættur að ræða lánastarfsemi SP-Fjármögnunar hf.  Það leynist ýmislegt þar sem hefur vakið fleiri spurningar en svör.

Að gefnu tilefni ber að geta, að SP-Fjármögnun hf. hefur ítrekað neitað að svara efnislega fyrirspurnum mínum sendum í tölvupósti, eða bréflega, enda sé það stefna fyrirtækisins að gera slíkt ekki á þeim vettvangi.  Framkvæmdastjóri þess hefur ekki svarað fyrirspurnum mínum settum fram í lok mars sl., um hvort sú stefna sé mörkuð af stjórn eða honum.  Þetta hefur valdið því, að allt sem ég hef að undanförnu sagt um almenna samningsskilmála bílasamnings míns, eru einhliða hugleiðingar mínar um efnið eftir þeim gögnum sem ég hef aflað mér, og ályktunum dregnum af þeim athugunum.  Mér hefur ekki gefist kostur á að meta efnisleg rök SP-Fjármögnunar hf. þar sem fyrirtækið lætur þau ekki frá sér.  Ég hvet alla sem hafa eitthvað við efni þessara hugleiðinga að athuga að setja inn athugasemdir við færslurnar.  Öðruvísi get ég ekki leiðrétt ef ég fer með rangt mál.  Það er ekki vani minn eða ásetningur að rægja fólk eða lögaðila.  Ég er einfaldlega leikmaður, ólöglærður, og reyni að byggja málflutning á staðreyndum eins og þær blasa við mér, en blöskrar hins vegar framganga fjármögnunarfyrirtækjanna vegna bílalánasamninga, og máttleysi stjórnvalda og eftirlitsaðila til að stemma stigu við henni.  Því miður eru dæmi um að einstaklingur hafi tekið eigið líf vegna framgöngunnar, en það virðist ekki hægja á innheimtuaðgerðum eða aukið virðingu fyrir neytendarétti.  Hvað eiga margir að þurfa um sárt að binda áður en að stjórnendur fyrirtækjanna eru stöðvaðir??  Munum það, að þó fyrirtækin loki leita stjórnendur þess á ný mið, hugsanlega innan fjármálageirans.  Ef þeim er ekki sýnt hvernig á að koma fram við neytendur verður engin breyting á þó núverandi fyrirtæki loki.

Það starfsfólk SP-Fjármögnunar hf., sem ég hef rætt við hefur flest verið kurteist í viðmóti og tilbúið að hlusta á mínar röksemdir.  Heimildir þess takmarkast þó að einhverju leyti af framsettri stefnu fyrirtækisins og við erum sammála um að vera ósammála.  Það er þó mín skoðun að starfsfólkið sé ekki undanskilið gagnrýnni hugsun á starfsemi vinnuveitanda síns.


#20. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 15. hluti.

16. gr. fjallar um uppgjör.  Þar segir: „Sé samningi þessum rift af hálfu SP á grundvelli 14. gr eða honum með öðrum hætti slitið á lánstímanum ber leigutaka að standa SP skil á eftirfarandi greiðslum:

1. Greiðslum skv. 2. gr. sem fallnar eru í gjalddaga, ásamt dráttarvöxtum til greiðsludags skv. 3.gr.

2. Ógjaldföllnum höfuðstól ásamt sérstöku uppgreiðslugjaldi skv. gjaldskrá SP sem er 0% - 3% m.v. eftirstöðvatíma samningsins við samningsslit."  Innheimta uppgreiðslugjalds er ólögleg skv, a-lið 16. gr. nr 121/1994: Lánveitanda er óheimilt að krefjast greiðslu uppgreiðslugjalds af láni í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum sem greitt er upp fyrir þann tíma sem umsaminn er, ef upphaflegur höfuðstóll lánsins er að jafnvirði 50 millj. kr. eða minna.

Lánveitandi getur ekki krafist uppgreiðslugjalds ef ástæða uppgreiðslu er gjaldfelling láns af hans hálfu."  Til viðbótar ber leigutaka að greiða lokagreiðslu í lok samningstíma sem til greind er í III.lið svo reiknaðri sem segir í 2.gr.  Ekki fæst annað séð en hér sé um óréttmætan samningsskilmála sem halli verulega á neytanda. Neytanda er gert að greiða samning að fullu við riftun af hálfu SP, en SP tekur leigumun engu að síður í sína vörslu á verði sem þeir meta sjálfir, neytandi hefur engin tækifæri til að meta hvort SP lætur gera við bílinn áður en hann fer á markað að nýju.  Þetta kallast einfaldlega að selja kökuna og eiga hana til að selja hana öðrum.

„3. Kostnaði skv. 15.gr, að viðbættum öllum útgjöldum sem SP hefur orðið fyrir vegna samnings þessa samkvæmt öðrum ákvæðum hans, s.s. kostnaðar vegna innheimtuaðgerða, tryggingargjalda, bifreiðagjalda, þungaskatts, sektargreiðslna, bóta til þriðja aðila, matskostnaðar o.fl."

„4. Dráttarvöxtum af greiðslum skv, 2. og 3. tl. hér að framan frá og með þeim degi er tilkynningu um riftun var komið til leigutaka eða samningnum var með öðrum hætti slitið."  Þarf ekki að slíta samningum með ábyrgðarbréfi?

5. Bótum fyrir það tjón sem SP kann að verða fyrir vegna þessa að samningnum er sagt upp eða honum rift fyrir lok samningstíma.  Segi SP samninngum upp á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 14. gr. á SP þó ekki rétt á bótum samkvæmt þessum tölulið. Frá kröfu SP skv. 1. - 5. tl. skal, þegar skil bifreiðar hefur átt sér stað skv. 15. gr, krefjist SP skila á bifreiðinni, draga verðmæti bifreiðarinnar eins og það reynist vera samkvæmt efirfarandi reglu:  Ástandsskoðun er gerð á bifreið þar sem metinn viðgerðarkostnaður hennar og annar kostnaður, sem fellur til vegna bifreiðar fram að fullnaðaruppgjöri, s.s. bifreiðagjöld, tryggingariðgjöld, flutningur og sektir, er lagður ofan á heildarskuld samningsins.  Uppítökuverð sambærilegrar bifreiðar í eðlilegu ástandi er fengið úr viðurkenndu verðmatskerfi Bílgreinasambandsins, af þeirri upphæð er tekinn 15% áætlaður kostnaður fram að sölu bifreiðar, eftirstöðvar uppítökuverðs eru svo dregnar frá heildarskuld samningsins."  Hvað liggur hér að baki???! Af hverju uppítökuverð???  Af hverju er tekinn 15% áætlaður kostnaður?  Hvernig er þessi tala fundin út og hvað felur hún í sér?  Ekkert af þessu er skýrt frekar og má hugsanlega túlka þetta sem óréttmætan samningsskilmála!  „Hafi leigutaki ekki mótmælt ofangeindu mati eða uppgjöri skriflega innan 7 daga frá því matið var sannanlega sent til hans, á uppgefið heimilisfang, skal litið á það sem samþykkt."  Hvað ef dráttur verður á afhendingu matsins eða lántaki er sannanlega fjarri heimili sínu, t.d. í fríi eða vinnuferð?  „Ef mótmæli berast er SP heimilt að láta selja bifreiðina á uppboði hjá sýslumanninum í Reykjavík í óbreyttu ástandi frá skilum hennar.  Sem sagt það á ekki að ræða málið frekar til að komast að samkomulagi eða ásættanlegri niðurstöðu beggja aðila.  Það er bara ein leið, sú sem SP ákveður að fara.

SP er heimilt að verja því andvirði leigumunar sem eftir kann að standa við riftun, þegar greiðslum skv. 1 - 5. tl. í 1. mgr er fullnægt, til að greiða niður vanskil og eftirstöðvar annarra samninga milli SP og leigutaka.

Ef skaðabætur eða viðgerðarkostnaður falla á SP, sem leigutaki vissi eða mátti vita um en sagði ekki frá við skil eða sölu bifreiðarinnar, öðlast SP endurkröfurétt á hendur leigutaka ásamt öllum kostnaði sem af hlýst þar með talinn lögfræði- og málskostnaður.  Sama gildir ef kröfur sem greiðast eiga af leigutaka skv. samningi þessum koma fram eftir að honum lýkur eða uppgjör hefur farið fram þar með talin vátryggingariðgjöld, bifreiðagjöld og þungaskattur." Er eðlilegt að hægt sé að rukka leigutaka um frekari kostnað eftir að uppgjör hefur farið fram? Enn og aftur óréttmætur samningsskilmáli að mínu mati!


#19. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 14. hluti.

Við erum langt komin með yfirferð á almennum samningsskilmálum SP-Fjármögnunar hf.

15. gr. fjallar um afhendingu hins leigða við riftun.  Þar segir 1.mgr. að ef samningi sé rift skuli afhenda bifreiðina á stað sem SP tiltekur.  Leigutaki skal standa straum af útgjöldum vegna flutnings, þ.m.t. vátryggingu, sem og kostnaðar við að þrífa, yfirfara, viðgerðir vegna bilana og skemmda á bifreiðinni.  „Leigutaki ber ábyrgð ef bifreið eyðileggst af tilviljun, skemmist eða rýrnar uns SP hefur tekið við henni."  Síðasta málsgreinin er enn einn óréttmæti samningsskilmálinn: „Neiti leigutaki að afhenda bifreiðina eftir riftun er SP, eða öðrum aðila sem SP vísar til, heimilt að færa bifreiðina úr vörslum hans án atbeina sýslumanns."  Ekki er hægt að gera kröfu til þess leigutaki semji frá sér lögvarinn réttindi.  Slíkt framferði er óréttmætt og gagnstætt góðri viðskiptavenju og ekki síst, brot á lögum um aðför. 

Aðför er skv. orðabókarskilgreiningu: lögleg valdbeiting til að knýja fram tildæmdan rétt (fjárnám, innsetningargerð eða útburðargerð).  Hana má gera til fullnustu kröfum samkvæmt heimildum 1. gr. laga um aðför.  Í 4. gr. laganna segir: Með aðfarargerðir fara sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra."  5.gr. segir: Aðför má gera eftir dómi eða úrskurði, þegar liðnir eru fimmtán dagar frá uppkvaðningu hans, ef annar aðfararfrestur er ekki tiltekinn. Aðför má gera eftir [stefnu],1) þegar hún hefur verið árituð af dómara um aðfararhæfi."  Þannig er fyrirmælt að ekki má taka bifreið án fyrirvara.  Lög um nauðungarsölu krefjast einnig leyfis sýslumanns ef vörslutaka eignar eigi að fara fram. 

Talsmaður neytenda gerir þetta atriði að umtalsefni í pistli á heimasíðu sinni.  Hann segir um vörslusviptingar án dóms og laga:  „Af þessu tilefni vekur talsmaður neytenda einnig athygli á því að ekki stenst lög um fullnusturéttarfar [innsk: lög um aðför] að eignarleigufyrirtæki svipti neytendur vörslum bifreiða án þess að sýslumaður veiti atbeina sinn að slíkri vörslusviptingu.  

Hefur talsmaður neytenda undanfarið ráðfært sig við aðra lögfróða um þetta álitaefni. Telja verður í ljósi fræðilegrar umfjöllunar og lögskýringargagna - m.a. að því er varðar lög um neytendalán - að vörslusviptingar af hálfu eignarleigufyrirtækja án atbeina sýslumanns standist ekki. Er sú afstaða einkum byggð á því að í fullnusturéttarfari er talið að beina lagaheimild þurfi til svonefndrar aðfarar án undangengins dóms; enn síður ætti að vera hægt að framkvæma ígildi aðfarar með vörslusviptingu án þess að sýslumaður - sem handhafi opinbers valds - veiti atbeina sinn að því.  [innsk: leturbreyting er mín] Slíka aðför er enda lögum samkvæmt unnt að bera undir dómara. Er neytendum, sem verða fyrir slíkum vörslusviptingum „án dóms og laga" eða búast við slíku, ráðlagt að leita aðstoðar lögmanns eða jafnvel lögreglu - einkum í ljósi þeirrar óvissu sem er um réttmæti krafna samkvæmt framangreindu og í ljósi réttaróvissu sem er um lögmæti gengislána eins og áður hefur komið fram." 

Hér er ennfremur vert að hafa í huga að ofangreind "heimild SP" tekur ekki til persónumuna leigutaka sem kunna að vera inn í bifreiðinni þegar vörslusvipting fer fram!  Þar með er hægt að kæra hvern þann sem að slíkri vörslusviptingu stendur fyrir þjófnað á slíkum persónumunum.

SP reynir sjálfsagt að halda því fram að þar sem þeir séu eigandi sé þeim heimilt að ná í eigur sínar en samkvæmt samningi er leigutaki umráðamaður bifreiðarinnar á samningstíma.


#18. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 13. hluti.

Áfram höldum við í skoðun almennra samningskilmála bílasamnings SP. 

12.gr. fjallar um breyttar aðstæður leigutaka fyrst og fremst tilkynningaskyldu þar að lútandi og ekki ástæða til að fjölyrða um það hér.

Sama gildir um 13.gr. sem fjallar um óbeint tjón.  Þó skal nefnt að vísað er til óbeins eða afleidds tjóns á ráðgerðum sparnaði í greininni og að SP beri ekki ábyrgð á slíku tjóni.  Framgangur SP við innheimtu ranglega myndaðara greiðsluseðla, s.s. of hárra upphæða vegna gengistryggingar og gjaldfellingu er ekki óbeint tjón, en hugsanlega má líta það sem beint tjón á ráðgerðum sparnaði þar sem slíkt fé hefði mátt nýta í reglulega sparnað frekar en greiðslu af lánssamningi.

Þá komum við að 14.gr. Riftun.

Þessi grein tilgreinir í 6 liðum ástæður sem SP getur notað til einhliða riftunar án fyrirvara:

Þar er fyrst: „1. Leigutaki innir ekki af hendi tilskildar greiðslur samkvæmt samningi á umsömdum gjalddögum og vanskil eru orðin 45 daga gömul."  Tilskildar greiðslur samkvæmt samningi tel ég vera þá greiðslu sem tilskilin er í II.lið á framhlið samningsins og nefnd er ásamt innheimtukostnaði, (gjaldi vegna skuldfærslu eða heimsends greiðsluseðils) í greiðsluáætlun.  Greiði leigutakar slíka greiðslu mánaðarlega, sé ég ekki að SP eigi rétt á riftun þó ekki sé greiddur heimsendur greiðsluseðill, þar sem hann er ranglega myndaður miðað við ólögmæta gengistryggingu.  Að mínu mati er mikilvægt að mótmæla öllum slíkum greiðsluseðlum skriflega, svo fljótt sem auðið er, og þess í stað millifæra greiðslur inn á reikning fyrirtækisins, og jafnframt senda afrit í tölvupósti til þess og á eigið tölvupóstfang.  Mikilvægt er að hafa öll samskipti skrifleg og halda vel utan um slík samskipti á pappír ef um rafræn samskipti er að ræða.  Það skal tekið fram að ekki eru allir sammála þessari aðferð þar sem fullyrt er að SP fari á hausinn um leið og gengistrygging lána verður dæmd ólögmæt í Hæstarétti, og þar með muni lántakendur tapa ofgreiddum leigugreiðslum.  En við gjaldþrot SP myndast væntanlega þrotabú og skiptastjóri þess mun væntanlega reyna innheimta kröfur í eigu þrotabússins eða selja þær.  Þá er mikilvægt að hafa forsöguna á hreinu.  Einnig er brýnt að mótmæla innheimtuviðvörunum skriflega í bréfi eða tölvupósti.  Það er mín skoðun að rangt sé af viðskiptamönnum SP að hætta einhliða að borga, þó að ágreiningur sé við fyrirtækið um lögmæti gengistryggingar, heldur eigi að halda sig við umsamda og undirritaða greiðsluáætlun, sé þess nokkur kostur!

Annar liður segir: „2. Leigutaki vanefnir ákvæði samningsins að öðru leyti, t.d. greiðir ekki sektir, skatta, eða vátrygingar sem honum ber, og sinnir ekki áskorun SP um greiðslu eða úrbætur innan 7 daga frá því áskorun þar að lútandi er send til leigutaka."  Um þennan lið er ekki mikið að segja annað en það sem í honum stendur.

Þá er næst þriðji liður: „3. SP er óheimilt eða gert illmögulegt af hálfu hins opinbera að standa við samning þennan eða ef á SP leggjast verulegar kvaðir, af hálfu sömu aðila."  Hvað þýðir þetta?  Hvaða atriði myndu teljast til slíkra aðstæðna?  Mun staðfesting Hæstaréttar á ólögmæti gengistryggingar vera slíkt atriði?

Fjórði liður: „4. Bú leigutaka er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga við skuldheimtumenn sína eða ef fjárhagsstaða leigutaka versnar frá undirritun samnings þessa þannig að fyrirsjáanlegt sé að hann geti ekki staðið í skilum við SP."  Hver á að meta hvort  fjárhagsstaða leigutaka sé þannig sem að ofan er greint?  Má SP meta það einhliða og rifta samningi sé það mat þess?  Hvaða gögn á að leggja til grundvallar slíkri ákvörðun?  Þessi skilmáli er mjög líklega óréttmætur þar sem ekki er skýrt hver eða með hvaða hætti eigi að meta fjárhagsstöðu leigutaka.

Lítið er um um 5. og 6.lið að segja en þar segir í fimmta lið:  „5. Leigutaki vanrækir eðlilegt viðhald bifreiðar eða verður uppvís að illri meðferð hennar."  Og í sjötta lið: „Leigutaki flytur bifreiðina úr landi."  Verður að telja slíka skilmála eðlilega kröfu á hendur lántaka til verndar eðlilegum hagsmunum SP.

Að síðustu segir einfaldlega um riftunarrétt lántaka: „Um heimild leigutaka til að rifta samningi þessum gilda almennar reglur íslensks réttar."  Slíkar reglur eru ekki útlistaðar sérstaklega eftir því sem ég kemst næst, en slíkar heimildir tengjast yfirleitt einhvers konar vanefndum eða svikum samningsaðila, hér leigusalans SP, og verður þá að meta aðstæður hverju sinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband