Færsluflokkur: Bloggar

#69. SP-Fjármögnun hf. þakkar fyrir þolinmæðina en hvenær biðjast þeir afsökunar?!!.

Í tillkynningu á heimasíðu sinni þakkar SP-Fjármögnun viðskiptamönnum sínum þolinmæðina vegna endurútreiknings á viðskiptasamningum fyrirtækisins.  Henni lýkur með svohljóðandi orðum:

"Að endingu viljum við þakka viðskiptavinum okkar fyrir þá þolinmæði sem þeir hafa sýnt okkur á þessum erfiðu tímum og vonum að okkar samstarf verði farsælt í framtíðinni."

Hvílík hræsni!

Hvernig væri fyrir SP að byrja á að biðja viðskiptavini sína afsökunar á því óréttlæti sem fyrirtækið sýndi við harkalega innheimtu viðskiptasamninga þess???  Á svikunum með ólöglegum lánasamningum og óréttmætum samningsskilmálum þeirra?  Á innheimtuaðferðum handrukkara þess?

Hversu margir einstaklingar og fyrirtæki hafa orðið fyrir barðinu á óþolinmæði SP-Fjármögnunar hf. og tapað bílum og tækjum og fjármunum í baráttu sinni við þetta glæpafyrirtæki?  Þrátt fyrir að ítrekað hafi verið bent á að gjörðir þeirra samræmdust ekki landslögum.  Hvenær biðjast þeir afsökunar á því að ljúga að yfirvöldum?  Sem er reyndar refsivert athæfi.  Sjá rökstuðning hér og hér.

Það verður sennilega margfrosið í neðra áður en við sjáum iðrun í Sigtúninu.


mbl.is SP hefur lokið fyrsta áfanga endurútreiknings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#57. Helvítis fokking fokk bara.........!!!!!

Væri ekki nær að þessir feðgar yrðu gerðir upp fyrir skuldirnar sem þeir stofnuðu til í Kaupþingi og annars staðar en að leyfa þeim að kaupa út eignir fyrir fé hvers uppruni er vafasamur? Að auki fær hann 12 mánaða starfslokasamning og 90 milljóna króna eingreiðslu frá Arion banka!!! Og ætlar svo að auki að bjóða í félagið í söluferlinu sem fram undan er. Finnst engum hjá Arion banka skrýtið að þessi maður hafi aðgang að peningum? Er ekki eðlilegt að hann hefði notað slíka fjármuni til að styrkja eigið fé fyrirtækja sinna í stað þess að keyra þau í þrot með milljarðatuga tjóni? Siðlausi andskotans lúsablesi!

Ég hvet alla til að sniðganga verlsanir hans!


mbl.is Jóhannes hættir hjá Högum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#53. Kristinn H. og gengistryggingin

Enn á ný ritar Kristinn H. Gunnarsson á vef sínum um að sanngjarnt sé að verðtrygging verði reiknuð á áður gengistryggða neytendalánasamninga.  Vísar hann í nýgenginn dóm Héraðsdóms Reykjaness og telur að almennir lántakendur séu jafnsettir og sveitarfélagið Álftanes, sem atvinnurekandi sem fékk dæmt til að greiða verðbætur á áður óverðtryggðan samning.  Sama eigi að gilda í stöðu almennra lántakenda og lánastofnana að mati Kristinns.

Nú er það svo að 36.gr.samningalaga var breytt 1995 til að vernda neytendur fyrir óréttætum samningsskilmálum, eins og Hæstiréttur dæmdi þ.16.júní um gengistryggingu. Var bætt inn fjórum liðum a-d almennum neytendum til hagsbóta.  Ákvæði 36. gr. a-d gilda um samninga, m.a. samningsskilmála, sem ekki hefur verið samið um sérstaklega enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda, sbr. þó 36. gr. d.  Í c-lið 36. gr. segir að samningur skuli gilda að öru leyti án breytinga að kröfu neytanda, verði hann efndur utan hins óréttmæta skilmála.  Þingmaðurinn fyrrverandi var í hópi þeirra þingmanna sem samþykkti fyrrgreindar  breytingar á lögum um samningsgerð.

Almennir lántakendur eru ekki jafnsettir og atvinnurekendur eða opinberir aðilar.  Atvinnurekendur og opinberir aðilar hafa að öllu jöfnu á sínum snærum sérmenntað fólk til að verja fjárhagslega hagsmuni, sem í flestum tilfellum eru verulegir og með öllu ósambærilegir við hagsmuni neytenda.  Er sérstaklega gert ráð fyrir kostnaði vegna slíkrar ráðgjafar í rekstri þessara aðila.

Hinn almenni lántakandi hefur ekki aðgang að slíkri sérfræðiráðgjöf nema gegn þóknun.  Hún er í flestum tilfellum ekki ódýr.  Í annan stað eru neytendasamningar einhliða samdir af lánveitendum og óumsemjanlegir að öðru leyti en sem nemur lánsfjárupphæð og lengd lánstíma.  Það er skylda ríkisvaldsins að sjá til þess að í slíkum neytendasamningum séu ekki óréttmætir samningsskilmálar.  Það er sérfræðiráðgjöfin sem neytendur eiga rétt á að kostnaðarlausu.

Kristinn H. Gunnarsson veður villur vegar þegar hann heldur því fram að lántakendur eigi að bera fullu á byrgð á því tjóni sem varð af ólögmætum samningsskilmálum um gengistryggingu.  Það eru stjórnendur lánastofnana sem eiga bera ábyrgð á þeim skaða, ekki neytendur.


#51. Óásættanleg staða í sjúkraflugi

Það er ekki lengra síðan en vika að ég nefndi í bloggfærslu að það væri bara tímaspursmál hvenær ekki verður hægt að sinna útkalli vegna áhafnaskorts.   Í sömu bloggfærslu nefndi ég að í landinu væru sjálfstæðir þyrlurekendur sem gætu hugsanlega sinnt einhverjum útköllum sem nú er sinnt af Landhelgisgæslunni, þar á meðal sjúkraflugi sem ekki krefst hífingarvinnu. 

Þyrla NorðurflugsNorðurflug hf. er einn slíkur og hefur yfir að ráða þyrlu sömu tegundar og stærðar og var um árabil verið notuð við sjúkraflug og björgunarstörf við Íslandsstrendur. 

Landhelgisgæslan skilaði nýlega leiguþyrlu af sömu gerð til eiganda síns þar sem ekki var til fjárframlag til að framlengja leigusamning hennar.

Á mánudagskvöldið komu 3 útköll og voru veðuraðstæður í Grímsey það slæmar að það þurfti þyrlu frá Landhelgisgæslunni til að sinna útkallinu.  Nú er auðvelt að vera vitur eftir á en hefði þarna verið möguleiki að senda sjúkraflugvél/þyrlu á Höfn eftir manninum í Öræfunum en þyrluna strax til Grímseyjar?  Veðurskilyrði á Suðurlandi voru mun betri en í Grímsey og því ekki eins takmarkandi fyrir aðra en Landhelgisgæsluna.

Ég tel eðlilegt að í þeim fjárskorti sem nú hrjáir Landhelgisgæsluna að skoðað sé að  gera þjónustusamning við aðra þyrluflugrekendur um einfaldari sjúkraflugsvinnu þegar þyrlur Landhelgisgæslunnar eru ekki til staðar.  Þessi staða er með öllu óásættanleg.


mbl.is Slasaður maður var látinn bíða alla nóttina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#46. Tilkynningar SP-Fjármögnunar til FME um starfsleyfisskylda starfsemi sína

Þann 3. ágúst sl. fékk ég svar frá Fjármálaeftirlitinu vegna fyrirspurnar minnar þ. 26. júní sl. vegna starfsleyfis SP-Fjármögnunar.  Í fyrirspurninni setti ég fram 4 spurningar, þar af eina í 2 liðum, um upplýsingagjöf SP-Fjármögnunar hf. til Fjármálaeftirilitsins í kjölfar setningar laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.  Spurningarnar og svörin eru eftirfarandi:

1.  Vísað er til setningu laga nr. 161/2002.  Undirritaður óskar eftir að fá upplýsingar um hvort SP-Fjármögnun hf. hafi á sínum tíma sent FME tilkynningu um starfsemi sína eins og fyrirtækinu bara að gera innan sex mánaða frá setningu laganna 1. janúar 2003, sbr. 2. og 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis I?

Svar: Þann 28. febrúar 2003 sendi Fjármálaeftirlitið starfandi viðskiptabönkum, sparisjóðum, lánastofnunum öðrum en viðskiptabönkum og sparisjóðum, þ.á m. SP-Fjármögnun hf., rafeyrisfyrirtækjum, verðbréfafyrirtækjum og verðbréfamiðlunum dreifibréf meðal annars þess efnis að þau skyldu innan sex mánaða eða fyrir 1. júlí 2003 tilkynna Fjármálaeftirlitinu hvaða starfsemi samkvæmt 3. gr. og IV. kafla laga nr. 161/2003 um fjármálafyrirtækja (ffl.) þau stunduðu við gildistöku laganna, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögunum. Dreifibréfinu fylgdi eyðublað sem fyrirtækjunum bar að fylla út.  Sjá meðfylgjandi skjöl í viðhengi við tölvubréfið.

2.   Ef svarið við spurningu 1. er nei og engar upplýsingar komu frá SP-Fjármögnun hf. að fyrra bragði, er óskað svara FME hvort, og þá hvenær, stofnunin fór fram á upplýsingar frá fyrirtækinu á ásættanlegu formi um hvað starfsemi það stundaði við útgáfu laganna, eins og bar að gera innan sex mánaða frá setningu þeirra?

Svar:  Vísast til svars Fjármálaeftirlitsins við fyrstu fyrirspurn yðar.

3.   Ef svarið við spurningu 2. er já, fékk FME svör frá SP-Fjármögnun hf. við erindum sínum og þá hvenær slík svör bárust?

Svar:  SP-Fjármögnun hf. tilkynnti Fjármálaeftirlitinu hvaða starfsemi samkvæmt 3. gr. og IV. kafla ffl. það stundaði við gildistöku laganna með útfylltu eyðublaði, dags. 5. maí 2003, sem barst stofnuninni þann 6. maí sama ár. Sjá meðfylgjandi skjal í viðhengi við tölvubréfið.

4.   Ennfremur er óskað eftir upplýsingum um hvort SP-Fjármögnun hf. hafi einhvern tímann á tímabilinu 2002-2010:

a.       Óskað eftir breytingu á starfsleyfi sínu til að hefja nýja starfsemi?        

Svar: SP-Fjármögnun hf. óskaði ekki eftir breytingu á starfsleyfi sínu eða auknum starfsheimildum á árunum 2002-2010.

b.      Verið hafnað breytingu á starfsleyfi sínu í framhaldi beiðnar um slíkt vegna nýrrar starfsemi?

Svar:  Vísast til svars Fjármálaeftirlitsins við a-lið fjórðu fyrirspurnar yðar.

Einnig var óskað afrita af öllum upplýsingum sem SP-Fjármögnun hf. sendi FME á árunum 2001-2008 til að útlista hvaða starfsemi fyrirtækið stundaði á nefndu árabili.  

Á árabilinu 2003-2006 sendi SP-Fjármögnun hf. 5 tilkynningar til Fjármálaeftirlitsins um starfsleyfiskylda starfsemi sína.  Aðrar tilkynningar um starfsemina voru ekki sendar Fjármálaeftirlitinu.  Við skoðun þeirra gagna sést að SP-Fjármögnun hf . tilkynnti Fjármálaeftirlitinu ekki að það stundaði viðskipti fyrir eigin reikning með erlendan gjaldeyri, framvirka samninga eða gengisbundin bréf.  Þó sýna ársreikningar félagsins skýrt að félagið stundaði viðskipti með erlendan gjaldeyri og framvirka gjaldmiðlasamninga í stórum stíl.  Eins og við vitum var helsta afurð fyrirtækisins gengistryggðir lánasamningar sem í mínum huga eru ekkert annað en gengisbundin viðskiptabréf.  Undir tilkynningarnar skrifar Pétur Gunnarsson, bróðir Kjartans Georgs Gunnarssonar framkvæmdastjóra. 

Í viðurlagakafla laga nr. 161/2002 segir í 110. gr. um stjórnvaldssektir:

Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn:

1. 3. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis,

2. 8. gr. um tilkynningar um breytingar á áður skráðum upplýsingum um fjármálafyrirtæki,......

Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar.

Þá segir í 112. gr. b. Sektir eða fangelsi:

„Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum:

1.  3. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis,"

Ég hef í kjölfar ofangreindrar fyrirspurnar sent Fjármálaeftirlitinu eftirfarandi spurningu: 

„Þar sem fjármálafyrirtækjum var gert skylt frá 1.janúar 2003, með setningu laga nr. 161/2002, að tilkynna FME ef það ætlaði að hefja nýja starfsemi, og SP-Fjármögnun hf. hefur ekki tilkynnt Fjármálaeftirlitinu að það stundi viðskipti með ofangreindar fjármálaafurðir, má þá ekki líta svo á að SP-Fjármögnun hf. hafi gerst brotlegt við bráðabirgðaákvæði I með því að stunda starfsemi sbr. 7. lið b-d, sem það:

      a. segist ekki stunda sbr. afrit af eyðublöðum 2 þar að lútandi, og

      b. hóf að stunda eða stundaði án lögbundinnar tilkynningar til FME?

Ég vænti þess að nokkur tími líði þar til Fjármálaeftirlitið svari þessari spurningu efnislega en ég mun greina frá svarinu hér á blogginu þegar það berst.


mbl.is SP-Fjármögnun braut lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#43. Bankastjórar með öruggt skjól í Bretlandi

Bretland er greinilega öruggt skjól fyrir bankastjóra með slæma samvisku.
mbl.is Bankastjóri snýr aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#41. Betur má ef duga skal....

Á Íslandi eru 8 vegjarðgöng og fjölgar brátt um 2, Bolungarvíkurgöng og Héðinsfjarðargöng.  Við hönnun Hvalfjarðarganga var stuðst við norska og breska staðla.  Árið 2008 gerði félag breska bifreiðaeigenda athugun á 31 göngum í Evrópu, þar af 3 norskum göngum byggðum á árunum 1980-1989.  Norsku göngin fengu öll falleinkunn, á meðan austurísk og svissnesk göng fengu almennt mjög góða einkunn.  Könnunina má finna hér.

Við gerð Hvalfjarðarganga voru, að mínu mati, gerð mikil mistök með að hafa ekki aukaakrein, svokallaða klifurrein, upp úr göngunum að sunnanverðu eins og að norðanverðu ætlaða flutningabílum og hægfara farartækjum.  40 tonna flutningabíll fer einungis u.þ.b. 5-10 km hraðar upp úr göngunum að sunnanverðu heldur en norðanmegin.  Mesti hraði þessara bíla á leið upp að sunnanverði er ca. 35-40 km.  Þetta fer þó aðeins eftir vélarstærð en að að öllu jöfnu er þetta nokkuð nærri lagi.  Ég þekki þetta af eigin reynslu eftir akstur flutningabíla þarna í gegn og eftir að hafa ekið á eftir flutningabílum í gegnum göngin.

Varðandi viðbragstíma slökkviliðs og vegalengd til slökkvistöðva má hafa í huga að slökkviliðið á Akranesi er sjálfboðaslökkvilið á meðan slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er atvinnuslökkvilið og er líklega miðað við það við úrvinnslu gagna.  Hitt ber að hafa í huga að í göngunum er ríkjandi vindátt frá norðri til suðurs, vegna hita bergsins sem aftur hitar loftið, sem stígur svo til suðurs.  Líklega hefur einnig að segja að göngin eru einungis með 2 akreinar að sunnanverðu en 3 að norðanverðu þannig að einskonar hárpípueffect leiða til náttúrulegs trekks í gegnum þau til suðurs.  Þannig að þó að slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kæmist fyrr á vettvang kæmust þeir ekki niður í göngin vegna reyks sem leggur á móti þeim eins og æfingar hafa sýnt.  Sjá viðbragðsáætlun Almannavarna hér.

Að síðustu kemur ekki fram í fréttinni hversu mörg göng af þeim sem voru könnuð voru af ADAC liggja undir sjó eða liggja eins djúpt og Hvalfjarðargöngin gera.  Lægsti punktur þeirra er 165 metra undir sjávarmáli og eru þau hvergi lárrétt.  Einnig kemur ekki fram í niðurstöðunum hversu löng hin göngin eru.  Komi upp eldur í göngunum getur reykur fyllt þau, þannig að erfitt er að komast út á bílum eða snúa þeim við, ef vélar þeirra þá ganga, hvað þá á tveim jafnfljótum.  Þurfa Hvalfjarðargöng þar með hugsanlega enn strangari öryggiskröfur en göng í stórborgum Evrópu?  Væri eðlilegt að hafa rafmagnsbíl til reiðu við göngin til að nota við björgun fólks?


mbl.is Unnið að því að bæta öryggið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#40. Mikið óvissutímabil framundan........

Nú hefst óvissutímabil þar til Hæstiréttur hefur kveðið upp úr hvort þessi dómur standi óhaggaður. Þar til þessari óvissu hefur verið eytt er ekki hægt að hlíta þessum dómi frekar en öðrum sem óvissa hefur ríkt um. Endanleg niðurstaða þarf að fást, til að eyða óvissunni, áður en áfram er haldið.

Hvorki Lýsing né SP-Fjármögnun hf., eða aðrir aðilar, geta innheimt gengistryggða bílasamninga út frá þessum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Til þess er óvissan alltof mikil og óvissa er vafi. Vafa á að túlka neytendum í hag. Línur hafa því síður en svo skýrst í þessari óvissustöðu eins og Kjartan heldur þó fram. En Kjartan er nú vanur að haga seglum eftir vindi í óvissunni við innheimtu lánasamninga SP-Fjármögnunar. Hann gerir ekki neina breytingu á því nú hvað þessa óvissu varðar.


mbl.is SP fagnar niðurstöðu héraðsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#39. Hæstiréttur á næsta leik!

Þá er dómur fallinn. Samningsvextir standa ekki óhaggaðir. Nú hef ég ekki lesið dóminn þegar þetta er ritað, en miðað við fréttina virðist dómarinn ekki taka tillit til 36.gr.c. samningalaga þar sem segir að eigi skuli taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag. Einnig tekur hann ekki tillit til 14.gr. laga um neytendalán þar sem segir að: "Lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar." Innheimta vaxtastigs sem gefur hærra árlegt hlutfall kostnaðar er því óheimilit.

Ég ætla að bíða með frekari lögskýrirngar þar til ég hef lesið dóminn sem væntanlega birtist á vef Héraðsdóms síðar í dag.


mbl.is Samningsvextir standa ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#38. Hvað gerir dómarinn?

Ég tel næsta öruggt að dómarinn verði við kröfu Lýsingar og setji á verðtryggingu og verðtryggða vexti.

Ástæða: Dómarinn heitir Arnfríður Einarsdóttir og er eiginkona Brynjars Níelssonar formanns Lögmannafélagsins. Brynjar hefur sagt á vef RÚV að lántakendur gengistryggðra lána hafi í raun og veru samið um verðtryggingu og þó sú verðtrygging hafi verið dæmd ólögleg þá útiloki það ekki aðra verðtryggingu á lánunum. Hvað skildi hafa verið rætt yfir borðum á þeirra heimili?

Önnur ástæða er sú að Brynjar þessi er samstarfsaðili Sigurmars K. Albertssonar, lögmanns Lýsingar í málinu. Engu að síður töldu dómsstjóri og Arnfríður sjálf, hana hæfa til að dæma í málinu. Siðleysið við þetta er algjört, að metnaður Héraðsdóms skuli ekki vera meiri að bjóða upp á að hæfi dómara sé hafið yfir allan vafa í svona miklu réttlætismáli.

Ég sé þó eina smá ljósstýru i myrkrinu sem gæti gefið aðra niðurstöðu. Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, sagði í viðtali við DV að óhjákvæmilegt væri að líta til vilja löggjafans við túlkun vaxtalaganna og niðurstaðan væri því að grundvöllur verðtryggingar samkvæmt ákvæðum um samninga um gengistryggingu væri í andstöðu við lög. Hann telur því ekki heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar, en Jón þessi dæmdi svo í máli NBI gegn Þráni ehf. þ. 30. apríl sl. Hvert fordæmisgildi þessa dóms er veit ég ekki enda leggur lögmaður Lýsingar upp með forsendubrest í þessu máli. Forsendubrest sem Lýsing hefur fram til þessa hafnað að hafi átt sér stað.

Einnig segir í samningalögum að samningur skuli gilda ef neytandi krefst þess. Nú veit ég ekki hver krafa málsaðila fyrir dómi var en þessi 2 síðastnefndu atriði gætu gefið aðra niðurstöðu en ég lagði af stað með í upphafi. Þó leyfi ég mér að efast að svo verði.


mbl.is Öruggt að dómi verði áfrýjað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband