#80. Svar lögmanns SP-Fjármögnunar hf.

Það var þunnt svarið frá lögmanni SP-Fjármögnunar við fyrirspurn minni frá 29. október sem barst, eins og hann hafði lofað, 31. desember sl.

Eins og ég greindi frá hér á blogginu 29. desember heimsótti ég skrifstofur SP daginn áður til að reka á eftir svörum við fyrrgreindri fyrirspurn.  Fyrirspurnin var í 8 liðum, en einungis fengust svör við 3 þeirra, og þá eingöngu að hluta til.  Eini liðurinn sem svarað var að fullu var krafa mín um afsal bifreiðar sem keypt var á lánasamningi, færðum í búning kaupleigusamnings.  Krafa mín hljóðaði svo:

Samningur minn er samskonar eðlis og samningur áfrýjanda; sem sagt lánssamningur færður í búning leigusamnings.  Þar sem Hæstiréttur hefur kveðið á um að lánssamning hafi verið að ræða en ekki leigusamning í svona tilfelli, felur 1.gr. samningsskilmála samningsins í sér óréttmætan samningsskilmála um eignarrétt SP-Fjármögnunar á „leigumun" og fer ég fram á að fá afhent afsal fyrir bifreiðinni enda sé hún með réttu mín eign. 

Vinsamlegast sendið mér afsal bifreiðarinnar og umskráið hana á mitt nafn.

Svar lögmannsins við þessum lið var eftirfarandi: 

Í einni af athugasemdum þínum krefst þú afsals af þeirri bifreið sem samningssamband okkar snýr að og vísar því til stuðnings í dóm Hæstaréttar nr. 92/2010. SP-Fjármögnun hf. er ósammála þeirri túlkun sem þú leggur í orð Hæstaréttar og lítur svo á að þar sé verið að líta til þess að um sé að ræða tilvísun Hæstaréttar í að um sé að ræða lánssamning búning leigusamnings í skilningi vaxtalaga sem leiðir af sér heimfærslu þeirra samninga sem um ræðir undir þá vaxtalögin og þannig að þeirri niðurstöðu sem rétturinn kemst að á grundvelli greinargerðar með þeim lögum. Kröfu þinni um afsal á bifreiðinni er því hafnað."

Ég verð að segja að tormeltari texta hef ég ekki lesið í langan tíma.  Þetta er algjör þvæla. 

Hæstiréttur sagði í dómi sínum í máli 92/2010 þ.16. júní 2010:

Auk þessa yrði að gæta að því að Ó hefði ekki leitað eftir því að taka á leigu bifreið frá S heldur valið bifreiðina og samið um kaup hennar án þess að S kæmi þar nærri. Varð því að líta svo á að S hefði í raun veitt Ó lán til kaupa á bifreið, sem S hefði kosið í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings. Var því lagt til grundvallar að um lánssamning í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hefði verið að ræða."

SP veitti Óskari Sindra lán til bifreiðakaupa sem Óskar Sindri valdi.  Eignarhald SP á slíkri bifreið var tiltekið í samningi aðila í millum á grundvelli þess að samningurinn væri leigusamningur en ekki lánssamningur eins og Hæstiréttur úrskurðaði að væri réttmæt samningsstaða.  Þess vegna er eðlilegt að SP sé ekki eigandi bílsins á samningstíma heldur sé það neytandinn sem sótti um lán til bifreiðakaupa.

Að því ég best veit er minn samningur að öllu leyti sambærilegur við samning Óskars Sindra í máli 92/2010.

SP kom almennt ekki að samningsviðræðum aðila um bifreiðakaup þó að umrædd bifreið væri með áhvílandi láni frá SP.  Umráðamaður og/eða bílasali sömdu beint við kaupanda um söluverð.  Það var síðan SP að samþykkja kaupanda sem nýjan lántaka.

Ég mun líklega þurfa kæta lögmanninn með heimsókn á skrifstofu hans í fyrirséðri framtíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Birgir Guðmundsson

Sæll Erlingur
Þessi túlkun SP á úrskurði Hæstaréttar eru alveg dæmalaus, þeir næstum segja að hvítt sé svart,  þetta sést vel hér á meðfylgjandi skjali að um er að ræða bílalán en ekki leiguhttp://www.leit.is/servefir/kvittun/

Geir Birgir Guðmundsson, 20.1.2011 kl. 14:43

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Að segja hvítt vera svart er einmitt lýsandi fyrir starfshætti þessa fyrirtækis.

Það skiptir ekki endilega máli heldur hvernig þetta er túlkað. Þegar ég keypti minn bíl mælti sölumaðurinn með því að taka bíla"samning" frekar en bíla"lán" því þá sparaði ég mér lántökugjald en annars væri það nákvæmlega eins fyrir mig. Ef svo reynist ekki vera þá er augljóslega um svik að ræða.

Þessir viðskiptahættir, að reka þetta nokkurn veginn eins og bílaleigu í áskrift, þykir mér renna stoðum undir þá kenningu að þetta fyrirtæki hafi í raun bara verið fjármagnað með opnum yfirdrætti hjá Landsbankanum í því skyni að stunda gengisvarnir eða bara einfaldlega hreinræktað brask. Með óútfylltan tékka frá bankanum.

Ég vil þakka þér kærlega Erlingur fyrir þær upplýsingar sem þú hefur grafið upp og þann málarekstur og eftirfylgni sem þú hefur lagt á þig. Ég er sjálfur búinn að vera að greina ýmsa hluti varðandi Landsbankann og að fá allar þessar upplýsingar um eitt aðal dótturfyrirtæki hans er ómetanleg viðbót.

Stefni á að mæta á "eigenda"fund Landsbankans þann 15. febrúar nk. og aldrei að vita nema maður leggi einhverjar spurningar fyrir bankamenn sem væri forvitnilegt að fá svör við og enn forvitnilegra að fá engin svör við. Sérstaklega miðað við á hvaða forsendum bankinn boðar til fundarins.

Ég vil að lokum benda á nýjustu grein mína sem fjallar um Landsbankann: Bankasýslan gerir óraunhæfa ávöxtunarkröfu

Guðmundur Ásgeirsson, 5.2.2011 kl. 02:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband