Færsluflokkur: Bloggar

#94. Hæstiréttur dæmir banka brotlegan.

Í dag féll athyglisverður dómur í 11. Hæstarétti Þýskalands (Bundesgerichtshof) í máli Deutsche Bank og Ille Papier vegna vaxtaskiptasamninga á milli aðila.  Dómurinn er ekki kominn á vef þýska Hæstaréttarins þegar þetta er ritað. 

Ég reyndi þó að rýna í fréttatilkynningu á þýsku til að reyna fræðast meira um niðurstöðurnar með því að snara textanum yfir á ensku með aðstoð Google Translate og ég vona að ekki sé rangur skilningur lagður í dóminn.

Að mínu mati kemst dómurinn m.a. að þeirri niðurstöðu að við samningsgerðina hafi DB ekki sinnt ráðgjafahlutverki sínu með fullnægjandi hætti.  Við gerð samningsins taldist stórkostlegur hagsmunaárekstur hafa verið til staðar lántaka í óhag.  Er það álit 11. Hæstaréttar að banki eigi að spyrja viðskiptavin hvaða ráðgjöf hann hafi fengið þegar um áhættusöm viðskipti er að ræða nema ef viðskipti aðila hafa staðið um langan tíma eða nýleg viðskiptasaga er þekkt.  Einnig telur 11. Hæstiréttur að þrátt fyrir diploma nám í hagfræði taldist viðskiptavinurinn, prókúruhafi fyrirtækisins, ekki hafa haft þekkingu til að meta áhættuna sem í viðskiptunum lá með svo flókna fjármálaafurð eins og vaxtaskiptasamningar eru.  Dómurinn setur ríka kröfu á bankann að veita fullnægjandi ráðgjöf við gerð flókinna og áhættusamra samninga.  Átti því bankinn að veita ráðgjöf áður en samningurinn var undirritaður.  Þá var tjón bankans takmarkað í samningnum en áhætta viðskiptavinarins var ótakmörkuð og hefði getað leitt til greiðsluþrots hans. 

Deutsche Bank var því dæmdur til að greiða Ille Papier-fyrirtækinu 541.074 Evrur auk vaxta.

Spurningin er hvort þessi dómur hafi fordæmisgildi á Íslandi.  Og hvort hægt sé að heimfæra þessa niðurstöðu þýska dómsins upp á þá gengistryggðu lánasamninga sem hér voru framkvæmdir.

Með vísan í mat 11. Hæstaréttarins þýska, um hæfi prókúruhafa Ille Papier með sína hagfræðimenntun, má spyrja sig voru íslenskir neytendur einfaldlega hæfir til að meta áhættu gengistryggðra lánasamninga með fullnægjandi hætti?  Og að sama skapi voru starfsmenn og stjórnendur íslensku fjármálafyrirtækjanna hæfir til að meta áhættu viðskiptavina sinna við gerð slíkra samninga þó löglegir væru? 

Mér er til að mynda til mikilla efa að einhver viðskiptasaga hafi yfirhöfuð verið til staðar til að meta þekkingu viðskiptavinar á slíkum viðskiptum.  Alla vega ekki hvað bílalán varðaði.  Var viðskiptavinum veitt fullnægjandi ráðgjöf vð gerð slíkra samninga?  Ég efa það.  Í mörgum tilvikum var starfsmaðurinn sem rætt var við sennilega ekki með mikla þekkingu umfram viðskiptavininn. 

Sama átti sennilega við vegna húsnæðislána.

Því má líklega með sanni segja að miðað við dóm þýska Hæstaréttarins að skaðabótaskylda liggi hjá öllum íslensku fjármálafyrirtækjunum sem buðu gengistryggða lánasamninga þvert á lög um vexti og verðtryggingu og veittu ónóga ráðgjöf um áhættuna við gerð slíkra samninga.


mbl.is Úrskurður hristir upp í þýska bankakerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#92. Álit G.Péturs á skrifum „dvergana sjö“....

G.Pétur Matthíasson skrifar færslu á bloggsíðu sína um skrif sjö lögfræðinga undanfarna daga þar sem hvatt er til höfnunar Icesave laganna.

Í greiningu hans vantar þó aðalatriðið að mínu mati.  Tryggingasjóður innistæðueigenda hefur ekki ríkisábyrgð.  Slíkur sjóður hefur ekki ríkisábyrgð í neinu ESB landi.  Slík ríkisábyrgð er heldur ekki krafa ESB sbr. tilskipanir þess um innistæðutryggingasjóði.  Því spyr ég: Hvers vegna á íslenskur almenningur nú að bera ábyrgð á gjörðum einkabanka? 

Ríkisstjórnin átti aldrei að koma að samningum um endurgreiðslu þessara umframgreiðslna Breta og Hollendinga á innistæðum á Icesave.  Slíkar viðræður áttu að fara fram við stjórn Tryggingasjóð innistæðueigenda því endurgreiðslukrafa Breta og Hollendinga er í raun á Tryggingasjóð innistæðueigenda, ekki ríkissjóð.  Og Tryggingasjóðurinn á bótakröfu á þrotabúa Landsbankans, en ekki ríkissjóð.  Málarekstur Breta og Hollendinga vegna slíkrar bótakröfu á að fara fram fyrir íslenskum dómstólum, ekki erlendum og ekki EFTA dómstól, og þar veltur á sönnunbyrði á vanrækslu Íslands við að koma á fót slíkum tryggingasjóði.  Ég vitna þar til viðtals við ritara EFTA dómstólsins í Silfri Egils sunnudaginn 6.mars.  Ef ESB tekur undir, eða samþykkir, að bótakrafa á ríkissjóð sé réttmæt er hugsanlega verið að gefa út opinn tékka á ríkissjóð heimaríkja allra fjármálastofnana á EES svæðinu sem geta þar af leiðandi hagað sér algjörlega óábyrgt eins og íslensku bankarnir gerðu fyrir hrun, og eru svo sem enn að gera eftir hrun gagnvart neytendum, því reikningurinn vegna innistæðna endi alltaf á ríkissjóði heimaríkisins hvort eð er.  Viljum við það?  Vill ESB það?

Innistæður á íslenskum bankareikningum hafa ekki ríkisábyrgð hvað sem hver segir um neyðarlögin.  Neyðarlögin hafa t.d. ekki enn verið staðfest á Alþingi.

G.Pétur talar um siðferði og vegna þess að eftirlitið var í molum berum við, íslenskur almenningur, okkar ábyrgð á íslenskum banka. Íslenskur almenningur er bara ekki samviska fjárglæframanna og það á ekki að nota ríkissjóð til að bæta misgjörðir þeirra.


#88. Opið bréf til Sigmundar Ernis

Ég sendi eftirfarandi tölvupóst til Sigmundar Ernis vegna bloggfærslu hans 19. febrúar:

Sæll Sigmundur,

Ja, öfug er forgangsröð þín segi ég nú bara.  Veistu.....ef þessi hundrað þúsund kall fyrir dómarana er móðgun við landsmenn, hvað á þá að kalla þessa ríkisstjórn sem þú styður?  Hvað á að nefna Icesave-óbermið sem þið ætlið að þröngva upp á þjóðina að ósekju?!!!  Nei, losaðu okkur við Icesave, og förum að bjarga störfum í landinu og hnýtum svo í dómaralaunin.  Þessir hundrað þúsundkallar fara þá alla vega ekki í Icesave á meðan!  Látum afborganir vegna Icesave vinna innanlands en ekki í Bretlandi eða Hollandi!

Kv,
Erlingur A. Jónsson
rlingr.blog.is

Sigmundur hefur ekki svarað.


mbl.is Viðurstyggileg móðgun við landsmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#84. Heimsókn á skrifstofu SP-Fjármögnunar 4. febrúar

Föstudaginn 4. febrúar heimsótti ég skrifstofur SP-Fjármögunar hf. vegna skorts á svörum lögfræðings þess við fyrirspurnum mínum.  Ég hef áður lýst viðskiptum mínum við lögfræðinginn þegar hann hótaði að henda mér út af skrifstofum SP og svari hans á gamlársdag við fyrirspurn minni frá 29. október.

Lögfræðingurinn var örugglega eitthvað illa fyrirkallaður þennan dag eins og við fyrri heimsókn.  Jafnvel eitthvað verri ef eitthvað.  Alla vega var þolinmæðisþráðurinn ansi stuttur.  Fyrst þurfti ég að bíða í afgreiðslunni í 15-20 mínútur eftir því að hann kláraði annan fund, sem var ekkert mál af minni hálfu.  Þegar hann loksins kom var hann stuttur í spuna og bauð mér inn í fundarherbergi (ekki inn á skrifstofu sína) og sagðist hafa 2 mínútur aflögu fyrir mig.  Ég innti hann ástæðu þess að svar hans við minni fyrirspurn var ófullkomið og fékk venjulegu ræðuna um vinnuálag, og að hann hefði ekki tíma til að sinna mér því að stærri hagsmunir gengju fyrir.  Ég sagði honum að þetta væru ekki ný sannindi en rýrði þó ekki rétt minn til svara frá fyrirtækinu.  Hann tjáði mér þá að þessi leið mín að koma á skrifstofuna og hóta setuverkfalli, sem ég var þó ekki búinn að hóta í þessari heimsókn, til að knýja á um svör væri ekki sú rétta, heldur ætti ég að senda tölvupósta eða hringja til að reka á eftir svari.  Ég benti honum á að það hefði ég gert ítrekað en eina leiðin sem virkaði væri að koma í eigin persónu eins og hann vissi.  Eftir mjög stutt samtal gekk lögfræðingurinn á dyr án þess að kveðja.  Ég elti hann inn ganginn til að ljúka samtalinu.  Þegar ég spurði hann á ganginum hvað svona framkoma ætti að þýða bauð hann mér inn á skrifstofu sína og sagðist eiga hálfa mínútu aflögu.  Þegar inn var komið var greinilegt að verulega hafði reynt á þolinmæði hans og hann var tilbúinn að hringja á lögregluna til að láta fjarlægja mig.  Á endanum settist hann við tölvuna sína og prentaði út tölvupóst minn hvar ég óskaði svara við þeim atriðum sem hann sleppti í svari sínu á gamlársdag.  Sagðist hann lofa svari í byrjun þar næstu viku, sem er mánudagurinn 14. febrúar.  Við skulum sjá til hvort að ég verð honum ofarlega í huga á Valentínusardaginn eða helgina þar á undan þannig að svar berist eins og lofað var.

Þó ég hafi verið tilbúinn að setjast niður á skrifstofu hans þennan dag og taka því sem að höndum bæri ákvað ég að sleppa því.  Ástæðan var sú að mér var boðið í 40 ára afmæli um kvöldið og nennti ekki að fara standa í einhverju stappi einmitt þennan dag.  Verði dráttur á svari lögfræðingsins fram yfir 14. febrúar má hann hins vegar búast við þaulsetinni heimsókn fljótlega þar á eftir.


#82. ...og 35 milljarðar í SP-Fjármögnun.

Nýji Landsbankinn jók hlutafé SP-Fjármögnunar hf. á árinu 2009 upp á 1080 milljónir að nafnvirði, en kostaði bankann 35,6 milljarða í afskrifuðum lánum til þessa svikamyllu Kjartans Georgs.  Hlutafjáraukningin var nauðsynleg til að bjarga fyrirtækinu sem var gjaldþrota í árslok 2008 og rekið á undanþágu FME fram á vordaga 2009.  Sjá færslu mína frá 12. ágúst 2010.  Ríkissjóður fjármagnaði stofnun Nýja Landsbankanns.  Ríkissjóður lagði því óbeint 35 milljarða inn í SP-Fjármögnun 2009.


mbl.is Hefur sett 87 milljarða í fjármálastofnanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#77. Breikkum frekar vegina.

Mér finnst mikilvægara að breikka vegi áður en hgsað er um að fara lýsa þá. Þjóðvegir á Íslandi eru almennt mjóir; svo mjóir að flutningabílum stafar hætta af. Þekki þetta af eigin reynslu af akstri slíkra bíla. Þrengslin eru dæmi um svona mjóan veg.
mbl.is Óvíst að Þrengslin verði lýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#74. Nýyrðasmiðurinn á Sölvhólsgötunni.

Ég er orðinn þreyttur á þeim sólbrúna, hæstvirtum viðskiptaráðherra.  Ég skil ekki hvað hrærist í höfðinu á honum.  Næsta vika er alltaf vika tíðindanna hjá honum.  Jafnvel stórtíðinda.  Núna vill hann loforð bankanna um að ekki verði sóttar skaðabætur vegna nýja gengislánafrumvarpsins. Frumvarpsins sem á að bjarga öllu en gera gengistryggð lán til fyrirtækja lögleg.  Heldur hann virkilega að slíkt loforð væri virði pappírsins sem það væri skrifað á?  Af hverju eru núgildandi lög ekki virt og unnið eftir þeim?  Hví þarf að setja ný?

Ráðherrann getur ekki einu sinni ráðið fólk í ábyrgðarstöður embættismanna vandkvæðalaust og gerði ekkert fyrir heimilin á meðan hann var félagsmálaráðherra.  Ég fæ ekki séð að hann geti gert neitt fyrir fyrirtækin sem viðskiptaráðherra.  Nær öll verktakafyrirtæki eru komin að fótum fram vegna verkefnaskorts og skuldastöðu.  Fyrrum starfsmenn þeirra ganga atvinnulausir í öllum landshlutum.  Fjöldi tækja hafa verið gerð upptæk, eða skilað til fjármögnunarleiga og flutt úr landi, en eftir standa skuldirnar sem nú á að gera löglegar og innheimta!  Hvað heldur hann að gerist?  Að menn borgi þessar tækjaskuldir með glöðu geði en standa tómhentir eftir?  Eigendur þeirra stofna bara ný félög, færa allar eignir (ef einhverjar eru eftir) úr gamla félaginu í það nýja en skilja gengistryggðu skuldirnar eftir í því gamla sem verður sett í þrot, að nýjum víkingasið!   

Í Hagsýn, nýju vefriti efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, segir að endurskipulagning skulda fyrirtækja sé forsenda hagvaxtar.  Síðan á að fara í skuldahreinsanir lífvænlegra fyrirtækja því slíkt sé ein meginforsenda þess að fjárfesting taki við sér á ný.  Væntanlega er átt við sömu fyrirtæki og eiga nú að glíma við að gengistryggð lán þeirra verða gerð lögleg af þeim sólbrúna í nýja gengislánafrumvarpinu.   Í sama vefriti segir að nú liggi fyrir að svigrúm bankanna til niðurfærslu lána til fyrirtækja er umtalsvert.  Og þó að um helmingur fyrirtækja sé í vanskilum við viðskiptabankana eru aðeins 4% íslenskra fyrirtækja gjaldþrota. Nær allar eftirstöðvar lána gjaldþrota fyrirtækja eru vegna lántöku í erlendri mynt.  Aldrei er minnst á gengistryggð lán þessara fyrirtækja.  Vefritið endar á því að efnahags- og viðskiptaráðuneytið leggur því mikla áherslu á árangur í skuldahreinsun fyrirtækja í samvinnu við önnur stjórnvöld, lánastofnanir og aðila vinnumarkaðarins. 

En heimilin skulu brenna á ólöglegu skuldabáli enda er svigrúm bankanna til að hjálpa þeim fullnýtt!

Ráðherrann lifir í einhverjum draumaheimi.  Það er eins og hann viti ekki hvað landslög eru.  Og þó er hann lögfræðingur að mennt.  Hjal hans í viðtölum er innantómt og innihaldslaust og frekar leiðinleg tímasóun.  Vera hans í ríkisstjórn er einhver aumasta ráðherraseta frá upphafi lýðveldis. 

Vantar ekki karlmódel í næsta Hagkaupsbækling eða nýjustu Gillette auglýsingu?


mbl.is Bankar veita ekki skaðleysisyfirlýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#72. Ólögmætir vaxtaútreikningar á vangreiðslum bílalána.

Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir Sturlu Jónsson endurskoðanda hjá Nordik Finance.  Hann tekur þar fyrir endurútreikninga fjármálafyrirtækjanna eftir dóm Hæstaréttar í september.  Þórdís Sigurþórsdóttir birtir greinina á bloggsíðu sinni með leyfi höfundar.  Sturla veltir upp þeirri spurningu hvort kröfuhafi megi reikna vexti á reiknaðar vangreiðslur við endurútreikninga.

Að mínu mati bannar 7.gr vaxtalaga afdráttarlaust að reikna skuli dráttarvexti af vangreiðslum, en þar segir skýrt:

"Ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum. Sama á við ef greiðsla fer ekki fram vegna þess að skuldari neytir vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafa eða heldur af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar." 

Reiknaðar "vangreiðslur" eru til komnar vegna ólögmætra athafna lánveitanda, eða kröfuhafa, á lánstímanum.  Samningarnir voru ólögmætir sbr. dóm Hæstaréttar í máli 92/2010 frá 16. júní.  Hér er því sem sagt um að ræða atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt.   Að rukka vexti á vangreiðslur er því einfaldlega ólöglegt sbr. 1.mgr. 7 gr. að ofan.

Fjármögnunarfyrirtækin eru nú að hefja innheimtu þessara lána að nýju.  Sum hafa þegar sent út gögn vegna skilmálabreytinga, t.a.m. Íslandsbanki Fjármögnun.  Í endurgerðum samningsskilmálum þessara „kaupleigusamninga", er lántaki enn kallaður leigutaki og kröfuhafi, Íslandsbanki Fjármögnun, nefndur leigusali.   Hæstiréttur úrskurðaði slíka kaupleigusamninga í reynd lánasamninga sem kröfuhafi hafi kosið að færa í búning leigusamnings.  Hér á því með réttu að nefna samningsaðila lántaka og lánveitanda og samninginn lánssamning eða neytendalán.

Ég hvet fólk að fara varlega í að skrifa gagnrýnislaust upp á þessa samninga án fyrirvara og krefja kröfuhafa um skýringar á því hvaðan heimildir fyrir þessum vaxtaútreikningum eru fengnar.


mbl.is Lýsing hefur lokið fyrsta hluta endurútreiknings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#71. Hvert var viðmiðið?

Fáranlegt orðalag í fréttinni þar sem sagt er að meðafjöldi bíla sem fór um Héðinsfjörð sé óvenjulegur miðað við árstíma. Bíðum nú við....er þetta ekki nýr vegur um óbyggðan fjörð? Hvert var viðmiðið? Smile
mbl.is 500 bílar á dag um Héðinsfjörðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#70. Glæpir virðast borga sig....

Á undanförnum árum höfum við séð mýmörg dæmi þess að glæpir virðast borga sig.....ef um eftirlitsskyldan aðila er að ræða.  Ég segi virðast því ég ber enn von í brjósti um að ábyrgir aðilar verði látnir gjalda fyrir þessi afbrot sín.

Ég sá eitt dæmi um svona glæpahagnað í dag.  Ég skoðaði ársreikning SP-Fjármögnunar hf. fyrir 2009.  Honum var skilað til RSK 7. október sl.  Sama dag og svokölluðum endurútreikningi lánasamninga fyrirtækisins var lokið.  Alla vega fyrstu lotu því eftir standa margir fjármögnunarleigusamningar sem SP telur að falli ekki undir dóm Hæstaréttar eða „óvissa" sé um að falli þar undir.  Þetta falsskjal sýnir rekstrarhagnað upp á 5,5 milljarða sem líklega er gjafagjörningur Hæstaréttar að mestu leyti.  Eiginfjárhlutfall er sagt 28,8%.  Þetta er mikill viðsnúningur frá árinu 2008, sem fæst að mestu með dómi Hæstaréttar en einnig þætti NBI sem breytti 35,5 milljarða láni í hlutafé að nafnvirði tæplega 1,1 milljarður vorið 2009.  Hverjar 330 lánaðar krónur urðu að einni krónu nafnverðs hlutafjár við þessa breytingu.  1 krónu!  En SP-Fjármögnun hf. var rekið á undanþágu Fjármálaeftirlitsins fyrstu 4 mánuði 2009 eins og ég greindi frá í færslu 15.ágúst sl. vegna þess að eiginfjárhlutfall félagsins var neikvætt um 33,5% í árslok 2008. 

NBI mun líklega gera allt til að halda lífi í þessu glæpafélagi og enn er svigrúm til þess því lántaka SP-Fjármögnunar hf. stendur í 35,7 milljörðum, sem að öllu leyti eru frá móðurfélaginu, NBI hf.  Bankanum okkar.  Bankanum sem mun vinna ötullega að því að sjá til þess að glæpastarfsemin í Sigtúninu fái að dafna um ókomin ár.   Því þessu láni mun væntanlega verða breytt í hlutafé, eins og fyrri lánum til að halda félaginu á floti, ef þörf krefur.

Já, Kjartani Georg hefur tekist að bjóða almenningi og fyrirtækjum upp á ólöglega gjörninga um árabil, en þarf ekki að sæta ábyrgð.  Alla vega fram að þessu.  Honum virðist hafa tekist að stunda eftirlitsskylda starfsemi án heimilda Fjármálaeftirlitsins og honum hefur tekist, að komast upp með að greina Fjármálaeftirlitinu ranglega frá því hvaða starfsheimildir SP-Fjármögnun hf. nýtti við gildistöku laga nr. 161/2002, en slíkt athæfi er refsivert athæfi skv. b-lið 112.gr. sömu laga og varðar fangelsi allt að 2 árum.  Og í klappliðinu eru Hæstiréttur, Fjármálaeftirlitið og NBI.

Þetta er næstum hinn fullkomni glæpur.


mbl.is Endurútreikningi að ljúka hjá SP-fjármögnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband