Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
#21. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 16. hluti.
30.4.2010 | 21:57
Þá eigum við aðeins eftir 3 greinar af þeim 19 sem mynda almenna samningsskilmála bílasamnings SP-Fjármögnunar hf.
17.gr. fjallar um lok samningstímans og að greiðsla umsamins lokaverðs taki breytingum skv. 2.gr., sem sagt lokaverðið er gengistryggt líka.
18.gr. tilgreinir varnarþing vegna ágreinings vera í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Og að síðustu, 19.gr. segir SP-Fjármögnun hf. hafa heimild til að framselja samning að hluta eða öllu leyti, en leigutaki hefur ekki slíkan rétt nema með samþykki SP-Fjármögnunar hf. Eftir því sem ég kemst næst er það almennt svo í íslenskum rétti að svona sé réttur kröfuhafa og því ekkert yfir því að kvarta.
Að síðustu er ónúmeraður feitletraður texti þar sem með undirritun staðfesti leigutaki að hann sé samþykkur ofangreindum greinum, sem sumar eru tilgreindar sérstaklega, og hafi engar athugasemdir við ákvæðin. (Hér ber að hafa í huga að allir staðlaðir samningsskilmálar sem settir eru einhliða fram af öðrum aðila fyrirfram, og valda umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna samningsaðila samkvæmt samningnum, neytanda til tjóns, teljast óréttmætir skv. 1.tl. 3. gr. tilskipunar Evrópusambandsins, nr. 13/93/EBE um neytendavernd. Krækja á afrit tilskipunarinnar er að finna undir Tenglar>Skjöl hægra megin á síðunni. Um undirbúning og gerð samnings sá löggiltur bílasali og aldrei í því ferli átti ég samskipti við starfsmann SP-Fjármögnunar hf. til að semja sérstaklega um samningsskilmálana. Er/var þetta algengt fyrirkomulag við gerð slíkra samninga um bílaviðskipti.)
Þá er loks minnst á að leigutaki gefi SP-Fjármögnun heimild til að tilkynna Lánstrausti hf. um öll vanskil sem tengjast samningnum og til að spyrjast fyrir um bankaviðskipti hans í skuldastöðukerfi Lánstrausts hf. Allt venjulegir skilmálar frá kröfuhafa við samningsgerð að því ég best veit.
Afrit af þessum skilmálum sem hér hefur verið fjallað um, er að finna undir Tenglar>Skjöl hér til hliðar. Því miður er afritið óskýrt en ef ég kemst yfir betra eintak mun ég reyna skipta því út.
Með þessari færslu lýkur umfjöllun minni um almenna samningsskilmála bílasamnings SP-Fjármögnunar hf. Tekið skal fram að þessir skilmálar sem fjallað hefur verið um, fylgja lánssamningi með höfuðstól gengistryggðum í myntkörfunni BL2, myntkörfu, sem hefur ekkert auglýst gengi á vefsíðu SP-Fjármögnunar hf. og hefur aldrei haft að mér skilst. Þetta þýðir þó ekki að ég sé endilega hættur að ræða lánastarfsemi SP-Fjármögnunar hf. Það leynist ýmislegt þar sem hefur vakið fleiri spurningar en svör.
Að gefnu tilefni ber að geta, að SP-Fjármögnun hf. hefur ítrekað neitað að svara efnislega fyrirspurnum mínum sendum í tölvupósti, eða bréflega, enda sé það stefna fyrirtækisins að gera slíkt ekki á þeim vettvangi. Framkvæmdastjóri þess hefur ekki svarað fyrirspurnum mínum settum fram í lok mars sl., um hvort sú stefna sé mörkuð af stjórn eða honum. Þetta hefur valdið því, að allt sem ég hef að undanförnu sagt um almenna samningsskilmála bílasamnings míns, eru einhliða hugleiðingar mínar um efnið eftir þeim gögnum sem ég hef aflað mér, og ályktunum dregnum af þeim athugunum. Mér hefur ekki gefist kostur á að meta efnisleg rök SP-Fjármögnunar hf. þar sem fyrirtækið lætur þau ekki frá sér. Ég hvet alla sem hafa eitthvað við efni þessara hugleiðinga að athuga að setja inn athugasemdir við færslurnar. Öðruvísi get ég ekki leiðrétt ef ég fer með rangt mál. Það er ekki vani minn eða ásetningur að rægja fólk eða lögaðila. Ég er einfaldlega leikmaður, ólöglærður, og reyni að byggja málflutning á staðreyndum eins og þær blasa við mér, en blöskrar hins vegar framganga fjármögnunarfyrirtækjanna vegna bílalánasamninga, og máttleysi stjórnvalda og eftirlitsaðila til að stemma stigu við henni. Því miður eru dæmi um að einstaklingur hafi tekið eigið líf vegna framgöngunnar, en það virðist ekki hægja á innheimtuaðgerðum eða aukið virðingu fyrir neytendarétti. Hvað eiga margir að þurfa um sárt að binda áður en að stjórnendur fyrirtækjanna eru stöðvaðir?? Munum það, að þó fyrirtækin loki leita stjórnendur þess á ný mið, hugsanlega innan fjármálageirans. Ef þeim er ekki sýnt hvernig á að koma fram við neytendur verður engin breyting á þó núverandi fyrirtæki loki.
Það starfsfólk SP-Fjármögnunar hf., sem ég hef rætt við hefur flest verið kurteist í viðmóti og tilbúið að hlusta á mínar röksemdir. Heimildir þess takmarkast þó að einhverju leyti af framsettri stefnu fyrirtækisins og við erum sammála um að vera ósammála. Það er þó mín skoðun að starfsfólkið sé ekki undanskilið gagnrýnni hugsun á starfsemi vinnuveitanda síns.
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt 16.9.2010 kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#20. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 15. hluti.
29.4.2010 | 18:31
16. gr. fjallar um uppgjör. Þar segir: „Sé samningi þessum rift af hálfu SP á grundvelli 14. gr eða honum með öðrum hætti slitið á lánstímanum ber leigutaka að standa SP skil á eftirfarandi greiðslum:
1. Greiðslum skv. 2. gr. sem fallnar eru í gjalddaga, ásamt dráttarvöxtum til greiðsludags skv. 3.gr.
2. Ógjaldföllnum höfuðstól ásamt sérstöku uppgreiðslugjaldi skv. gjaldskrá SP sem er 0% - 3% m.v. eftirstöðvatíma samningsins við samningsslit." Innheimta uppgreiðslugjalds er ólögleg skv, a-lið 16. gr. nr 121/1994: „Lánveitanda er óheimilt að krefjast greiðslu uppgreiðslugjalds af láni í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum sem greitt er upp fyrir þann tíma sem umsaminn er, ef upphaflegur höfuðstóll lánsins er að jafnvirði 50 millj. kr. eða minna.
Lánveitandi getur ekki krafist uppgreiðslugjalds ef ástæða uppgreiðslu er gjaldfelling láns af hans hálfu." Til viðbótar ber leigutaka að greiða lokagreiðslu í lok samningstíma sem til greind er í III.lið svo reiknaðri sem segir í 2.gr. Ekki fæst annað séð en hér sé um óréttmætan samningsskilmála sem halli verulega á neytanda. Neytanda er gert að greiða samning að fullu við riftun af hálfu SP, en SP tekur leigumun engu að síður í sína vörslu á verði sem þeir meta sjálfir, neytandi hefur engin tækifæri til að meta hvort SP lætur gera við bílinn áður en hann fer á markað að nýju. Þetta kallast einfaldlega að selja kökuna og eiga hana til að selja hana öðrum.
„3. Kostnaði skv. 15.gr, að viðbættum öllum útgjöldum sem SP hefur orðið fyrir vegna samnings þessa samkvæmt öðrum ákvæðum hans, s.s. kostnaðar vegna innheimtuaðgerða, tryggingargjalda, bifreiðagjalda, þungaskatts, sektargreiðslna, bóta til þriðja aðila, matskostnaðar o.fl."
„4. Dráttarvöxtum af greiðslum skv, 2. og 3. tl. hér að framan frá og með þeim degi er tilkynningu um riftun var komið til leigutaka eða samningnum var með öðrum hætti slitið." Þarf ekki að slíta samningum með ábyrgðarbréfi?
„5. Bótum fyrir það tjón sem SP kann að verða fyrir vegna þessa að samningnum er sagt upp eða honum rift fyrir lok samningstíma. Segi SP samninngum upp á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 14. gr. á SP þó ekki rétt á bótum samkvæmt þessum tölulið. Frá kröfu SP skv. 1. - 5. tl. skal, þegar skil bifreiðar hefur átt sér stað skv. 15. gr, krefjist SP skila á bifreiðinni, draga verðmæti bifreiðarinnar eins og það reynist vera samkvæmt efirfarandi reglu: Ástandsskoðun er gerð á bifreið þar sem metinn viðgerðarkostnaður hennar og annar kostnaður, sem fellur til vegna bifreiðar fram að fullnaðaruppgjöri, s.s. bifreiðagjöld, tryggingariðgjöld, flutningur og sektir, er lagður ofan á heildarskuld samningsins. Uppítökuverð sambærilegrar bifreiðar í eðlilegu ástandi er fengið úr viðurkenndu verðmatskerfi Bílgreinasambandsins, af þeirri upphæð er tekinn 15% áætlaður kostnaður fram að sölu bifreiðar, eftirstöðvar uppítökuverðs eru svo dregnar frá heildarskuld samningsins." Hvað liggur hér að baki???! Af hverju uppítökuverð??? Af hverju er tekinn 15% áætlaður kostnaður? Hvernig er þessi tala fundin út og hvað felur hún í sér? Ekkert af þessu er skýrt frekar og má hugsanlega túlka þetta sem óréttmætan samningsskilmála! „Hafi leigutaki ekki mótmælt ofangeindu mati eða uppgjöri skriflega innan 7 daga frá því matið var sannanlega sent til hans, á uppgefið heimilisfang, skal litið á það sem samþykkt." Hvað ef dráttur verður á afhendingu matsins eða lántaki er sannanlega fjarri heimili sínu, t.d. í fríi eða vinnuferð? „Ef mótmæli berast er SP heimilt að láta selja bifreiðina á uppboði hjá sýslumanninum í Reykjavík í óbreyttu ástandi frá skilum hennar. Sem sagt það á ekki að ræða málið frekar til að komast að samkomulagi eða ásættanlegri niðurstöðu beggja aðila. Það er bara ein leið, sú sem SP ákveður að fara.
SP er heimilt að verja því andvirði leigumunar sem eftir kann að standa við riftun, þegar greiðslum skv. 1 - 5. tl. í 1. mgr er fullnægt, til að greiða niður vanskil og eftirstöðvar annarra samninga milli SP og leigutaka.
Ef skaðabætur eða viðgerðarkostnaður falla á SP, sem leigutaki vissi eða mátti vita um en sagði ekki frá við skil eða sölu bifreiðarinnar, öðlast SP endurkröfurétt á hendur leigutaka ásamt öllum kostnaði sem af hlýst þar með talinn lögfræði- og málskostnaður. Sama gildir ef kröfur sem greiðast eiga af leigutaka skv. samningi þessum koma fram eftir að honum lýkur eða uppgjör hefur farið fram þar með talin vátryggingariðgjöld, bifreiðagjöld og þungaskattur." Er eðlilegt að hægt sé að rukka leigutaka um frekari kostnað eftir að uppgjör hefur farið fram? Enn og aftur óréttmætur samningsskilmáli að mínu mati!
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
#19. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 14. hluti.
27.4.2010 | 18:43
Við erum langt komin með yfirferð á almennum samningsskilmálum SP-Fjármögnunar hf.
15. gr. fjallar um afhendingu hins leigða við riftun. Þar segir 1.mgr. að ef samningi sé rift skuli afhenda bifreiðina á stað sem SP tiltekur. Leigutaki skal standa straum af útgjöldum vegna flutnings, þ.m.t. vátryggingu, sem og kostnaðar við að þrífa, yfirfara, viðgerðir vegna bilana og skemmda á bifreiðinni. „Leigutaki ber ábyrgð ef bifreið eyðileggst af tilviljun, skemmist eða rýrnar uns SP hefur tekið við henni." Síðasta málsgreinin er enn einn óréttmæti samningsskilmálinn: „Neiti leigutaki að afhenda bifreiðina eftir riftun er SP, eða öðrum aðila sem SP vísar til, heimilt að færa bifreiðina úr vörslum hans án atbeina sýslumanns." Ekki er hægt að gera kröfu til þess leigutaki semji frá sér lögvarinn réttindi. Slíkt framferði er óréttmætt og gagnstætt góðri viðskiptavenju og ekki síst, brot á lögum um aðför.
Aðför er skv. orðabókarskilgreiningu: lögleg valdbeiting til að knýja fram tildæmdan rétt (fjárnám, innsetningargerð eða útburðargerð). Hana má gera til fullnustu kröfum samkvæmt heimildum 1. gr. laga um aðför. Í 4. gr. laganna segir: „Með aðfarargerðir fara sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra." 5.gr. segir: „Aðför má gera eftir dómi eða úrskurði, þegar liðnir eru fimmtán dagar frá uppkvaðningu hans, ef annar aðfararfrestur er ekki tiltekinn. Aðför má gera eftir [stefnu],1) þegar hún hefur verið árituð af dómara um aðfararhæfi." Þannig er fyrirmælt að ekki má taka bifreið án fyrirvara. Lög um nauðungarsölu krefjast einnig leyfis sýslumanns ef vörslutaka eignar eigi að fara fram.
Talsmaður neytenda gerir þetta atriði að umtalsefni í pistli á heimasíðu sinni. Hann segir um vörslusviptingar án dóms og laga: „Af þessu tilefni vekur talsmaður neytenda einnig athygli á því að ekki stenst lög um fullnusturéttarfar [innsk: lög um aðför] að eignarleigufyrirtæki svipti neytendur vörslum bifreiða án þess að sýslumaður veiti atbeina sinn að slíkri vörslusviptingu.
Hefur talsmaður neytenda undanfarið ráðfært sig við aðra lögfróða um þetta álitaefni. Telja verður í ljósi fræðilegrar umfjöllunar og lögskýringargagna - m.a. að því er varðar lög um neytendalán - að vörslusviptingar af hálfu eignarleigufyrirtækja án atbeina sýslumanns standist ekki. Er sú afstaða einkum byggð á því að í fullnusturéttarfari er talið að beina lagaheimild þurfi til svonefndrar aðfarar án undangengins dóms; enn síður ætti að vera hægt að framkvæma ígildi aðfarar með vörslusviptingu án þess að sýslumaður - sem handhafi opinbers valds - veiti atbeina sinn að því. [innsk: leturbreyting er mín] Slíka aðför er enda lögum samkvæmt unnt að bera undir dómara. Er neytendum, sem verða fyrir slíkum vörslusviptingum „án dóms og laga" eða búast við slíku, ráðlagt að leita aðstoðar lögmanns eða jafnvel lögreglu - einkum í ljósi þeirrar óvissu sem er um réttmæti krafna samkvæmt framangreindu og í ljósi réttaróvissu sem er um lögmæti gengislána eins og áður hefur komið fram."
Hér er ennfremur vert að hafa í huga að ofangreind "heimild SP" tekur ekki til persónumuna leigutaka sem kunna að vera inn í bifreiðinni þegar vörslusvipting fer fram! Þar með er hægt að kæra hvern þann sem að slíkri vörslusviptingu stendur fyrir þjófnað á slíkum persónumunum.
SP reynir sjálfsagt að halda því fram að þar sem þeir séu eigandi sé þeim heimilt að ná í eigur sínar en samkvæmt samningi er leigutaki umráðamaður bifreiðarinnar á samningstíma.
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
#18. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 13. hluti.
26.4.2010 | 21:16
Áfram höldum við í skoðun almennra samningskilmála bílasamnings SP.
12.gr. fjallar um breyttar aðstæður leigutaka fyrst og fremst tilkynningaskyldu þar að lútandi og ekki ástæða til að fjölyrða um það hér.
Sama gildir um 13.gr. sem fjallar um óbeint tjón. Þó skal nefnt að vísað er til óbeins eða afleidds tjóns á ráðgerðum sparnaði í greininni og að SP beri ekki ábyrgð á slíku tjóni. Framgangur SP við innheimtu ranglega myndaðara greiðsluseðla, s.s. of hárra upphæða vegna gengistryggingar og gjaldfellingu er ekki óbeint tjón, en hugsanlega má líta það sem beint tjón á ráðgerðum sparnaði þar sem slíkt fé hefði mátt nýta í reglulega sparnað frekar en greiðslu af lánssamningi.
Þá komum við að 14.gr. Riftun.
Þessi grein tilgreinir í 6 liðum ástæður sem SP getur notað til einhliða riftunar án fyrirvara:
Þar er fyrst: „1. Leigutaki innir ekki af hendi tilskildar greiðslur samkvæmt samningi á umsömdum gjalddögum og vanskil eru orðin 45 daga gömul." Tilskildar greiðslur samkvæmt samningi tel ég vera þá greiðslu sem tilskilin er í II.lið á framhlið samningsins og nefnd er ásamt innheimtukostnaði, (gjaldi vegna skuldfærslu eða heimsends greiðsluseðils) í greiðsluáætlun. Greiði leigutakar slíka greiðslu mánaðarlega, sé ég ekki að SP eigi rétt á riftun þó ekki sé greiddur heimsendur greiðsluseðill, þar sem hann er ranglega myndaður miðað við ólögmæta gengistryggingu. Að mínu mati er mikilvægt að mótmæla öllum slíkum greiðsluseðlum skriflega, svo fljótt sem auðið er, og þess í stað millifæra greiðslur inn á reikning fyrirtækisins, og jafnframt senda afrit í tölvupósti til þess og á eigið tölvupóstfang. Mikilvægt er að hafa öll samskipti skrifleg og halda vel utan um slík samskipti á pappír ef um rafræn samskipti er að ræða. Það skal tekið fram að ekki eru allir sammála þessari aðferð þar sem fullyrt er að SP fari á hausinn um leið og gengistrygging lána verður dæmd ólögmæt í Hæstarétti, og þar með muni lántakendur tapa ofgreiddum leigugreiðslum. En við gjaldþrot SP myndast væntanlega þrotabú og skiptastjóri þess mun væntanlega reyna innheimta kröfur í eigu þrotabússins eða selja þær. Þá er mikilvægt að hafa forsöguna á hreinu. Einnig er brýnt að mótmæla innheimtuviðvörunum skriflega í bréfi eða tölvupósti. Það er mín skoðun að rangt sé af viðskiptamönnum SP að hætta einhliða að borga, þó að ágreiningur sé við fyrirtækið um lögmæti gengistryggingar, heldur eigi að halda sig við umsamda og undirritaða greiðsluáætlun, sé þess nokkur kostur!
Annar liður segir: „2. Leigutaki vanefnir ákvæði samningsins að öðru leyti, t.d. greiðir ekki sektir, skatta, eða vátrygingar sem honum ber, og sinnir ekki áskorun SP um greiðslu eða úrbætur innan 7 daga frá því áskorun þar að lútandi er send til leigutaka." Um þennan lið er ekki mikið að segja annað en það sem í honum stendur.
Þá er næst þriðji liður: „3. SP er óheimilt eða gert illmögulegt af hálfu hins opinbera að standa við samning þennan eða ef á SP leggjast verulegar kvaðir, af hálfu sömu aðila." Hvað þýðir þetta? Hvaða atriði myndu teljast til slíkra aðstæðna? Mun staðfesting Hæstaréttar á ólögmæti gengistryggingar vera slíkt atriði?
Fjórði liður: „4. Bú leigutaka er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga við skuldheimtumenn sína eða ef fjárhagsstaða leigutaka versnar frá undirritun samnings þessa þannig að fyrirsjáanlegt sé að hann geti ekki staðið í skilum við SP." Hver á að meta hvort fjárhagsstaða leigutaka sé þannig sem að ofan er greint? Má SP meta það einhliða og rifta samningi sé það mat þess? Hvaða gögn á að leggja til grundvallar slíkri ákvörðun? Þessi skilmáli er mjög líklega óréttmætur þar sem ekki er skýrt hver eða með hvaða hætti eigi að meta fjárhagsstöðu leigutaka.
Lítið er um um 5. og 6.lið að segja en þar segir í fimmta lið: „5. Leigutaki vanrækir eðlilegt viðhald bifreiðar eða verður uppvís að illri meðferð hennar." Og í sjötta lið: „Leigutaki flytur bifreiðina úr landi." Verður að telja slíka skilmála eðlilega kröfu á hendur lántaka til verndar eðlilegum hagsmunum SP.
Að síðustu segir einfaldlega um riftunarrétt lántaka: „Um heimild leigutaka til að rifta samningi þessum gilda almennar reglur íslensks réttar." Slíkar reglur eru ekki útlistaðar sérstaklega eftir því sem ég kemst næst, en slíkar heimildir tengjast yfirleitt einhvers konar vanefndum eða svikum samningsaðila, hér leigusalans SP, og verður þá að meta aðstæður hverju sinni.
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt 28.4.2010 kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#17. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 12. hluti.
25.4.2010 | 11:20
Við erum rétt hálfnuð í yfirferð okkar um almenna skilmála bílasamnings SP-Fjármögnunar hf.
9.gr. fjallar um meðferð bifreiðar. Þar er í raun ekkert athugavert að sjá sem mætti teljast óeðlileg krafa. En stöldrum þó aðeins við 6.mgr. Þar segir: „Honum [s.s. leigutaka] ber að fylgja öllum fyrirmælum stjórnvalda og öðrum þeim reglum sem gilda um bifreiðar og notkun þeirra á hverjum tíma." Þessi skilmáli er grátbroslegur þegar litið er til framkomu og hegðunar SP-Fjármögnunar í garð neytenda og viðskiptamanna sinna við umsýslu bílalána. Gengistrygging, stjórnarskrárbrot, óhóflegur viðgerðarkostnaður, óréttmætir viðskiptahættir, efnislegri umræðu hafnað, erindum ekki svarað, o.s.frv., o.s.frv., svo dæmi séu tekin. Allt hugtök sem viðskiptavinir þess þekkja af biturri reynslu en eiga engu að síður að vera varin fyrir í lögum, sem SP-Fjármögnun hf. ber að fara eftir og fylgja án þess að stjórnvöld standi yfir þeim á degi hverjum og leiðbeini um framkvæmd hverrar athafnar fyrirtækisins fyrir sig. En þeir hafa þennan rétt neytenda að engu.
10. gr. tekur til tjóns á bifreiðinni. Allt tjón skal bæta á meðan lántaki hefur bifreið í vörslu sinni og skal tilkynna SP slíkt tjón. En í 2.mgr. segir: „Undanþegið er þó eðlilegt slit á bifreiðinni." Hvað skyldi mikið af metnum viðgerðum á vörslusviptum bifreiðum hafa í raun verið eðlilegt slit, en engu að síður innheimt sem viðgerðarkostnaður? Hér er umfjöllun um stúlku sem átti í viðskiptum við Avant, fór með bílinn í lögbundna skoðun, fékk engar athugasemdir, en mánuði síðar var bíllin tekinn og mat Aðalskoðunar var að skipta þurfi um eða gera skuli við rúðuupphalara, útvarp, stöðuljós, númersljós, stýrisenda, stýrisvél, hjólbarða, höggdeyfa, hemlarör, klossa og tímareim auk þess sem bíllinn þarfnist þrifa og smurningar. Þá þurfi að sprauta bílinn fyrir liðlega 230 þúsund krónur. Allt sem að ofan er nefnt getur vel verið dæmi um eðlilegt slit á 12-13 ára gömlum bíl eins og tilfellið er hér. Ég hef ekki skoðað samningsskilmála Avant en ef þetta væri SP, væri þetta óhóflegt og gengi gegn hagsmunum neytenda. Ekki verður séð að önnur rök ættu að gilda um Avant í þessu sambandi.
Viðskiptavinir SP-Fjármögnunar (og eftir atvikum annarra eignaleigufyrirtækja) eiga ekki að borga fyrir eðlilegt slit! Allir sem í því hafa lent ættu að íhuga að sækja til baka innheimtan viðgerðarkostnað fyrir endurheimtan/vörslusviptan leigumun, sýnist þeim sem frekar sé um eðlilegt slit að ræða en tjón!! Slíkan kostnað á SP að endurgreiða lántaka með vöxtum!! Mjög líklega myndi málskostnaður vegna slíks máls falla á eignaleigufyrirtækið!
11.gr. tekur á vátryggingum og skaðabótaábyrgð, lántaki skal tryggja bifreiðina skv. því sem þar er fyrirmælt og vera ábyrgur fyrir tjóni sem notkun bifreiðar getur valdið með beinum eða óbeinum hætti. 4.mgr. segir að ef lántaki [tryggi] ekki sé SP heimilt, en þó ekki skylt, að greiða vátrygginguna fyrir hönd leigutaka, og endurkrefja hann um kostnað sem af þessu hlýst auk álags skv. gjaldskrá SP eins og hún er hverju sinni. Hér skal haft í huga að í nýlegu dómsmáli sem SP höfðaði gegn viðskiptamanni, féll SP frá kröfu vegna tryggingar frá Sjóvá, vörslusviptingarkostnaðar, viðgerðarkostnaðar, stöðumælasektar og mats á viðgerðarkostnaði. Nam lækkun krafna 747.049 krónum og munar um minna. Þessu máli var vísað frá Héraðsdómi og var frávísunin síðar staðfest í Hæstarétti, eftir áfrýjun SP. Málsnúmer er E-4577/2009 og var málinu vísað frá Héraðsdómi þ. 9. mars 2010 og má finna dómsorð hér. Umfjöllun um rétt neytenda þessu máli tengdu má finna á vef Talsmanns neytenda, hér.
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#16. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 11. hluti.
22.4.2010 | 15:27
Undanfarnar færslur hafa fjallað um almenna samningsskilmála bílasamnings SP-Fjármögnunar. Höldum nú áfram þar sem frá var horfið í síðustu færslu. Í lok hennar minntist ég á stjórnarskrárbrot. Hvað á ég við?
8.gr. fjallar um afnot og fleira, en í 2.mgr. segir eftirfarandi: „SP, eða þeir sem SP tilnefnir, á að hafa óskoraðan aðgang að starfstöð leigutaka, heimili eða starfssvæði til að skoða bifreiðina." Hvað er átt við með óskoraðan aðgang?
Orðið óskoraður er skilgreint svo í tölvutækri orðabók á snara.is: ó|skoraður L: algjör, óbifanlegur, skilyrðislaus, óskertur; [Dæmi:] full og óskoruð yfirráð. Er eðlilegt að fyrirtæki sem bíður upp á neytendalán setji slíkan samningskilmála í samning við neytendur? Fyrirtæki sem á að hafa sérþekkingu á fjármálaviðskiptum, og hefur lögfræðinga í sinni þjónustu eða starfsliði! Hvaða hagsmunir kalla á það að hafa óskoraðan aðgang að starfstöð, leigutaka, heimili hans eða starfssvæði? Væri ekki eðlilegra að það gæti óskað eftir slíkum aðgangi í samráði við leigutaka, og takmarkað þá ósk við aðgang að því svæði eða húsnæði, þar sem bifreðin er geymd, s.s. bílskúr, bílskýli, almennri bílageymslu o.s.frv.? Hvað með starfssvæði? Getur leigutaki leyft aðgang að starfssvæði sínu án heimildar atvinnurekanda síns??? Getur SP gengið að leigumun í lokaðri, aðgangstýrðri bílageymslu atvinnurekanda leigutaka? Dæmi eru um að svo hafi verið gert. Má vaða inn í lokaðar bílageymslur fólks að næturlagi í þessum tilgangi, eins og gefið er í skyn með ákvæðinu um „óskoraðan aðgang"?
Í 13. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu segir: „Óheimilt er að hafast nokkuð það að sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eins og þeir eru tíðkaðir eða eitthvað það sem óhæfilegt er gagnvart hagsmunum neytenda."
Að mínu mati, stenst ofangreint ákvæði bílasamnings ekki stjórnarskrárbundinn rétt einstaklinga um friðhelgi heimilis og einkalífs, sem og persónuvernd, þar sem samningsskilmálinn er settur fram einhliða í stöðluðum samningsskilmálum. En þó að samið væri sérstaklega um þetta ákvæði í samningi aðila í millum, er það óréttmætur samningsskilmáli engu að síður, því þar er gróflega gengið gegn 71. gr stjórnarskrár sem stendur svo:
„71. gr. [Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.
Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.]"
Það að eiga gefa öðrum aðila óskoraðan aðgang að heimili sínu með samningi er gróf skerðing á einkalífi manns. Ekki einu sinni stjórnvöld mega koma inn á heimili manns nema með samþykki hans eða dómsúrskurði. Það er því klárlega óhæfilegt að ganga svo gegn hagsmunum neytanda, við samningsgerð með stöðluðum einhliða samningsskilmálum, að þeim beri að semja frá sér stjórnarskrárbundinn réttindi!
Neytendastofa verður að víkja svona samningsskilmála hið fyrsta.
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#15. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar – 10. hluti.
21.4.2010 | 19:28
Lánssamningar frá atvinnurekanda til neytenda eru neytendalán, eins og segir í 1. gr. laga um neytendalán, á skýru og skiljanlegu máli eins og skrifa á samninga á: „Lög þessi taka til lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur.”
Í d-lið 2.gr. laganna er tekið fram að eignarleigusamningar eru ekki undanskildir lögunum með þessum orðum: „ 2. gr. Eftirtaldir lánssamningar eru undanþegnir lögum þessum:………..d. Leigusamningar, nema eignarleigusamningar, ………”En áfram með samningsskilmála bílasamnings SP.
2. gr tekur á leigugjaldi, greiðslum , sköttum, gjöldum, o.fl.
Þar er fyrst rætt um leigugjald í íslenskum krónum, svo leigugjald sem er verðtryggt og svo að lokum leigugjald sem er gengistryggt, sem er náttúrulega ekkert annað en leigugjald í íslenskum krónum. Það er aldrei talað um leigugjald í erlendri mynt í 2.gr. En þar segir m.a. að sé leigugjald í lið III gengistryggt að hluta eða öllu leyti er miðað við breytingar á gengi þeirra erlendu gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni á samningstímanum. „Jafnframt taka leigugreiðslurnar breytingum erlendu gjaldmiðlana á millibankamarkaði í London (LIBOR). Leigufjárhæðin er hins vegar alltaf innheimt í íslenskum krónum. Við útreikning leigu skal miðað við sölugengi Seðlabanka Íslands á viðkomandi gjaldmiðli/eða gjaldmiðlum eins og það er á hverjum tíma.“ Þessi samningsskilmáli er gjörsamlega ólöglegur, og í raun dauður og ómerkur að mínu mati, þar sem starfsleyfi SP tekur ekki til viðskipta með erlendan gjaldeyri eða gengisbundin bréf fyrir eigin reikning eða viðskiptamenn. Hvernig á fyrirtækið að borga „erlend“ lán, fyrir sig eða viðskiptamenn, ef það ekki má eiga viðskipti með gjaldeyri? Hvorki kaupa eða selja gjaldeyri, það væru jú viðskipti. Og þar að auki lán sem eru tekin hjá Landsbanka Íslands en finnast ekki í bókum hans! Ekki verður annað séð en að öll viðskipti sem SP stendur að, verði þar af leiðandi að vera í íslenskum krónum.3.gr. fjallar um vanskil. SP auglýsir ekki á vefsíðu sinni hverjir dráttarvextir eru hverju sinni né vísar á þá heimild sem þessar upplýsingar er að finna. En skv. tilkynningu Seðlabankans frá 26. maí 2006, eru dráttarvextir mismunandi hvort um er að ræða peningakröfu í erlendri mynt eða íslenskum krónum. 1. júní 2006 lauk skyldu Seðlabankans um tilkynningu dráttarvaxta peningakrafna í erlendri mynt en árréttar í tilkynningu 26. júní 2006, að dráttarvextir fyrir slíkar peningakröfur, séu þær enn í gildi, skuli eftirleiðis vera jafnháir dráttarvöxtum sem síðast voru auglýstir, en það var síðast gert 26. maí 2006 fyrir peningakröfur í erlendri mynt. SP reiknar dráttarvexti miðað við að samningurinn minn sé í íslenskum krónum. Ég ræddi ítarlega um innheimtu dráttarvaxta hér og ætla láta það nægja að sinni. Að síðustu segir í 3.grein að SP megi halda gengistryggingu á gjaldfallinni upphæð. Eins og ég hef áður sagt er gengistrygging ólögmæt.
4.gr. er stutt og í raun óþarft að minnast á að öðu leiti en því að hún fjallar afhendingu bifreiðar við upphaf samnings, sem og ábyrgð leigutaka vegna skemmda o.þ.h. eftir afhendingu.
5.gr. er að sama skapi stutt og bannar að flytja megi bifreiðina úr landi, sem er ekkert óeðlilegt, SP er jú eigandinn og á hagsmuna að gæta.
6.gr. fjallar um skoðunarskyldu og er skoðunarskyldu velt á leigutaka. Svolítið sérstakt að fara ekki fram á ítarlega ástandsskoðun á viðurkenndu verkstæði af til þess hæfum mönnum áður en af kaupum verður og treysta á hæfni leigutaka til matsins. Þarna eru miklir hagsmunir í húfi og SP ætti að setja ástandsskoðun viðurkennds aðila, sem skilyrði báðum aðilum til góða, ef þeir stunduðu góða viðskiptahætti.
7.gr. tekur til vanefnda seljanda við kaupin. Þetta er ekki SP því það kallast leigusali, en eru í raun að selja mér bílinn með afborgunum engu að síður. En hér er átt við fyrri eiganda eða söluaðila, umboð eða því um líkt.
Látum þetta duga í bili en næst skoðum við 8. gr. sem hefur að geyma stjórnarskrárbrot.
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#14. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 9. hluti.
20.4.2010 | 21:27
Byrjum nú að fara yfir almenna samningsskilmála bílasamnings SP-Fjármögnunar hf. Því miður er það svo að við lestur og greiningu þeirra vakna ansi margar spurningar um tilgang þeirra og réttmæti.
Almennir samningsskilmálar eru taldir upp á bakhlið samningsins í 19 greinum og hefjast á þessum orðum: „Aðilar samnings þessa, sem er í eðli sínu kaupleigusamningur, eru leigutaki og SP-Fjármögnun hf. sem leigusali......." Hér skal haft í huga að í samningnum er samið um kaupverð í lok samnings. Þannig, að þrátt fyrir að talað sé um leigumun í samningi, gengur samningurinn út á kaup á bifreið með eignarréttarákvæði leigusala, þar til upphaflegt kaupverð ásamt vöxtum, hefur verið greitt honum með afborgunum á samningstíma. Afborganirnar nefnast leiga í samningi og eiga fela í sér allan kostnað leigusala á samningstíma og skulu kynntar leigutaka við samningsgerð. Hér er því í reynd um afborgunarkaup að ræða.
1. gr. samningsskilmálanna kveður á um eignarétt, upphaf og lok samnings. Þar segir að eignaréttur haldist hjá SP á gildistíma samnings og samningurinn sé óuppsegjanlegur af hálfu leigutaka.
F-liður 4.gr. laga um neytendalán útskýrir eignaréttarákvæði: „f. Eignarréttarfyrirvari er þegar við kaup á vöru er samið um að lánveitandi sé eigandi söluvöru þar til andvirði hennar er að fullu greitt samkvæmt lánssamningi og að lánveitandi geti tekið vöruna til sín ef neytandi stendur ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum." SP hefur þar með öll spil á hendi um ráðstöfun leigumunar og er ekki ástæða til að efa þann rétt í ljósi aðstæðna, þeir eru jú lánveitandi fyrir leigumun. Hins vegar er erfitt að sjá að fyrirtækið þurfi að vernda hagsmuni sína frekar en með nefndu eignaréttarákvæði. Frekari féinnheimta vegna uppgjörs samnings, væri neytendum til tjóns og freklega í óhag, því lögin segja að komi til endurheimt leigumunar skuli uppgjör leiða til þess að aðilar standi eftir, sem næst því að enginn samningur hafi verið til staðar. Sjónarmið SP virðist vera, að það sé sanngjarnt og réttmætt að neytendur eigi að standa eftir með skuld vegna leigumunar, sem jafnvel er hærri en virði hans, hvort sem um mat SP eða markaðsverð er að ræða, en í leiðinni án hans. Í tilskipun Evrópuráðsins nr. 93/13/EBE, kynnt í Stjórnartíðindum þ. 21. apríl 1993, er viðauki með óréttmætum samningsskilmálum. Listinn er leiðbeinandi og alls ekki tæmandi, en þar segir í „e) að [samningsskilmáli sé óréttmætur ef lánveitandi megi] krefjast ótilhlýðilega hárra bóta af neytanda sem stendur ekki við skuldbindingar sínar." Sem sagt gjaldfella samning, hirða leigumun, draga frá óeðlilega háan viðgerðarkostnað og rukka samninginn að fullu með dráttarvöxtum og uppgreiðslugjaldi???? Óréttmætt? Erum við eitthvað að grínast? Ég mundi segja svo væri.
Þar segir einnig í l-lið „l) að gera ráð fyrir að vöruverð sé ákveðið við afhendingu eða heimila seljanda vöru eða veitanda þjónustu að hækka verðið án þess, í báðum tilvikum, að veita neytandanum tilsvarandi rétt til að ógilda samning ef endanlegt verð er of hátt samanborið við umsamið verð við gerð samnings." Munið að samkvæmt 1.gr. er samningurinn óuppsegjanlegur af hálfu leigutaka. Hækka leiguverð með gengistryggingu???? Óréttmætt?!! Og að síðustu í o-lið „o) að skylda neytanda til að standa við skuldbindingar sínar enda þótt seljandi eða veitandi standi ekki við sínar." SP tekur bílinn vegna meintra vanskila, en neytandi á að borga að fullu, jafnvel meira en virði bílsins, en fær ekki kost á að kaupa bílinn með öðrum hætti á matsverði SP???? Óréttmætt? Standa aðilar eftir við riftun, sem næst því að viðskiptin hafi ekki átt sér stað? Dæmi hver fyrir sig.
Því miður eru dæmi um, að við mat á bifreiðum vegna uppgjörs samnings, hafi SP metið virði bifreiðar óeðlilega lágt og viðgerðarkostnað úr hófi fram. Dæmi eru um að bifreið hafi verið endurseld á hærra verði en matsverð SP var, án þess að fékrafa á fyrri umráðaaðila hafi verið lækkuð, jafnvel án þess SP léti gera við bifreiðina fyrir sölu, eins og metið hafði verið við uppgjör að þörf væri á.
Og við erum rétt að byrja. Meira síðar.
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
#13. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar – 8. hluti.
19.4.2010 | 19:02
Síðasta færsla fjallaði um vafa á túlkun samnings. Skoðum nú aðeins innheimtu dráttarvaxta á gengistryggðum bílasamningi SP.
SP heldur því fram við mig (og aðra viðskiptavini sína): „Samningur [nr. samnings] er í erlendri mynt og verður innheimtur sem slíkur......." Þó hefur sami aðili og sagði þetta, ekki enn getað bent á þá grein samningsins þar sem segir svo, á skýru og skiljanlegu máli eins og samningalög kveða á um að eigi að gera við gerð samnings. Ok, en standast þessi rök SP ef skoðaðir eru dráttarvextir þeir sem innheimtir eru á gengistryggðum samningum þeirra?
Ég sendi forstöðumanni innheimtusviðs SP eftirfarandi fyrirspurn 12. mars, um hversu háir dráttarvextir eru innheimtir af gengistryggðum samningi, sem þeir kalla samning í erlendri mynt: „Eru dráttarvextir á bílasamningi mínum í dag sem sagt 16,5%?" Svar forstöðumannsins var eftirfarandi: „Já, dráttarvextir í dag eru 16,5%."
Skv. töflu yfir dráttarvexti frá Seðlabanka Íslands kemur fram að frá og með 1. júlí 2006 hætti Seðlabankinn að birta dráttarvexti af lánssamningum í erlendri mynt, gerðum fyrir gildistöku laga nr. 38/2001. Eftir það gilda vextir sem birtir voru 26. maí 2006.
Í tilkynningu Seðlabankans frá 31.maí 2006 um dráttarvexti og vexti af peningakröfum er í III-lið gefnir upp dráttarvextir af peningakröfum í JPY og CHF, 5%. Í tilkynningunni er undirmálsgrein nr. 6 þar sem ákvörðun dráttarvaxta af peningakröfum í erlendri mynt eru útskýrð. Þar segir: "Í bráðabirgðaákvæði III í lögum nr. 38/2001 segir: „Nú segir í lánssamningi í erlendum gjaldmiðli, gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að við vanskil reiknist hæstu lögleyfðu dráttarvextir eins og þeir eru á hverjum tíma, dráttarvextir samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands eða dráttarvextir samkvæmt vaxtalögum, eða vísað er með öðrum hætti til dráttarvaxta sem Seðlabankinn ákvað skv. 11. gr. laga nr. 25/1987, og skulu þá dráttarvextir þessir vera ákvarðaðir með sama hætti næstu fimm árin eftir gildistöku laga þessara, en að þeim tíma loknum skulu þeir vera jafnháir þeim dráttarvöxtum í hlutaðeigandi gjaldmiðli sem síðast voru auglýstir af Seðlabankanum í Lögbirtingablaði fimm árum eftir gildistöku laganna". Dráttarvextir fyrir lánssamning í erlendri mynt voru síðast birtir 26. maí 2006, eins og áður sagði. Hvaða dráttarvextir eiga þá að gilda um samninga í „erlendri mynt," (eins og SP heldur fram að minn samningur sé) og gerðir eru eftir gildistöku laga nr. 38/2001? Er ástæða þess að slíkir dráttarvextir eru ekki lengur birtir, að Seðlabankinn gerði ekki ráð fyrir að hægt væri að gera slíka samninga eftir gildistöku laganna og þar með sé enginn þörf á að birta dráttarvexti fyrir slíka samninga? Hér er tilkynning frá Seðlabankanum um vexti og dráttarvexti frá 23. mars 2010. Þar er ekkert rætt um peningakröfur í erlendri mynt, bara í krónum.
Eins og ég minntist á fyrr þá staðfesti fulltrúi SP, (reyndar 2 fulltrúar), í tölvupósti þ. 12. mars [......] að dráttarvextir af lánssamningi mínum séu reiknaðir 16,5%. Þetta sannar að SP lítur á bílasamninginn sem peningakröfu í íslenskum krónum ef dráttur er á greiðslu, en peningakröfu í erlendri mynt þegar greiðsluseðlar eru myndaðir. Ef SP ætlaði að vera samkvæmt sjálfu sér myndu dráttarvextir fyrir peningakröfu í erlendri mynt, væntanlega eiga vera 5%, eins og síðast var kynnt af Seðlabanka Íslands þ. 26. maí 2006, eða hvað?.
Forstöðumaður innheimtusviðs SP sagði eitt sinn við mig á skrifstofu sinni eitthvað á þá leið: „Sko, þú getur ekki bara tekið allt það besta sem þér finnst og sett það fram sem þín rök!" Halló! Erum við ekki á sömu pláhnetu hér? Hvað er SP að gera annað en nákvæmlega það sem forstöðumaðurinn sagði að ég mætti ekki gera? Hvenær ætlar FME og Neytendastofa að grípa í taumana???? Hvað þarf eiginlega til?
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
#12. Hugleiðingar um lánastarfsemi SP-Fjármögnunar - 7. hluti.
18.4.2010 | 11:40
Nú er nokkuð liðið frá því ég bloggaði síðast um lánastarfsemi SP Fjármögnunar . Þá velti ég upp hugleiðingum um viðurlög við brotum á starfsleyfum, útgefnum samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
Víkjum aðeins að vafanum. Í 36. gr. samningalaganna segir í b-lið m.a.: „Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag." Minn samningur segir á einum stað: „Samningur er 100% gengistryggður." Jú, þetta er nú þokkalega skiljanlegt. (En löglegt, það er annað mál. En sleppum þeirri umræðu núna.) Nema forstöðumaður inheimtusviðs SP segir í tölvupósti: „Samningur [nr. samnings] er í erlendri mynt og verður innheimtur sem slíkur......." Sami aðili hefur ekki enn getað bent á þá grein samningsins þar sem þetta sjónarmið fyrirtækisins er stutt, þrátt fyrir óskir mínar þar að lútandi.
Ég hef áður nefnt 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sem segir að þau „skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði." Ábyrgð á að svo sé frá degi til dags, er væntanlega á herðum framkvæmdastjóra, þó ábyrgð stjórnar hljóti að koma þar að ætli hún eða hafi vitneskju um hið gagstæða.
Ég hef sent SP 3 skrifleg erindi í vetur, þar sem ég efast m.a. um lögmæti þessara samninga og fer fram á endurgreiðslu ofgreiddra greiðslna. Í símtölum við lögfræðing SP hef ég bent á að fyrirtækið skorti, að mínu mati, heimildir til viðskipta með erlendan gjaldeyri og gengisbundin bréf, eins og ég hef áður rakið hér á blogginu. Svör fyrirtækisins eru einföld eins og hér er sýnt úr tölvupósti frá lögfræðingi þess þ. 31. mars sl. (ég hef ákveðið að nafngreina ekki umrædda einstaklinga að sinni): „Eins og fram hefur komið í samtölum okkar tölupóst‐ og símleiðis, þ.e. bæði við mig og [........], þá er öllum kröfum og yfirlýsingum þínum hafnað hvað varðar ólögmæti leigusamnings okkar í millum. Við lítum svo á að samningar okkar séu löglegir og innheimtum því fjárkröfur okkar samkvæmt þeim með tilliti til aðstæðna í því formi sem greiðsluúrræði okkar kveða á um."
Ég hef þó fengið tvo tölvupósta þar sem annars vegar framkvæmdastjóri SP og hins vegar lögfræðingur SP, vísa til réttaróvissu um gengistryggða bílasamninga. Lögfræðingurinn segir í sama tölvupósti þ. 31. mars: „Erindi þín hafa verið fremur ítarleg og ljóst að talsverð vinna hefur farið í þau skrif en afstaða okkar stendur óbreytt engu að síður á meðan óvissa ríkir um stöðu vegna skulda einstaklinga og fyrirtækja [innsk: hann á væntanlega við skuldir þessara aðila við SP í formi bílalána og bílasamninga] ."
Áður hafði eftirfarandi borist frá framkvæmdastjóra SP 30. mars sl. í kjölfar tölvupósts sem ég sendi honum:
„Sæll Erlingur.
Skv. upplýsingum frá [.......] tjáði hann þér að SP mun ekki taka efnislega til varna vegna ágreinings um leigusamninga sem upp geta komið á milli viðskiptavina og SP í formi tölvupósts. [innsk: 3 bréf voru send, nokkur símtöl hringd og svo síðar sendir tölvupóstar til að ýta á eftir svari frá fyrirtækinu. Það tók tæpa 4 mánuði að fá svar frá þeim.] Réttaróvissa ríkir um málið og dómstólar og/eða stjórnvöld munu greiða úr um þann ágreining sem upp er kominn.
Afstaða SP er skýr og hefur marg oft komið fram samskiptum sem þú hefur átt við bæði [........] og [........] á síðustu mánuðum.
SP er að bjóða sínum viðskiptavinum úrræði til þess að halda greiðslubyrði í nálægð við það sem áður var á meðan þessi óvissa ríkir.
Að öðru leyti mun ég ekki tjá mig frekar um þetta mál á þessum vettvangi.
Bestu kveðjur
Kjartan"
Takið eftir þessu orðalagi: „....SP mun ekki taka efnislega til varna vegna ágreinings um leigusamninga sem upp geta komið á milli viðskiptavina og SP...." Með öðrum orðum þeir neita að svara efnislega, bréfum og rökstuðningi, sem til þeirra er beitt. Ég tjáði lögfræðingnum í símtali þegar hann kynnti mér afstöðu SP, að ég myndi líklega skjóta máli mínu til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Hans viðbrögð voru þau, að félli úrskurður nefndarinnar SP í óhag myndu þeir skjóta honum til dómstóla til staðfestingar. Með öðrum orðum, SP mun ekki fara eftir slíkum úrskurði heldur óska eftir meðferð dómstóla á málinu með tilheyrandi óþægindum fyrir neytendur. Það skal þó haft í huga að það er réttur hvors málsaðila um sig að óska eftir úrskurði dómstóla skv. samþykktum nefndarinnar.
En eru þetta eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir skv. fyrrnefndri 19. gr.? Ég geri ráð fyrir að teknu tilliti til viðskiptahátta SP undafarin misseri að innheimtuaðgerðir myndu fara fram samhliða meðferð dómstóla á slíkum úrskurði.
„Réttaróvissa ríkir um málið" segir framkvæmdastjórinn réttilega. Ég fann ekki orðið „réttaróvissa" á vefbókasafni snara.is, en fletti upp orðinu „óvissa" í staðinn og fékk eftirfarandi skýringu:
„ó|vissa KVK
1 það að vita ekki fyrir víst, vafi, tvísýna, mikil óvissa er ríkjandi ekki er vitað hvað verður, hvernig málum lyktar
2 fornt/úrelt óviss eða tvíræð framkoma, fjandskapur, mein"
Þar er það bara svart á hvítu. Óvissa er vafi og vafa á að túlka neytanda í hag skv. samningalögum. Það væru eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur á fjármálamarkaði. En ætlar SP að virða óvissuna? Ónei. Þar á bæ er innheimtuaðgerðum haldið áfram af fullum krafti og bifreiðar hirtar af fólki um allan bæ.
Það skal áréttað að allar leturbreytingar og undirstrikanir eru mínar.
Hugleiðingar um SP- Fjármögnun | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)