Færsluflokkur: Fréttir

#192. Aftur tapar Lýsing, en....

Enn fellur dómur í málum Lýsingar þar sem fyrirtækið lætur í minni pokann gagnvart neytendum vegna gengistryggðs lánasamnings. Það sem veldur mér þó vonbrigðum í þessu máli, sem og öðrum, er að ekki er að mínu mati byggt nægilega vel á ákvæðum neytendalánalaga um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Af þeim sökum tekur dómarinn ekki afstöðu til þessara atriða í dómsorði. Þó er rétt að benda á að konan byggir á 14.gr. neytendalánalaga, en vill ekki byggja á greiðsluáætluninni sem fylgdi samningnum, er þar koma fram umsaminn heildarlántökukostnaður og árlega hlutfallstala kostnaðar, atriði sem ég tel takmarkandi við innheimtu þessara samninga. 2.mgr.14.gr. neytendalánalaga segir nefnilega að "lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar."

Nú veit ég ekki hver upphaflegur heildarlántökukostnaður var í þessu máli né hversu há heildargreiðsla konunnar var áður en hætt var að greiða, þar sem þessar upplýsingar koma ekki fram í dómsorði. Þess vegna er ekki mögulegt að meta hver áhrif dómsins eru miðað við upphaflegu forsendurnar, þ.e. hversu mikið upphaflegur heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala hækka vegna niðurstöðunnar. Mig grunar þó sterklega að hækkunin sé nokkur. Upphafleg samningsfjárhæð var 5.357.410 kr. og miðað við árlega hlutfallstölu kostnaðar upp á 5,79% er ekki óvarlegt að áætla upphaflegur heildarlántökukostnaður hafi verið uppgefinn eitthvað umfram 6 milljónir kr.

Hvernig hægt er með dómi að dæma neytanda til að greiða meira en hann samdi um í upphafi og hækka atriði sem mega ekki hækka lögum samkvæmt, er mér hulin ráðgáta. Ennfremur hvers vegna lögmenn beita ekki í ríkari mæli þessum atriðum um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar sem takmarkandi atriða við uppgjör þessara samninga fyrir dómstólum skil ég ekki heldur. Ef lánveitandi upplýsti neytanda um þessi atriði við samningsgerð eiga þau að vera takmarkandi við ákvörðun niðurstöðunnar og enginn önnur. Það er líklega í eina sinnið þar sem báðir aðilar voru að fullu upplýstir og sammála um hvað samningurinn ætti að kosta.


mbl.is Kröfum Lýsingar vísað frá dómi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#188. "Bankaröflarar!"

Bankar eru svolítið merkilegt fyrirbrigði. Í bönkum virðist ríkja einhver hentistefna hvernig gera eigi hluti og enginn reynir að komast til botns í málum fólks, hvaða lög gilda eða koma með skynsamleg rök fyrir því af hverju málum sé háttað með ákveðnum hætti ef viðskiptavinur efast um gjörninginn. Það er einfaldlega vaðið áfram í viðjum vanans og aldrei athugað hvort hlutir séu rétt gerðir eða löglegir nema einhver "röflari" geri "allt vitlaust"!

Almennt starfsfólk fær líklega ekki mikla formlega þjálfun vegna starfa sinna og ályktar því að fyrst svona hafi hlutir verið um árabil sé það bara rétt sem þeim var sýnt. Þeim er því nokkur vorkunn.

Sem dæmi um álíka einkennileg vinnubrögð bankastarfsmanna greiddi ég í lok síðasta árs síðustu greiðslu af skuldabréfi í Arion banka. Síðan leið og beið og ekki barst mér frumrit skuldabréfsins stimplað sem uppgreitt. Svo ég lagði leið mína í útibúið mitt seinni part dags í febrúar 2013, til að athuga málið. Þar var mér sagt að venjulega væri uppgreiðsluupplýsingum safnað saman, síðan farið í skjalageymslur og skuldabréfin tekin til og því næst mörg bréf stimpluð í einni aðgerð. Svo ég bað viðkomandi að athuga hvenær ég fengið bréfið stimplað og afhent. Um kvöldmatarleytið hringir þjónustufulltrúinn sem ég hafði talað við og sagðist hafa komist að því eftir að hafa kannað málið að bankinn væri hættur að senda út frumrit uppgreiddra skuldabréf. Því hefði verið hætt eftir hrun. Ég hló og benti henni góðfúslega á að slíkt mætti ekki. Bankanum bæri skylda til að afhenda skuldabréfið áritað sem uppgreitt þegar það hefði verið greitt upp. Hún sagði að svona væri þetta gert í dag og bar við að sumir vildu ekki fá svona sent í pósti og stundum væri upplýsingar um heimilisföng viðskiptavina óáreiðanlegar í kerfum bankans. Ég hló aftur og sagði bankannn ekki eiga í vandræðum með að innheimta eftir sömu upplýsingum. Svo ég þakkaði henni fyrir upplýsingarnar og sagðist ætla hafa samband við umboðsmann viðskiptavina bankans vegna þessa máls.

Svo ég sendi umboðmanni tölvupóst sama kvöld og benti á tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf þar sem tilgreint er að afhenda skuli skuldunaut áritað skuldabréf þegar höfuðstóll þess er uppgreiddur. Umboðsmaður tók minni fyrirspurn vel og sagðist ætla athuga málið. 2-3 dögum síðar barst mér svar frá umboðsmanni sem staðfesti sögu þjónustufulltrúans en sagði jafnframt að eftir athugun bankans hefði verið tekin ákvörðun um að breyta þessu og framvegis yrðu uppgreidd skuldabréf stimpluð og send viðskiptavinum. Nokkrum dögum seinna, eða seinni hluta febrúar 2013, barst mér skuldabréfið í pósti stimplað sem upgreitt. Dagsetning stimpilsins var 12.  júní 2012. Síðasta greiðslan var hins vegar innheimt 6 mánuðum síðar, 1. desember 2012. Þetta eiga víst að kallast fagleg vinnubrögð.

Ég bendi viðskiptavinum Landsbankans, sem og annarra banka, að athuga stöðu mála með uppgreidd skuldabréf og óska eftir að fá frumritið sent, stimplað sem uppgreitt þegar greiðslum hefur verið lokið. Ekki sýna tómlæti þegar um skuldabréf er að ræða og kynnið ykkur tilskipun um áritanir á skuldabréf.

Og ekki síður að vera ófeimin að véfengja vinnubrögð bankafólks ef nokkur vissa er fyrir því að vinnubrögðin eiga ekki stoð í lögum og reglum. Fyrst eftirlitsaðilar bregðast hlutverki sínu verður almúginn að vera á verði.

 


mbl.is Faðirinn hafði betur gegn bankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#187. Ég skil ekki.....

.....hvernig framkvæmdastjórn AGS getur sagt að ekkert svigrúm sé til niðurfellingar skulda heimila, sem fjármagnast eiga m.a. af erlendum kröfuhöfum, en ekki ríkissjóði, en á sama tíma haldið því fram að stofn aflandskróna sé ennþá stór og geti stækkað þegar bú „gömlu bankanna“ verða leyst upp. Það sé því yfirvofandi vandamál eins og margoft hefur verið bent á og minnka þarf aflandskrónustofninn.

Nú, það er einmitt það sem vilji er til að gera! Niðurfelling skulda á m.a. að fjármagnast með aflandskrónum, þ.e. fá erlenda kröfuhafa að gefa eftir eign sína í krónum eða alla vega lækka hana umtalsvert, og láta þá niðurfellingu ganga áfram í gegnum efnahagsreikninga bankanna til lækkunar á skuldum heimila. Er þá niðurfelling, sem svona er framkvæmd, ekki af hinu góða fyrir stærsta vandamál hagkerfisins, þennan of stóra aflandskrónustofn? Hann myndi lækka umtalsvert við svona aðgerð, sem er það sem allir vilja að gerist til að hægt sé að afnema fjármagnshöft! Hvernig getur þessi aðgerð þá verið svona slæm?

Síðan hvetur AGS stjórnvöld til að lagafæra stöðu ÍLS. Ef stjórnvöld þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af aflandskrónustofninum, þá væri kannski hægt að fara einbeita sér að ÍLS og öðrum málum!

Ummælin sanna bara enn einu sinni að AGS er innheimtustofnun stórra fjármagnseigenda en ekki sjálfstæð alþjóðastofnun til hjálpar ríkjum í vanda. 

Að öðru leyti vísa ég í nýlega færslu mína um sama atriði.


mbl.is AGS leggst gegn skuldaniðurfellingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#186. Rétt skal vera rétt.

Í frétt mbl.is er eftirfarandi millifyrirsögn og texti:

“Yfirborð sjávar 3,5 cm yfir fyrri met

……Einnig þar var met slegið árið 2012, þegar sjávaryfirborð mældist að jafnaði á heimsvísu 3,5 cm hærra en það var áður hæst, árin 1993 og 2010.”

Millifyrirsögnin er röng, og fullyrðingin sem síðar kemur einnig. Eins og sést á þessum útdrætti á síðu bandarísku veðurstofunnar NOAA, kemur fram í skýrslunni að sjávarstaða ársins 2012 var 3,5 cm (1.4 inches) yfir meðaltali áranna 1993-2010. Meðaltalið var ennfremur það hæsta frá 1993. En ekki að sjávarstaðan hafi verið 3,5 cm hærri en fyrri met!

Þá segir ennfremur í sömu málsgrein:

Bráðnun íssins hefur áhrif á yfirborð sjávar.”

Ekki er þó hirt um að tilgreina hvað ís er um að ræða og hver áhrifin eru.

Alkunna er að vatn þenst út þegar það frýs. Ís, sem flýtur í vatni/sjó, lækkar því yfirborðsstöðu við bráðnun. Bráðnun heimskautaís sem þegar er í sjó, hvar á jörðinni sem hann er, hækkar því ekki sjávarstöðu heldur þvert á móti lækkar hana lítillega. Þó eru áhrifin líklega svo lítil að varla tekur því að nefna eða mæla.

Ís, sem liggur eingöngu á landi, hækkar að sama skapi sjávarstöðu heilt yfir þegar hann bráðnar.


mbl.is Norðurísinn aldrei hörfað hraðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#184. Sorglega illa unnin frétt.

"David Underwood, sem býr í bænum Fort Worth í Texas í Bandaríkjunum, brá heldur betur í brún þegar hann kom heim til sín um miðjan júlí að lokinni helgarferð. Þegar hann ók upp að innkeyrslunni að heimili sínu sá hann að húsið hans var horfið!"

Ef fréttamaður hefði lesið upphaflegu fréttina sem hér er fjallað um kemur strax í ljós að enginn bjó í húsinu sem um er rætt, og húsið var ekki heimili þess sem rætt er við frétt FoxNews. Húsið hafði hins vegar verið í eigu fjölskyldu hans um árabil og til stóð að lagfæra það, svo Underwood og kona hans gætu flutt inn seinna.

Hér hefði auðveldlega mátt gera betur.


mbl.is Rifu rangt hús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#183. Mannfjöldi aukaatriði.

Já....auðvitað er aukið ofbeldi loftslagsbreytingum að kenna. Hvað annað? Hefur náttúrulega ekkert með aukinn mannfjölda að gera! Blessuð sólin elskar allt.

Hvaða rugl er þetta?


mbl.is Tengsl milli loftlagsbreytinga og ofbeldisverka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#182. Flugdólgar í beinni!

Þetta verður algjör bylting. Hægt verður að streyma efni beint úr vélinni og líklega sjá flugdólga í beinni. Algjör snilld!
mbl.is Netvæðingu flugflota Icelandair seinkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#180. Getur líka farið að lögum!

Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður segir að Landsbankinn hafi næg fordæmi til að endurreikna meginþorra gengislána bankans. Hann minnist hins vegar ekki á að bankinn hefur líka skýr lagafyrirmæli til að fara eftir í starfsemi sinni en eins og við vitum hafa stjórnendur bankans kosið að hundsa lög og dómafordæmi vegna þessara lána. Á því virðist ekki ætla verða breyting.

Það er líka rétt að benda á að flestir dómar sem hafa fallið eru í málum lögaðila, ekki venjulegra neytenda. Venjulegir neytendur eiga líklega betri rétt en lögaðilar við endurreikning vegna ákvæða neytendalánalaga sem kveða á um að fjármálastofnanir upplýsi neytendur um heildarlántökukostnað þegar lán er tekið. Fyrrnefnd lög kveða einnig á að upplýsi skuli neytendur hvernig lántökukostnaður geti breyst og við hvaða aðstæður. Lögin kveða líka að við samningsgerð sé gefin upp árleg hlutfallstala kostnaðar vegna lánsins. Sé ekkert af framangreindu gert er óheimilt að innheimta lántökukostnað sem breytir árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Engir dómar sem hafa fallilð hafa vegna gengistryggðra lána hafa tekið á þessu atriði laganna sem sett var inn til að uppfylla tilskipun Evrópusambandsins um ólögmæta viðskiptahætti. Evrópudómstóllinn hefur fellt úrskurð um túlkun á þessu ákvæði í máli C-76/10. Að mínu mati hefði verið hægt fyrir löngu síðan að ljúka flestum þessara mála með skoðun þessara laga og miða alla innheimtu við upphaflegar greiðsluáætlanir lána. Þessi dómstólaleið er alltof seinfarin og torsótt enda eiga flestir neytendur ekki auðvelt með að leggja út fyrir lögmannskostnaði vegna dómsmáls.

Þess ber líka að geta að Landsbankinn hefur líka hundsað tilmæli Fjármálaeftirlitsins frá 12.apríl þess efnis að fjármálastofnanir upplýsi viðskiptavini sína hvaða dómafordæmi eigi við um gengistryggð lán þeirra. 

Lögfræðideild bankans hefur líka hundsað mína ósk um tilvísanir í öll dómafordæmi sem mögulega gilda um mitt bílalán hjá bankanum. Óskin var sett fram í vor nokkrum dögum eftir að Fjármálaeftirlitið sendi fjármálastofnunum fyrrnefnt dreifibréf en ekkert svar hefur borist enn, og kemur líklega ekki.

Landsbankinn er í eigu landsmanna.


mbl.is Getur endurreiknað flest gengislán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#178. "Krílin" fyrir þá sem vilja selja meira.

Raunveruleg ástæða þess að boðið er upp á nýjar umbúðastærð er vitanlega sú að Ölgerðin vill auka söluna á sínum vörum. Enda kemur fram í fréttinni að "krílin" passa líka vel í flestar gerðir glasahaldara og raðast vel í ísskápa og kælibox. Það hefur verið Akkilesarhæll 0,5 lítra flöskunnar hve mjó hún er og tollir illa í glasahöldurum. Hvað er því betra til að auka sölu á drykkjarvöru en að umbúðir séu vel brúklegar í daglegu lífi?

Það væri gaman að vigta eina 33cl flösku og aðra 50 cl á nákvæmri vigt og athuga hver munurinn raunverulega er. Ég er nokkuð viss um að hann er enginn. Ástæðan er að mjög líklega er sama "preformið" notað til að framleiða báðar flöskurnar. Skora á ykkur sem heima eruð að gera tilraun.

Hér er myndband af Youtube sem sýnir hvernig svona flöskur eru framleiddar. Þar er bent á að sama "preformið" er notað við að framleiða 1,5 og 2 lítra plastumbúðir.

  


mbl.is „Krílin“ fyrir þá sem vilja minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#177. Aldrei axlar neinn ábyrgðina!

Þrátt fyrir marga dóma um ólögmæti gengistryggðra lánasamninga er enginn forsvarmaður banka eða annara fjármögnunarfyrirtækja sóttur til ábyrgðar. Fólk sem þáði milljónir í laun og bónus fyrir að bera ábyrgð á að starfsemin væri lögum samkvæmt er stikkfrítt. Skilaboðin sem framkvæmdavaldið hefur til forsvarsmanna þeirra eru í raun engin

Almenningur er bara frekur skríll sem á bara að borga og þegja og ekki vera eyða tíma saksóknara og dómstóla með fokdýrum kröfum á fjármálafyrirtæki.

ÞETTA ER HANDÓNÝTT KERFI SEM VIÐ BÚUM VIÐ Í ÞESSU VOLAÐA LANDI! 


mbl.is Gengistrygging ólögleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband