Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

#42. Lögfræðiálit SP-Fjármögnunar hf. og Lýsingar.......eigum við að ræða það eitthvað?!!!

Enn heldur gengistryggða bullið áfram. Nú ætlar Sjómannafélagið í mál við Arion banka vegna gengistryggðs fasteignaláns sem er upgreitt.  Þetta verður fróðlegt mál.  

Og samkvæmt frétt RUV þ.28.júlí ætla SP-Fjármögnun hf. og Lýsing að innheimta fjármögnunarleigusamninga með óbreyttu sniði vegna þess að þar sé um leigusamninga að ræða en ekki lán.  Þetta sé niðurstaða lögfræðiálits en ekki tilgreint hverjir lögfræðingarnir séu.  Sko, erum við ekki öll búin að kynnast lögfræðikunnáttu þessara fyrirtækja?!!  Hún er minna en engin.

Hæstiréttur úrskurðaði í júní að kaupleigusamningur væri lán, ekki leigusamningur eins og SP reyndi að halda fram.  Mér skilst einnig að einkaleigusamningar SP séu tilgreindir á samningi sem „kaupleigusamningar í eðli sínu".   Nú hef ég ekki kynnt mér innihald þessara einkaleigusamninga sem slíkra.  Ég veit þó að að í einkaleigusamningum SP er samið um kaupverð í lok samningsins.  Alla vega segir auglýsingabæklingur fyrirtækisins það:

ÞÚ LEIGIR BÍLINN AF OKKUR EN NÝTUR UMSAMINNAR ÞJÓNUSTU HJÁ UMBOÐI BÍLSINS SEM KAUPIR HANN SVO AFTUR Í LOK SAMNINGSTÍMANS.

ÞÚ ÁTT EKKERT Í HONUM. HANN Á EKKERT Í ÞÉR.

Og á heimasíðu þess segir þegar þetta er ritað: 

EINKALEIGA

Þú finnur bílinn, við kaupum hann og leigjum þér til allt að þriggja ára. Í lokin kaupir bílaumboðið hann af þér þannig að þú ert laus við alla áhættu af endursölu. 

Já, er það?  Sniðugt!  Hvort er þetta þá lán eða leiga, ef þú átt bílinn í lok samnings?!!!!!!   Einfalt, ef eignarétturinn færist á „leigutaka" í lok samnings er þetta lán.  Ef ekki, þá er þetta leiga.

Leigumun þarf ekki að kaupa af leigutaka af því leigutaki á hann ekki, heldur er leigusalinn eigandinn.  Einnig er leiga almennt ekki innheimt með vöxtum.  Neytendur borga t.d. ekki vexti í húsaleigu.  Þeir borga fasta leigu.  Hún getur verið verðtryggð, ef aðilar semja þannig.  En getur hún verið gengistryggð?  Hugsanlega, en þó varla.  Miðað við nýgengna dóma má álykta að gengistrygging sé ígildi verðtryggingar.  Slík verðtrygging er óheimil í lánssamningi en hvað með leigusamninga við aðila sem hefur af því atvinnu?  Er allt leyfilegt?  Ég segi nei.  Engin sérstök lög virðast vera til á Íslandi um leigusamninga, aðra en húsaleigusamninga.  Og leyfi ég mér því að skoða þau með tilliti til hvað löggjafinn segir um húsaleigusamninga.  Í þeim segir í 11.gr.: 

„Ákvæði í leigumála má meta ógild ef þau mundu leiða til niðurstöðu sem væri bersýnilega ósanngjörn.  Sama gildir ef ákvæði í leigumála brýtur i bága við góðar venjur í húsaleigumálum." 

Þessi grein er algjörlega samhljóma ákvæðum 36.gr. samningalaga hvar víkja má samningi ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.  Af þessu vil ég því leiða, að eins og gengistrygging er ólögleg í lánssamningi yrði hún talin jafnólögleg í leigusamningi neytanda, vegna einhvers hlutar, við aðila sem hefur af því atvinnu. 

Þar með eru slíkir einkaleigu- og/eða fjármögnunarleigusamningar fjármögnunarfyrirtækjanna við neytendur vegna bifreiða, ólöglegir.

Og hvernig er með riftun einkaleigusamnings?  Hvað ber leigutaka að borga við slíka riftun?  Allan bílinn og meira til?  Ekki veit ég það.  En ef svo er, hallar þar ekki gróflega á neytandann, þar sem leigusali getur alltaf selt bílinn samkvæmt samningi við bílaumboðið, en innheimtir allan samninginn af neytanda og fær þar bílinn borgaðan tvisvar til baka við samningslok/rof, en leggur aðeins einu sinni út fyrir honum? 

Ég hvet alla handhafa einkaleigu- eða fjármögnunarleigusamninga að íhuga vel sína stöðu áður en greitt er af útsendum greiðsluseðlum fjármögnunarfyrirtækjanna þessi mánaðamótin.  Það eru yfirgnæfandi líkur á því að þessi fyrirtæki fari öll lóðbeint á hausinn á næstu mánuðum, eins og sagði í inngangi svars Seðlabankans til umboðsmanns Alþingis á blaðsíðu 2 varðandi samningsvexti: 

„Samkvæmt upplýsingum sem fyrir lágu þegar tilmælin voru gefin út var ljóst að öll stóru fjármálafyrirtækin myndu verða fyrir svo miklu höggi á eigið fé þeirra að óhjákvæmilegt væri að ríkissjóður legði þeim til nýtt eigið fé. Nokkur smærri fjármálafyrirtæki yrðu gjaldþrota."  

Fjármögnunarleigurnar flokkast að mínu mati sem frekar smá fjármálafyrirtæki.  Þegar þau rúlla munu neytendur ekki fá neinar bætur vegna ofgreiðslna af samningum.

En einnig hvet ég lántaka til að stefna stjórnendum þessara fyrirtækja, þegar þau fara á hausinn og í ekkert verður að sækja bætur vegna atferlis þeirra á undanförnum árum.  Þessa menn verður að stoppa og eina leiðin til þess er að þeir finni það á eigin skinni.


mbl.is Krefst endurgreiðslu vegna gengistryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#41. Betur má ef duga skal....

Á Íslandi eru 8 vegjarðgöng og fjölgar brátt um 2, Bolungarvíkurgöng og Héðinsfjarðargöng.  Við hönnun Hvalfjarðarganga var stuðst við norska og breska staðla.  Árið 2008 gerði félag breska bifreiðaeigenda athugun á 31 göngum í Evrópu, þar af 3 norskum göngum byggðum á árunum 1980-1989.  Norsku göngin fengu öll falleinkunn, á meðan austurísk og svissnesk göng fengu almennt mjög góða einkunn.  Könnunina má finna hér.

Við gerð Hvalfjarðarganga voru, að mínu mati, gerð mikil mistök með að hafa ekki aukaakrein, svokallaða klifurrein, upp úr göngunum að sunnanverðu eins og að norðanverðu ætlaða flutningabílum og hægfara farartækjum.  40 tonna flutningabíll fer einungis u.þ.b. 5-10 km hraðar upp úr göngunum að sunnanverðu heldur en norðanmegin.  Mesti hraði þessara bíla á leið upp að sunnanverði er ca. 35-40 km.  Þetta fer þó aðeins eftir vélarstærð en að að öllu jöfnu er þetta nokkuð nærri lagi.  Ég þekki þetta af eigin reynslu eftir akstur flutningabíla þarna í gegn og eftir að hafa ekið á eftir flutningabílum í gegnum göngin.

Varðandi viðbragstíma slökkviliðs og vegalengd til slökkvistöðva má hafa í huga að slökkviliðið á Akranesi er sjálfboðaslökkvilið á meðan slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er atvinnuslökkvilið og er líklega miðað við það við úrvinnslu gagna.  Hitt ber að hafa í huga að í göngunum er ríkjandi vindátt frá norðri til suðurs, vegna hita bergsins sem aftur hitar loftið, sem stígur svo til suðurs.  Líklega hefur einnig að segja að göngin eru einungis með 2 akreinar að sunnanverðu en 3 að norðanverðu þannig að einskonar hárpípueffect leiða til náttúrulegs trekks í gegnum þau til suðurs.  Þannig að þó að slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kæmist fyrr á vettvang kæmust þeir ekki niður í göngin vegna reyks sem leggur á móti þeim eins og æfingar hafa sýnt.  Sjá viðbragðsáætlun Almannavarna hér.

Að síðustu kemur ekki fram í fréttinni hversu mörg göng af þeim sem voru könnuð voru af ADAC liggja undir sjó eða liggja eins djúpt og Hvalfjarðargöngin gera.  Lægsti punktur þeirra er 165 metra undir sjávarmáli og eru þau hvergi lárrétt.  Einnig kemur ekki fram í niðurstöðunum hversu löng hin göngin eru.  Komi upp eldur í göngunum getur reykur fyllt þau, þannig að erfitt er að komast út á bílum eða snúa þeim við, ef vélar þeirra þá ganga, hvað þá á tveim jafnfljótum.  Þurfa Hvalfjarðargöng þar með hugsanlega enn strangari öryggiskröfur en göng í stórborgum Evrópu?  Væri eðlilegt að hafa rafmagnsbíl til reiðu við göngin til að nota við björgun fólks?


mbl.is Unnið að því að bæta öryggið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#40. Mikið óvissutímabil framundan........

Nú hefst óvissutímabil þar til Hæstiréttur hefur kveðið upp úr hvort þessi dómur standi óhaggaður. Þar til þessari óvissu hefur verið eytt er ekki hægt að hlíta þessum dómi frekar en öðrum sem óvissa hefur ríkt um. Endanleg niðurstaða þarf að fást, til að eyða óvissunni, áður en áfram er haldið.

Hvorki Lýsing né SP-Fjármögnun hf., eða aðrir aðilar, geta innheimt gengistryggða bílasamninga út frá þessum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Til þess er óvissan alltof mikil og óvissa er vafi. Vafa á að túlka neytendum í hag. Línur hafa því síður en svo skýrst í þessari óvissustöðu eins og Kjartan heldur þó fram. En Kjartan er nú vanur að haga seglum eftir vindi í óvissunni við innheimtu lánasamninga SP-Fjármögnunar. Hann gerir ekki neina breytingu á því nú hvað þessa óvissu varðar.


mbl.is SP fagnar niðurstöðu héraðsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#39. Hæstiréttur á næsta leik!

Þá er dómur fallinn. Samningsvextir standa ekki óhaggaðir. Nú hef ég ekki lesið dóminn þegar þetta er ritað, en miðað við fréttina virðist dómarinn ekki taka tillit til 36.gr.c. samningalaga þar sem segir að eigi skuli taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag. Einnig tekur hann ekki tillit til 14.gr. laga um neytendalán þar sem segir að: "Lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar." Innheimta vaxtastigs sem gefur hærra árlegt hlutfall kostnaðar er því óheimilit.

Ég ætla að bíða með frekari lögskýrirngar þar til ég hef lesið dóminn sem væntanlega birtist á vef Héraðsdóms síðar í dag.


mbl.is Samningsvextir standa ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#38. Hvað gerir dómarinn?

Ég tel næsta öruggt að dómarinn verði við kröfu Lýsingar og setji á verðtryggingu og verðtryggða vexti.

Ástæða: Dómarinn heitir Arnfríður Einarsdóttir og er eiginkona Brynjars Níelssonar formanns Lögmannafélagsins. Brynjar hefur sagt á vef RÚV að lántakendur gengistryggðra lána hafi í raun og veru samið um verðtryggingu og þó sú verðtrygging hafi verið dæmd ólögleg þá útiloki það ekki aðra verðtryggingu á lánunum. Hvað skildi hafa verið rætt yfir borðum á þeirra heimili?

Önnur ástæða er sú að Brynjar þessi er samstarfsaðili Sigurmars K. Albertssonar, lögmanns Lýsingar í málinu. Engu að síður töldu dómsstjóri og Arnfríður sjálf, hana hæfa til að dæma í málinu. Siðleysið við þetta er algjört, að metnaður Héraðsdóms skuli ekki vera meiri að bjóða upp á að hæfi dómara sé hafið yfir allan vafa í svona miklu réttlætismáli.

Ég sé þó eina smá ljósstýru i myrkrinu sem gæti gefið aðra niðurstöðu. Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, sagði í viðtali við DV að óhjákvæmilegt væri að líta til vilja löggjafans við túlkun vaxtalaganna og niðurstaðan væri því að grundvöllur verðtryggingar samkvæmt ákvæðum um samninga um gengistryggingu væri í andstöðu við lög. Hann telur því ekki heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar, en Jón þessi dæmdi svo í máli NBI gegn Þráni ehf. þ. 30. apríl sl. Hvert fordæmisgildi þessa dóms er veit ég ekki enda leggur lögmaður Lýsingar upp með forsendubrest í þessu máli. Forsendubrest sem Lýsing hefur fram til þessa hafnað að hafi átt sér stað.

Einnig segir í samningalögum að samningur skuli gilda ef neytandi krefst þess. Nú veit ég ekki hver krafa málsaðila fyrir dómi var en þessi 2 síðastnefndu atriði gætu gefið aðra niðurstöðu en ég lagði af stað með í upphafi. Þó leyfi ég mér að efast að svo verði.


mbl.is Öruggt að dómi verði áfrýjað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#37. Unnu FME og SÍ ekki heimavinnuna sína eftir allt?

Hversvegna þurfa eftirlitsstofnanir aukafrest til að skýra málatilbúnað sinn vegna tilmælanna?  Voru lögfræðingar FME og Seðlabankans ekki búnir að fara yfir málið áður en tilmælin voru samin?  Eru sem sagt ekki til lögfæðiálit inni í þessum stofnunum sem hægt er að senda strax til Umboðsmanns Alþingis?  Þetta er alveg dæmalaust rugl orðið!  

Gunnar Andersen sagði á blaðamannafundi vegna kynningar tilmælanna "að Fjármálaeftirlitið hefur lagt áherslu á að bregðast við aðstæðum á grunni faglegs mats á stöðunni.Varð það faglega mat einungis á hagfræðilegum grunni byggt? 

Arnór Sighvatsson sagði á sama blaðamannafundi að "þótt aðferðin sem lög mæla fyrir um að mati eftirlitsstofnana sé ekki eins hagstæð lántakendum sem tekið hafa gengistryggð lán og ef upphaflegir erlendir vextir samninganna stæðu óbreyttir, eins og sumir hafa gert kröfu um, þá mun staða þeirra eftir sem áður batna umtalsvert samanborið við óbreytt gengistryggingarákvæði."  Í hvaða heimi er maðurinn?  Gengistryggingarákvæðið var dæmt ólögmætt og á ekki að vera nefnt í þessu sambandi.  Við mat á stöðunni á að skoða lagalegan rétt málsaðila og ekkert annað.  Það á ekki að fara í samanburð á málsatvikum og velja hagstæðustu lausnina fyrir fyrirtækin með eitthvað sanngirnissjónarmið í huga.

Ræður þessara manna á blaðamannafundinum bera þess merki að einungis var tekið mið af hagfræðilegum rökum við gerð tilmælanna en heildarmyndin var ekki skoðuð með tilliti til lagalegs réttar neytend.  Þesar eftirlitsstofnanir brugðust skyldu sinni um árabil og ekki er verið að gera neina bragabót á vinnubrögðum þar á bæ.

Að mínu mati á Umboðsmaður Alþingis ekki að gefa frest enda á ekki að vera nein þörf á slíkum fresti.  Stofnanirnar héldu því fram að lögfræðingar hefðu þegar gefið sitt álit og á því hefði verið byggt við gerð tilmælanna.  Þar með ætti að vera einfalt og fljótlegt að afhenda Umboðsmanni þessi gögn til yfirferðar.  En nú er greinilega annað að koma á daginn.


mbl.is FME og Seðlabanki vilja frest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#36. .....og svona svaraði Tryggvi Þór mínum spurningum:

Í gær sendi ég Tryggva Þór Herbertssyni tölvupóst með 4 spurningum vegna ummæla á Pressunni í gær, 14 júlí um afskriftir NBI á lánum SP-Fjármögnunar hf.  Hann svaraði að bragði með eftirfarandi í dag 15. júlí:

„Sæll Finnur  (innsk: ég heiti sko Erlingur.....einhver smá ruglingur hjá félaganum Smile )

1. Hvaðan eru þessar upplýsingar komnar?

Það hefur verið greint frá þessu í fjölmiðlum

2. Hvenær voru þessar afskriftir NBI leiddar inn í SP-Fjármögnun hf.?

Það var síðasta vor eins og fram hefur komið í fjölmiðlum

3. Hversu háar voru þessar afskriftir í prósentum annars vegar og krónum hins vegar?

Er ekki með þetta á takteinum

4. Koma þessar upplýsingar einhvers staðar fram í gögnum aðgengilegum almenningi með auðveldum hætti?

Ekki umfram það sem greint hefur verið frá opinberlega.

Kveðja Tryggvi Þór"

 

Ég sendi honum svar.  Benti honum á nafnaruglið og bað um að hann benti mér á dæmi um slíkan fréttaflutning þar sem slíkt hefði farið fram hjá mér.  Fékk eftirfarandi:

„Afsakaðu Erlingur nafnaruglið

Það liggur algjörlega fyrir SP var endurfjármagnað með því að NBI afskrifaði/felldi niður hluta lána sem voru á milli fyrirtækjanna. Ef þú efast um þessa fullyrðingu mína bendi ég þér á að hafa samband við SP og fá staðfestingu á þessu.

Kveðja

Tryggvi"

Þannig að núna hef ég sent fyrirspurn á Kjartan Georg Gunnarsson vegna þessarar ábendingar og bíð svara hans.  Svörin verða birt hér á blogginu ef og þegar þau berast.  Vonandi verður ekki löng bið á því.


#35. Afskriftir SP-Fjármögnunar hf.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forstjóri Askar Capital, segist í viðtali við Pressuna telja að fólk sem greitt hafi of mikið af lánum sínum í Avant fái sáralítið upp í kröfur sínar þar sem ríkið eigi nú forgangskröfu í þrotabú Avant.  Hann segir einnig í viðtalinu að afskriftir sem Nýi Landsbankinn hafi fengið af bílalánum hafi verið leiddar inn í SP fjármögnun.  Ég minnist þess ekki að hafa heyrt forsvarsmenn SP-Fjármögnunar hf. eða Nýja Landsbankans halda þessu á lofti.  Þess síður hefur SP-Fjármögnun hf. tilkynnt viðskiptamönnum sínum að fyrirtækið hafi fengið svona fjárhagsaðstoð og geti því látið hana ganga áfram til þeirra.  Tryggvi segir heldur ekki hvenær eða með hvaða hætti þessar afskriftir voru leiddar inn í SP.

 

Ég hef því sent Tryggva fyrirspurn um hvaðan hann hafi þessar upplýsingar, hvenær þessi gjörningur hafi farið fram og hversu miklar afskriftirnar hafi verið.  Ég bind vonir við að Tryggvi svari þessari litlu fyrirspurn fljótt og örugglega enda ekki flókin að umfangi.

Fréttina á Pressunni má nálgast hér.


mbl.is Skuldabréf Aska tryggð með ábyrgð ríkissjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband