Færsluflokkur: Bloggar

#130. Of fáir leita réttar síns

Nýlega átti ég langt samtal við þekktan lögfræðing.  Hann sagðist iðulega fá símtöl frá fólki sem er með áður gengistryggða lánasamninga.  Flest þessara símtala eiga það sammerkt að spurt er hvað sé að gerast í þessu og hinu málinu.  Hvort hann sé ekki að vinna í að redda þessu.  Ég hafði líka staðið í þeirri trú að svo hafi verið.  En við sumum þessara spurninga er því miður bara eitt svar:  Ekkert.  Það er ekkert eða lítið að gerast í sumum málum.  Ástæðan er sú að enginn hefur leitað til lögmannsins, eða annarra, með þess konar mál sem spurt er um.  Enginn!  Og meðan enginn leitar til lögfræðinga mun ekkert gerast.  Vörslusviptingarnar munu halda áfram, án lagastoðar, eins og nýlegar fréttir RUV um aðfarir SP-Fjármögnunar hf. sýna.  Á meðan enginn gerir neitt.

Ég hef dæmi um mál þar sem lántaki lauk við að greiða upphaflegan lántökukostnað bílaláns um miðjan nóvember 2009 en vegna gengistryggingar var innheimtu haldið áfram á útblásnum höfustól.  Tæpu ári síðar fékk viðkomandi endurreikning hvar eftirstöðvar voru sagðar 700 þús kr.  Viðkomandi hefur aldrei nýtt sér frystingu eða önnur úrræði sem boðið var upp á, heldur ávallt greitt útsendan greiðsluseðil, eins og hann var myndaður.  Frá lántökudegi til júníbyrjunar 2010 er þessi aðili einungis með 1.582 kr. í vanskilakostnað vegna tveggja gjaddaga.  Enn er þó verið að greiða af láninu og á greiðslu af því ekki að ljúka fyrr en í mars 2012.  Þá mun viðkomandi hafa greitt rúma 1,1 milljón kr. betur en samið var um í upphafi að hann ætti að greiða. 

Þetta gengur náttúrulega ekki.  Það er ekki eðlilegt að halda megi innheimtu áfram á útblásnum sýndarhöfuðstól.  Fólk sem hefur greitt meira en samið var um í upphafi verður að standa upp og berjast fyrir rétti sínum.

En það er einmitt málið.  Flestir eru dauðhræddir við að höfða mál af ótta við að standa upp íbúðar- eða bíllausir, og með háan málskostnað á bakinu og allskonar óþægindi að auki.  Sömu aðilum er hins vegar að sama skapi meinilla við að halda áfram að borga greiðsluseðlana sem þeim eru sendir.  En gera það samt í þeirri von, eða trú, að fá leiðréttingu sinna mála seinna.  Enn aðrir nenna ekki að berjast; finnast málin of flókin til að setja sig inn í þau og treysta á að Hagsmunasamtök heimilanna, Samtök lánþega, Björn Þorri, Marinó G. Njálsson, talsmaður neytenda Gísla Tryggvason, eða bara að tíminn, reddi þessu.  Að auki getur málarekstur fyrir dómstólum kostað mikla peninga, þó að málið vinnist.  Fólk í greiðsluerfiðleikum á ekki slíka peninga.

En á þetta spila fjármálafyrirtækin. 

Og hvað ætlar fólk þá að gera?  Naga neglurnar seinna yfir að hafa ekkert gert til að sækja rétt sinn?  Lögmenn taka ekki upp hjá sjálfum sér að höfða mál.  Til þess þarf skjólstæðing, helst einhvern sem getur borgað á einhverjum tímapunkti, og það allra mikilvægasta; hefur frumkvæði að leita réttar síns þegar á honum er brotið.  Þessi aðili sem ég nefndi hér að framan er nú að íhuga málssókn á hendur því fjármálafyrirtæki sem svona kemur fram. Fleiri þurfa að gera það sama. 

Ögmundur er í raun að segja að fullveldi Íslands var framselt AGS á meðan samstarfinu stóð. Enginn vilji var til að hjálpa heimilum landsins í þessari erfiðu stöðu. Þau verða að hjálpa sér sjálf.  Og það verður fólk að gera.  Taka til málsgögn, heimsækja lögfræðing og sækja rétt sinn, sjálft.


mbl.is Sjóðurinn vildi ekki aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#121. Djöfull er ég orðinn þreyttur á þessum manni.......

Steingrímur sagði eitt og annað í þessu viðtali í Kastljósi í gær.  Hann minntist náttúrulega ekki á að Ísland er eina landið í Evrópu þar sem bensínverð hækkar skuldir heimila.  Í staðinn beindi hann talinu að vistvænni orku, sparneytnari bílum og tískulausn vinstri manna nefnilega að efla almenningssamgöngur.  Hann minntist ekki á að stór og góður bíll bjargaði lífi hans eftir bílveltu 16. janúar 2006 um hávetur.  (innskot: hlekk um bílinn bætt við eftir að færsla var birt.)

Jeppaflak Steingríms

Hvernig bíl skyldi hann nú hafa keypt í stað þessa flaks?  Jú árið 2009, þegar hann tók sæti í ríkisstjórn ók hann um á Volvo XC90 jeppa.   Samkvæmt verðlista Brimborgar þá kostaði ódýrasti bíllinn af þessari tegund yfir 10 milljónir króna.  Hann minntist ekki á það.

Hann minntist ekki á gamla Volvoinn sinn sem ég efast um að sé mjög sparneytinn eða öruggur samanborið við bíla í sambærilegum stærðarflokki  í dag.  Steingrmur J á Volvonum (DV-MYND RAKEL ÓSK)

Nei, almúginn á að kaupa sparneytnari (lesist litla) bíla á lömuðum bifreiðamarkaði og fara með strætó.  Getum við ekki farið að losna við þennan mann út í hafsauga?!

 


mbl.is „Skatthlutfall með því lægsta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#119. Svör fjármögnunarfyrirtækjanna við upplýsingabeiðni Fjármálaeftirlitsins vegna uppgjörs í kjölfar riftunar samnings.

1. nóvember 2010 sendi ég Fjármálaeftirlitinu tölvupóst og óskaði eftir afritum af svörum fjármögnunarfyrirtækjanna fjögurra, Avant, Íslandsbanka-Fjármögnunar, Lýsingar hf. og SP-Fjármögnunar hf. við dreifibréfi stofnunarinnar frá 9. apríl 2010 þar sem óskað var upplýsinga fyrirtækjanna á verklagi vegna uppgjörs á fjármögnunarsamningi í kjölfar riftunar.  Eftir nokkra bið og ítrekanir af minni hálfu fékkst loks svar 3.desember þar sem Fjármálaeftirlitið neitaði mér um aðgang að svörunum.  Var ástæðan sögð sú að „þær upplýsingar sem óskað er eftir aðgangi að eru svör umræddra fjármálafyrirtækja við upplýsingabeiðni Fjármálaeftirlitsins er varðar framkvæmd uppgjörs í kjölfar riftunar á kaupleigusamningum á bifreiðum.  Svör fyrirtækjanna varða rekstur þeirra, þ.á m. innri verkferla og upplýsingar um kerfi fyrirtækjanna, og því mikilvæga viðskiptahagsmuni sem sanngjarnt er og eðlilegt að fari leynt.  Með hliðsjón af 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og 5. gr. upplýsingalaga synjar Fjármálaeftirlitið aðgangi að umbeðnum gögnum."

Þessi neitun Fjármálaeftirlitsins var umsvifalaust kærð til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál (ÚNU) þ. 6. desember 2010 sem úrskurðaði 31.maí sl. (úrskurður nr. A-370/2011) að ég ætti rétt á aðgangi að svarbréfunum.  Bréfin bárust mér í pósti 10. júní sl.

Hér á eftir nefni ég meginatriði hvers bréfs fyrir sig, eins og ég met þau, en á undan hverri upptalningu hér að neðan eru tenglar á bréfin fyrir þá sem vilja skoða þau sérstaklega.

Spurningar FME til fjármögnunarfyrirtækjanna í bréfinu 9.apríl 2010 voru í meginatriðum þessar:

1.       Óskað var lýsingar á því ferli sem á sér stað við uppgjör vegna riftunar á kaupleigusamningum.  Meðal annars var óskað sérstaklega eftir upplýsingum um hvernig verðmat og uppgjör fer fram.

2.       Spurt var hvort uppgjör væri endurskoðað ef söluverð væri hærra en matsverð á uppgjöri.  Ef svo væri hvernig og hvenæar sú endurskoðun færi fram.

Meginatriði bréfs SP-Fjármögnunar hf.:

  • Ýmist talað um skuldara eða leigutaka í bréfinu sem undirritað er af Pétri Gunnarssyni forstöðumanni fjármálasviðs SP.
  • Skuldari ber kostnað af vörslusviptingu þegar bifreið er endurheimt á grundvelli kaupleigusamnings, ef hann skilar bifreiðinni ekki sjálfur; algengur kostnaður vegna þessa sagður 15-20 þús. kr. á höfuðborgarsvæðinu.
  • Skuldari ber kostnað á ástandsskoðun í Frumherja, oftast kr. 15-20 þús.
  • Verðmat er framkvæmt og notast við Bíló kerfi Bílgreinasambandsins; 15% áætlaður kostnaður er dreginn frá verðmati til að greiða fyrir vátryggingariðgjöld, bifreiðagjald, sölulaun o.þ.h. [15% af verðmati bifreiðar getur verið æði misjöfn upphæð á milli bifreiða og endurspeglar ekki raunkostnað nefndra kostnaðarliða; tökum tilbúið dæmi fyrir 2 bifreiðar sem hvor um sig er 1.800 kg. Tryggingariðgjöld, bifreiðagjöld og annar kostnaður er svipað hár fyrir þær báðar en önnur bifreiðin er að verðmæti 2.000.000 kr, hin 5.000.000 kr. 15% af 2 millj. er 300.000 kr. en 750.000 kr. fyrir hina dýrari. Munurinn er 450.000 kr! Hér er því um ólögmæta auðgun að ræða að mínu mati.]
  • Uppgjörsbréf sent skuldara.
  • Segir að öll uppgjör vegna riftana frá 1.október 2008 hafa verið endurskoðuð. [ATH: Fyrir dagsetningu bréfsins.]
  • Þegar söluuppgjör er unnið þá er allur útlagður kostnaður dreginn frá söluverði, t.d. sölulaun, bifreiðagjöld, vátryggingariðgjöld (frá riftun fram að sölu), kostnaður vegna niðurfellingar á umráðamanni hjá Umferðarstofu, viðgerðarkostnaður ef einhver er. [Úr svarinu má þannig lesa að sami kostnaður virðist tvisvar dreginn frá, fyrst frá verðmati söluhlutar og síðan aftur frá söluverði hans! Ef svona vinnubrögð eru ekki ólögmæt auðgun þá veit ég ekki hvað ólögmæt auðgun er.]
  • Að auki eru reiknaðir vextir á eignfærsluverðið frá eignfærsludegi að söludegi!!! [Ég hefði gjarnan viljað sjá nánari útskýringu á þessum lið því ég kannast ekki við þessa heimild í samningsskilmálum.]
  • Vinna við söluuppgjör er sögð geta tekið allt að 30 daga.
  • Enginn andmælafrestur viðskiptamanns er tilgreindur í bréfinu en ég hef séð 7 daga frest tilgreindan í samningsskilmálum.

Meginatriði bréfs Lýsingar hf.:

  • Vegna fyrri liðar fyrirspurnar FME er vísað í meðfylgjandi verkferla sem ÚNU veitti ekki aðgang að. [Það gæti sennilega orðið Lýsingu til tjóns að almenningur fengi að vita hverjir þeir eru!]
  • Lýsing hf. lýsir eingöngu verklagi við uppgjör en svarar ekki beint öðrum lið fyrirspurnarinnar um hvort uppgjör sé endurskoðað ef söluverð er hærra en matsverð á uppgjöri. Þó er sagt að ef ágreiningur sé um uppgjör megi forstöðumenn Eignaumsýslu samþykkja að viðskiptamaður njóti góðs af söluverði umfram matsverð. [Sem sagt engin sjálfvirk eða sjálfsögð endurskoðun á matsverði nema viðskiptamaður mótmæli sjálfur.]
  • Lýsing hf. styðst við Bíló kerfið við verðmat, eins og SP-Fjármögnun hf.
  • Dregur frá matsverði áætlaðan viðgerðarkostnað.
  • Segist ekki nýta 15% affallaheimild nema í undantekningartilvikum; ekki er útskýrt hver þessi undantekningartilvik eru.
  • Ef ágreiningur er til staðar er taldir upp 4 mismunandi farvegir sem málið fer í, þar er ekki talið upp að viðskiptamaður geti kallað til dómkvadda matsmenn til að skera úr um ágreining vegna verðmats.
  • Gefur viðskiptamanni 7 daga andmælafrest vegna uppgjörs.
  • Undirritað af Sigurbjörgu Leifsdóttur, áhættustjóra hjá Lýsingu.

Meginatriði bréfs Íslandsbanka - Fjármögnun:

  • Notast við Bíló kerfið við verðmat.
  • Leyfir dómkvadda matsmenn vegna ágreinings um verðmat en áskilur sér rétt til að krefjast yfirmats [endurmat áður metinna atriða] og hnekkja mati dómkvaddra matsmanna! Vísað er í IX. kafla, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
  • Gefur viðskiptamanni 5 daga andmælafrest vegna uppgjörs.
  • Ef tækið hefur ekkert markaðsgildi hefur Íslandsbanki-Fjármögnun heimild til að falla frá eignarétti sínum. Hvort það ákvæði hafi verið nýtt veit ég ekki.
  • Iðulega bætist við vangoldin tryggingariðgjöld og bifreiðagjöld ásamt áföllnum innheimtkostnaði og áætluðum 3,5% sölukostnaði af nettó söluverði. Lágmarksþóknun er þó sögð 49.900 kr.
  • Meginregla er að uppgjör er ekki endurskoðað eftir að sala hefur átt sér stað.
  • Talar um leigutaka.
  • Undirritað af Ingvari Stefánssyni, framkvæmdastjóra.

Meginatriði bréfs Avant:

  • Gefur viðskiptamanni 10 daga andmælafrest vegna uppgjörs.
  • Notast við söluverð hjá Bílgreinasambandinu (Bíló-kerfið).
  • Frá verðmati er dreginn áfallinn kostnaður s.s vörslusvipting, flutningur, ástandsskoðun, þrif, áfallnar tryggingar, bifreiðagjöld og sektir, og áætlaður kostnaður, viðgerðarkostnaður, sölulaun og geymslukostnaður ásamt því að gert er ráð fyrir 15% aukaafföllum frá uppgefnu söluverði. [Er ekki vottur af ólögmætri auðgun hér á ferð?]
  • Endurskoðar ekki uppgjör.
  • Segist taka á sig allan kostnað vegna leigumunar frá riftunardegi en segir jafnframt í svari vegna liðar nr.1 draga frá verðmati fyrrgreindan áfallinn og áætlaðan kostnað. Hér stangast því svörin á!
  • Undirritað af Hafdísi Böðvarsdóttur, forstöðumanni fjármálasviðs.

Hér rétt að benda á að öll fjármögnunarfyrirtækin styðjast við Bíló-kerfi Bílgreinasambandsins við gerð verðmats.  Þegar svörin voru rituð vorið 2010 lá það fyrir að fjármögnunarfyrirtækin gættu ekki hagsmuna viðskiptamanna sinna nema að litlum mæli þar sem stuðst var við ófullnægjandi upplýsingar úr lélegum og illa uppfærðum gagnagrunni Bílgreinasambandsins á þeim tíma.  Framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins telur upplýsingarnar í kerfinu í lang flestum tilfellum nokkuð áreiðanlegar í dag, júní 2011, en taka skal fram að um viðmiðunarverð er að ræða.  Bílar eru misjafnir að búnaði sem og gæðum, sérstaklega þegar þeir eru komnir til ára sinna.  Ekkert bendir til að fjármögnunarfyrirtækin hafi tekið tillit til þessa við uppgjör samninga.

Viðbrögð Fjármálaeftirlitsins við svörum fyrirtækjanna voru að senda dreifibréf til að áminna fyrirtækin um að stunda eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármagnsmarkaði þannig að væntanlega var það mat stofnunarinnar að svörin bæru með sér að slíkir viðskiptahættir hefðu ekki verið stundaðir, sbr. 19.gr. laga um fjármálafyrirtæki, við uppgjör samninga vegna riftunar.  Þó sá stofnunin ekki ástæðu til að beita frekari viðurlögum sem henni er þó heimilt sbr. lög um fjármálafyrirtæki, en í XIV. kafla um viðurlög segir í 7.tl. 110. gr. um stjórnvaldssektir:

Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn:

.............

7.   1. og 2. mgr. 19. gr. um að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, að fara að reglum Fjármálaeftirlitsins og hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði,"

Í uppgjörunum sem um ræðir er ekki um lágar upphæðir að ræða heldur meinta ólögmæta auðgun svo skiptir hundrðum þúsunda eða milljónum króna í einstaka tilvikum.  Samt sem áður hefur enginn stjórnandi eða fjármögnunarfyrirtæki verið látið axla ábyrgð sbr. heimildir fyrrnefndar 110 gr.  Hvernig á að bæta siðferði þessa fólks ef að viðurlögum er ekki beitt?

Fyrir þá sem hafa áhuga set ég hér tengla á bréf með rökstuðningi FME fyrir því að ég eigi ekki að fá aðgang að svörunum sem og andsvar mitt til ÚNU vegna rökstuðning FME.  Dæmi nú hver sem vill.

Svar FME til ÚNU 11. janúar

Andsvar mitt til ÚNU 15. janúar


#115. Enn eitt ruglið.

Margrét Vala Kristjánsdóttir, þá lektor, nú dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík skrifaði athyglisverða grein árið 2009 um stöðu skilanefnda.  Hún fjallaði þar um ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins og stöðu skilanefnda þess á grundvelli laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.  Greinina er að finna á í 2. tbl. 5. árg. veftímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla, og ber nafnið „Neyðarlögin" og stjórnsýsluréttur.

Margrét Vala kemst í fyrsta lagi að þeirri niðurstöðu að skilanefndir Fjármálaeftirlitsins séu stjórnvöld og lúti sem slíkar reglum stjórnsýsluréttar, hvort sem litið er til stjórnarhlutverks þeirra eða framkvæmdar ákvarðana Fjármálaeftirlitsins. Það er einnig niðurstaða greinarinnar að stjórnsýslulög, nr. 37/1993, gildi um þær ákvarðanir skilanefndanna sem teljast stjórnvaldsákvarðanir í skilningi laganna, að því marki sem reglur þeirra laga eru ekki „teknar úr sambandi" með lögum nr. 125/2008. Loks er áréttað að þegar stjórnsýslulögum sleppir gilda meginreglur stjórnsýsluréttar um ákvarðanir og athafnir skilanefnda Fjármálaeftirlitsins. Þær eru því bundnar af meginreglum stjórnsýsluréttar um t.d. jafnræði, meðalhóf og málefnaleg sjónarmið við framkvæmd lögmæltra verkefna sinna á grundvelli laga nr. 125/2008.

Þá bendir Margrét Vala á að munur er á stöðu bráðabirgðastjórna sem eru skipaðar á grundvelli laga nr. 44/2009 og skilanefnda sem skipaðar voru á grundvelli laga nr.125/2008. Þær fyrrnefndu starfa ekki í umboði Fjármálaeftirlitsins. Stjórnarstörf skilanefnda Fjármálaeftirlitsins hafa hins vegar frá upphafi verið unnin á þess vegum.  Skilanefndir Fjármálaeftirlitsins starfa því í skjóli opinbers valds þegar þær framkvæma ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins og lúta reglum stjórnsýsluréttar.

Lög um fjármálafyrirtæki segja í 1.mgr. 100.gr. að eigi fjármálafyrirtæki í þeim fjárhags- eða rekstrarerfiðleikum að líkur séu til að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar eða uppfyllt kröfur um lágmark eigin fjár getur stjórn þess upp á sitt eindæmi leitað eftir því við Fjármálaeftirlitið að það taki við ráðum yfir fyrirtækinu. Fjármálaeftirlitið skal án tafar taka afstöðu til slíkrar beiðni. Taki Fjármálaeftirlitið beiðnina til greina fellur úr gildi umboð stjórnar fjármálafyrirtækisins og verður jafnframt óvirkur réttur hluthafa eða stofnfjáreigenda til að taka ákvarðanir um málefni þess á grundvelli eignarhluta sinna. Um leið skal Fjármálaeftirlitið skipa fjármálafyrirtækinu bráðabirgðastjórn þriggja eða fimm manna sem fer ein með sömu heimildir að lögum og eftir samþykktum þess og stjórn og hluthafafundur eða fundur stofnfjáreigenda hefði ella haft á hendi, sbr. þó 4. tölul. 2. mgr. 101. gr.

Þetta er sem sagt skilanefnd.

Þá segir í sömu lögum í 3.tl. bráðabirgðaákvæðis nr. V: "Skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem Fjármálaeftirlitið hefur skipað fyrir gildistöku laga þessara á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008, skal með óbreyttu heiti halda áfram störfum og gegna því hlutverki sem slitastjórn er ætlað í 3. mgr. 9. gr., 2. málsl. 4. mgr. 101. gr., 1. málsl. 5. mgr. 102. gr. og 1.-3. mgr. 103. gr. laganna ...1)"

Í grein Margrétar Völu er vísað í ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um skipan skilanefnda hvar segir að skilanefnd skuli „fylgja ákvörðunum sem Fjármálaeftirlitið tekur á grundvelli 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki og starfa í samræmi við Fjármálaeftirlitið."  Síðan er tekið fram, með hliðsjón af því sem fram kemur í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, að skilanefnd skuli vinna að því að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi bankanna (gömlu) hér á landi.

Það er meginniðurstaða greinar Margrétar Völu að líta verði á skilanefndir Fjármálaeftirlitsins sem stjórnvöld sem lúta reglum stjórnsýsluréttar.

Ég er ekki löglærður maður en ég spyr með hliðsjón af framansögðu:  Hvernig getur skilanefnd sem Fjármálaeftirlitið skipaði, ekki heyrt undir Fjármálaeftirlitið?  Og hvernig getur verið eðlilegt að sama skilanefnd færist undir slitastjórn fjármálafyrirtækis?

Ég er orðinn þeirrar skoðunar að ekki standi til að slíta gömlu bönkunum heldur eigi afsprengi þeirra, nýju bankarnir, að sameinast þeim og lánin sem nú standa í nýju bönkunum renni inn í gömlu bankana á ný sem verði svo aftur afhentir eigendum sínum.

Ég hef sent Fjármálaeftirlitinu og skilanefnd Glitnis banka fyrirspurn hverjir teljist eigendur Glitnis banka í dag.  Ég býst ekki við innihaldsríku svari.

 

 


mbl.is Skilanefndir undir slitastjórnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#112. Lög ekki afturvirk!

Eftir langa mæðu fékk ég loks svar í dag frá deildarstjóra neytendaréttarsviðs Neytendastofu vegna 4 kvartana yfir skilmálum í samningi mínum vegna bílakaupa.  Innihaldið var frekar rýrt og var t.d. misræmi í túlkunum stofnunarinnar á því hvort samningurinn væri leigusamningur eða lánssamningur.  Er það undarlegt í ljósi undangenginna dóma hvar kveðið var um að þessir samningar væru lán en ekki leiga.  Meira segja fullyrti Neytendastofa að samningurinn, sem var gengistryggður, hefði upphaflega verið í erlendri mynt!!  Hvað um það!

Eitt atriði stóð þó upp úr í svari deildarstjórans:

Það er meginregla í íslenskum stjórnskipunarrétti að skýra beri lög á þá leið að þeim verði ekki beitt afturvirkt."

Getur Neytendastofa þá útskýrt hvaða lagaheimildir leyfðu að SP-Fjármögnun hf. sendi endurrreiknað greiðsluflæði frá upphafsdegi samnings og hóf innheimtu skv. því 2 mánuðum áður en lögum um vexti og verðtryggingu var breytt í árslok 2010?  Lögfræðingur SP gat ekki útskýrt þetta og hótaði að henda mér út af skrifstofunni sinni, með lögregluvaldi ef þess kræfist þörf, þegar ég innti hann eftir því.  Þessi skoðun Neytendastofu um meginregluna segir þó margt, því þar með hefði átt að breyta vaxtastigi í fyrsta lagi eftir gildistöku laga nr. 151/2010, enn ekki 2 mánuðum fyrr eins og SP-Fjármögnun hf. gerði í mínu tilviki, og vafalaust fleiri. En hvaða lagaheimildir leyfa slíka gjörninga eftir gildistöku laga nr. 151/2010?  Um það eru áhöld líka.

Eftir mikla eftirgangsmuni fékk ég upplýsingar frá fyrirtækinu að árleg hlutfallstala kostnaðar á fjármögnunarsamningi mínum reiknist nú 12,19% í stað 5% við samningsgerð?  Getur Neytendastofa útskýrt hvaða lagaheimildir, eða samningsákvæði, leyfa þetta?  Sbr. 14.gr. laga um neytendalán er lánveitanda eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr.  Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar.  Þetta er þó gert í stórum stíl!  Hvers vegna er þetta framferði ekki stoppað af Neytendastofu að eigin frumkvæði?  Hvers vegna þurfa neytendur sjálfir að standa í þessu stappi?  Og hvar er stuðningur stofnunarinnar við neytendur?  Líklega verð ég að setja inn sérstaka kvörtun vegna þessa til að reyna kría út svör.

Því miður er það svo að stjórnvöld og allir eftirlitsaðilar, þ.m.t. Neytendastofa, kasta þessum bílalánum frá sér eins og heitri kartöflu og eftirláta neytendum baráttuna á eigin spýtur í dómskerfinu.  Við búum einfaldlega við handónýtt eftirlitskerfi!


mbl.is Bílalánin misjafnlega dýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#111. Mál að linni!

Þessar fréttir um aðgangshörku fjármögnunarfyrirtækjanna koma ekki á óvart.  Fyrirtæki okkar landsmanna allra, SP-Fjármögnun hf., er sennilega það fyrirtæki sem verst kemur fram við skuldara.  Gunnlaugur Kristinsson fjallar um endurreikningana í grein á visir.is 30. mars sl. en hann hefur skoðað útreikninga SP Fjármögnunar m.a.

En nú er mál að linni.  Fjármögnunarfyrirtækin fengu lögin sín um hvernig ætti endurreikna samningana sína.  SP-Fjármögnun hf. sendi út greiðsluseðla samanber þessi lög rúmum 2 mánuðum áður en þau voru samþykkt.  Lögmaður fyrirtækisins hótaði mér að hringja á lögregluna til að henda mér út þegar ég leitaði skýringa.

SP-fjármögnun hf. sinnti ekki tilkynningaskyldu sinni með fullnægjandi hætti eftir setningu laga um fjármálafyrirtæki árið 2001.  Fyrirtækið stundaði gjaldeyrisviðskipti framhjá starfsleyfi sínu og tilkynnti Fjármálaeftirlitinu ekki að slík starfsemi væri stunduð.

Fyrirtækið gerði samninga við neytendur með ólögmætum samningsskilmálum og af þessu varð til útblásinn loftbóluhagnaður sem framkvæmdastjórinn fékk ágóða af samkvæmt starfskjarasamningi. Lauslega áætlað er um 60-70 milljónir að ræða í þessa launatengdu bónusa

Og enn túlka þessir menn að þarna sé um lánasamninga að ræða, sem eru verðbættir og bera vexti.  Eftir fjölda dóma sem segja annað!  Og síðan hvenær bera leigusamningar vexti?!

Og nú nefnir fyrrum sveitungi minn, velferðarráðherrann Gutti skólastjóri, að þarna virðist sem farið væri fram með öðrum hætti en stjórnvöld væru sátt við.  Jafnframt sagði hann að skoðað væri hvort setja þyrfti lög á túlkun fjármögnunarfyrirtækjanna.  Það er gagnlaust að setja en ein lögin sem ekki er framfylgt!  Þessi fyrirtæki virðast vera ríki í ríkinu og forsvarsmenn þeirra haga sér sem einræðisherrar.  Virðast komast upp með allt og ríkisvaldið horfir ekki einu sinni á!

Hér þarf að siga lögreglunni á mennina sem stýra þessum fyrirtækjum.  Það þarf að framfylgja lögum um vexti og verðtryggingu sbr. þá dóma sem fallið hafa.  Það þarf að framfylgja lögum um greiðsluskjól.  Það þarf að framfylgja lögum um aðför, lögum um neytendalán og lögum um samninga.

Á meðan ganga þessi fyrirtæki á milli bols og höfuðs á viðskiptamönnum sínum í skjóli lögleysu sem ekki er tekið á!

Nei Gutti, við þjóðin eigum SP-Fjármögnun hf. og Avant í gegnum Landsbankann.  Það er í þínu valdi að taka málið upp við efnahagsráðherra og innanríkisráðherra á ríkisstjórnarfundi og stöðva framgöngu þessara tveggja aðila!  Ekki þæfa málið með en einni lagasetningunni! 

Sýndu úr hverju þú ert gerður!  Ertu maður eða mús?

 


mbl.is Bílar teknir af fólki í greiðsluskjóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#110. SP-Fjármögnun hf. í dauðateygjunum í núverandi mynd.

Það fór sem ég setti fram í bloggfærslu 24.júní 2010 að fyrir SP-Fjármögnun hf. lægju sömu örlög og eignaleigunnar Lindar hf. sem rann inn í eiganda sinn, forvera Landsbankans núverandi, Landsbanka Íslands árið 1994.  Tap bankans nam „einungis" 80,5 milljónum króna þegar hlutafé Lindar var aukið um 115 milljónir króna í lok desember 1990 en tap Landsbankans núverandi á SP-Fjármögnun hf. er heldur meira.  Árið 2009 varð bankinn að breyta 35,6 milljarða króna láni í nýtt hlutafé til að bjarga SP-Fjármögnun hf. frá gjaldþroti og frá missi starfsleyfis. Hverjar 330 lánaðar krónur urðu að 1 krónu nafnverðs.  Góð fjárfesting það.

Það sem er framkvæmt ólöglega er glæpur að mínu viti.  Enn hefur enginn forsvarsmanna SP-Fjármögnunar hf. verið ákærður vegna ólöglegra athafna fyrirtækisins.  Kjartan Georg Gunnarsson framkvæmdastjóri hefur frá 2007 fengið um 63 milljónir í árangurstengdar greiðslur af ágóða fyrirtækisins, ágóða sem reyndist loftbóla og til kominn vegna ólöglegra gjörninga í starfsemi sem var gjaldþrota í árslok 2008.  Tær snilld eða þannig.  Fróðlegt verður að sjá afdrif framkvæmdastjórans nú við sameininguna við Landsbankann.  Verður hann látinn greiða til baka þessar innistæðulausu árangurstengdu greiðslur við sameininguna?

Er Steinþór Pálsson tilbúinn að axla ábyrgð af ólöglegum gjörningum SP-Fjármögnunar hf. á undanförnum árum?  Eða mun hann loks stoppa framferði fyrirtækisins?

Eitt er víst að SP-Fjármögnun hf. er í dauðateygjunum í núverandi mynd og örlög þess eru þau sömu og eignaleigunnar Lindar hf. árið 1994 að renna inn í eiganda sinn.  Er glæpastarfsemi Kjartans Georgs í Sigtúni 42 loksins að taka enda?


mbl.is Eignaleigur sameinaðar Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#108. Borgaði Obama ekki reikninginn?

Lánshæfisfyrirtækið Standard & Poor's breytti í gær í fyrsta sinn langtímahorfum fyrir bandaríska ríkið úr stöðugum í neikvæðar.

Ætli Obama hafi ekki borgað síðasta reiknking fyrirtækisins fyrir lánshæfismatsþjónustu?


mbl.is Lækkun S&P á horfum veldur öldugangi á mörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#107. Neyðarréttur Breta nýttur?

Það sem elskulegur Darling vísar til í greininni er neyðarréttur stjórnvalda til aðgerða til verndar hagsmunum þjóðarinnar.

En ég held að Hr. Darling ætti að minnast þessa dóms áður en hann tjáir sig um málefni Icesave.  Þessar harkalegu verndaraðgerðir Breta á grundvelli hryðjuverkalaga eru ástæða þess að þetta mál er í þessum farvegi sem það er!


mbl.is Átti að tryggja hagsmuni Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

101. Við getum losað gjaldeyrishöftin án Icesave-samþykktar!

Ég endurbirti hér efnislega hluta úr færslu minni frá 29. mars sl.

Aflandskrónur bundnar í íslenskum eignum eru sagðar 465 milljarðar.

Með því að nota andvirði erlendra eigna lífeyrissjóðanna, 473 milljarða, er hægt að kaupa upp aflandskrónurnar óþreyjufullu og hleypa þeim úr landi.  Þar með eru skuldabréf, jöklabréf, reiðufé og hvað þessar eignir nefnast nú allar, að upphæð 465 milljarðar komnar í eigu innlendra aðila, lífeyrissjóðanna, og þeir eiga samt 8 milljarða afgangs.  Þessar eignir yrðu svo notaðar til að fjármagna húsnæðislánayfirfærslu upp á 315 milljarða frá bönkunum til lífeyrissjóðanna með litlum eða engum tilkostnaði.

Lífeyrissjóðirnir mundu svo innheimta þessar eignir frá lántakendum á yfirfærsluverði og færa höfuðstóla lánanna niður sem samsvarar bókfærðu virði þeirra, en hanga ekki á kröfuvirðinu eins og hundur á fiskroði, nákvæmlega eins og bankarnir eru að gera í dag.  Þannig fá bankarnir fé til að lána fyrirtækjum og almenningur fær höfuðstól sinn niðurfærðan, og þar með bæði greiðslugetu og greiðsluvilja á ný.  Ríkissjóður eða Seðlabanki þyrftu ekki að afla erlends gjaldeyris til að losa af gjaldeyrishöftin.  Hjólin færu að snúast aftur.

465 - 315=150 milljarðar (+8 milljarðar) eru þá afgangs og við þá er margt hægt að gera!

Látum lífeyrissjóðina koma heim með peningana okkar okkur til gagns!


mbl.is Vill samþykkja Icesave og losna við höft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband