Færsluflokkur: Bloggar
#249. Fabúleringar Gísla Marteins
6.6.2015 | 10:23
Gísli Marteinn Baldursson skrifar pistil á vefsíðu sína, gislimarteinn.tumblr.com, þar sem hann tengir flugslys við Tungubakkaflugvöll á ómaklegan hátt við flug um Reykjavíkurflugvöll í áróðri sínum gegn flugvellinum í Vatnsmýrinni. Fyrirsögn greinarinnar er Áhætta fylgir flugvöllum. Í pistlinum birtir hann myndir þar sem búið er að merkja mögulegan slysstað inn á mynd af Reykjavík, norður af brautarenda 01, með samsvarandi vegalengd og slysstaðurinn var miðað við brautarenda Tungubakkaflugvallar.
Fyrir ofan myndina er þessi texti: "Hér sést hvernig aðstæður hefðu verið ef þetta slys hefði hent við flugvöllinn í Vatnsmýri:"
Við þessa framsetningu er ýmislegt að athuga.
Fyrir það fyrsta er eðlilegt að bíða eftir skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um slysið, áður en menn fara að fabúlera með þeim hætti sem Gísli Marteinn gerir í pistlinum, og heimfærir málsatvik upp á flug um Reykjavíkurflugvöll, algjörlega að ósekju.
Í öðru lagi sýna myndirnar í pistli GM að vélin fer niður 666m frá brautarenda á Tungubökkum. GM heimfærir þessa vegalengd á brautarenda 01 í Reykjavík og merkir mögulegan slysstað á Sóleyjargötu, nokkurn veginn til móts við Hljómskálann. Svona framsetning er mikil einföldun. Braut 01 í Reykjavík er með flugtaksvegalengd upp á eina 1567m. Flugbrautin á Tungubökkum er hins vegar alls um 500m löng. Heildarvegalengd frá upphafi flugtaksbruns á Tungubökkum að slysstað er um 1200m, miðað við framsetningu GM. Bara þetta eitt sýnir að EF vélin hefði misst afl eftir flugtak á 01 hefði mögulega verið hægt að lenda aftur á braut 01, eða innan flugvallarsvæðisins. Mögulegur slysstaður við Hljómskálann er því hjómið eitt og hugarburður pistilritara.
Í þriðja lagi kveða almennar brottflugsreglur við Reykjavíkurflugvöll svo um að við brottflug skuli klifra á brautarstefnu að brautarenda áður en beygt er á krossvindslegg (AIP Iceland, 22 AUG 2014). Flugmaðurinn greindi sjálfur frá því í sjónvarpsviðtali að hann hefði tekið vinstri beygju eftir flugtak og ætlað að lenda aftur til austurs.
Í fjórða lagi er þessi ímyndaði slysstaður GM um 2200m frá upphafi flugtaksbruns af braut 01,.....
..... á móti 1200m af Tungubökkum.
Án þess að endanleg málstvik flugslyssins liggi fyrir er því vel mögulegt að við brottflug af braut 01, hefði vélin verið í mun meiri hæð yfir Tjörninni heldur en við brottflugið af Tungubökkum. Þar að auki ef flugmaðurinn hefði tekið 180° beygju á svipuðum stað frá flugtakspunkti af braut 01, til að lenda í gagnstæða átt á 19, hefði hugsanlega blasað við honum um 1500m löng flugbraut sem mögulega hefði verið hægt að lenda örugglega á, í stað þess að enda í sjónum.
Umfjöllun Gísla lýsir hinsvegar fáfræði hans um flug um Reykjavíkurflugvöll, og flug almennt, þó hann hafi eitt sinn starfað við pílagrímaflug sem flugþjónn. Flugslysið við Tungubakka er tengt Reykjavíkurfluvelli á ósmekklegan hátt til að þjóna sjónarmiðum GM, og hennar eini tilgangur er að grafa undan tilvist Reykjavíkurflugvallar, eins og öll önnur umfjöllun hans um flugvöllinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
#219. BB eða SJS?
14.10.2014 | 16:53
Þeir eru greinilega hver öðrum verri lygamerðirnir sem setjast í stól fjármálaráðherra, og má ekki á milli sjá hvor er verri BB eða SJS.
Í frétt á RÚV er haft eftir sviðsstjóra efnahagssviðs hjá Hagstofunni að neysluviðmið fjármálaráðuneytisins fyrir 4 manna fjölskyldu sé allnokkru lægra en Hagstofan reiknaði út. Munar þar um 200 þús. kr. á ári eða um 42% ef mér reiknast rétt. Nú er þörf á að fjármálaráðherra útskýri dæmið fyrir þingi og þjóð. Einnig kallar þetta á endurskoðun fjárlagafrumvarpsins því áður kynntar áætlanir um kostnað heimilanna vegna breytingar á matarskatti eru væntanlega kolrangar og kostnaðurinn mun hærri en gefið hefur verið út til þessa. Ríkissjóður verður þá væntanlega rekinn með meiri afgangi en gert var ráð fyrir gangi breytingarnar á matarskattinum óbreyttar í gegnum þingið. En heimilin munu borga.
Neysluviðmið endurskoðuð séu forsendur rangar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
#195. Klaufalega orðuð fyrirsögn
2.5.2014 | 14:58
Haldið upp á dánardægur Senna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#191. Lýsing hf. ætlar ekki að eiga frumkvæði að leiðréttingum.
23.8.2013 | 20:24
Ég birti hér á blogginu þ.22.ágúst grein sem að birtist í Morgunblaðinu þann sama dag um rétt viðskiptavina Lýsingar í kjölfar Hrd. 672/2012.
Þennan sama dag var Lýsingu sent erindi sem ég samdi fyrir viðskiptavin Lýsingar vegna bréfs sem Lýsing sendi viðskiptavinum sínum í kjölfar ofangreinds dóms þar sem Lýsing biður þá viðskiptavini sem töldu sig hafa samið um betri lánskjör en buðust á markaði að senda skriflega athugasemd fyrir 1.september. Í bréfinu sem Lýsing fékk var sjónarmið viðkomandi viðskiptavinar tilgreint ásamt útreiknaðri endurgreiðslukröfu sem Lýsingu var gefin kostur að greiða ekki síðar en 1.september ella yrði hún send til innheimtu.
Lýsing svaraði bréfinu með eftirfarandi tölvupósti, (allar feitletranir eru mínar):
Ágæti viðskiptavinur.
Lýsing hf. hefur móttekið umsókn þína um leiðréttingu bílasamnings.
Lýsing hefur vakið athygli viðskiptavina sinna á dómi Hæstaréttar í máli nr. 672/2012 vegna samnings sem var að hluta gengistryggður og að hluta í íslenskum krónum. Þar kom fram að ákvæði samningsins um lánakjör væru ekki nógu skýr gegn mótmælum lántaka. Þar sem samskipta- og greiðslusaga viðskiptavina, auk breytingar á skilmálum með nýjum samningsskilmálum, benda til að atvik geti verið mismunandi hefur Lýsing vakið athygli viðskiptavina á framangreindu og beint til þeirra að óska eftir leiðréttingu telji þeir tilefni til.
Til að umsókn um leiðréttingu á grundvelli áðurnefnds dóms geti talist fullnægjandi þarf að koma fram skýr yfirlýsing viðskiptavinar þess eðlis að hann telji sig hafa, á grundvelli samningsskilmála bílasamningsins, samið um lægri kjör en markaðskjör á þeim hluta samnings sem frá upphafi var í íslenskum krónum.
Vinsamlegast staðfestu með svarpósti að ofangreint sé skilningur þinn, en í framhaldinu mun Lýsing skoða athugasemd þína með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og gildandi lögum.
Með kveðju,
Þjónustuver Lýsingar hf
Ármúla 3, 108 Reykjavík
Sími: 540 1540 / fax 1505
www.lysing.is
thjonustuver@lysing.is
Af ofangreindu verður ekki annað ráðið en Lýsing muni ekki leiðrétta lánasamninga hjá viðskiptavinum sem ekki senda inn skriflega athugasemd, og þá því aðeins ef sömu viðskiptavinir lýsa því yfir að þeir hafi samið um lægri kjör en markaðskjör á þeim hluta samnings sem var í íslenskum krónum. Hver tilgangur þessa er óskiljanlegur þegar samningurinn var einhliða að fullu og öllu leyti saminn af starfsfólki Lýsingar sem á að búa yfir sérþekkingu á fjármálagjörningum. Lýsingu ber skilyrðislaust að skila ofteknum greiðslum sem ranglega hafa verið hafðar af viðskiptavinum, eins og fyrirtækið hefur verið dæmt til að gera í Hrd. 672/2012.
Þá er einnig óskiljanlegt hvers vegna eftirlitsaðilar grípa ekki inn í og stöðva framferði Lýsingar og gera þeim skylt að fara eftir dómafordæmum og landslögum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
#190. Opið bréf til FME: Eru viðskiptavinir Lýsingar að renna út á tíma?
22.8.2013 | 12:35
Eftirfarandi færsla birtist í Morgunblaðinnu í dag 22. ágúst. Við vinnslu greinarinnar fyrir sendingu til blaðsins misritaðist tilvísun í lög um vexti og verðtryggingu í annarri spurningu til FME og er það leiðrétt í pistilinum hér á eftir. Þau mistök eru mín. Einnig þurfti að stytta greinina lítillega fyrir birtingu í Morgunblaðinu þar sem lengd greina takmarkast við 5.000 slög. Greinin er hér í óstyttri útgáfu.
----------------------------------------------------------------------------------------------------
Frú Unnur Gunnarsdóttir forstjóri,
Aðrir stjórnarmenn FME.
Á vordögum þ. 24. apríl sl. féll dómur í Hæstarétti Íslands nr. 672/2012 er varðaði verðtryggingarhluta bílasamnings frá 2006, hvers höfuðstóll var frá upphafi að helmingi gengistryggður, með tilgreint vaxtaviðmið m.v. samsetningu myntkörfu, en hinn helmingur höfðstólsins með tilgreint vaxtaviðmið í íslenskum krónum.
Dómurinn úrskurðaði að sá lánshluti, sem upphaflega tengdist íslenskum krónum beint og bar vexti skv. því, teldist vera óverðtryggður og án breytilegra vaxta, af þeim sökum mætti ekki innheimta hærri lántökukostnað, þ.e. vexti og verðbætur, vegna hans en fram kom í greiðsluáætlun. Lýsingu var því gert í dómsorði að endurgreiða lántaka ofteknar greiðslur. Í júníbyrjun sendi Lýsing viðskiptavinum bréf þar sem er skorað á þá sem telja sig hafa, á grundvelli samningsskilmála bílasamnings, samið um lægri kjör en markaðskjör á þeim hluta samnings sem frá upphafi var í íslenskum krónum, að gera skriflega athugasemd og óska eftir leiðréttingu á greiðslum. Óskað er eftir því að slíkar athugasemdir berist félaginu fyrir 1. september nk. [tilvitnun lýkur]
Í bréfinu er einnig tilgreint að Lýsing hafi ætíð miðað kjör bílasamninga við markaðsvexti á hverjum tíma og bent er á að verðtrygging hafi sérstaklega verið tilgreind á greiðsluseðlum Lýsingar frá því í maí 2008. Svo undirritaður viti til, taka staðhæfingar á greiðsluseðlum ekki samningsskilmálum fram eða skapa Lýsingu nokkurn rétt til að efna ekki eða fresta að eigin frumkvæði, endurgreiðslu á ofteknum greiðslum vegna ólögmætrar innheimtu lögum samkvæmt. Þá hefur Lýsing oft og iðulega lýst því yfir að lausnir sem viðskiptavinir gátu fengið vegna gengistryggðra samninga rýrðu ekki betri rétt viðskiptavina á síðari stigum. Engu að síður telur Lýsing rétt vegna Hrd. 672/2012, að benda á með tilkynningu á heimasíðu sinni þ. 3.júní að nákvæm athugun á samskonar samningum Lýsingar ásamt fylgigögnum þeirra sýnir m.a. að skilmálar og greiðslusaga viðskiptavina er mismunandi. Þá hefur í ýmsum tilvikum upphaflegum samningsskilmálum verið breytt með samkomulagi aðila. Virðist þetta orðalag eingöngu til þess ætlast að firra Lýsingu ábyrgð og vinnu á að ákvarða leiðréttingar til viðskiptavina í kjölfar dómsins og setja ákvörðunina í hendur viðskiptavina að sækja rétt sinn. Benda má á með nokkurri vissu að slíkir breytingaskilmálar voru líklega í öllum tilvikum einhliða samdir af Lýsingu.
Lög um vexti og verðtryggingu segja skýrt í 1.málslið. 5.mgr. 18.gr. laga nr. 38/2001 að kröfuhafa ber að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar." Trauðla er hægt að sjá að lögin ætlist til þess að viðskiptavinir fjármálafyrirtækja leggist í kröfugerð og skriflegan rökstuðning í kjölfar dóma vegna lagalegs réttar síns, þegar átt eru viðskipti við eftirlitsskyldan aðila, til þess eins að sækja þann rétt, heldur eru skyldur kröfuhafa til endurgreiðslu ótvíræðar. Þá hlýtur opinberum eftirlitsaðilum bera skylda til að fylgja dómafordæmum Hæstaréttar eftir af hörku með tilliti til almannahagsmuna.
Að ofangreindu sögðu, og þar sem engin tilmæli er að finna á vef FME í kjölfar Hrd. 672/2012, og vegna almannahagsmuna óskar undirritaður viðbragða FME á opinberum vettvangi hvort FME telji efni og orðalag bréfs Lýsingar til viðskiptavina sinna í kjölfar Hrd. 672/2012, eðlilegt og í samræmi við 1.mgr.19.gr. laga um fjármálafyrirtæki.
Jafnframt óskar undirritaður svara við eftirfarandi:
- Telst það eðlileg háttsemi fjármálafyrirtækis að taka ekki að eigin frumkvæði tillit til dómafordæmis í starfsemi sinni, sérstaklega þegar sama félag er málsaðili dóms hvers niðurstaða skiptir aðra viðskiptavini félagsins máli, heldur að setja í hendur ólöglærðra neytenda að sækja rétt sinn sérstaklega?
- Telur FME þann hluta bréfsins þar sem Lýsing bendir á að verðtrygging hafi komið fram á greiðsluseðlum frá því í maí 2008 eðlilegan málflutning, og til þess fallinn að skapa Lýsingu rétt umfram ákvæði 1.ml.5.mgr.18.gr. (leiðrétting frá birtri grein) laga nr. 38 frá 2001?
- Getur FME upplýst hver réttur neytenda er, sem ekki senda Lýsingu skriflega athugasemd fyrir 1. september vegna viðskiptasambands við Lýsingu? Eru þessir neytendur að glata rétti sínum eða mun FME gæta hagsmuna þessa fólks og gera Lýsingu skylt að fara að dómi Hæstaréttar nr. 672/2012 vegna samningsákvæða sem falla undir úrskurð Hæstaréttar?
- Hefur FME kallað eftir upplýsingum frá Lýsingu um fjölda þeirra samninga félagsins sem Lýsing telur að falli ótvírætt undir Hrd. 672/2012 og eigi rétt á endurgreiðslu í kjölfar hans? Ef svo getur FME upplýst um fjölda þeirra? Ef ekki hefur verið óskað upplýsinga, getur FME upplýst hvers vegna?
- Telur FME Lýsingu í stakk búið til að mæta kostnaði vegna mögulegra endurgreiðslna til viðskiptavina vegna Hrd. 672/2012?
Á það skal bent að hlutverk Fjármálaeftirlitsins er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur og að öðru leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr.8. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Ágæta fólk, almenningur treystir á virkt eftirlit FME á leiðréttingum vegna ólöglegrar innheimtu lánastofnana á grundvelli staðlaðra ólögmætra samningsskilmála í lánasamningum neytenda. Þögn ykkar vegna þessarar ólögmætu innheimtu og þvergirðingsháttar lánastofnana þegar kemur að leiðréttingum ólögmætra samningsskilmála er hins vegar orðin ærandi.
Virðingarfyllst
Erlingur A. Jónsson
----------------------------------------------------------------------------------------------------
PS: Því er hér við að bæta að FME sendi fjármálastofnunum tilmæli 12.apríl sl. hvar því er beint til þeirra að upplýsa viðskiptavini hvaða dómafordæmi viðkomandi fjármálastofnun telji að eigi við um samninga viðkomandi viðskiptavinar. Í kjölfar þessa bréfs óskaði ég þ. 16.apríl 2013 eftir upplýsingum Landsbankans um öll dómafordæmi sem talin eru eiga við minn samning við bankann. Svar hefur ekki borist frá bankanum. Fyrr þann sama dag hafði ég átt samskipti við bankann og þar kom fram eftir beina spurningu frá mér að bankinn hyggst ekki bjóða mér upp á frekar fundahöld vegna innheimtu þess samnings. Þetta er viðhorf bankans þíns.
Bloggar | Breytt 23.8.2013 kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#189. Smáýsa eða smá af ýsu?
10.8.2013 | 22:48
Þetta er laukrétt sem lögmaðurinn bendir á, réttara væri fyrir ESB að einbeita sér eigin fiskveiðistjórnun.
Ég keypti mér 500 gr. af ýsuflökum með roði í stórmarkaði í Dublin núna um daginn. Þar var líka hægt að kaupa makríl. Ýsuflökin voru svo smá að til að ná þessum 500 gr. þurfti 3 flök. Ef ég man rétt vigtuðu þessi 3 flök nákvæmlega 532 gr. Ég bað afgreiðslumanninn að roðfletta ýsuna, sem hann gerði eftir að hann vigtaði og verðlagði. Verðið var 7,97 evrur, sem útleggst á gengi dagsins í dag 1.262 kr. Það gera 2.372 kr/kg. Þegar heim kom tók ég mynd á símann minn af flökunum sem ég birti hér til hliðar. Ég setti til gamans venjulegan spilastokk á myndina til að sýna stærðarhlutföll. Smella má á myndina til að sjá hana stærri.
Vill að ESB horfi í eigin barm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#185. Alveg furðulegt!
5.8.2013 | 17:48
Fréttablaðið birti 3. ágúst grein eftir fyrrum forsætisráðherra landsins, Þorsteinn Pálsson, um hugmyndir menntamálaráðherra um nauðsyn þess að stokka upp í menntakerfinu. Greinin birtist líka samdægurs á visir.is. Það er vel að endurskoða eigi menntakerfið okkar. Hvort hugmyndir ráðherrans séu einhvers virði er ekki hægt að fullyrða að óathuguðu máli.
En á einhvern óskiljanlegan hátt fléttar blaðamaðurinn Þorsteinn Pálsson kosningaloforði Framsóknarflokksins um skuldaleiðréttingu heimila inn í umræðuna. Hann heldur því enn einu sinni fram að nota eigi fjármuni ríkissjóðs til að endurgreiða verðbólgu á fjárfestingum í steinsteypu. Það er engu líkara en sumir aðilar haldi að almenningur sé illa menntaður skríll. Þorsteinn Pálsson skipaði sér því miður fljótt í þann hóp.
Þorsteinn Pálsson kemur iðulega vel fyrir í viðtölum og sjónvarpi. Hann er þægilegur viðmóts og sýnir viðmælendum sínum virðingu og er rökfastur. Ég man ekki til að hafa séð hann sýna af sér hroka í framkomu, ólíkt öðrum núverandi og fyrrverandi stjórnmálamönnum. Það mætti segja hann væri sjónvarpsvænn.
Þess vegna er mér ómögulegt að skilja hvernig Þorsteinn Pálsson getur haldið því fram að niðurfellingar skulda sem ræddar væru við kröfuhafa, sem margir keyptu loftkröfur sínar á íslenskt hagkerfi á hrakvirði eftir hrun, um að lækka nú þessar loftkröfur sínar á íslensk heimili svo hér verði hægt að ýta hjólum efnahagslífsins af stað á ný, eigi að fjármagnast úr ríkissjóði.
Margoft hefur verið bent á hið gagnstæða og einnig að allar niðurfellingar skulda til þessa hafa ekki kost að ríkissjóð krónu, hví ætti annað að gilda um þessa framkvæmd?
Sem dæmi getum við litið á einfalda mynd af leið fjármuna við greiðslu kröfu sem fer í gegnum nýju og gömlu bankana:
Lántaki/heimili à Fjármálastofnun (e. 2008) à Fjármálastofnun (f.2008) à Kröfuhafi (Upphaflegur/nýr)
Hvar er aðkoma ríkissjóðs? Hún er að sjálfsögðu ekki til staðar við innheimtu og greiðsluferil kröfunnar, hvers vegna ætti ríkissjóður þá að koma að niðurfellingu hennar?
Það hefur lengi verið viðurkennt að kröfuhafar heimilanna, nýju bankarnir þrír, eignuðust kröfur sínar á niðursettu verði í október 2008. Það sama á við um kröfuhafa gömlu bankana sem sumir fengu kröfurnar nánast gefnar. Engu að síður hamast nýju bankarnir við að innheimta kröfur sínar að fullu til að uppfylla samninga Steingríms J. við kröfuhafa, gömlu bankana. Hvernig ríkissjóður á að tengjast þessu ferli og bera ábyrgð einhverju mögulegu "fjárhagstjóni" kröfuhafa er óskiljanlegt.
Ef ég skulda Sigmundi 1 milljón og hann fer á hausinn, sem verður til þess að skiptastjórinn selur Bjarna kröfuna á 500 þús., og svo kemur Frosti nokkru seinna og biður Bjarna að innheimta nú bara þessi 500 þús. sem hann lagði út (plús kannski smá vexti), en ekki 1 milljón, á þá Bjarni að heimta að sameiginlegur sjóður Frosta og Þorsteins vinar hans eigi að borga honum mismuninn sem hann telur sig missa af? Hvernig má það vera að sameignlegur sjóður Frosta og Þorsteins vinar hans, eigi að borga Bjarna þann mismun? Ég bara spyr!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#181. Vestrænir andófsmenn
30.7.2013 | 20:12
Þegar ég var yngri, töluvert yngri en ég er í dag, á tímum þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og löngu fyrir tíma internetsins, voru iðulega sagðar fréttir af mönnum eins og Andrei Sakharov. Hann var í fréttum sagður vera sovéskur andófsmaður. Ég minnist þess hve manni þóttu sovésk stjórnvöld miskunnarlaus á þessu tíma. Að halda manni nauðugum vegna skoðana sinna.
Hann var menntaður kjarneðlisfræðingur, sem tók að efast um stefnu Sovétríkjanna á 6. áratugnum og byrjaði á að vekja athygli sovéskra stjórnvalda á sjónarmiðum sínum, m.a. annars á útbreiðslu kjarnorku og prófun kjarnorkuvopna í andrúmsloftinu.
Hann fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1975 fyrir baráttu sína og lýsti Norska nóbelsverðlauna nefndin honum sem talsmanni samvisku mannkynsins" ("a spokesman for the conscience of mankind"). Hann fékk ekki að vera viðstaddur verðlaunaafhendinguna og síðar var honum haldið í útlegð í borginni Gorki, sem nú kallast Nizhny Novgorod, frá árinu 1980 til 1986. Hann fékk hjartaáfall og lést árið 1989, 68 ára að aldri.
Annar maður var Aleksandr Solzhenitsyn. Solzhenitsyn var rithöfundur og sagnfræðingur sem upplýsti umheiminn um sovéska Gulagið og vinnubúðakerfið, þar sem hann dvaldi sjálfur eftir að hafa verið dæmdur til vistar þar árið 1945.
Solzhenitsyn var rekinn frá Sovétrikjunum árið 1974 og sviptur ríkisborgararétti fyrir skrif sín um Gulagið og vistina þar. Hann dvaldi næstu 20 árin í Þýskalandi og Sviss en þó mest í Bandaríkjunum, eða 17 ár, þar til hann sneri aftur til föðurlandsins árið 1994, nokkru eftir fall kommúnsimans.
Hann dó árið 2008 níræður að aldri.
Óþarft er að nefna Nelson Mandela en hann var fangelsaður fyrir baráttu sína gegn aðskilnaðarstefnu suður-afrískra stjórnvalda, og sat í fangelsi í 27 ár vegna þess.
Eftir uppljóstranir Snowden og Manning hefur Bandaríkjastjórn staðið fyrir linnulausum áróðri gegn þeim og kært þá fyrir njósnir, en í dag sýknaði dómstóll Bradley Manning af ásökunum um að hafa aðstoðað óvininn. Voru Sakharov og Solzhenitsyn, og reyndar margir aðrir ónefndir samviskufangar, eitthvað öðruvísi en Snowden og Manning? Er staða Snowden og Manning í grunninn eitthvað frábrugðin stöðunni sem þessir menn voru í? Þeir hafa báðir staðið upp frá störfum sínum, vegna þess að þeim þóttu þeirra stjórnvöld ekki vera að gera rétta hluti, og ráðast m.a. gegn friðhelgi einkalífsins sem svo sterklega er haldið á lofti í heimalandi þeirra. Og er eitthvað rangt við það? Voru Sakharov og Solzhenitsyn ekki líka að vinna gegn óréttlæti sinna stjórnvalda? Er einhver munur á gjörðum þessara manna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#179. Píkuprósar og píkupistlar
19.7.2013 | 10:44
Fólk er dregið í dilka af ýmsum ástæðum. Sumir af því þeir eru dilkadragara ekki að skapi út af skoðunum sínum og athöfnum en aðrir af því þeir eru álitnir eitthvað öðruvísi eða óæðri t.d. vegna kyns eða kynþáttar. Karlar eru oft dregnir í dilka af konum sem finnst á kynsystur sínar hallað.
Viðbrögð konu einnar við nýjasta hefti Herðubreiðar er dæmi um slíkan dilkadrátt. Í frétt á Vísi.is er haft eftir konunni að heftið sé hrútasamkoma og spyr hún "hrútana" hvernig þeir geti tekið þátt í slíkri samkomu. Hún bendir á, líklega réttilega, að heftið sé fullt af greinum, prósum, eftirmælum og ritdómum, og aðeins 1 pistillinn, ritdómur, sé eftir konu. Af orðum hennar merki ég að ekki hafi verið haft fyrir því að fá konur til að skrifa merkilegri texta en ritdóm einn.
Nú hef ég aldrei lesið Herðubreið, hef ekki aðgang að blaðinu og sækist ekki eftir honum og veit ekki hvort þetta sé venjubundin kynjaskipting við skriftir í Herðubreið. Og mér er satt að segja slétt sama. Mér er líka slétt sama hvað þessir 10 karlar hafa skrifað í Herðubreið. Ég styð ekki Samfylkinguna. En ég er orðinn hundþreyttur á "jafnréttishjali" þeirra kvenna sem telja að konur eigi að hafa meiri rétt en karlar af því þær séu konur. Það er ekki jafnrétti. Það er merki um minnimáttarkennd kvennanna og mati þeirra að konur geti ekki komist áfram á eigin verðleikum. Fyrir mér standa konur og karlar jöfn, og eiga að hafa sama rétt til orða og athafna eins og þeim lystir til. Ekki á að þrýsta á eða þvinga konur til að gera eitthvað sem þær langar ekki til að gera bara af því að örfáum aðilum þykir þörf á að uppfylla einhvern kynjakvóta. Ef konur hafa áhuga á að birta pistla og prósa í Herðubreið held ég að þær geri það bara.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
#170. Landsbankinn ætlar ekki að endurreikna frekar.
16.4.2013 | 18:09
Fyrr í dag átti ég tölvupóstsamskipti við Ásgeir H. Jóhannsson deildarstjóra lögfræðisviðs Landsbankans, vegna bílasamnings sem ég gerði við SP-Fjármögnun árið 2007. Ég hef reyndar átt í samskiptum við lögfræðisviðið frá því sl. haust vegna bílasamnings míns, og þar áður við þáverandi lögfræðing SP-Fjármögnunar. Landsbankinn hefur haldið því fram í fyrri samskiptum að þar sem endurreikningur hafi farið fram sbr. lög nr. 151/2010 verði hann ekki leiðréttur frekar án dómafordæma. (Ég hef reyndar ítrekað haldið því fram að ekki þurfi endurreikning því heildarlántökukostnaður lánsins sé tilgreindur á greiðsluáætlun sem er hluti samningsins. Í neytendalánalögum er tilgreint að ekki megi innheimta frekari lántökukostnað en þar er tilgreindur. Það hefur þó ekki reynt á þetta sjónarmið fyrir rétti.)
Í samskiptum dagsins hafnar Ásgeir því hins vegar að Hrd. 600/2011 eigi við um bílasamninga Landsbankans, en rökstyður það ekki frekar. Ég benti honum því á dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4137/2011 (Samvirknismálið) sem kveðinn var upp þann 8. nóvember 2012 og Landsbankinn var aðili að, hvar úrskurðað var að óheimilt væri að endurreikna þegar greiddar greiðslur skv. ákvæðum laga nr. 151/2010 svo íþyngjandi væri fyrir skuldara, og vísaði dómarinn sérstaklega í Hrd. 600/2011. En allt kom fyrir ekki. Þrátt fyrir dómafordæmi stendur afstaða Landsbankans óhögguð.
Út frá efni dreifibréfs Fjármálaeftirlitsins sem dagsett er 12.apríl sl., og ætti að hafa borist Landsbankanum, sætir það því furðu minni að deildarstjóri lögfræðisviðs Landsbankans haldi því fram ofangreindu sjónarmiði, án frekari rökstuðnings. Ég hef því sent enn einn tölvupóstinn og óskað eftir bréfi frá Landsbankanum þar sem tilgreind verði öll dómafordæmi sem eiga við um núverandi innheimtu míns samnings.
Lögfræðisvið Landsbankans hefur víst venjulega ekki bein samskipti við viðskiptavini og verður því að gefa Ásgeiri kredit fyrir að hafa svarað mér til þessa. Aðrir viðskiptavinir sem vilja leita réttar síns við Landsbankann geta haft samband við Ásgeir á netfangið: Asgeir.H.Johannsson@landsbankinn.is.
FME: Bankarnir skýri nánar lögleg lán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)