Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013
#192. Aftur tapar Lýsing, en....
30.8.2013 | 20:24
Enn fellur dómur í málum Lýsingar þar sem fyrirtækið lætur í minni pokann gagnvart neytendum vegna gengistryggðs lánasamnings. Það sem veldur mér þó vonbrigðum í þessu máli, sem og öðrum, er að ekki er að mínu mati byggt nægilega vel á ákvæðum neytendalánalaga um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Af þeim sökum tekur dómarinn ekki afstöðu til þessara atriða í dómsorði. Þó er rétt að benda á að konan byggir á 14.gr. neytendalánalaga, en vill ekki byggja á greiðsluáætluninni sem fylgdi samningnum, er þar koma fram umsaminn heildarlántökukostnaður og árlega hlutfallstala kostnaðar, atriði sem ég tel takmarkandi við innheimtu þessara samninga. 2.mgr.14.gr. neytendalánalaga segir nefnilega að "lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar."
Nú veit ég ekki hver upphaflegur heildarlántökukostnaður var í þessu máli né hversu há heildargreiðsla konunnar var áður en hætt var að greiða, þar sem þessar upplýsingar koma ekki fram í dómsorði. Þess vegna er ekki mögulegt að meta hver áhrif dómsins eru miðað við upphaflegu forsendurnar, þ.e. hversu mikið upphaflegur heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala hækka vegna niðurstöðunnar. Mig grunar þó sterklega að hækkunin sé nokkur. Upphafleg samningsfjárhæð var 5.357.410 kr. og miðað við árlega hlutfallstölu kostnaðar upp á 5,79% er ekki óvarlegt að áætla upphaflegur heildarlántökukostnaður hafi verið uppgefinn eitthvað umfram 6 milljónir kr.
Hvernig hægt er með dómi að dæma neytanda til að greiða meira en hann samdi um í upphafi og hækka atriði sem mega ekki hækka lögum samkvæmt, er mér hulin ráðgáta. Ennfremur hvers vegna lögmenn beita ekki í ríkari mæli þessum atriðum um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar sem takmarkandi atriða við uppgjör þessara samninga fyrir dómstólum skil ég ekki heldur. Ef lánveitandi upplýsti neytanda um þessi atriði við samningsgerð eiga þau að vera takmarkandi við ákvörðun niðurstöðunnar og enginn önnur. Það er líklega í eina sinnið þar sem báðir aðilar voru að fullu upplýstir og sammála um hvað samningurinn ætti að kosta.
Kröfum Lýsingar vísað frá dómi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#191. Lýsing hf. ætlar ekki að eiga frumkvæði að leiðréttingum.
23.8.2013 | 20:24
Ég birti hér á blogginu þ.22.ágúst grein sem að birtist í Morgunblaðinu þann sama dag um rétt viðskiptavina Lýsingar í kjölfar Hrd. 672/2012.
Þennan sama dag var Lýsingu sent erindi sem ég samdi fyrir viðskiptavin Lýsingar vegna bréfs sem Lýsing sendi viðskiptavinum sínum í kjölfar ofangreinds dóms þar sem Lýsing biður þá viðskiptavini sem töldu sig hafa samið um betri lánskjör en buðust á markaði að senda skriflega athugasemd fyrir 1.september. Í bréfinu sem Lýsing fékk var sjónarmið viðkomandi viðskiptavinar tilgreint ásamt útreiknaðri endurgreiðslukröfu sem Lýsingu var gefin kostur að greiða ekki síðar en 1.september ella yrði hún send til innheimtu.
Lýsing svaraði bréfinu með eftirfarandi tölvupósti, (allar feitletranir eru mínar):
Ágæti viðskiptavinur.
Lýsing hf. hefur móttekið umsókn þína um leiðréttingu bílasamnings.
Lýsing hefur vakið athygli viðskiptavina sinna á dómi Hæstaréttar í máli nr. 672/2012 vegna samnings sem var að hluta gengistryggður og að hluta í íslenskum krónum. Þar kom fram að ákvæði samningsins um lánakjör væru ekki nógu skýr gegn mótmælum lántaka. Þar sem samskipta- og greiðslusaga viðskiptavina, auk breytingar á skilmálum með nýjum samningsskilmálum, benda til að atvik geti verið mismunandi hefur Lýsing vakið athygli viðskiptavina á framangreindu og beint til þeirra að óska eftir leiðréttingu telji þeir tilefni til.
Til að umsókn um leiðréttingu á grundvelli áðurnefnds dóms geti talist fullnægjandi þarf að koma fram skýr yfirlýsing viðskiptavinar þess eðlis að hann telji sig hafa, á grundvelli samningsskilmála bílasamningsins, samið um lægri kjör en markaðskjör á þeim hluta samnings sem frá upphafi var í íslenskum krónum.
Vinsamlegast staðfestu með svarpósti að ofangreint sé skilningur þinn, en í framhaldinu mun Lýsing skoða athugasemd þína með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og gildandi lögum.
Með kveðju,
Þjónustuver Lýsingar hf
Ármúla 3, 108 Reykjavík
Sími: 540 1540 / fax 1505
www.lysing.is
thjonustuver@lysing.is
Af ofangreindu verður ekki annað ráðið en Lýsing muni ekki leiðrétta lánasamninga hjá viðskiptavinum sem ekki senda inn skriflega athugasemd, og þá því aðeins ef sömu viðskiptavinir lýsa því yfir að þeir hafi samið um lægri kjör en markaðskjör á þeim hluta samnings sem var í íslenskum krónum. Hver tilgangur þessa er óskiljanlegur þegar samningurinn var einhliða að fullu og öllu leyti saminn af starfsfólki Lýsingar sem á að búa yfir sérþekkingu á fjármálagjörningum. Lýsingu ber skilyrðislaust að skila ofteknum greiðslum sem ranglega hafa verið hafðar af viðskiptavinum, eins og fyrirtækið hefur verið dæmt til að gera í Hrd. 672/2012.
Þá er einnig óskiljanlegt hvers vegna eftirlitsaðilar grípa ekki inn í og stöðva framferði Lýsingar og gera þeim skylt að fara eftir dómafordæmum og landslögum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
#190. Opið bréf til FME: Eru viðskiptavinir Lýsingar að renna út á tíma?
22.8.2013 | 12:35
Eftirfarandi færsla birtist í Morgunblaðinnu í dag 22. ágúst. Við vinnslu greinarinnar fyrir sendingu til blaðsins misritaðist tilvísun í lög um vexti og verðtryggingu í annarri spurningu til FME og er það leiðrétt í pistilinum hér á eftir. Þau mistök eru mín. Einnig þurfti að stytta greinina lítillega fyrir birtingu í Morgunblaðinu þar sem lengd greina takmarkast við 5.000 slög. Greinin er hér í óstyttri útgáfu.
----------------------------------------------------------------------------------------------------
Frú Unnur Gunnarsdóttir forstjóri,
Aðrir stjórnarmenn FME.
Á vordögum þ. 24. apríl sl. féll dómur í Hæstarétti Íslands nr. 672/2012 er varðaði verðtryggingarhluta bílasamnings frá 2006, hvers höfuðstóll var frá upphafi að helmingi gengistryggður, með tilgreint vaxtaviðmið m.v. samsetningu myntkörfu, en hinn helmingur höfðstólsins með tilgreint vaxtaviðmið í íslenskum krónum.
Dómurinn úrskurðaði að sá lánshluti, sem upphaflega tengdist íslenskum krónum beint og bar vexti skv. því, teldist vera óverðtryggður og án breytilegra vaxta, af þeim sökum mætti ekki innheimta hærri lántökukostnað, þ.e. vexti og verðbætur, vegna hans en fram kom í greiðsluáætlun. Lýsingu var því gert í dómsorði að endurgreiða lántaka ofteknar greiðslur. Í júníbyrjun sendi Lýsing viðskiptavinum bréf þar sem er skorað á þá sem telja sig hafa, á grundvelli samningsskilmála bílasamnings, samið um lægri kjör en markaðskjör á þeim hluta samnings sem frá upphafi var í íslenskum krónum, að gera skriflega athugasemd og óska eftir leiðréttingu á greiðslum. Óskað er eftir því að slíkar athugasemdir berist félaginu fyrir 1. september nk. [tilvitnun lýkur]
Í bréfinu er einnig tilgreint að Lýsing hafi ætíð miðað kjör bílasamninga við markaðsvexti á hverjum tíma og bent er á að verðtrygging hafi sérstaklega verið tilgreind á greiðsluseðlum Lýsingar frá því í maí 2008. Svo undirritaður viti til, taka staðhæfingar á greiðsluseðlum ekki samningsskilmálum fram eða skapa Lýsingu nokkurn rétt til að efna ekki eða fresta að eigin frumkvæði, endurgreiðslu á ofteknum greiðslum vegna ólögmætrar innheimtu lögum samkvæmt. Þá hefur Lýsing oft og iðulega lýst því yfir að lausnir sem viðskiptavinir gátu fengið vegna gengistryggðra samninga rýrðu ekki betri rétt viðskiptavina á síðari stigum. Engu að síður telur Lýsing rétt vegna Hrd. 672/2012, að benda á með tilkynningu á heimasíðu sinni þ. 3.júní að nákvæm athugun á samskonar samningum Lýsingar ásamt fylgigögnum þeirra sýnir m.a. að skilmálar og greiðslusaga viðskiptavina er mismunandi. Þá hefur í ýmsum tilvikum upphaflegum samningsskilmálum verið breytt með samkomulagi aðila. Virðist þetta orðalag eingöngu til þess ætlast að firra Lýsingu ábyrgð og vinnu á að ákvarða leiðréttingar til viðskiptavina í kjölfar dómsins og setja ákvörðunina í hendur viðskiptavina að sækja rétt sinn. Benda má á með nokkurri vissu að slíkir breytingaskilmálar voru líklega í öllum tilvikum einhliða samdir af Lýsingu.
Lög um vexti og verðtryggingu segja skýrt í 1.málslið. 5.mgr. 18.gr. laga nr. 38/2001 að kröfuhafa ber að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar." Trauðla er hægt að sjá að lögin ætlist til þess að viðskiptavinir fjármálafyrirtækja leggist í kröfugerð og skriflegan rökstuðning í kjölfar dóma vegna lagalegs réttar síns, þegar átt eru viðskipti við eftirlitsskyldan aðila, til þess eins að sækja þann rétt, heldur eru skyldur kröfuhafa til endurgreiðslu ótvíræðar. Þá hlýtur opinberum eftirlitsaðilum bera skylda til að fylgja dómafordæmum Hæstaréttar eftir af hörku með tilliti til almannahagsmuna.
Að ofangreindu sögðu, og þar sem engin tilmæli er að finna á vef FME í kjölfar Hrd. 672/2012, og vegna almannahagsmuna óskar undirritaður viðbragða FME á opinberum vettvangi hvort FME telji efni og orðalag bréfs Lýsingar til viðskiptavina sinna í kjölfar Hrd. 672/2012, eðlilegt og í samræmi við 1.mgr.19.gr. laga um fjármálafyrirtæki.
Jafnframt óskar undirritaður svara við eftirfarandi:
- Telst það eðlileg háttsemi fjármálafyrirtækis að taka ekki að eigin frumkvæði tillit til dómafordæmis í starfsemi sinni, sérstaklega þegar sama félag er málsaðili dóms hvers niðurstaða skiptir aðra viðskiptavini félagsins máli, heldur að setja í hendur ólöglærðra neytenda að sækja rétt sinn sérstaklega?
- Telur FME þann hluta bréfsins þar sem Lýsing bendir á að verðtrygging hafi komið fram á greiðsluseðlum frá því í maí 2008 eðlilegan málflutning, og til þess fallinn að skapa Lýsingu rétt umfram ákvæði 1.ml.5.mgr.18.gr. (leiðrétting frá birtri grein) laga nr. 38 frá 2001?
- Getur FME upplýst hver réttur neytenda er, sem ekki senda Lýsingu skriflega athugasemd fyrir 1. september vegna viðskiptasambands við Lýsingu? Eru þessir neytendur að glata rétti sínum eða mun FME gæta hagsmuna þessa fólks og gera Lýsingu skylt að fara að dómi Hæstaréttar nr. 672/2012 vegna samningsákvæða sem falla undir úrskurð Hæstaréttar?
- Hefur FME kallað eftir upplýsingum frá Lýsingu um fjölda þeirra samninga félagsins sem Lýsing telur að falli ótvírætt undir Hrd. 672/2012 og eigi rétt á endurgreiðslu í kjölfar hans? Ef svo getur FME upplýst um fjölda þeirra? Ef ekki hefur verið óskað upplýsinga, getur FME upplýst hvers vegna?
- Telur FME Lýsingu í stakk búið til að mæta kostnaði vegna mögulegra endurgreiðslna til viðskiptavina vegna Hrd. 672/2012?
Á það skal bent að hlutverk Fjármálaeftirlitsins er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur og að öðru leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr.8. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Ágæta fólk, almenningur treystir á virkt eftirlit FME á leiðréttingum vegna ólöglegrar innheimtu lánastofnana á grundvelli staðlaðra ólögmætra samningsskilmála í lánasamningum neytenda. Þögn ykkar vegna þessarar ólögmætu innheimtu og þvergirðingsháttar lánastofnana þegar kemur að leiðréttingum ólögmætra samningsskilmála er hins vegar orðin ærandi.
Virðingarfyllst
Erlingur A. Jónsson
----------------------------------------------------------------------------------------------------
PS: Því er hér við að bæta að FME sendi fjármálastofnunum tilmæli 12.apríl sl. hvar því er beint til þeirra að upplýsa viðskiptavini hvaða dómafordæmi viðkomandi fjármálastofnun telji að eigi við um samninga viðkomandi viðskiptavinar. Í kjölfar þessa bréfs óskaði ég þ. 16.apríl 2013 eftir upplýsingum Landsbankans um öll dómafordæmi sem talin eru eiga við minn samning við bankann. Svar hefur ekki borist frá bankanum. Fyrr þann sama dag hafði ég átt samskipti við bankann og þar kom fram eftir beina spurningu frá mér að bankinn hyggst ekki bjóða mér upp á frekar fundahöld vegna innheimtu þess samnings. Þetta er viðhorf bankans þíns.
Bloggar | Breytt 23.8.2013 kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#189. Smáýsa eða smá af ýsu?
10.8.2013 | 22:48
Þetta er laukrétt sem lögmaðurinn bendir á, réttara væri fyrir ESB að einbeita sér eigin fiskveiðistjórnun.
Ég keypti mér 500 gr. af ýsuflökum með roði í stórmarkaði í Dublin núna um daginn. Þar var líka hægt að kaupa makríl. Ýsuflökin voru svo smá að til að ná þessum 500 gr. þurfti 3 flök. Ef ég man rétt vigtuðu þessi 3 flök nákvæmlega 532 gr. Ég bað afgreiðslumanninn að roðfletta ýsuna, sem hann gerði eftir að hann vigtaði og verðlagði. Verðið var 7,97 evrur, sem útleggst á gengi dagsins í dag 1.262 kr. Það gera 2.372 kr/kg. Þegar heim kom tók ég mynd á símann minn af flökunum sem ég birti hér til hliðar. Ég setti til gamans venjulegan spilastokk á myndina til að sýna stærðarhlutföll. Smella má á myndina til að sjá hana stærri.
Vill að ESB horfi í eigin barm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#188. "Bankaröflarar!"
8.8.2013 | 10:43
Bankar eru svolítið merkilegt fyrirbrigði. Í bönkum virðist ríkja einhver hentistefna hvernig gera eigi hluti og enginn reynir að komast til botns í málum fólks, hvaða lög gilda eða koma með skynsamleg rök fyrir því af hverju málum sé háttað með ákveðnum hætti ef viðskiptavinur efast um gjörninginn. Það er einfaldlega vaðið áfram í viðjum vanans og aldrei athugað hvort hlutir séu rétt gerðir eða löglegir nema einhver "röflari" geri "allt vitlaust"!
Almennt starfsfólk fær líklega ekki mikla formlega þjálfun vegna starfa sinna og ályktar því að fyrst svona hafi hlutir verið um árabil sé það bara rétt sem þeim var sýnt. Þeim er því nokkur vorkunn.
Sem dæmi um álíka einkennileg vinnubrögð bankastarfsmanna greiddi ég í lok síðasta árs síðustu greiðslu af skuldabréfi í Arion banka. Síðan leið og beið og ekki barst mér frumrit skuldabréfsins stimplað sem uppgreitt. Svo ég lagði leið mína í útibúið mitt seinni part dags í febrúar 2013, til að athuga málið. Þar var mér sagt að venjulega væri uppgreiðsluupplýsingum safnað saman, síðan farið í skjalageymslur og skuldabréfin tekin til og því næst mörg bréf stimpluð í einni aðgerð. Svo ég bað viðkomandi að athuga hvenær ég fengið bréfið stimplað og afhent. Um kvöldmatarleytið hringir þjónustufulltrúinn sem ég hafði talað við og sagðist hafa komist að því eftir að hafa kannað málið að bankinn væri hættur að senda út frumrit uppgreiddra skuldabréf. Því hefði verið hætt eftir hrun. Ég hló og benti henni góðfúslega á að slíkt mætti ekki. Bankanum bæri skylda til að afhenda skuldabréfið áritað sem uppgreitt þegar það hefði verið greitt upp. Hún sagði að svona væri þetta gert í dag og bar við að sumir vildu ekki fá svona sent í pósti og stundum væri upplýsingar um heimilisföng viðskiptavina óáreiðanlegar í kerfum bankans. Ég hló aftur og sagði bankannn ekki eiga í vandræðum með að innheimta eftir sömu upplýsingum. Svo ég þakkaði henni fyrir upplýsingarnar og sagðist ætla hafa samband við umboðsmann viðskiptavina bankans vegna þessa máls.
Svo ég sendi umboðmanni tölvupóst sama kvöld og benti á tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf þar sem tilgreint er að afhenda skuli skuldunaut áritað skuldabréf þegar höfuðstóll þess er uppgreiddur. Umboðsmaður tók minni fyrirspurn vel og sagðist ætla athuga málið. 2-3 dögum síðar barst mér svar frá umboðsmanni sem staðfesti sögu þjónustufulltrúans en sagði jafnframt að eftir athugun bankans hefði verið tekin ákvörðun um að breyta þessu og framvegis yrðu uppgreidd skuldabréf stimpluð og send viðskiptavinum. Nokkrum dögum seinna, eða seinni hluta febrúar 2013, barst mér skuldabréfið í pósti stimplað sem upgreitt. Dagsetning stimpilsins var 12. júní 2012. Síðasta greiðslan var hins vegar innheimt 6 mánuðum síðar, 1. desember 2012. Þetta eiga víst að kallast fagleg vinnubrögð.
Ég bendi viðskiptavinum Landsbankans, sem og annarra banka, að athuga stöðu mála með uppgreidd skuldabréf og óska eftir að fá frumritið sent, stimplað sem uppgreitt þegar greiðslum hefur verið lokið. Ekki sýna tómlæti þegar um skuldabréf er að ræða og kynnið ykkur tilskipun um áritanir á skuldabréf.
Og ekki síður að vera ófeimin að véfengja vinnubrögð bankafólks ef nokkur vissa er fyrir því að vinnubrögðin eiga ekki stoð í lögum og reglum. Fyrst eftirlitsaðilar bregðast hlutverki sínu verður almúginn að vera á verði.
Faðirinn hafði betur gegn bankanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
#187. Ég skil ekki.....
7.8.2013 | 21:04
.....hvernig framkvæmdastjórn AGS getur sagt að ekkert svigrúm sé til niðurfellingar skulda heimila, sem fjármagnast eiga m.a. af erlendum kröfuhöfum, en ekki ríkissjóði, en á sama tíma haldið því fram að stofn aflandskróna sé ennþá stór og geti stækkað þegar bú gömlu bankanna verða leyst upp. Það sé því yfirvofandi vandamál eins og margoft hefur verið bent á og minnka þarf aflandskrónustofninn.
Nú, það er einmitt það sem vilji er til að gera! Niðurfelling skulda á m.a. að fjármagnast með aflandskrónum, þ.e. fá erlenda kröfuhafa að gefa eftir eign sína í krónum eða alla vega lækka hana umtalsvert, og láta þá niðurfellingu ganga áfram í gegnum efnahagsreikninga bankanna til lækkunar á skuldum heimila. Er þá niðurfelling, sem svona er framkvæmd, ekki af hinu góða fyrir stærsta vandamál hagkerfisins, þennan of stóra aflandskrónustofn? Hann myndi lækka umtalsvert við svona aðgerð, sem er það sem allir vilja að gerist til að hægt sé að afnema fjármagnshöft! Hvernig getur þessi aðgerð þá verið svona slæm?
Síðan hvetur AGS stjórnvöld til að lagafæra stöðu ÍLS. Ef stjórnvöld þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af aflandskrónustofninum, þá væri kannski hægt að fara einbeita sér að ÍLS og öðrum málum!
Ummælin sanna bara enn einu sinni að AGS er innheimtustofnun stórra fjármagnseigenda en ekki sjálfstæð alþjóðastofnun til hjálpar ríkjum í vanda.
Að öðru leyti vísa ég í nýlega færslu mína um sama atriði.
AGS leggst gegn skuldaniðurfellingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
#186. Rétt skal vera rétt.
7.8.2013 | 19:42
Í frétt mbl.is er eftirfarandi millifyrirsögn og texti:
Yfirborð sjávar 3,5 cm yfir fyrri met
Einnig þar var met slegið árið 2012, þegar sjávaryfirborð mældist að jafnaði á heimsvísu 3,5 cm hærra en það var áður hæst, árin 1993 og 2010.
Millifyrirsögnin er röng, og fullyrðingin sem síðar kemur einnig. Eins og sést á þessum útdrætti á síðu bandarísku veðurstofunnar NOAA, kemur fram í skýrslunni að sjávarstaða ársins 2012 var 3,5 cm (1.4 inches) yfir meðaltali áranna 1993-2010. Meðaltalið var ennfremur það hæsta frá 1993. En ekki að sjávarstaðan hafi verið 3,5 cm hærri en fyrri met!
Þá segir ennfremur í sömu málsgrein:
Bráðnun íssins hefur áhrif á yfirborð sjávar.
Ekki er þó hirt um að tilgreina hvað ís er um að ræða og hver áhrifin eru.
Alkunna er að vatn þenst út þegar það frýs. Ís, sem flýtur í vatni/sjó, lækkar því yfirborðsstöðu við bráðnun. Bráðnun heimskautaís sem þegar er í sjó, hvar á jörðinni sem hann er, hækkar því ekki sjávarstöðu heldur þvert á móti lækkar hana lítillega. Þó eru áhrifin líklega svo lítil að varla tekur því að nefna eða mæla.
Ís, sem liggur eingöngu á landi, hækkar að sama skapi sjávarstöðu heilt yfir þegar hann bráðnar.
Norðurísinn aldrei hörfað hraðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Breytt s.d. kl. 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
#185. Alveg furðulegt!
5.8.2013 | 17:48
Fréttablaðið birti 3. ágúst grein eftir fyrrum forsætisráðherra landsins, Þorsteinn Pálsson, um hugmyndir menntamálaráðherra um nauðsyn þess að stokka upp í menntakerfinu. Greinin birtist líka samdægurs á visir.is. Það er vel að endurskoða eigi menntakerfið okkar. Hvort hugmyndir ráðherrans séu einhvers virði er ekki hægt að fullyrða að óathuguðu máli.
En á einhvern óskiljanlegan hátt fléttar blaðamaðurinn Þorsteinn Pálsson kosningaloforði Framsóknarflokksins um skuldaleiðréttingu heimila inn í umræðuna. Hann heldur því enn einu sinni fram að nota eigi fjármuni ríkissjóðs til að endurgreiða verðbólgu á fjárfestingum í steinsteypu. Það er engu líkara en sumir aðilar haldi að almenningur sé illa menntaður skríll. Þorsteinn Pálsson skipaði sér því miður fljótt í þann hóp.
Þorsteinn Pálsson kemur iðulega vel fyrir í viðtölum og sjónvarpi. Hann er þægilegur viðmóts og sýnir viðmælendum sínum virðingu og er rökfastur. Ég man ekki til að hafa séð hann sýna af sér hroka í framkomu, ólíkt öðrum núverandi og fyrrverandi stjórnmálamönnum. Það mætti segja hann væri sjónvarpsvænn.
Þess vegna er mér ómögulegt að skilja hvernig Þorsteinn Pálsson getur haldið því fram að niðurfellingar skulda sem ræddar væru við kröfuhafa, sem margir keyptu loftkröfur sínar á íslenskt hagkerfi á hrakvirði eftir hrun, um að lækka nú þessar loftkröfur sínar á íslensk heimili svo hér verði hægt að ýta hjólum efnahagslífsins af stað á ný, eigi að fjármagnast úr ríkissjóði.
Margoft hefur verið bent á hið gagnstæða og einnig að allar niðurfellingar skulda til þessa hafa ekki kost að ríkissjóð krónu, hví ætti annað að gilda um þessa framkvæmd?
Sem dæmi getum við litið á einfalda mynd af leið fjármuna við greiðslu kröfu sem fer í gegnum nýju og gömlu bankana:
Lántaki/heimili à Fjármálastofnun (e. 2008) à Fjármálastofnun (f.2008) à Kröfuhafi (Upphaflegur/nýr)
Hvar er aðkoma ríkissjóðs? Hún er að sjálfsögðu ekki til staðar við innheimtu og greiðsluferil kröfunnar, hvers vegna ætti ríkissjóður þá að koma að niðurfellingu hennar?
Það hefur lengi verið viðurkennt að kröfuhafar heimilanna, nýju bankarnir þrír, eignuðust kröfur sínar á niðursettu verði í október 2008. Það sama á við um kröfuhafa gömlu bankana sem sumir fengu kröfurnar nánast gefnar. Engu að síður hamast nýju bankarnir við að innheimta kröfur sínar að fullu til að uppfylla samninga Steingríms J. við kröfuhafa, gömlu bankana. Hvernig ríkissjóður á að tengjast þessu ferli og bera ábyrgð einhverju mögulegu "fjárhagstjóni" kröfuhafa er óskiljanlegt.
Ef ég skulda Sigmundi 1 milljón og hann fer á hausinn, sem verður til þess að skiptastjórinn selur Bjarna kröfuna á 500 þús., og svo kemur Frosti nokkru seinna og biður Bjarna að innheimta nú bara þessi 500 þús. sem hann lagði út (plús kannski smá vexti), en ekki 1 milljón, á þá Bjarni að heimta að sameiginlegur sjóður Frosta og Þorsteins vinar hans eigi að borga honum mismuninn sem hann telur sig missa af? Hvernig má það vera að sameignlegur sjóður Frosta og Þorsteins vinar hans, eigi að borga Bjarna þann mismun? Ég bara spyr!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#184. Sorglega illa unnin frétt.
4.8.2013 | 16:17
"David Underwood, sem býr í bænum Fort Worth í Texas í Bandaríkjunum, brá heldur betur í brún þegar hann kom heim til sín um miðjan júlí að lokinni helgarferð. Þegar hann ók upp að innkeyrslunni að heimili sínu sá hann að húsið hans var horfið!"
Ef fréttamaður hefði lesið upphaflegu fréttina sem hér er fjallað um kemur strax í ljós að enginn bjó í húsinu sem um er rætt, og húsið var ekki heimili þess sem rætt er við frétt FoxNews. Húsið hafði hins vegar verið í eigu fjölskyldu hans um árabil og til stóð að lagfæra það, svo Underwood og kona hans gætu flutt inn seinna.
Hér hefði auðveldlega mátt gera betur.
Rifu rangt hús | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
#183. Mannfjöldi aukaatriði.
2.8.2013 | 09:32
Já....auðvitað er aukið ofbeldi loftslagsbreytingum að kenna. Hvað annað? Hefur náttúrulega ekkert með aukinn mannfjölda að gera! Blessuð sólin elskar allt.
Hvaða rugl er þetta?
Tengsl milli loftlagsbreytinga og ofbeldisverka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)